Fjölmiðlamaðurinn

Katrín Baldursdóttir Pistill

Þetta er fjölmiðlamaðurinn eins og hann er sýndur í Tate Modern safninu í London. Í dag starfar hann eða hún oftast fyrir auðmenn sem vilja að Fjölmiðlamaðurinn miðli boðskap sem þeim er þóknanlegur. Auðmenn vilja ekki að Fjölmiðlamaðurinn miðli einhverju sem ógnar veldi þeirra og stöðu, stuggi of mikið við þjóðskipulaginu sem er hannað þeim í hag. Fjársterkir aðilar kaupa fjölmiðla til þess að fá að vera í friði með sinn rekstur og aðferðir til auðsöfnunar. Auðvitað eru til fjölmiðlamenn sem klóra í bakkann og reyna að vera sjálfstæðir en það er mjög erfitt og oftar en ekki er fjárhagsstaðan þröng og gjaldþrot tíð.

Fjölmiðlamaður nútímans sem vill sinna því hlutverki fjölmiðla að vera fjórða valdið er því í afar þröngri stöðu og vanmáttugur.

Það koma þó upp einstök mál sem hrista upp í kerfinu eins og Panamaskjölin. Þau stinga á kýli spillingar og siðblindu um tíma, en breyta engu þegar til lengri tíma er litið. Kerfið breytist ekki. Og auðmennirnir sem eiga fjölmiðlana hafa í raun allt í hendi sér og margir verða ríkari og ríkari.

Veður Fjölmiðlamaðurinn líka ríkur?

Nei er svarið. Vissulega eru til fjölmiðlamenn úti í heimi sem fá ofurlaun en almenna reglan er sú að Fjölmiðlamaðurinn er á frekar lélegum launum hjá auðmönnunum sérstaklega ef hann er kona.

En eru starfsaðstæður Fjölmiðlamannsins betri en áður? Svarið er nei! Sjaldan hefur verið þrengt eins að Fjölmiðlamanninum eins og nú. Hann er sífellt krafinn um meiri afköst á skemmri tíma. Allur hans metnaður um gæði og fagleg vinnubrögð geta þannig ekki verið í fyrsta sæti. Krafan um arðsemi er alltaf númer eitt. Hins vegar er það afar merkilegt að auðmennirnir virðast græða lítið á fjölmiðlum sínum. Þeir vilja samt eiga fjölmiðlafyrirtæki þó arðurinn sé ekki mikill og oft tap á rekstri. Þetta sýnir vel hversu mikla þýðingu það hefur fyrir auðmenn að eiga fjölmiðla til þess að hafa skoðanamótandi áhrif á almenning og viðhalda leikreglunum sem gera þeim kleift að græða í friði.

Hætta á brottrekstri

Það er þrengt að Fjölmiðlamanninum á öllum sviðum. Það er ekki nóg með að launin séu almennt frekar lág og sívaxandi krafa um afköst heldur er hann líka í mikilli hættu á að vera rekinn úr starfi. Á Íslandi eru menn reglulega reknir og oft í kippum frá einkareknu fjölmiðlunum. Og það skal tekið fram að þetta á líka við um RÚV. Skemmst er að minnast þegar Páll Magnússon fyrrverandi útvarpsstjóri hreinsaði út af Rás 1 fyrir nokkrum árum á svívirðilegan hátt. Þar var mönnum bókstaflega hent út og sumt starfsfólkið með áratuga reynslu.

Fjölmiðlamaðurinn býr því í ofanálag við ótta og kúgun um að verða rekinn ef hann er með eitthvað múður sem hentar ekki stjórnendum eða eigendum. Þá bætist enn ofan á óöryggið þegar fjölmiðlar verða gjaldþrota sem er algengt. Þetta á oftar en ekki við um fjölmiðla sem eru að reyna vera sjálfstæðir, vilja sinna rannsóknarblaðamennsku og vera fulltrúar fjórða valdsins. En nei, það er veruleg hætta á að Fjölmiðlamaðurinn missi vinnuna þarna og þurfi því að leita á náðir fjölmiðla í eigu auðmanna til að fá vinnu, það er að segja ef hann vill halda áfram að starfa við fjölmiðlun.

Fjölmiðlamaðurinn á fáa valkosti

En af hverju hættir Fjölmiðlamaðurinn ekki að starfa í faginu og snýr sér að öðru? Þetta er ekki svona einfalt. Algengt er að menn hafi ástríðu fyrir starfinu, hafi valið sér þennan starfsvettvang sem framtíðarstarfsgrein. Kannski hafa þeir ekki aðra fagreynslu og því litla möguleika aðra á vinnumarkaði. Svo er til þess að líta að kannski hefur Fjölmiðlamaðurinn bara breyst eða lítur ekki á það sem hlutverk sitt að veita stjórnvöldum aðhald eða tiheyra hinu svokallaða fjórða valdi. Það sé ekki á nokkurn hátt sitt hlutverk að hafa áhrif á leikreglur samfélagsins að öðru leyti en því að miðla upplýsingum. Þetta er auðvita sjónarmið og kannski er Fjölmiðlamaðurinn bara sáttur við þetta hlutskipti eða kannski eina leið hans til að lifa af. Meðan Fjölmiðlamaðurinn er oftast starfsmaður auðmanna hefur hann auk þess fáa aðra valkosti vilji hann gera fjölmiðlun að framtíðarstarfi. Hann verður að spila með á leikvelli auðmanna.

Katrín Baldursdóttir

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram