Starfsgetumat fyrir hverja?
Pistill
19.09.2017
Uppkast að starfsgetumati eins og það liggur hjá stjórnvöldum hentar ekki öryrkjum. Hins vegar hefur ekki verið hlustað á gagnrýni Öryrkjabandalagsins á drög að frumvarpi sem m.a. fjallar um starfsgetumat. Þó stendur til að þvinga starfsgetumatinu upp á öryrkja. Drögin að frumvarpinu virðast samin fyrir stjórnvöld. Það á greinilega að spara og þrengja enn frekar að velferð öryrkja.
Búið er að vinna að þessu máli hjá stjórnvöldum í nokkur ár. Skýrsla um málið kom út árið 2015. VIRK starfsendurhæfingarsjóður fól Lögmönnum Laugavegi 3 það verkefni í febrúar 2013 að yfirfara löggjöf og reglur um réttindi þeirra sem missa starfsgetu vegna heilsubrests. Leggja skyldi fram tillögur um það hvar í löggjöf þyrfti að grípa inn í og hvernig breyta mætti örorkumati, eins og það tíðkast nú, í starfsgetumat. Samkvæmt frumvarpsdrögunum skal útkoma starfsgetumatsins, sem vinna á eftir, vera byggð á tillögum úr skýrslu frá Lögmönnum Laugavegi 3 sem Lára V. Júlíusdóttir lögmaður vann.
Enginn fulltrúi öryrkja
Hvernig er hægt að líða það að svona mikilvægt hagsmunamál öryrkja byggi á útkomu á tillögum frá einni manneskju, einum lögmanni? Af hverju er þetta ekki fyrst og fremst byggt á tillögum fulltrúa öryrkja?
Í sumar skipaði Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttisráðherra svo faghóp um nánari útfærslu á starfsgetumati. Í faghópnum er ENGINN fulltrúi frá Öryrkjabandalagi Íslands. Hins vegar er fulltrúi frá samtökum aðila vinnumarkaðarins, frá Vinnumálastofnun, frá Tryggingastofnun, frá VIRK og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
Stafsgetumatið fjandsamlegt öryrkjum
Drögin að nýju starfsgetumati eins og þau liggja hjá velferðarráðuneytinu eru að mati Öryrkjabandalagsins svo meingölluð að bandalagið getur alls samþykkt þau. Ekki sé einu sinni skýrt í drögunum hvað starfsgetumat feli í sér. Þá hafi engar þær kerfisbreytingar orðið sem séu forsendur slíkra breytinga.
Heilsa öryrkja er mismunandi. Öryrki sem getur verið góður í nokkra mánuði gæti komið sæmilega út úr starfsgetumati. En hvað gerist ef hann veikist aftur? Verður hann þá rekinn úr vinnunni sem hann hafði fengið? Hvað ef atvinnurekandanum líkar ekki við öryrkjann og hann missir vinnuna? Svo virðist sem að þá eigi öryrkinn bara að fara á atvinnuleysisbætur og síðan á framfærslu sveitarfélaga. Nei, kerfið eins og það liggur fyrir er fjandsamlegt öryrkjum.
Og hverjar eru þá skyldur atvinnurekandans í þessu ferli? Skyldur atvinnurekandans eru engar. Það eru engin ákvæði í frumvarpsdrögunum um skyldur vinnuveitenda, til dæmis til að laga sig að einstaklingum með skerta starfsgetu. Í dag er vinnumarkaðurinn, bæði opinberi og almenni geirinn, ekki reiðubúinn að veita fólki með skerta starfsgetu hlutastörf eða bjóða upp á sveigjanlega í starfi. Því er ljóst að fjöldi fólks með skerta starfsgetu verður áfram án atvinnu ef ekki verður farið í frekari aðgerðir af hálfu stjórnvalda, samtaka atvinnulífsins, stéttarfélaga, sveitarfélaga og tengdum aðilum til að bæta aðgengi fólks með skerta starfsgetu.
Virkt samfélag
Það skal tekið fram að Öryrkjabandalagið er ekki að slá starfsgetumat út af borðinu og hefur skilað tillögum að heildstæðu kerfi starfsgetumats og framfærslu á grundvelli þess. Tillögurnar voru lagðar fram í greinargerð sem kom út á síðasta ári. Greinargerðin ber heitið Virkt samfélag og var unnin af fjölda sérfræðinga. Í greinargerðinni kemur fram að uppfylla þurfi nokkur skilyrði áður en innleiðing starfsgetumats geti hafist. Fyrst þurfi að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og samþykkja lög sem banna mismunun. Þá þurfi að tryggja fjölbreytt úrval hlutastarfa og starfa með ákveðinn sveigjanleika áður en starfsgetumat verði tekið upp.
Katrín Baldursdóttir