Hvern sækir gullvagninn?

Símon Vestarr Pistill

Oscar Wilde sagði eitt sinn að heimskort án Útópíu væri ófullkomið af því að mannkynið stefnir alltaf þangað. Við höfum alltaf haft í huga draumaland. Einhverja framtíðarskipan sem gefur okkur meira en hin núverandi. Þar til núna.

Hver sá sem sagði að við ættum auðveldara með að ímynda okkur endalok veraldarinnar en endalok kapítalismans drap fingri niður á rót vandans. Eins og David Graeber, Naomi Klein og Rutger Bregman hafa nýverið bent á í ritum sínum hefur stefna eignastéttarinnar ekki verið að stuðla að því að kapítalisminn sé skilvirkur heldur að leitinni að útópíu verði aflýst. Lengi hafa þau sannindi verið augljós að þjóðfélögum og fyrirtækjum, sem rekin eru með tilliti til þarfar fólks fyrir líf utan vinnu og afkomuöryggi, vegnar betur. En þeir sem ráða ríkjum vita sem er að með eðlilegri framþróun samfélagsins muni forréttindastöður úreldast jafn hratt og tæknin, ef ekki hraðar. Þess vegna standa þeir í vegi fyrir öllum umbótum á kostnað hagkvæmni. Af því að það er mikilvægara að halda almenningi í vonleysi. Þannig glatar fólk ímyndunaraflinu.

Ég vil nefna í þessu samhengi myndskeið í kvikmyndinni War of the Worlds (2005) sem festist allduglega í hausnum á mér og eflaust fleirum. Hin svonefnda bílsena. Marsbúarnir eru búnir að gera velflestar bifreiðar óökuhæfar með einhverri rafsegultækni en jepplingur aðalpersónunnar virkar enn. Hann ekur af stað til að flýja geimskrýmslin og komast með fjölskylduna til Boston. Í þessu myndskeiði keyrir fjölskyldufaðirinn hægt í gegnum mannfjölda sem er hræddur og kaldur og tekur gremju sína út á honum með því að lemja í rúðurnar. Honum er sagt að bíllinn geti borið hátt í tuttugu manns í stað þess að gagnast aðeins þremur en hann þorir ekki að gefa neinum far með sér. Hvar myndi slík undanlátssemi enda?

Brátt fer fólk að krefjast þess að hann nemi staðar og í æsingnum klessir hann á staur. Vegfarendurnir skríða upp á þakið eins og skordýr. Hann grípur til vopna en innan skamms er búið að koma honum og fjölskyldu hans út úr bílnum. Annar maður með byssu hirðir jepplinginn en senunni lýkur á því að enn annar maður hirðir vopn fjölskylduföðurins af götunni og skýtur hinn fyrri og bílnum er ekið á brott, kannski stjórnlaust, úttroðnum af farþegum og með vonleysingja hangandi utan á honum jafnt sem ofan á. Er hægt að ímynda sér öflugri útúrsnúning á klassísku hugmyndinni um gullvagninn sem kemur mannkyninu frá táradalnum til paradísar?

Ástæðan fyrir því að þetta myndskeið hittir mann svona í hjartað er margþætt: Í fyrsta lagi er engin hugsun hræðilegri en að líf barna manns séu í hættu. Ótti foreldra fyrir hönd afkvæma sinna getur slökkt á öllum öðrum hugðarefnum. Í annan stað fær maður sektarkennd yfir því að vera öruggur á meðan aðrir farast. Hvers konar manneskja er ég ef ég flý með mitt fólk og læt alla hina lönd og leið? Best að hugsa sem minnst um það. Troða því í undirmeðvitundina þar sem það verður að martröð. Í þriðja lagi – og þetta er mikilvægast – þá spilar senan á þá hugmynd sem auðræðið hefur selt okkur; nefnilega að í krísu breytist fólk í dýrslegan skríl einstaklinga sem myndu frekar grilla rifjasteik úr nágranna sínum en veita honum húsaskjól.

Eignamenn er hræddir við hefnd þeirra sem þeir hafa arðrænt og verkafólk í vel stæðum ríkjum er hrætt við að þurfa að láta eftir þau lífsgæði sem það hefur þó fram yfir hina; manneskjurnar sem sauma strigaskóna okkar og þraukar við hungurmörk. Þess vegna hugsum við ekki um framtíðina. Og þess vegna lokum við hjörtum okkar fyrir neyð flóttamanna. Ef við ættum að velta framtíðinni fyrir okkur þyrftum við að sleppa dauðahaldi okkar á núverandi forréttindum. Við vitum að líf okkar myndu breytast. Að neysluhyggjan myndi líða undir lok. Við hugsum til þess með hryllingi. Eða… réttara sagt erum við of hrædd til þess að leiða þá pælingu til lykta. Við hugsum í raun ekki. Hugurinn er fastur í reaktífri lífsbaráttuvirkni skriðdýrsheilans.

Þess vegna pumpast út úr okkur framtíðarmyndir eins og The Hunger Games, Mad Max, V for Vendetta og aðrar sem eru of margar til að ég nenni að telja þær upp. Dystópíur þjóna mikilvægu hlutverki en þær eru ekki gerðar til að spá fyrir um framtíðina heldur til að vara okkur við núverandi braut okkar svo að við breytum um stefnu. Hið kaldhæðnislega er að með því að varpa frá okkur allri von um gæfuríka framtíð gerum við sjálf okkur ófær um að koma henni í kring. Með því að ganga út frá því að eyðileggingin sé óhjákvæmileg gerum við hana óhjákvæmilega.

Líttu inn á við, lesandi. Tæmdu hugann af drasli neysluhyggjunnar í ofurlitla stund og sjáðu að innra með þér er guðdómlegt ljós. Um leið og þú helst kyrr nógu lengi til að koma auga á þetta ljós ferðu að sjá það í öðrum. Þegar við gerum þetta áttum við okkur á því að við getum treyst fólki og látið hræðsluna líða úr okkur. Og þá fyrst förum við að geta séð strönd Útópíu við sjónarrönd.

Símon Vestarr

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram