Illt að gera
Pistill
20.07.2017
Við verðum að vinna að því að…
Við þurfum að leggja hart að okkur að…
Við eigum að gera eitthvað í…
Flestir bregðast vel við setningum sem byrja svona. Þær vísa allar til þess að taka til hendi. Eitt fyrsta hrós sem krakkar fá að heyra er upphrópunin „duglegur“ eða „dugleg.“ Vinnusiðferði en samofið sjálfsmynd okkar, hvort sem við lítum á okkur sem dugnaðarforka eða letingja. Kannski ekki að undra þótt bændasamfélag við útjaðar hins byggilega heims taki þessi gildi og smíði sér gullkálf úr þeim. En við eigum það til að fara með þetta út í vitleysu.
Orðatiltækið „betra er illt að gera en ekki neitt“ segir sína sögu. Það hljómar kannski eins og brandari en ég rak andlitið harkalega upp við þennan þankagang haustið 2001. Eftir árásirnar á New York og Washington var gagnrýni á hernað Bandaríkjanna af skornum skammti. Þótti jafnvel ósmekkleg. Ég hellti úr skálum hneykslunar minnar, tefldi fram alls konar rökum gegn innrásinni í Afganistan og bjó mig undir að takast á við mótrökin. Þau voru engin. Bara einhver útgáfa af „ja, eitthvað þurfti að gera.”
Af því að betra er illt að gera en ekki neitt.
Svar mitt er: Nei! Ég tek það fram að ég mæltist ekki til þess að ekkert yrði gert. En það er ekki betra að drepa fólk en að gera ekki neitt. Vilji Bandaríkjastjórn koma í veg fyrir hryðjuverk ætti hún kannski að byrja á því að hætta að fjármagna þau. Við eigum aldrei að láta stilla okkur svona upp við vegg: „Komdu með betri hugmynd eða við framkvæmum mína skítahugmynd!“ Dugnaður í þágu eyðileggingar, misskiptingar og óréttlætis er alltaf ljósárum verri en aðgerðalamandi leti. Ekki bara í samhengi stríðs.
Mundu þetta næst þegar einhver aðili vill fá að virkja einhvern foss á landsbyggðinni og fær yfir sig holskeflu mótmæla frá umhverfisverndarsinnum og svarar: „hvernig eigum við þá að bjarga bæjarfélaginu?“ Þú mátt standa vörð um náttúruna þótt þú sért ekki með sambærilega tekjulind á reiðum höndum. Þú mátt krefjast þess að kapítalismanum sé bylt þrátt fyrir að hafa ekki í höfðinu ítarlega teikningu af þeirri samfélagsgerð sem tæki við af honum. Slíkar teikningar eru aldrei til fyrirfram. Sköpun samfélags er sameiginlegt verk íbúa þess.
Eignastéttin hefur ekki sömu hagsmuna að gæta og við hin. Það að hún skuli krefjast „betri lausna“ á þeim vandamálum sem hún sjálf hefur valdið áður en hægt sé að ræða það að hún hægi á framkvæmdum sínum er út í hött. Það væri eins og manneskja krefðist þess að fá að henda úlpunni þinni í arininn sinn nema þú skaffaðir henni betri eldivið.
Hættum að lúffa fyrir þeim sem þykjast allt vita en beita kröftum sínum í þágu auðvaldsins. Allt tal um það hvernig afla beri tekna þeirra sem vantar í ríkiskassann má eiga sér stað þegar við erum hætt að tipla á tánum í kringum stóreignamenn. Þegar sægreifar eru farnir að greiða mikið hærri veiðigjöld og skattar á arðbær fyrirtæki eru orðin eitthvað í líkingu við önnur Norðurlönd. Sköpunargáfa íslenskrar þjóðar leysist fyrst almennilega úr læðingi þegar launafólk er hætt að þurfa að hafa stöðugar áhyggjur af húsaskjóli og nauðþurftum. Auðæfi eru nefnilega ekki sköpuð af fjárfestum heldur af almenningi. Ísland er ekki fátækt. Þess vegna er fáránlegt að til séu fátækir Íslendingar.
Símon Vestarr