Öllum að óvörum – Inngangur að Corbyn: The Strange Rebirth of Radical Politics

Richard Seymour Sögur

Við erum stödd snemma árs 2016. Tony Blair er „furðu lostinn“. Jeremy Corbyn á Bretlandi, Bernie Sanders í Bandaríkjunum og hvaðeina – Tony getur ekki annað en andvarpað: „Ég er ekki viss um að ég botni alveg í stjórnmálunum þessa dagana.“[1]

Það er viðbúið að hann sé ruglaður í ríminu. Hann hafði áður haft uppi eftirfarandi varnaðarorð við Verkamannaflokkinn, en án árangurs: „ef hjarta þitt slær með Jeremy, farðu þá í hjartaígræðslu“. Fyrrum bandamaður hans, Peter Mandelson, tók svo til orða við þann mikla málsvara verkalýðsins, Financial Times: „Verkamannaflokkurinn er í lífshættu.“ Og hans gamli félagi og keppinautur, Gordon Brown, tók Verkamannaflokknum vara við því að breytast í „flokk eilífra mótmæla.“[2] Hvað meira hefðu þeir getað gert?

Tony Blair og George W. Bush. Hugmyndirnar sem Corbyn sigraði með eru þær sem hafa nær alfarið verið hunsaðar, bældar niður eða litið niður á með góðlátlegum hroka frá því á dögum valdatöku Blair-sinnanna

En síðan Blair kvaddi embætti hefur veröldin breyst í hverju ríkinu á fætur öðru og hann er ekki lengur svo viss í sinni sök. Sarkozy er farinn, Bush er farinn, Aznar er farinn, Mubarak er farinn, Qadhafi er farinn. Brátt verður einræðisherrann í Kasakstan, Nursultan Nazarbayever, síðasti bandamaður hans á valdastóli en Blair veitti veitti ómetanlega aðstoð í að bæta ímynd sína í kjölfar alræmdra fjöldamorða í boði ríkisins.[3]

Á heimvelli er ástandið svipað og utan landsteinanna. Áður virtust fylgismenn Blairs óhreyfanlegir á valdastóli, en nú hefur hin harðsvíraða klíka þeirra loksins sungið sitt síðasta. Það voru formannskosningarnar 2015 sem skáru úr um það – þar fengu þeir 4,5% atkvæða. Útfararstjórinn var hógvær hernaðarandstæðingur og sósíalisti að nafni Jeremy Corbyn sem vann stórsigur með 59,5% atkvæða í fyrstu umferðinni.

Það væri vægt til orða tekið að kalla þetta ólíklegustu pólítísku endurkomu sögunnar. Vissulega var eitt sinn sú tíð að sósíalistar störfuðu fyrir opnum tjöldum í Verkamannaflokknum og voru stoltir og sæmilega háværir. Þó hafa sögusagnir um völd þeirra fyrr á dögum alltaf verið færðar í stílinn. Þetta er í fyrsta sinn í sögunni sem róttækur sósíalisti leiðir Verkamannaflokksins.

Síðasti fylgismaður Tony Benn

Að bera Corbyn saman við Michael Foot gefur engan veginn rétta mynd af þessari nýju stöðu, líkt og sumir álitsgjafar voru full fljótir á sér að gera. Foot kom úr mjúka vinstrinu og pólitískur bakgrunnur hans í eins konar róttækni-væddri frjálslyndisstefnu. Þrátt fyrir vissa gleymsku varðandi þetta atriði, enn fremur, var hann mun háðari hægrivæng flokksins frekar en harða vinstrivæng hans – það var hægrivængurinn sem leiddi hina misheppnuðu kosningabaráttu flokksins árið 1983. Hann studdi aðgerðir Thatcher á Falklandseyjum þrátt fyrir langa sögu um friðarstefnu, nokkuð sem væri erfitt að sjá fyrir sér Corbyn gera. Meira viðeigandi sögulegur samanburður væri mögulega George Lansbury, vinstrisinnaður friðarsinni með reynslu úr aktívisma sem var kosinn leiðtogi Verkamannaflokksins árið 1931 eftir að Ramsay MacDonald gerðist liðhlaupi til að ganga í þjóðstjórn undir forystu Íhaldsflokksins. Það að það þurfi að leita svo langt aftur í söguna til að finna sambærilegt tilfelli er til marks um námkvæmlega hve fordæmislaus núverandi staða Verkamannaflokksins er, og jafnvel hér nær samlíkingin ekki nema visst langt: Lansbury hafði þegar verið vinsæll bæjarstjóri og ráðherra þegar hann náði kjöri, öfugt við Corbyn sem hefur aldrei gegnt stöðu innan framkvæmdavaldsins. Að sú staðreynd skyldi teljast honum til tekna í kosningabaráttunni segir sitt um hve óvinsæl stjórnmálastéttin hefur orðið.

Vandamál Verkamannaflokksins var að mati Tonys Benns að flokkurinn ætlaði sér að hafa hemil á kapítalismanum frekar en að gera nokkuð til að binda enda á þá alvarlegu misskiptingu auðs og valda sem ríkti á tímabilinu.

Jeremy Corbyn er einn af síðustu eftirlifandi fylgismönnum Tonys Benn í Verkamannaflokknum. Margir sem muna eftir Benn sem vingjarnlegum eldri róttæklingi, frægum fyrir dagbókarskrif sín og þátttöku í friðarhreyfingunni, átta sig ekki á þýðingu þessa. Það gleymist nefnilega að Benn var álitinn slík ógnun við breska valdakerfið að hann var bæði hundeltur af leynilögreglunni og lagður í einelti á forsíðum blaðanna. Benn var uppreisnarseggur af yfirstétt, fæddur inn í aðalinn áður en hann afneitaði forréttindum sínum; fyrrum ráðherra sem sem hafði séð inn í hallir valdsins og komist að þeirri niðurstöðu að þar þyrfti eitthvað meira en nokkur handtök. Hann hefði, ef marka má frásagnir, sjálfur getað leitt Verkamannaflokkinn hefði hann ekki snarbeygt svo harkarlega til vinstri eftir reynslu sín af því að komast í valdastöðu. En sá lærdómur að komast í „valdastöðu án valda“, eins og hann lýsti því, gerði hann róttækan.[4] Vandamál Verkamannaflokksins var að mati Benns að flokkurinn ætlaði sér að hafa hemil á kapítalismanum frekar en að gera nokkuð til að binda enda á þá alvarlegu misskiptingu auðs og valda sem ríkti á tímabilinu. Flokkurinn ríkti þar af leiðandi yfir samfélagskerfi sem var á góðri leið með að tapa öllu réttmæti sínu í augum almennings. Þetta skapaði meiriháttar óánægju sem gerði flokkinn berskjaldaðan gagnvart yfirtöku frá hægrivængnum.

Til þess að bæta fyrir þessi meintu mistök hvatti Benn Verkamannaflokkinn til að setja í framkvæmd meiriháttar umbótaaðgerðir á mörgum sviðum, svipuðum að umfangi og metnaði og það sem Verkamannaflokksstjórnin 1945 áorkaði. Þetta fól í sér endurúthlutun auðs, umbætur á embættismannakerfinu og þjóðnýtingu lykilatvinnugreina í því augnamiði að setja þau undir stjórn verkafólks. Ein stærsta gagnrýni hans á málamiðlun eftirstríðsáranna var að þjóðýttar atvinnugreinar voru enn ekki lýðræðisvæddar heldur reknar á sama valdstýrða hátt og einkafyrirtækin – oft af sama fólki. Innan ramma lýðræðislegs sósíalisma, taldi hann, ætti að vera mögulegt fyrir þingheim að setja lög sem gæfu verkafólki réttinn til að hafa áhrif á stjórnendur sína og kjósa þá.[5] Að Verkamannaflokkurinn gæti nokkurn tíma gert sér í hugarlund svo róttækar umbótaaðgerðir var nákvæmlega það sem New Labour ætlaði sér að útrýma í eitt skipti fyrir öll.

Prentarahylki fyrir 8,95 pund

Corbyn var sjálfur ekki af jafn háttsettu fólki og Benn. Hann var uppalinn í sveitahéruðum Shropshire þar sem hann vann fyrir sér sem vinnumaður á býlum. Hann var aldrei talinn líklegur til að gegna forystu í Verkamannaflokknum. Eins og hann sagði sjálfur: „Munurinn á Tony og mér er að hann var einn af þessum fágætu stjórnmálamönnum sem átti raunverulega mjög góðu gengi að fagna á ferli sínum í hefðbundnum skilningi. Ég hef hins vegar átt stórkostlega rislítinn feril í hefðbundnum skilningi þess orðs.“[6]

Jeremy Corbyn virðist ekki hafa haft mínútu aflögu fyrir peninga eða drykkju á sínum yngri árum eða fyrir nautnalíf hippatímans, en fann sig þess í stað í þeirri sósíalísku bindindismennsku sem Benn var frægur fyrir. Ávinningurinn af þessu var að hann var, með orðum fyrrverandi eiginkonu hans Jane Chapman, „mikill staðfestumaður, mjög heiðarlegur … sómamaður í húð og hár.“

Samt sem áður má segja að var pólitískur uppruni Corbyns hafi verið líklegri til að gera úr honum sósíalískan baráttumann en sá uppruni sem Benn hafði. Corbyn var sonur pólitískra aktívista af millistétt sem kynntust á meðan þau unnu fyrir lýðveldissinna á tímum spænska borgarastríðsins og því snemma alinn upp við róttæka hugmyndastrauma. Allt bendir raunar til þess að hann hafi verið algjörlega heltekinn af stjórnmálum og engu öðru. Sem menntaskólanemi gaf hann lítið fyrir námið til að helgað tíma sinn stjórnmálunum. Sem sjálfboðaliði hjá Voluntary Service Overseas á Jamaica gerðist hann róttækur vegna „heimsvaldasinnaðra viðhorfa, félagslegs klofnings og efnahagslegs arðráns“ sem hann varð vitni að þar. Sem verkalýðsskipuleggjandi, fyrst fyrir National Union of Tailors and Garment Workers og síðar National Union of Public Employees, sótti hann fundi og mótmæli. Hann virðist ekki hafa haft mínútu aflögu fyrir peninga eða drykkju eða fyrir nautnalíf hippatímans, en fann sig þess í stað í þeirri sósíalísku bindindismennsku sem Benn var frægur fyrir. Ávinningurinn af þessu var að hann var, með orðum fyrrverandi eiginkonu hans Jane Chapman, „mikill staðfestumaður, mjög heiðarlegur … sómamaður í húð og hár.“[7]

Þessi persónueinkenni má ítrekað sjá á ferli Corbyns sem þingmaður fyrir Islington North, en hann hefur setið á þingi fyrir það kjördæmi síðan árið 1983. Jafnvel gagnrýnasti ævisöguritari hans, Rosa Prince blaðakona á Telegraph, viðurkennir að hann sé „þekktur fyrir að vera ‘góður kjördæmisþingmaður’“, sem þýðir að hann leggur mikið á sig til að hjálpa þeim sem þarfnast hans og hann er undantekningalaus talinn standa sig framúrskarandi vel í því.[8] Sem meðlimur í Socialist Campaign Group, hópi stuðningsmanna Benns innan Verkamannaflokksins, var hann ávallt í andstöðu við ríkisstjórnina óháð því hvaða flokkur var við völd. Corbyn kaus ávallt baráttu fram yfir pólitíska leiki og það voru meiri líkur á að sjá hann að störfum fyrir hreyfinguna gegn aðskilnaðarstefnu í S-Afríku eða Palestine Solidarity Campaign en í hrossakaupum fyrir vinsældir og áhrif. Þegar útgjaldahneyksli þingmanna árið 2009 stóð sem hæst kom í ljós að hann hafði óskað eftir lægstu endurgreiðslu allra þingmanna – 8.95 pund fyrir prentarahylki.[9]

Í þolinmóðri nálægð við fólkið

Stjórnmálastörf eru honum ekki bara siðferðisleg köllun heldur einnig spurning um meðvitaða pólitíska hugsun. „Fólk segir að hlutverk þingflokk Verkamannaflokksins sé að sækjast eftir atkvæðum miðstéttarfólks í úthverfunum“, sagði hann á Kinnock-tímanum, „en [Socialist] Campaign Group verður að láta sjá sig á mótmælunum og á vinnustöðunum. Í miðborgunum, þar sem eru engir stórir vinnustaðir aðrir en sveitastjórnir og velferðarþjónusta, er hreinlega engin reynsla af starfi í verkalýðsfélögum og þeir sem hafa dottið út úr námi vita ekkert um verkalýðshreyfinguna.“[10]

Í huga Corbyns var veiking vinstrisins og verkalýðshreyfingarinnar í samanburði við aðra strauma ekki ástæða til að hreyfa sig til hægri heldur til að endurbyggja sig með þolinmæðina að vopni. Þetta, mun frekar en nauðsynlegar málamiðlanir og samningar við samflokksmenn, er grundvallaratriðið í hugmyndum hans um hvernig hægt sé að endurlífga Verkamannaflokkinn. Líkt og hann útskýrði sjálfur í einni af framboðsræðum sínum gat Íhaldsflokkurinn sigrað vegna þess að almenningur var óvirkur og mætti ekki á kjörstað:

„Þingmeirihluti þeirra er byggður á lágri kjörsókn, hann er byggður á stuðningi 24% kjósenda í heild … Það er frekar lítið um aðild að stjórnmálaflokkum á Bretlandi, í raun og veru. Fjöldi félaga í Verkamannaflokknum er 240 þúsund. Ég hef ekki hugmynd um hver fjöldi félaga í Íhaldsflokknum er … ekki hugmynd um Frjálslynda demókrata; ég reikna með að hann sé ekki mjög hár. Þannig að það er ekki stór hópur fólks í stjórnmálaflokkum á Bretlandi, en það þýðir ekki að við búum í samfélagi sem er orðið algjörlega áhugalaust um stjórnmál. Sjáið bara 250 þúsund manns sem tóku þátt í mótmælagöngu gegn niðurskurði um síðustu helgi; sjáið bara þann hafsjó fólks sem mætti í Pride gönguna í London og mótmælin í gær. Fólk er virkt í stjórnmálum á annan hátt … ég held við þurfum að búa til samfélagshreyfingu.“[11]

Maður hreyfinganna, ekki markaðarins

Því skal ekki haldið fram að kosningabarátta Corbyns hafi verið þessi samfélagshreyfing, en hún notaði skipulagsaðferðir sem gáfu til kynna hvað Corbyn hafði í huga fyrir Verkamannaflokkinn. Aðferð hans við að stunda stjórnmál, sem bæði fjölmiðlar og stjórnmálastéttin vanmátu stórkostlega, var lykilatriði fyrir gott gengi Corbyns. Hinir mjög svo krefjandi fjöldafundir í bæjum og borgum um allt land, svo dæmi sé nefnt, voru ætíð hluti af dagskrá Corbyns. Þannig lýsti hann því sjálfur: „Ég var með yfir hundrað viðburði á meðan á baráttunni um formannssætið stóð og í lok ársins mun ég líkast til hafa haldið 400 til 500 opinbera fundi.“[12] Þessi stjórnmálastíll var að mestu gleymdur og grafin á tímum markhóparannsókna, markaðsvæddra stjórnmála og spennitreyju æsifréttanna. Corbyn var alls ófeiminn við að gangast við fortíð sinni sem róttæklingur og hampaði henni raunar sem styrkleika á meðan gamlar ljósmyndir af honum fóru sem eldur í sinu um samfélagsmiðla. Hann hlaut kjör sem maður hreyfinganna, ekki markaðanna.

Svona fór hann að því safna breiðum hópi stuðningsfólks sem kom öllum að óvörum. Hugsjónirnar sem hann berst fyrir hafa ekki haft háværa rödd í meginstraumi stjórnmálanna svo árum skiptir. Síðast þegar einhver nálægt því jafn vinstrisinnaður komst nálægt forystu Verkamannaflokksins var þegar Tonys Benn bauð sig fram til varaformanns árið 1981, en Corbyn var einn af aðalskipuleggjendum þeirrar kosningabaráttu. Líkt og Phil Burton-Cartledge, félagi í Verkamannaflokknum í Stoke, orðaði það skilmerkilega þá virtist Corbyn hafa holdgert eitthvað sem fólk af ólíkum stöðum stjórnmálalitrófsins fannst vanta í stjórnmálin: „Hvort sem þú ert Græningi, Verkamannaflokksmanneskja af gamla skólanum, Trotskýisti á batavegi eða eitthvað annað“ þá er „eitthvað við pólitík Jeremys sem höfðar til fólks.“[13]

Í slag við fordóma

Þetta er það sem hefur komið flokksforystunni og stuðningsfólki hennar mest á óvart af öllu. Hugmyndirnar sem Corbyn sigraði með eru þær sem hafa nær alfarið verið hunsaðar, bældar niður eða litið niður á með góðlátlegum hroka frá því á dögum valdatöku Blair-sinnanna. Vandamálið var ekki endilega að Corbyn væri tilbúinn að standa gegn niðurskurðaráætlunum ríkisstjórnarinnar og styðja aukin ríkisútgjöld, þjóðnýtingu og endurgreiðslu auðs. Þessar áherslur voru þrátt fyrir allt þegar ær og kýr meðal vinstri-sósíaldemókrata. Og í þessum málum er margt sem bendir til að breskir kjósendur séu þrátt fyrir allt meira til vinstri en venjulega er talið.[14] Það merkilega var kanski frekar að Corbyn gekk í bága við það sem átti að teljast heilbrigð skynsemi í innflytjendamálum, og neitaði alfarið að gefa nokkuð eftir gagnvart þeim hatursfulla þjóðrembingi af skóla UKIP sem hafði náð að síast inn í báða stóru flokkana. Þetta bendir til þess að Corbyn sé reiðubúinn að skora fleira á hólm en ríkjandi kerfi; hann ætlar sér í slag við útbreidda fordóma – og sigra. Fyrsta verk hans á leiðtogastóli, algjörlega í hans anda, var að mæta á útifund til stuðnings flóttafólki í miðborg Lundúna þar sem honum var að sögn Mirror „fagnað sem hetju“.[15]

Sá málefnagrundvöllur sem Corbyn hlaut kjör sitt á er samt sem áður engin sérstök byltingaruppskrift. Hann hefur lofað að binda enda á niðurskurð, og að setja í stað hans efnahagshvataáætlun í þágu fólksins þar sem fé verður varið í samgöngur, atvinnusköpun og hátækni. Kanadíski forsætisráðherrann Justin Trudeau komst í embætti með svipaðar málefnaáherslur. Meira að segja OECD er mótfallið niðurskurði þessa dagana.[16] Hann hefur heitið að vinna á húsnæðiskreppunni með víðtækum húsbyggingarframkvæmdum, að þjóðnýta lestarkerfið að fullu og að setja alla einkarekna framhaldsskóla undir lýðræðisleg yfirráð í heimahéraði. Þessi markmið á ekki endilega að fjármagna með því að kreista hina ríku líkt og svamp til að vökva garða hinna fátæku, heldur með því að loka á skattaundanskot, hvetja til vaxtar og með því að eyða minna í umdeild verkefni eins og Trident-kjarnorkuáætlunina.

Hér er í flestum atriðum um að ræða sígildar sósíal-demókratískar áherslur. Það sem gerir valdakerfinu illmögulegt að kyngja stefnumálum Corbyns er ekki endilega inntak þeirra. Þau kunna að vera of róttæk fyrir Verkamannaflokinn eins og hann er í dag, fjölmiðla eins og þeir eru í dag og litróf flokkanna sem sitja á þingi eins og það er í dag, en viðskiptalífið gæti vel lifað með þeim og almannviðhorfið myndi breytast ef Corbyn næði útbreiddum stuðningi. Það sem gerir Corbyn að vandamáli er sú tegund stjórnmálamanns sem hann er. Þær pólitísku hugmyndir sem Corbyn stendur fyrir áttu að vera dauðar úr öllum æðum, sjálf hugmyndin um valkost við kapítalisma átti að vera á haugunum síðan 1989, og svo framvegis. En nú á dögum kemur ekki sérstaklega á óvart að heyra af könnunum sem sýna almenningur á Bretlandi er ofurlítið „jákvæðara í garð sósíalisma en kapítalisma“.[17] Það er ekki tilfellið að vinstrið sé skyndilega iðandi af lífi og krafti. En tilellið er að það er möguleiki á því að róttæk stjórnmál, við áður óþekktar kringumstæður, geti átt óvænta endurfæðingu.

Frá kreppu til nýrrar vonar

Hvernig fór hann að því? Í þessari bók held ég því fram að Corbyn hafi á útsjónarsaman hátt nýtt sér ákveðið sóknarfæri sem hrörnun gömlu flokkanna skapaði. Þetta er ekki bara vandamál Verkamannaflokksins, þrátt fyrir augljósa spillingu og hnignun meðal hinnar hefðbundnu flokkselítu. Þegar þessi orð eru skrifuð hafa Íhaldsmenn gengið í gegnum nýjustu skjálftahrinu sinnar ólæknandi kreppu vegna Evrópumála, en með afleiðingum sem snerta mun fleiri málaflokka. Corbyn, þrátt fyrir veika stöðu sína og ótrúlega ósamvinnuþýða samflokksmenn, hefur tekist að nýta sér þennan klofning til að neyða fram stefnubreytingar í fjölda mála, allt frá persónuafslætti til fangelsissamningsins við Sádi-Arabíu og niðurskurðar á örorkubótum. En hans eigin flokkur er ekki í mikið betra ásigkomulagi en Íhaldsflokkurinn. Handritið sem allir stóru þingflokkarnir hneigjast til að fara eftir er klofningur og endurmótun. Sú ókyrrð nær dýpra en stefna og málefni forystunnar.

Sagan um sigur Corbyns er saga um það hvernig þingræðið og hinir hefðbundnu valdaflokkar þess hafa hægt og hægt flotið inn í kreppu sem snýst um lögmætt valdatilkall þeirra. Sú kreppa hefur staðið yfir í nokkurn tíma – og hún varð skyndilega mjög aðkallandi þegar efnahagsstöðnun og niðurskurður hófst af fullum þunga. Taug fulltrúalýðræðisins, taugin milli fólksins og yfirvalda, hefur verið að trosna upp áratugum saman. Afleiðingin eru nýjar tegundir pólitískra gjörningaveðra. Vinsældir SNP í Skotlandi og UKIP á Englandi eru nýjar birtingarmyndir þess hvernig pólitísk tryggðarbönd almennings eru í óða önn að slitna og bindast upp á nýtt. Vinsældir Corbyns brustu á með meiri hraða og voru mun óvæntari. Hann og samstarfsfólk hans fylgdu þeirri venju róttækra vinstrimanna að vera óhrædd að takast á við ofjarla sína, og tókst vel upp vegna þess að þau sáu hvar kerfið var að bregðast og náðu að bregðast við með réttu hugmyndirnar að vopni. Syriza á Grikklandi, Podemos á Spáni, jafnvel Sanders í Bandaríkjunum – skyndileg mögnun stuðnings við einstaklinga og hópa sem voru áður á jaðrinum víða um heim var afleiðing af sams konar kreppu og á Bretlandi.

Þessi dæmi ættu að sjálfsögðu að hvetja Corbyn og stuðningsfólk hans til varúðar. Podemos gátu að endingu ekki tryggt sér kosningasigur þrátt fyrir að hafa leitt í skoðanakönnunum. Syriza gat ekki breytt stefnu ríkisins þrátt fyrir að hafa myndað ríkisstjórn. Sanders gæti enn unnið, en varar nú þegar stuðningsmenn sína við því að jafnvel á forsetastóli yrði hann að mæta ‘stétt milljarðamæringanna’ sem myndu gera honum nánast ómögulegt að ná markmiðum sínum. Corbyn á vissulega enn nokkuð í land til að geta byrjað að takast á við ‘stétt milljarðamæringanna’. Hann þarf fyrst að takast á við óhroðann frá eigin félögum á þingi, fólk á borð við David Blunkett, Tristram Hunt, Simon Danczuk, Sadiq Khan, Caroline Flint, John Mann, Michael Dugher og Ben Bradshaw. Hann þarf einnig að halda skuggaráðuneytum á floti gegn stöðugum undirróðri frá Hillary Benn, Maria Eagle og varaformanninum Tom Watson. Og hann þarf að standa af sér árásir frá Íhaldsflokknum og fjölmiðlum, en gagnrýnin úr þeirri átt endurómar einatt gagnrýnisraddirnar innan úr Verkamannaflokknum.

Í eftirfarandi köflum mun ég útskýra hvernig Corbyn stóð af sér hræðsluáróðurinn gegn honum og stóð uppi sem sigurvegari og eftir það skoða nánar hið breiðara samhengi og sögu breskra stjórnmála og hlutverk Verkamannaflokksins í þeim. Þegar ég spyr hvort Corbyn hafi einhvern möguleika á árangri sem leiðtogi Verkamannaflokksins, hvað þá sem forsætisráðherra, ætla ég mér ekki að gefa svör sem munu gleðja alla. Þeir sem óska eftir því að snúið verði aftur til „venjulegra stjórnmála“ munu reka sig á mörg áhyggjuefni. Blair-sinnum og „hófsama“ armi Verkamannaflokksins mun mislíka greining mín stórkostlega. Corbynistar munu á sama tíma ekki finna hér óskhyggjutón hins dygga stuðningsmanns. Jafnvel þótt þessi bók sé skrifuð í anda stuðnings við Corbyn þá er hún skrifuð án nokkurrar tryggðar við Verkamannaflokkinn, flokk sem ég er ekki meðlimur í. Sú staðreynd leyfir mér að snerta á því sem kann að vera hin auma taug sérhvers flokksholls félaga í Verkamannaflokknum, hægra jafnt sem vinstra megin, sem er það að mögulega á flokkurinn í núverandi mynd alls ekki framtíðina fyrir sér. Enda er ein erfiðasta áskorunin sem Corbyn þarf að mæta sjálf spurningin sem hann var kosinn að svara: Hvað verður um Verkamannaflokkinn? Hnignun flokksins er áskorunin sem Corbyn var kosinn til að mæta. Hnignun flokksins er það sem skapaði rýmið fyrir hann til að verða leiðtogi. Og hnignun Verkamannaflokksins verður nú helsti þröskuldurinn í vegi fyrir velgengni hans.

Inngangur að bók Richard Seymour:
Corbyn: The Strange Rebirth of Radical Politics, 
Verso Books 2016
Þýðing: Viðar Þorsteinsson

[1]   David Smith, ‘Tony Blair admits he is baffled by rise of Bernie Sanders and Jeremy Corbyn’, Guardian, 23. febrúar 2016.

[2]   ‘Tony Blair: If your heart’s with Jeremy Corbyn, get a transplant’, Guardian, 22. júlí 2015; Peter Mandelson, ‘The Labour Party is in mortal danger’, Financial Times, 27. ágúst 2015; Rowena Mason og Josh Halliday, ‘Gordon Brown urges Labour not to be party of protest by choosing Jeremy Corbyn’, Guardian, 17. ágúst 2015.

[3]   Robert Mendick, ‘Tony Blair gives Kazakhstan’s autocratic president tips on how to defend a massacre’, Telegraph, 24. ágúst 2014.

[4]   Tony Benn, Office Without Power: Diaries 1968–72, London: Arrow, 1989.

[5]   Tony Benn, ræða flutt hjá Engineering Union, AUEW Conference, maí 1971. Í Ruth Winstone, ritstj., The Best of Benn: Letters, Diaries, Speeches and Other Writings, London: Hutchinson, 2014, Kindle Loc. 621.

[6]   Hillary Wainwright og Leo Panitch, ‘“What we’ve achieved so far”: an interview with Jeremy Corbyn’, Red Pepper, desember 2015.

[7]   Tilvitnun úr Nigel Cawthorne, Jeremy Corbyn: Leading from the Left, London: Endeavour Press Ltd, 2015, Kindle Loc. 180.

[8]   Rosa Prince, Comrade Corbyn: A Very Unlikely Coup: How Jeremy Corbyn Stormed to the Labour Leadership, London: Biteback Publishing, 2016.

[9]   Jessica Elgot, ‘Jeremy Corbyn caught looking gloomy on night bus’, Guardian, 1. ágúst 2015.

[10]  Tilvitnun úr Nigel Cawthorne, Jeremy Corbyn: Leading from the Left, London: Endeavour Press Ltd, 2015, Kindle Loc. 238.

[11]  Jeremy Corbyn, ‘Building the Social Movement’, í Tom Unterrainer, ritstj., Corbyn’s Campaign, Nottingham: Spokesman Books, 2016.

[12]  Hillary Wainwright og Leo Panitch, ‘“What we’ve achieved so far”: an interview with Jeremy Corbyn’, Red Pepper, desember 2015.

[13]  Phil Burton-Cartledge, viðtal við höfund, 19. febrúar 2016.

[14]  Hardeep Matharu, ‘Britain could be more left-wing than people assume, study finds’, The Independent, 15. janúar 2016.

[15]  Sam Webb, ‘Jeremy Corbyn gets hero’s welcome at refugee rally on day he becomes Labour leader’, Mirror, 12. september 2015.

[16]  Larry Elliott, ‘OECD calls for less austerity and more public investment’, Guardian, 18. febrúar 2016.

[17]  Will Dahlgreen, ‘British people keener on socialism than capitalism’, YouGov, 23. febrúar 2016.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram