Fjármálavitleysa.is
Pistill
13.09.2017
Á heimasíðunni fjarmalavit.is má lesa um verkefni sem samtök fjármálafyrirtækja (SFF) og Landssamtök lífeyrissjóða (LL) standa fyrir. Verkefnið gengur út á að standa fyrir fræðslu í grunnskólum um einstaklingsfjármál og hefur í þeim tilgangi verið útbúið námsefni og glærusýning sem grunnskólum er boðin án endurgjalds. Á heimasíðunni má sjá að yfir 100 skólar hafa tekið þátt og upptökur af nemendum sem farið hafa í gegnum ferlið eru notaðar til að kynna starfsemina.
Fyrirferðarmikill hluti námsefnisins er verkefnið „Hvað kosta ég?“ en þar eiga börnin beinlínis að meta sjálf sig til fjár út frá því hvað flíkur og aðrir hlutir sem barnið er með á sér kostuðu. Svona samkvæmisleikur er ekki saklaus meðal barna. Hann upphefur börn yfirstéttarinnar og lýsir svo lítilli innsýn inn í veruleika barna efnalítilla foreldra að það er með ólíkindum að enginn skuli hafa stoppað þetta af áður en farið var í gang með hringferð um grunnskóla landsins. Mætti halda að efni sem kostað er af bankakerfinu sé undanþegið Olweus-áætlunum skólanna gegn einelti.
Borgin hefur áður réttilega úthýst fyrirtækjum sem vilja gefa börnunum gjafir sem bera auglýsingu frá fyrirtækinu. Þó finnst borginni allt í lagi að gefa fyrirtækjum vald til að skrifa námsefni um eigin verksvið til kennslu í skólum borgarinnar. Börnin sitja þessa tíma sem hluta af skólaskyldu sinni; þeim er beinlínis lögformleg skylda að taka þátt. Í mínum augum er það algjör misbeiting valds að gefa einkafyrirtækjum á þennan hátt færi á að beita fyrir sér skólaskyldunni í markaðsstarfi sínu.
Þegar skoðað er hvaða boðskap SFF og LL eru að mata í börnin þá verður augljóst hversu óheppilegt er að aðilar með svo ríka hagsmuni standi fyrir verkefni af þessu tagi. Á glærusýningunni eru börnin meðal annars hvött til að nota kort frekar en reiðufé, þau eru vöruð við lánaskilmálum annara lánveitenda en aðildarfyrirtækja SFF, þau eru hvött til að leggja fyrir á bankareikningum, áminnt um mikilvægi þess að borga í lífeyrissjóð og hvött til að vinna með skóla. Hér er um hreinræktaða markaðssetningu að ræða undir yfirskini fræðslu.
Hvort sem er litið er til glærusýningarinnar eða efnisyfirlitsins í námsefninu virðist ekki á neinum tímapunkti vera talað um verðbólgu eða verðtryggingu. Enginn sem hefur lifað nokkra áratugi af íslenskum efnahagsraunveruleika ætti að fara í neinar grafgötur um að verðbólga er höfuðáhættan sem fylgir sparnaði í íslenskum krónum. Að velja að láta hana ónefnda í hvatningu til barna um að leggja fé sitt fyrir á bankareikningi væri vítavert gáleysi í hlutlausri fræðslu, en í markaðskynningu fjármálafyrirtækjanna er erfitt að sjá þetta sem annað en vísvitandi blekkingu.
Sérstaklega verður að huga að því að laun barna eru mjög lág, en félagslegt gildi lágra upphæðar umtalsverð. Ég man eftir að hafa lagt 5 þúsund krónur af afmælispeningum mínum í 5 ára spariskírteini ríkissjóðs sem tíu ára gutti sem var móttækilegur fyrir sjónvarpsauglýsingum um slíkt. 15 ára gamall fékk ég um 10 þúsund krónur útborgaðar, en þó slíkt hafi vissulega verið óvenjugóð ávöxtun var 5 þúsundkallinn miklu stærri upphæð í lífi mínu sem 10 ára stráks en 10 þúsund krónur voru í lífi mínu sem 15 ára unglingur. Sama hefði aftur verið uppi á teningnum næstu 5 árin þar á eftir og næstu 5 árin þar á eftir. Ekki fyrr en ég fór að fá laun sem fullorðinn einstaklingur í fullri vinnu fór að vera neitt vit í því fyrir mig að leggja fyrir, í þeim skilningi að félagslegt gildi upphæðarinnar væri meira fyrir mig eftir að hún hafði ávaxtast.
Annað sem ástæða er til að staldra við er siðferðisleg staða kennaranna sem taka þátt í svona verkefni gagnvart nemendum sínum. Nemendur eiga að geta treyst kennurum sínum og uppbygging trausts er afgerandi hluti af starfi kennara. Fyrir vikið eru nemendur oft mun síður gagnrýnir á upplýsingar sem þeir fá í gegnum kennara sína. Með þátttöku sinni ljá kennarar trúverðugleika sinn verkefninu sem aftur gerir enn ríkari kröfur til þeirra um að þeir aðstoði nemendur sína við að vera gagnrýnir, t.d. draga inn í umræðuna vinkla sem nemendur kannski eiga erfitt með að sjá sjálfir. Í því ljósi er ömurlegt að lesa á heimasíðu verkefnisins að óleyfilegt sé að gera neinar breytingar eða viðbætur við efni verkefnisins. Kennarar eiga greinilega að aðstoða SFF og LL við að mata nemendurna á boðskap samtakakanna, ekki hafa sjálfstæða stjórn á ferlinu.
Á nánast farsakenndan hátt kristallar þetta verkefni kapítalíska menntastefnu. Við sem viljum annað samfélag þurfum að gera betur en aðeins að úthýsa auglýsingum í námsefnisbúning úr skólakerfinu. Við þurfum menntakerfi sem hvetur börnin til að standa saman, tileinka sér lífsmarkmið sem ná út fyrir neyslukapphlaupið og vera gagnrýnin á valdið. Við getum ekki búist við að bankakerfið muni kosta slíkt menntakerfi. Nei, við þurfum að skapa það saman.
Héðinn Björnsson