Sósíalíska bókahornið: Hard Times eftir Charles Dickens

Jóhann Helgi Heiðdal Pistill

Á tímum þar sem bókalestur fer hratt minnkandi og fræðimenn og aðrir samfélagsgagnrýnendur keppast við að vara við skaðlegum áhrifum snjallsíma og annarrar nútímatækni er ekki úr vegi að líta aðeins yfir bókmenntasöguna og framlag hennar til sósíalismans. Það er líka fullt tilefni til smá yfirlits um sósíalisma í bókmenntum, en sú hefð er rík og telur meistaraverk einhverra stærstu höfunda bókmenntasögunnar.

Bókmenntir búa auðvitað yfir einstöku afli og áhrifamætti, þær ná til lesandans og sannfæra á annan hátt en t.d. lestur fræðibóka eða blaða- eða fræðigreina um heimsmál og pólitík – hvað þá umræður á netinu (sem er óljóst hvort hafi nokkurn tímann sannfært nokkurn um nokkuð). Ófáir sósíalistar byrjuðu vegferð sína eftir lestur skáldsögu sem snerti við einhverju djúpu í þeim og því mikilvægt fyrir baráttuna að rækta þessa ómetanlegu iðju og halda minningu bestu verkanna á lofti.

Í þessum pistli og nokkrum í framhaldinu verður gefið yfirlit yfir nokkur bestu bókmenntaverkin sem tjá sterkan sósíalískan boðskap og gagnrýni. Þessi listi er að sjálfsögðu ekki tæmandi, það gefst ekki rúm til að ræða meira en örfáar bækur, og byggir hann að sjálfsögðu einnig óhjákvæmilega á persónulegum smekk. Þó tel ég mig geta fullyrt að þessi verk séu a.m.k. á meðal allra bestu dæmanna um sósíalisma eða sósíalískan boðskap í bókmenntasögunni. Við hefjum leik með Hard Times eftir Charles Dickens sem út kom 1854.

Charles Dickens er auðvitað einhver frægasti og áhrifamesti samfélagsgagnrýnandi bókmenntasögunnar. Í verkum eins og Great Expectations, Oliver Twist og Bleak House kraumar augljóslega undir niðri reiði yfir óréttlæti nítjándu aldar Bretlands, reiði sem hann tjáir í gegnum ógleymanlegar persónur og lýsingar á aðstæðum þeirra. Að mínu mati er þó Hard Times besta og áhrifamesta framlag höfundarins – ef einungis er tekið tillit til beinskeittrar samfélagsgagnrýni.

Hard Times er skipt í þrjá hluta og segir frá Thomas Gradgrind, ríkum kaupmanni sem býr í iðnaðarborginni Coketown á Englandi. Hann hefur helgað líf sitt „skynsemisheimspeki“ sem boðar að maður eigi að hugsa um eigin hag og sem tekur einungis mark á beinhörðum staðreyndum. Hann á tvö börn, Louisa og Tom, sem hann elur upp í þessari heimssýn. Hann stofnar svo skóla og ákveður að veita Sissy Jupe, ungri munaðarlausri stúlku, inngöngu. Við fylgjumst með börnunum vaxa úr grasi og þeim neikvæðu afleiðingum sem heimspeki Gradgrinds hefur á þau. Lousia giftist Bounderby, sem montar sig í sífellu yfir að vera eigin gæfu smiður og að hann hafi fæðst í ræsinu en sé nú ríkur (sem kemur síðar í ljós að sé lygi).

Við kynnumst einnig persónum eins og Stephen Blackpool, bláfátækum verkamanni sem á í vandræðum með að giftast ástinni sinni, Rachel. James Harthouse er ungur og upprennandi stjórnmálamaður sem kemur til Coketown til að læra undir Gradgrind en reynir að táldraga og spilla Louisu. Allt leiðir þetta til mikilla átaka og ástarsorgar sem fær Grandgrind – en ekki Bounderby – til að gefa heimspeki sína upp á bátinn og tileinka sér aðra lífssýn.

Þrátt fyrir að einnig megi finna harða gagnrýni á aðstæður verkafólks í gegnum sögu persónanna Stephen Blackpool og Rachel þá beinir Dickens helst spjótum að skynsemisheimspeki Gradgrind, sem Bounderby aðhyllist einnig. Augljóst er að þarna er á ferðinni nytjastefna (e. utilitarianism) Jeremys Bentham. Nytjastefnan er áhrifamikil siðfræðikenning enn í dag en hafði mun meiri áhrif um miðbik nítjándu aldar í Englandi þegar verkið er skrifað. Í stuttu máli gengur kenningin út á að ná fram „sem mestri hamingju fyrir sem flesta“, en þá er gert ráð fyrir að hamingja sé eitthvað sem hægt sé að reikna. Reiddu fylgismenn hennar sig einmitt mikið á tölur og gröf til að leggja dóm á siðferðislegar athafnir.

Þótt í Hard Times sé að sjálfsögðu á ferðinni karikatúr af kenningunni og fylgismönnum hennar, þá fangar skáldsagan samt sem áður alvarlega vankanta á henni og afhjúpar kaldlyndið sem hún getur leitt af sér. Athygli vekur einnig að af þeim tveimur, Gradgrind og Bounderby, þá er Gradgrind sá sem trúir þessari heimspeki af fullri alvöru – en Bounderby notar hana einungis til að réttlæta græðgi sína og ósiðlegar athafnir. Þótt hér sé á ferðinni gagnrýni á nytjastefnu öðru fremur þá er ljóst að gagnrýnin nær víðar. Dickens virðist einnig beina spjótum að útreikningum hagfræðinnar og hvernig hún er slitin úr tengslum við samfélagsleg sjónarmið. Stjórnmálahagfræðin (e. political economy) – eins og þessi fræðigrein var lengi vel kölluð – er sem sagt þarna byrjuð að umbreytast í hreina hagfræði sem horfir fram hjá ýmsum mannlegum og sögulegum þáttum – þróun sem hefur haft þekktar afleiðingar fram á okkar daga og við súpum enn seyðið af.

Hard Times er nokkuð ólík öðrum verkum Dickens. Hún er mun styttri og hnitmiðaðri, dýnamíkin á meira skylt með essayju en dæmigerðri skáldsögu frá þessum tíma. Verkið er miskunnarlaus satíra á hagfræði og nytjastefnu. Með eftirminnilegum persónum eins og Gradgrind og Bounderby dregur Dickens fram og ræðst á hættulegu geðveikina sem felst í því að sjá aðeins tölur og gröf – og ekkert annað. Undirliggjandi boðskapur Dickens er sá að einhverjir mikilvægustu sannleikar stjórnmálanna – og mannlegs samfélags yfirhöfuð – verða ekki fundnir og tjáðir með tölum og reikningi. Boðskapur sem á ekkert minna erindi í dag en árið 1854.

Jóhann Helgi Heiðdal

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram