Ó fögnuður við Austurvöll

Hallfríður Þórarinsdóttir Pistill

Ég labbaði niður í bæ fyrr í dag til að sjá ófögnuðinn; prósessjón valdstjórnarinnar marsera frá Dómkirkju yfir í Alþingishús við setningu haustþings 2017. Þetta var sennilegast einhverntíma á dögum risaeðlanna virðuleg fylking, það er liðin tíð. Það er ekkert virðulegt við fólk sem dubbar sig upp í sitt fínasta púss (eða drag eins og biskupinn) en stendur svo í starfi sínu fyrir því að fótumtroða grunnstoðir velferðakerfisins, sem tryggja eiga fólki mannsæmandi líf í landinu. Þarna gengu öll æðstu embætti lýðveldisins, forseti, biskup, ríkisstjórn, þingmenn já og Hæstiréttur (öll sú karlaklíka með tölu) fylktu liði. Samþjöppun valdins á einum og sama landfræðilega blettinum.

Valdinu til varnar var búið að reisa girðingar milli Austurvallar og Alþingishúss og allt í kringum þinghúsið, fjöldi einkennisklæddra lögregluþjóna stikuðu fram og aftur Kirkjustrætið í viðbragðstöðu. Í svartgljáandi Reinsróverum innar í götunni sátu sérsveitarmenn, að líkindum vopnaðir. Aðgengi að áhorfendapöllum Alþingis var lokað almenningi. Handan girðingar á Austurvelli voru nokkrir tugir friðsamra borgara, sem stóðu mótmælendavaktina, svona rétt til að minna pótintátana á tilvist sína; að hér í rjómaríkinu væru sumir fulltrúar hinna mergsognu enn með meðvitund um að ekki væri allt í kei-inu. Að við værum kannski ekkert rosalega hress með einkavæðingu heilbrigðiskerfisins og hungurvofuna sem hangir yfir Lansanum og búið er að tilkynna að standi vaktina í vetur, neyðarástandið á húsnæðismarkaði, stjórnlausri þenslu í hagkerfinu, siðlausum mannréttindabrotum gegn hælisleitendum, hylmingum yfir barnaníðingum og svona ýmsu öðru smálegu. Sumir sögðu bö og pú og sá sem dýpst tók í árinni  var drukkinn maður, sem öskraði: „Afhverju þarf þetta lið löggæslu? Þetta hyski, sem gerir ekki annað en ræna og rupla.“  Góð spurning, já hvers vegna þarf þetta lið að verjast þeim sem það á að þjóna?

Þegar dyr þinghússins lokuðust að baki síðustu handhöfum valdsins, hvarf sauðsvartur almúginn á braut. Eftir stóðu nokkrir lögregluþjónar og flettu í símanum hjá sér, kannski að tékka á feisbúkk.

Sem ég stóð þarna á þessum mjög svo óskipulögðu og óformlegu mótmælum velti ég fyrir mér hvað það væri, sem þyrfti til að ná fram einhverjum grundvallarbreytingum á undirstoðum samfélagsins, sem valdstjórnin nú og þá hefur svo ötullega einbeitt sér að höggva í, stundum hægt, stundum hratt og örugglega. Mótmæli ein og sér breyta ekki miklu og mótmæli sem þessi breyta afskaplega litlu, held ég. Og þó, mótmæli gegn misskiptingu og ójafnræði eru oft litla þúfan sem veltir stóra hlassinu og þess vegna virka þau.

Mótmæli gegn valdníðslu valdstjórnarinnar hafa mátt sín lítils á undanförnum misserum. Þau hafa vissulega haft áhrif en alls ekki nóg. Ef fólk vill sjá raunverulegar grundvallarbreytingar þá þarf að mótmæla með mun kröftuglegri hætti, sem byggir á markvissu skipulagi og samstarfi margra hreyfinga sem sameinast í aðgerðum. Það gerist ekki af sjálfu sér. Með fullri virðingu þá er ekki nóg að vera með eitthvað gítargutl, raul og mis(vel)lukkaðan ljóðalestur, það þarf að virkja orkuna, sem býr í óánægjunni, gremjunni hjá fólkinu sem upplifir aðförina að velferðarkerfinu á eigin skinni.

Ef heldur fram sem horfir þá munu pólitískir leiðtogar landsins halda ótrauðir áfram að mylja undan opinberri heilbrigðisþjónustu, og gefa „fjársterkum aðilum“ enn lausari tauminn hvort heldur sem er á húsnæðismarkaði, vinnmarkaði eða annars staðar.

Ef meiningin er að láta stjórnendur heyra óánægjuraddir þá þarf augljóslega að hækka í botn. Kurteislegar lágstemmdar kröfur duga ekki til. Valið og valdið er hjá okkur, borgurunum, lýðnum sjálfum.

Hallfríður Þórarinsdóttir

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram