Kapítalisminn og ég

Sólveig Anna Jónsdóttir Pistill

Kapítalisminn er krísan. Þegar ég segist ætla að grafa honum gröf réttir hann mér skeið og flissar; byrjaðu að moka, ræfilstuska.

Kapítalisminn er krísan.

Í Bandaríkjunum, höfuðstöðvum sjálfs verkefnisins, ríkir hann nú yfir viðurstyggilegu samfélagi hræðilegrar efnahagslegrar misskiptingar, þar sem fólk er miskunnarlaust fangelsað, jafnvel myrt, fyrir engar sakir aðrar en að vera svart og fátækt, þar sem alþýðan sækir af hrikalegri fíkn í lyf sem lina þjáningar hennar og gera henni kleift að flýja úr brútal veruleika arðránsins um stund, þar sem venjulegt fólk hefur ekki efni á að koma börnum sínum til mennta nema sökkva sér í skuldafen, þar sem alþýðan hefur ekki aðgang að mannsæmandi heilbrigðiskerfi, nema reiða fram fúlgur fjár, annars skuli hún þjást, þar sem siðferðislegur níhilismi gróðavæddrar fals-kristninnar hefur æst upp í fólki löngun til flýta Ragnarrökum, æst upp þann aumkunarverða sadisma sem fær fólk til að ganga um vopnað byssum, í þeim einum tilgangi að ógna og hræða.

Þar sem sturlaðir hvítir karlmenn fara nú um, innblásnir af Anders Breivik, innblásnir af Richard Spencer og Steve Bannon, innblásnir af Ayn Rand og Patrick Bateman, innblásnir af Front National og Svíþjóðardemókrötunum, innblásnir af öllum þessum hetjum þjóðernishyggjunnar; hins viðbjóðslega uppvaknings sem bíður aldrei eftir nokkru öðru en næstu stóru krísu kapítalistanna til að trampa af stað, sjálft rotnandi hræið af Fulltrúalýðræðinu. Innblásnir af Hitler og auðvitað ofurkapítalistanum í Hvíta húsinu, þessari mannlegu afskræmingu, þessu sjúka fyrirbæri úr marmaraturninum, þessum boðbera og hraðara eyðileggingar á heimsvísu, þessum Appelsínugula Kóngi, skilgetnu afkvæmi Crimson King, mögnuðum upp úr myrkustu afkimum mannlegs ímyndunarafls.

Kapítalisminn er krísan.

Hann er stjórnlaus; hann byggir lúxusíbúðir á tveimur hæðum með plássi fyrir golfsettið, í miðri risavaxinni húsnæðiskreppu þar sem fólk er á vergangi, húsnæðiskreppu orsakaðri af honum sjálfum, orsakaðri af nýjustu efnahagsuppsveiflu auðvaldsins sem er nú í óða önn að sölsa undir sig restirnar af samfélaginu, orsakaðri af endalokum síðustu uppsveiflu, svokölluðu Hruni, þegar alþýðan missti heimili sín í klærnar á hinni efnahagslegu yfirstétt, sem fann svo leið til að hámarka gróðann á eftirlitslausum húsnæðismarkaði með því að leigja vistarverur almennings almenningi, á uppsprengdu verði, eftir lögmálinu Framboð og Eftirspurn.

Kapítalisminn er krísan.

Rotnunin byrjar að grassera, við förum að taka umræður um hælisleitendur að stela húsnæði af gömlu fólki, um innflytjendur sem beri ábyrgð á þeim svívirðilegu upphæðum sem öryrkjar fá til að lifa af, um múslima sem hafi aðeins afbrigðilegar ástæður fyrir því að setjast hér að, hvers konar fólk vill eiginlega búa hér með okkur? Við förum að taka umræður um af hverju þeim sem standa neðst í goggunarröðinni sé ekki potað enn neðar, allar holur má jú dýpka og sjórinn, hann tekur endalaust við; tökum umræðuna um að breyta Hafinu í hlutafélag um rekstur Heimsins stærstu fjöldagrafar.

Kapítalisminn er krísan. Hann er ótrúlegur. Hann býr til pláss fyrir allskonar, hann er mjög hrifinn af allskonar; hann er td. hrifinn af því að hleypa öllum konum út til að selja aðgang að vinnuaflinu sínu, svo lengi sem þær konur sem gæta barna alvinnusamfélagsins hafi rétt nóg til þess það að félagsleg endurframleiðsla sé möguleg, hann breytir okkur í hryssur og kallar reiðtygin sín Frelsi, hann kennir okkur að vinna átta tíma, tíu tíma, tólf tíma, fjórtán tíma, hann -byggir nýjan heim með höndum snauðra kvenna í öllum löndum-.

Kapítalisminn er krísan. Hann nærist á því að tryggja að við höldum okkur á réttum stað í kúgunarstigveldinu þar sem staða okkar byggist á að við stöndum á bökum annara; að við séum meðsek í kúgun á þeim sem eru fátækari en við, algjörlega sek í því að gera tilveru gríðarlegs fjölda fólks verri og hættulegri með lifnaðarháttum okkar, algjörlega sek um það að berjast ekki með kjafti og klóm gegn kapítalismanum sem nú birtist okkur æ oftar í sínu skelfilegasta formi; Beinabryðjarinn, algjörlega sek um að vera svo upptekin af eigin stöðu að við missum getuna til að upplifa samkennd með þeim sem þjást í auðn allsleysisins, að vera svo upptekin af sjúklegri hlutagirndinni að við hættum að girnast fólk.

Kapítalisminn er þyngri en tárum taki. Hann er kremjarinn mikli. Hann hefur skipt auðæfum heimsins upp þannig að átta menn, sennilega af holdi og blóði, hafa nú lagt hald á helming þeirra, til að ríkja yfir tortímingu Veraldar, trylltir megalómanar sögunnar og skáldskaparins eiga ekkert í þessa átta, þessa drottnara sturlunar og úrkynjunar.

Við, stödd akkúrat hér í ofbeldissambandinu sem okkur var kennt að kalla Siðmenningu, kröfsum og klórum í bakkann, til að hrapa ekki niður, niður á botninn til hinna algjöru öreiga, þangað sem stórum hluta mannkyns hefur verið komið fyrir af æðisgengnum kvalalosta, án nokkurra björgunarmöguleika, án stiga, af því efniviðurinn úr stiganum var notaður í súluna sem aðeins siðblindustu, grimmustu, eitruðustu eintök mannskepnunnar geta klifið.

Kapítalisminn er krísan. Hann er tímaþjófurinn, landþjófurinn, píkuþjófurinn, ástarþjófurinn, fegurðarþjófurinn, unaðsþjófurinn, manneskjuþjófurinn. Hann spyr aldrei um leyfi, íklæddur fjöldaframleiddum bol með áletruninni Samþykki er sexí herðir hann tökin og hámar í sig öryggisorðin þín; þjáning, þreyta, uppgjöf, sorg, óréttlæti, eyðilegging.

Kapítalisminn er krísan.

Mig langaði bara að segja það. Mig langaði bara svo að opna munninn og láta staðreyndina detta út úr honum, sjá hana iða á gólfinu, eins hrollvekjandi og heimsins stærstu margfætlu; ógeðslega kúgun og niðurlægingu aldanna, svo viðbjóðslega að getuleysi mitt hyrfi og ég gæti kannski horfst í augu við Mannakremjarann, Náttúrukremjarann, Ástarkremjarann, án þess að bugast í smæð minni og vesældómi, að ég gæti kannski rétt úr mér, að ég gæti kannski leyft stéttastríðinu að flæða um líkamann eins og Viagra eldmóðsins, og vopnuð engu nema sögunni sem er besti kennarinn og byltingunni sem er besti skólinn, sjálf byrjað að kremja Kremjarann.

Sólveig Anna Jónsdóttir

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram