Að kjósa með veskinu

Símon Vestarr Pistill

 

Þessu meme var dreift af mér og fleirum á Facebook daginn sem H&M opnaði og vísar til þess að mikið af vörum sem bera miðann “Made in China” séu framleidd af undirverktökum í Norður-Kóreu. Kína er á listanum yfir þau lönd sem framleiða vörur fyrir H&M. Auðvitað er það ekki einsdæmi. Framleiðsla neysluvarnings fer að miklu leyti fram í þriðja heiminum og H&M hefur ekki verið fyrirtækja verst í þeim efnum. Svokölluð conscious-lína þeirra leggur meira að segja áherslu á endurvinnslu. En tilgangur meme-sins var ekki að taka H&M sérstaklega fyrir. Vandamálið er ekki eitt fyrirtæki og vandamálið er ekki fólk sem vonast eftir að geta keypt föt á börnin sín fyrir veturinn án þess að þurfa að selja úr sér líffæri. Vandamálið er kapítalisminn.

Þegar maður kaupir sígarettur þarf maður að horfa upp á myndir af ónýtum lungum og tjöróttum tanngörðum og orðsendingar þess efnis að verknaðurinn sem maður sé að fara að fremja á sjálfum sér og nærstandandi sé morð. Enginn hefur að mér vitanlega séð slíka viðvörun og hugsað: „Sjitt! Þetta vissi ég ekki!“ og hent pakkanum í ruslið og hætt á staðnum. Tilgangurinn með þessu er að halda því sífellt til haga sem allir vita: reykingar eru óhollar. Að sama skapi er myndin af drengnum við saumavélina ekki hugsuð sem skyndileg opinberun á nýjum sannindum heldur áminning um það að hafa bak við eyrað hvaðan vörurnar sem við kaupum koma.

Viðbrögðin voru á ýmsan veg. Ég var krafinn um beina tengingu milli íslensku verslunarinnar og Norður Kóreu og spurður hvers vegna strákurinn væri ekki austur-asískur. Sumir, sem sé, misstu algjörlega af meginatriðinu. Margir náðu því hins vegar að um væri að ræða áminningu til okkar um að vera meðvituð um viðskiptahætti nútímasamfélags. Ég er ekki að kalla eftir því að búðin í Smáralindinni verði sniðgengin. Slíkar aðgerðir geta verið kraftmiklar þegar fjöldi fólks tekur sig saman en þá þurfa línur að vera skýrari. Og þótt við berum vissulega ábyrgð á því að velja vel þær verslunarkeðjur sem við eyðum peningum okkar í þá tel ég ekki að meginábyrgðin sé á herðum neytandans.

Á stjórnmálalega sviðinu er það í grófum dráttum svo að hver manneskja hefur jafnmikið vægi; einn maður, eitt atkvæði. Kjördæmaskipan skekkir þetta aðeins en segja má að algjört jafnræði sé viðmiðið. Þetta heitir lýðræði. Á efnahagslega sviðinu er hins vegar talsvert minna um lýðræði. Við ráðum því kannski að einhverju leyti í hvað opinber útgjöld fara en það er í gegnum kosningar á fulltrúum. Stefna þeirra er almenns eðlis og þegar þeir á annað borð lofa einhverju sértæku eiga þeir til að svíkja það. Hvað varðar einkageirann er ekkert lýðræði. Ef við eigum að kjósa með veskinu eiga hinir fjársterku alltaf eftir að standa betur að vígi. Og hvað er þá til ráða?

Sjáum samfélagið fyrir okkur eins og mannslíkama. Að taka verslunarkeðju sérstaklega fyrir og fordæma viðskiptahætti hennar er eins og að fjarlægja útlim vegna æxlamyndunar. Að taka kapítalismann sjálfan fyrir og bylta efnahagskerfi okkar með því að standa alltaf saman þegar auðvaldið færir út kvíarnar er eins og að lækna krabbameinið algjörlega. Þær tilfinningar sem vakna við að sjá mynd af barnungri manneskju í vinnuþrælkun eiga að knýja okkur til að vera virk í baráttunni gegn ranglæti á heimsvísu. Við þurfum ekki samviskubit heldur samkennd og réttlætisvitund. Enginn sem verslar í H&M þarf að taka svona meme inn á sig sem persónulega árás heldur sem áminningu um að sofna ekki á verðinum.

Símon Vestarr

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram