Að flytja landslag

Viðar Þorsteinsson Pistill

Árið 2010 flutti ég til Ohio í Bandaríkjunum, hjarta Miðvesturríkjanna. Á svæðinu – sem telur fylki á borð við Iowa, Indiana, Michigan og Illinois – var um langt skeið mikill efnahagslegur vöxtur. Það var stórtækur landbúnaður í dreifbýli og gríðarleg þensla í borgum og bæjum eftir því sem bíla-, hergagna- og annar framleiðsluiðnaður innsiglaði stöðu Bandaríkjanna sem efnahagslegt og hernaðarlegt stórveldi á áratugunum eftir aðra heimsstyrjöldina.

En eitt einkenni Miðvesturríkjanna nú um stundir er gríðarleg efnhagshnignun sem hófst með olíukreppunni 1973. Kapítalísk hnattvæðing, niðurskurður velferðar og veiking verkalýðsfélaga komst í algeyming um leið og nýfrjálshyggjan drottnaði sem hugmyndafræði. Allir sem búa utan við víggirt úhverfi yfirstéttarinnar sjá hvernig síðustu áratugir hafa leikið Miðvesturríkin – breytt þeim úr stað velmegunar og uppgangs í grafreit yfirgefinna og rotnandi verksmiðja (sem skýrir heitið „ryðbeltið“ sem oft er notað um Miðvestrið). Smærri bæjum sem eitt sinn framleiddu hjólbarða, kol eða heimilistæki væri best lýst sem draugabæjum ef ekki væri fyrir þá nöturlegu staðreynd að fólkið sem þar bý er enn á lífi. Deyfilyfjafíkn, smáglæpir, vændi eða að ganga í herinn eru möguleikarnir sem ungu fólk býðst, takist því ekki að lifa af hlutastörfum við afgreiðslu í Walmart eða á skyndibitastað. Miðbæir stórborganna eru sömuleiðis þjakaðir af fátækt, skólar búa við fjársvelti og íbúarnir þurfa að þola fordóma og lögregluofbeldi.

Bernie Sanders sýndi svo ekki verður um villst að hljómgrunnur er fyrir stefnumálum sósíalismans, jafnvel í landi eins og Bandaríkjunum þar sem íhaldssemi hefur lengi ráðið ríkjum.

Þjóðremba og falskur fjölbreytileiki

Þegar ég kom til Columbus, fylkishöfuðborgarinnar í Ohio, árið 2010 hafði ég engan sérstakan áhuga á bandarískum stjórnmálum. Forsetakosningarnar 2012 breyttu engu þar um, þrátt fyrir tíðar heimsóknir Baracks Obama og Mitt Romney til borgarinnar og jafnvel háskólans þar sem ég var í námi. En þessar tíðu heimsóknir frambjóðenda gerðu mér að vísu ljóst að Miðvestrið, glamúrlaust sem það er, skiptir máli. Ohio er „swing state“, eitt þeirra fylkja sem hvorki demókratar né repúblikanar geta treyst á að vinna, og þar sem kosningaúrslit eru oft talin gefa fyrirheit um niðurstöður á landsvísu. Og það búa einfaldlega nógu margir í Miðvestrinu til að það vegi þungt, jafnvel þótt elítur strandborganna í austri og vestri uppnefni það „flyover states“. Enginn forsetaframbjóðandi í Bandaríkjunum nær árangri nema að höfða til almennings í Miðvesturríkjunum. Áhyggjur hinnar bandaríska meðalmanneskju og kapphlaupið um hylli hennar endurspeglast hvergi betur en hér.

Í fyrstu var upplifun mín af Bandarískum stjórnmálum einfaldlega sú að flokkarnir kepptu hvor við annan um hvor geti boðið betur í hvers kyns afvegaleiðingu, falslausnum og plástrum. Frá hægrinu barst kristin bókstafstrú, þjóðremba og innflytjendahatur á meðan hið útvatnaða vinstri hvíslaði innantóm hvatningarorð um nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi eða hafði uppi yfirborðslegt tal um fjölbreytileika. Þótt þessar atkvæðaveiðar hafi jafnan skilað um helmingi fólks af kjörskrá í kjörklefann þá hafa flokkarnir áratugum saman látið sér í léttu rúmi liggja að einstæð móðir í Youngstown í Ohio getur ekki framfleytt sér, er dæmd til að lifa í helvíti fátæktar, og að hennar hlutskipti er hlutskipti milljóna. Tungutak stjórnmálanna fól ekki í sér minnstu tilraun til að viðurkenna algjört hrun velferðar og lífsgæða í Miðvesturríkjunum og víðar um landið, hvað þá raunhæfar tillögur um umbætur.

Clinton afhjúpuð

En í aðdraganda kosninganna 2016 breyttist eitthvað. Eittvað stórt. Í forkosningum Demókrata kom skyndilega fram rödd sem talaði tæpitungulaust um raunveruleg vandamál raunverulegs fólks. Maður sem talaði um fátækt, um skuldavanda heimila, um láglaunastörfin, um öryggisleysið á vinnumarkaði, um hina rándýru háskólamenntun, um hvað það þýðir að hafa ekki aðgang að sjúkratryggingu, um peningavaldið og spillinguna sem er að drepa lýðræðið, um stórfyrirtækin sem koma sér hjá skattgreiðslum en moka þess í stað peningum í vasa stjórnmálamanna.

Bernie Sanders var stiginn fram. Þvert á allar fyrirætlanir Demókrataflokksins, sem hafði séð fyrir sér valið á Hillary Clinton sem frambjóðanda flokksins sem langa krýningarathöfn, veitti Sanders henni stöðuga og grimmilega samkeppni og sópaði til sín meirihluta atkvæði í fjölda fylkja. Skyndilega var komið líf í bandarísk stjórnmál vinstra megin við miðju og ekki aðeins það: miðjan færðist til. Hillary Clinton, sem hóf kosningabaráttu sína með alþýðlegum fagurgala, stóð afhjúpuð sem mútuþegi fjármálastofnana, fyrrum stjórnarmaður í WalMart, stuðningskona velferðarniðurskurðar Bills Clinton um miðjan tíunda áratuginn. Skyndilega var togað fast frá vinstri. Hillary og lið hennar þurfti felmtri slegið að endurmeta allar sínar áætlanir um ferðalag hennar að hásæti bandarískra stjórnmála.

Hvarvetna um Bandaríkin var fullt út úr dyrum á kosningafundum Bernie Sanders. Kosningabarátta hans sýndi hvernig er hægt að breyta landslagi stjórnmálanna og að landrek til hægri er ekki lögmál.

Landrek til hægri er ekki lögmál

Barátta Bernie Sanders fór sem fór, eins og allir vita, en reynslan af því að fylgjast með ótrúlegum árangri hans og þeim fjölda fólks sem fann sig í boðskap hans sat í mér. Ekki að tillögur Sanders væru sérlega róttækar á íslenskan eða norrænan mælikvarða; hér á landi búum við auðvitað þegar við margt af því sem hann barðist fyrir í kosningabaráttu sinni. Þrátt fyrir þetta, og þrátt fyrir að Bernie Sanders hafi á endanum beðið lægri hlut, þá kenndi framboð hans mér mikilvæga lexíu: landslagið getur breyst og það er meira að segja hægt að flytja það. Til vinstri. Hið stöðuga landrek stjórnmálanna til hægri, þar sem gamlir sósíalista- og krataflokkar hafa tekið markaðstrú og gamlir borgaralegir hægriflokkar maka sér upp úr holræsum þjóðernispopúlismans, er ekki náttúrulögmál.

Fólk sem áður áður hafði engan áhuga á stjórnmálum og þaðan af síður vinstristjórnmálum vaknaði upp við ákall Sanders um að breytta forgangsröðun. Og mótstaðan var merkilega lítil. Í landi þar sem fólk var fangelsað og ofsótt fyrir að kalla sig sósíalista fyrir aðeins einni kynslóð síðan virtist skyndilega ekki óhugsandi að yfirlýstur sósíalisti yrði forseti landsins. „He’s the only thing that can save us,“ sagði læknaneminn frá sveitabæ í Idaho, nágranni minn, þögull og alvörugefinn mormóni, um Bernie Sanders þegar hann tygjaði sig á kjörstað.

Ég veit ekki hvort þessi nágranni minn hafði kosið í forsetakosningum áður, en hann trúði mér að minnsta kosti fyrir því að hann hafði aldrei áður kosið demókrata. Með því að vera óhrædd, trú sannfæringu okkar og tala fyrir málum sem raunverulega brenna á almenningi getum við unnið hug og hjörtu fólks sem áður hefur gefið stjórnmála upp á bátinn. Við getum búið til nýja og sterkari hreyfingu, sem getur hrundið í framkvæmd breytingunum sem við þurfum. Breytingu í átt að sósíalisma. Sanders sigraði ekki í kosningunum, en hann vann mikilvægan áfangasigur í baráttu sem er rétt að hefjast: að opna fyrir umræðu um sósíalisma, að greiða hinum hálfdauða uppvakningi nýfrjálshyggjunnar náðarhöggið og að byggja upp nýja hreyfingu verkafólks og almennings gegn auðvaldi.

Viðar Þorsteinsson

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram