Blessað Hrunið, sem gerði hina fáu enn ríkari?
Pistill
10.08.2017
Hverjir unnu Hrunið? Tökum dæmi af húsnæðismarkaðinum: Um tuttugu þúsund fjölskyldur misstu heimili sitt eftir Hrunið, sumar neyddust til að selja aðrar misstu íbúðirnar á uppboð eða til lánastofnana. Ástæðan var fyrst og fremst verðfall á markaðsverði íbúð á sama tíma og lánin hækkuðu; verðmæti íbúða féll niður fyrir verðmæti lána.
Ef við búum til einfalt mótel af þessu þá áttu þessar fjölskyldur 20 þúsund íbúðir sem kostuðu um 25 milljónir hver fyrir Hrun, fjölskyldurnar átti 5 milljónir króna en skulduðu lánastofnunum um 20 milljónir króna. Þegar virði íbúðanna féll og lánin hækkuðu töpuðu þessar fjölskyldur því sem þær höfðu lagt í íbúðirnar, 5 milljónir hver en 100 milljörðum króna samanlagt. Það var fyrsta tap hinna verr stæðu. Þau töpuðu 100 milljörðum króna af því sem þær höfðu safnað árin og áratugina á undan.
Þessar íbúðir voru keyptar af hinum efnameiri á 20 milljónir króna hver að meðaltali. Síðan hefur markaðsvirði þessara íbúða hækkað svo að íbúð sem kostaði 20 milljónir króna 2010 er í dag metin á 35 milljónir króna. Hinir efnameiri hafa því hagnast um 300 milljarða króna frá Hruni á íbúðunum sem hinir efnaminni misstu. Segja má að hinir efnaminni hafi orðið af 300 milljarða króna eignamyndun vegna þess að þau misstu húsnæði sitt við Hrunið. Það er annað tap hinna efnaminnstu.
Eftir að hafa misst húsnæði sitt hröktust efnaminni fjölskyldurnar á leigumarkað, leigðu húsnæði af hinum efnameiri sem höfðu keypt íbúðir hinna efnaminna á nauðungarsölu eða þvingaðri sölu. Vegna aukinnar eftirspurnar á leigumarkaði og samkeppni við leigu til ferðamanna og innflutts vinnuafls hefur leiguverð hækkað mikið. Meðalleiga á íbúð var um 150 þúsund krónur en er í dag um 225 þúsund krónur. Eftirköst Hrunsins hafa því flutt 18 milljarða króna frá hinum efnaminni til hinna efnameiri á ári frá 2010, bara vegna hækkunar húsaleigu. Samtals eru þetta um 190 milljarða króna. Það er þriðja tap hinna efnameiri.
Samtals er því peningaflutningur kerfisins (endurúthlutun verðmæta, redistribution of wealth, svo notað sé hugtak hægrimanna) frá hinum efnaminni til hinna efnameiri frá Hruni um 490 milljarðar króna til viðbótar við þá 100 milljarða króna sem hinir efnaminni töpuðu af eigin fé sínu þegar þau misstu íbúðirnar. Samtals er tap hinna efnaminni af Hruninu því um 590 milljarðar króna. Og er þá aðeins taldar til þær 20 þúsund veikast stæðu fjölskyldurnar á húsnæðismarkaði. Hinir efnaminni töpuðu á margvíslegan máta annan í Hruninu.
Og hinir efnameiri hafa hagnast á margvíslegan annan máta frá Hruni. Hagnaður þeirra af eignamissi hinna efnaminni á húsnæðismarkaði er um 490 milljarðar króna hið minnsta (stór hluti íbúðanna var leigður út til ferðamanna og skilaði enn hærri tekjum en hér hefur verið reiknað með).
En hvaða skrímsl er þetta, þessi vítisvél sem drífur samfélag okkar áfram til þess eins að flytja fé frá hinum veiku til hinna vellauðugu? Það heitir kapítalismi og hefur hegðað sér svona frá því að honum var sleppt lausum. Vegna eyðileggingarmáttar hafa þjóðir heims reynt að verja almenning fyrir mestum skaðanum, ekki síst á húsnæðismarkaði þar sem það er með öllu óþolandi að venjulegt fólk eigi það undir þessari skepnu hvort það hafi þak yfir höfuðið eða ekki.
Leiðirnar eru margvíslegar. Þjóðir heims hafa byggt upp sérstök húsnæðisúrræði fyrir öryrkja og aldraða lífeyrisþega, láglaunafólk og námsfólk, til að bjarga þessum hópum frá skepnunni. Við Íslendingar gerum sáralítið af þessu, ef eitthvað. Uppbygging húsnæðis fyrir aldraða hefur til dæmis verið fært af félagslegum grunni yfir til verktaka sem hafa byggt upp businessmódel til að hafa ævisparnað af gamla fólkinu, svína á því einu sinni enn áður en það deyr. Á síðari árum hafa verið byggð upp húsleigufélög sem rekin eru í hagnaðarskyni svo eigendur þeirra geti auðgast á húsnæðiseklu láglaunafólks.
Þjóðir heims hafa byggt upp samvinnufélög og sjálfseignarstofnanir sem byggja og leigja íbúðir sem tryggja leigjendum öryggi fyrir verðsveiflum á húsnæðismarkaði. Þessi félög eru ekki rekin í hagnaðarskyni, markmiðið er að tryggja sem flestum ódýrt og öruggt húsnæði en ekki að skila fáeinum eigendum arð, gróða af þörf hinna efnaminni fyrir húsnæði. Svona leigufélög eru ekki til á Íslandi. Einhverjar tilraunir eru í bígerð, en þótt þetta fyrirkomulag sé mikilsverður þáttur í húsnæðiskerfi þjóða í okkar heimshluta er það ekki til á Íslandi.
Í mörgum löndum eru félagslegar eignaríbúðir mikilsverður hluti húsnæðiskerfisins. Í sumum löndum eru kerfi svipuð gömlu verkamannabústöðunum á Íslandi, lokað kerfi sem ver fólk fyrir verðsveiflum á húsnæði og lánskjörum og tryggir lágmarksávöxtun á eigin fé. Kaupendur í slíkum kerfum geta ekki hagnast með því að selja á toppi einhverrar eignabólunnar en þeir tapa heldur ekki ef þeir neyðast til að selja þegar eignaverð er í botni. Íslendingar áttu svo kerfi en lögðu það niður á tímabili nýfrjálshyggjunnar, aðgerð sem mun halda nafni níðinganna sem það gerðu um langan aldur.
Búsetukerfin eru í raun sambærileg og verkamannabústaðirnir nema hvað þau hafa ekki aðgengi að jafn lágum vöxtum á lánsfé og allir geta sótt um á meðan hinir lægst launuðu höfðu forgang innan Verkamannabústaða. Engu að síður eru búsetukerfin félagsleg kerfi, þau eru rekin án hagnaðarkröfu og eru í grunninn fyrst og fremst félagsleg leið til að tryggja fólki öruggt húsnæði og eins hagkvæmt og kostur er. Búsetufélögin á Íslandi hafa alltaf verið veik og jaðarlausn á húsnæðismarkaði þótt þessi leið sé víða í nágrenni okkar einmitt meginstefna í húsnæðismálum.
Flestar þjóðir í okkar heimshluta hafa varið leigjendur fyrir leigusölum með einhvers konar þaki á húsleigu og takmörkun á hækkun þeirra (rent control). Víða er í gildi ákvæði sem skattleggja sérstaklega hagnað af húsnæðisbraski, til dæmis ef kaupandi selur eign innan ákveðins tíma. Þetta er gert til að braskarar eyðileggi ekki húsnæðiskerfi venjulegs fólks, ef þeir vilja braska verða þeir að kaupa hlutabréf eða eitthvað sem veldur venjulegu fólki minni skaða en eignabólur og -hrun á húsnæðismarkaði. Engar slíkar reglur eru til á Íslandi. Íslensk stjórnvöld gæta ekki hagsmuna leigjenda, allra síst ef þeir rekast á við hagsmuni braskara. Á Íslandi ríkir nefnilega alræði braskaranna.
Opinber stuðningur í húsnæðismálum á Íslandi hefur aðeins að litlu leyti miðast við að leysa húsnæðisvanda hinna verst settu. Uppbygging félagslegra íbúða miðaði á sínum tíma meira við þörf verktaka víða um land fyrir verkefni en raunverulegan húsnæðisvanda lífeyrisþega eða hinna lægst launuðu. Íslenskir auðmenn hafa aldrei veigrað sér við að soga til sín fé sem í orði kveðnu á að lina þrautir hinna veiku og fátæku. Opinber stuðningur í húsnæðismálum hefur að mestu snúist um að auka eftirspurn sem hefur bætt hag verktaka, þeir hafa selt fleiri og dýrari íbúðir. Almenningur situr eftir með hærra húsnæðiskostnað og óraunhæfar væntingar um að geta hagnast af skuldsettum eignakaupum.
Þrátt fyrir að Hrunið á Íslandi hafi afhjúpað það skrímsl sem kapítalisminn er og hvernig hann flytur fé frá hinum verr stæðu til hinna efnuðu jafnt í hruni sem bólu er húsnæðisstefnan á Íslandi að stærstu leyti óbreytt. Hún miðast enn við að verja hinn óhefta húsnæðismarkað og siga sem flestum inn á hann svo hann haldi áfram að þjóna hinum ríku, draga fé frá hinum efnaminni og flytja til hinna efnameiri.
Við Íslendingar búum við hið kapítalíska skrimsl eins og flestar þjóðir í okkar heimshluta. Okkar skrímsl gengur hins vegar lausar en skrímsl annarra landa, við höfum leyst af okkar skrímsli öll bönd svo það veður um gramsar í sig hvar sem því hentar, hagnast jafnt á húsnæðisvanda hinna fátækustu sem húsnæðisþörf aldraðra. Og á meðan aðrar þjóðir hafa gripið til að aðgerða til að verja almenning fyrir árásum frá sínum skrímslum höfum við Íslendingar ekkert gert til að verja fólk fyrir þessu fóli. Þvert á móti hafa stjórnvöld á undanförnum áratugum dregið úr þeim takmörkuðu vörnum sem almenningur hafði til að verja sig fyrir árásum þessa skrímsl.
Hvers vegna er þetta svona? Tja, við lifum í einskonar alræði auðmagnsins. Hér geta hinir ríku farið sínu fram í öllum málum, öll grunnkerfi samfélagsins eru aðlöguð að þörfum hinna ríku og valdamiklu. Þeir borga minnsta skattinn, hafa mesta réttinn og geta hagnast eins og þá lystir. Við búum innan vélar sem flytur kerfisbundið verðmæti frá hinnum efnaminni til hinna efnameiri, jafnt í hruni sem bólu.
Gunnar Smári
ps. Hér er viðtal Sönnu Magðalenu Mörtudóttur við Sigríði Eyþórsdóttur um áhrif hruns húsnæðismarkaðarins á unga einstæða móður. Sigríður hefur verið á biðlista eftir félagslegu húsnæði síðan í lok árs 2015 og hefur enn ekki fengið íbúð. Hún missti íbúðina sína í hendur bankans þann 31. júní síðastliðinn án þess að vera komin með húsnæði. Þegar hún hringdi í Félagsmálastofnun í síðasta mánuði var henni bent á að hafa samband við gistiskýli eða leita til Kvennaathvarfsins eftir aðstoð.
Sett á klakann af Félagsmálastofnun
Sigríður Eyþórsdóttir hefur verið á biðlista eftir félagslegu húsnæði síðan í lok árs 2015 og hefur enn ekki fengið íbúð. Hún missti íbúðina sína í hendur bankans þann 31. júní síðastliðinn án þess að vera komin með húsnæði. Þegar hún hringdi í Félagsmálastofnun í síðasta mánuði var henni bent á að hafa samband við gistiskýli eða leita til Kvennaathvarfsins eftir aðstoð. Sanna Magdalena ræddi við Sigríði um atburði síðustu ára og stöðu hennar í dag. Sigríður vill koma á framfæri þakklæti til foreldra sinna fyrir að hafa veitt henni og börnunum hennar þremur ómetanlegan stuðning.Frétt um mál Sigríðar er hér: http://www.visir.is/g/2017170718826. Tara Jelisha Laufeyjardóttir klippti myndbandið.
Posted by Sósíalistaflokkur Íslands on 5. ágúst 2017