Orkuþrælar og loftslagsváin
Pistill
22.08.2017
Mannkyn í núverandi mynd er um tvö hundruð þúsund ára gamalt. Mest af þeim tíma lifði það án þess sem við í dag köllum siðmenningu. Siðmenning manna óx upp í sérstökum loftslagsskilyrðum sem mynduðust í lok síðustu ísaldar. Ef loftslagsgögn eru skoðuð aftur í tímann sést vel að ekki aðeins er loftslag síðustu 10 þúsund ára mun hlýrra en á ísöld, heldur er hitastig miklu stöðugra en jafnan er tilfellið. Stöðuleikinn var afgerandi fyrir þróun landbúnaðar og uppbyggingu siðmenningarinnar.
Uppbygging mannlegrar siðmenningar byggði að miklu leiti á vinnu þræla og siðmenningin var í raun fyrir hina fáu. En með iðnvæðingunni má segja að eins konar „orkuþrælar“ hafi að mörgu leyti tekið við hlutverki eldri þræla. Með þessu er átt við að bruni kola og olíu gefur orku sem framkvæmir vinnu sem áður hefði aðeins verið efnahagslega möguleg með þrælavinnu. Skipulegt þrælahald hættir þannig að vera forsenda siðmenningar. Hinir fáu héldu áfram að auka efnahagsmátt sinn, en sífellt stærri hluti mannkyns fékk hlutdeild í auðlegðinni sem orkuþrælarnir sköpuðu. En til að viðhalda veldisvextinum í fjölda orkuþræla þarf að brenna stigvaxandi magni af jarðefnaeldsneyti sem endar sem aukinn styrkur koltvísýrings í andrúmsloftinu.
Aukning koltvísýrings milli kynslóða
Á tímum mannkyns fyrir siðmenningu var styrkur koltvísýrings í loftinu nokkuð stöðugur í 280 milljónahlutar (ppm, parts per million). Við upphaf iðnvæðingar hafði styrkur koltvísýrings lítið hækkað, en þegar amma mín fæddist árið 1924 var styrkurinn kominn upp í 306 ppm. Þegar mamma mín fæddist 1956 hafði styrkurinn aukist í 314 ppm. Ég fæddist 1981 og styrkurinn hafði þá aukist í 340 ppm og þegar eldri dóttir mín fæddist 2010 var styrkurinn kominn í 389 ppm. Í dag er styrkurinn kominn í 407 ppm (sjá mynd 1). Þannig hefur styrkur koltvísýrings aukist meira á minni kynslóð en samanlögð áhrif allra kynslóða á undan mér, og hraði aukningarinnar heldur áfram að aukast.
Hinn aukni styrkur koltvísýringsins í andrúmsloftinu veldur því að aukin orka safnast upp í andrúmsloftinu og hafinu sem varmi. Hinn aukni varmi bræðir heimsskautaís á sumrin sem gerir að verkum að minna af sólarljósinu endurvarpast sem aftur styður við varmaaukninguna. Varmaaukningin er þegar klárlega mælanleg og fer stigvaxandi. Varmaaukningin á núverandi stigi veldur tveimur meginafleiðingum: erfiðara er að framleiða mat nærri miðbaug og auðveldara er að framleiða mat nærri heimskautunum. Skert matvælaframleiðsla lækkar burðargetu landa. Íslendingar þekkja sjálfsagt best til afleiðinganna af skertri burðargetu þegar niðurbrot þjóðveldisins átti sér stað í lok hlýindaskeiðs miðalda. Nú þegar eru lönd eins og Sýrland og Súdan í upplausn í kjölfar þess að skilyrðum til matvælaframleiðslu hrakaði. Slík lönd eru eins og fuglinn í kolanámunni, fyrst til að falla en varmaaukningin er enn að bæta í. Líklegt verður að teljast að mörg önnur lönd séu í hættu. Framundan er fyrirsjáanleg keðjuverkun flóttamannastrauma sem fella veik nágrannaríki og svo koll af kolli.
Sósíalismi eða barbarismi
Heimsvaldaríki Vesturlanda eru að bregðast við þessari framtíð, ekki með því að draga skarpt úr losun og finna viðvarandi orkulausnir fyrir samfélög Þriðja heimsins. Nei, ESB-ríkin virðast ætla að takast á við vandann með því að hervæða Miðjarðarhafið og gera samninga við vinveitta einræðisherra í strandríkjum Miðjarðarhafsins. Vissulega eru veikar áætlanir um að draga hægt og rólega úr jarðefnanotkun en þær áætlanir munu frekar aðstoða við að takast á við innflutningstakmarkanir sem neyðar- og stríðsástand er líklegt til að skapi en að að koma í veg fyrir að ástandið sjálft skapist. Vestan hafs stefnir Trump-stjórnin að því að byggja vegg eftir suðurlandamærunum og auka hernaðarumsvif þar. NATO-ríkin öll stefna að því að auka hernaðarútgjöld sín, sala hernaðargagna til svæðanna er í hámarki og alið er á andúð gegn útlendingum frá svæðunum sem verst verða úti (Mexikó í Bandaríkjunum og aröbum í ESB). Við fáum nasasjón af því hvernig heimsvaldastefnan ætlar að takast á við vandan: Verja ytri mörkin og láta Þriðja heiminn svelta og berast á banaspjótum um síðustu brauðmolana. Á meðan á að sannfæra íbúa innan virkisins um að fylkja liði með eigin yfirvöldum gegn útlendingunum. Flóttamennirnir sem komast yfir hin víggirtu landamæri fá svo allra náðasamlegast að taka við verkefnum af orkuþrælum. Stríð, sultur og þrælahald er þeirra svar.
Gegn þessari framtíðarsýn auðvaldsins þurfa sósíalistar að setja upp raunhæfa áætlun um mannvæna framtíð. Gera þar ofurauðlegð yfirstéttarinnar upptæka og nota hana til að fjármagna skörp orkuskipti frá jarðefnaeldsneyti og yfir í kolefnissnauðari orkugjafa. Þannig má koma um kring enduruppbyggingu vistkerfa, bindingu kolefnis úr andrúmsloftinu og fækkun orkuþræla vegna friðunar jarðefnaeldsneytislinda. Við höfum fyllilega efni á að byggja mannvænt samfélag fyrir allan heiminn, ef við aðeins snúum baki við auðsöfnun yfirstéttarinnar. Valið er sósíalismi eða barbarismi og valið er okkar.
Héðinn Björnsson