Frelsi til að éta það sem úti frýs
Pistill
30.08.2017
„Hvert er gildi tjáningarfrelsis þegar við höfum ekkert merkilegt að segja lengur? Til hvers er fundarfrelsi þegar við upplifum engar tengingar lengur? Hvaða tilgangi þjónar trúfrelsi þegar við trúum ekki á neitt lengur?“ -Rutger Bregman
Ekkert orð er eins mikið misnotað af áróðursmeisturum og orðið frelsi. Oft læðist reyndar að manni sá grunur að það sé fullkomlega merkingarlaust. Hvernig gæti nokkurt hugtak haft einhverja þýðingu ef Páll postuli, William Wallace og Hannes Hólmsteinn Gissurarson aðhyllast það allir? Skoðum aðeins hvernig frjálshyggjumaður eins og John Stuart Mill skilgreinir frelsi almennings: Ég má gera það sem ég vil á meðan það sem ég geri heftir ekki frelsi þitt til að gera það sem þú vilt. Frelsi er sem sagt nánast aldrei algjört. Einu mennirnir sem búa við óheft frelsi eru einræðisherrar.
Afnámssinnar börðust fyrir frelsi þræla, sem takmarkaði frelsi plantekrueigenda til eignarhalds á fólki. Súffragettur börðust fyrir frelsi kvenna til að taka þátt á stjórnmálasviðinu, sem takmarkaði frelsi karlmanna til að ráðstafa konum eins og búfénaði. Mannréttindasinnar börðust fyrir frelsi hörundsdökkra til að notast við sömu samgöngur, skóla, verslanir og drykkjarpósta og hvítt fólk, sem hefti frelsi þeirra hvítu manna sem vildu vera lausir við allan samgang við blökkumenn. Allt ofantalið er barátta fyrir pólitískum réttindum og útkoman er alltaf sú að undirokaður hópur öðlast aukið frelsi með því að takmarka frelsi ráðandi hóps til að kúga hann. Mannréttindabarátta snýst því í raun ekki um takmarkalaust frelsi heldur jafnvægi.
Munurinn skiptir miklu máli. Frelsisorðræða sú sem við ölumst upp við er lituð af einstaklingshyggju. „Skiptu þér ekki af mér og þá mun ég ekki skipta mér af þér.“ Slíkur hugsunarháttur verður til brotakenndrar útkomu. Við erum öll tengd. Þegar Martin Luther King segir að ranglæti gagnvart einni manneskju á einum stað sé brot gegn öllum alls staðar þá talar hann út frá heildarhyggju sem sárvantar í stjórnmálaumræðu nútímans. Hann er ekki að láta í ljós tilfinningasemi heldur að tjá heilbrigða skynsemi. Í tímaritinu Annals of the New York Academy of Sciences árið 2004 skrifar sérfræðingur í félagslegri faraldursfræði, Richard Wilkinson, um það að því ójafnari sem samfélög eru, því meira er um ofbeldisglæpi innan þeirra. Það að auka við frelsi kúgara eins og þrælahaldara og einræðisherra býr til spennu og úlfúð á meðan það að auka við frelsi þeirra sem minna mega sín stuðlar að jafnvægi og samhug. Um þetta eru flestir sammála.
Hvernig stendur þá á því að við látum ljúga því að okkur að frelsi eignamanna þurfi að vera algjört?
Frelsið sem Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks & Samsekra býður okkur upp á er innantóm skel. Manni sem á engan pening er frjálst að kjósa, stunda kynlíf með fólki af hvaða kyni sem er og skrifa lesendagreinar um hardkor pönk. Þetta er pólitískt frelsi. Honum er hins vegar ekki frjálst að fara til tannlæknis, leigja sér íbúð eða nærast almennilega. Til þess þarf hann peninga. Það er efnahagslegt frelsi. Hvernig í ósköpunum geta sum okkar verið sammála um hið fyrrnefnda en skítsama um hið síðarnefnda? Hver laug því að okkur að frelsi hefði einhverja merkingu undir haug af ógreiddum reikningum og af hverju trúðum við því? Hægt væri að kalla þetta „frelsið til að éta það sem úti frýs.“ Að hafa algjört stjórnmálalegt frelsi en búa við fjárhagslegt óöryggi er eins og að fara að leika sér á knattspyrnuvelli án bolta. Hvað á maður að gera? Naga stangirnar?
Frelsi án réttlætis er sjónhverfing. Í nýfrjálhyggjusamfélagi rætist orðskviður Kris Kristofferson að frelsið sé bara annað orð yfir það að hafa engu að tapa. Á meðan við göngumst við þeirri forsendu verður stjórnmálaumræða eintómt prump og tjáningarfrelsi okkar einskis nýtt.
Símon Vestarr