Hvað gerist næst?
Pistill
22.09.2017
Greining á stöðunni í stjórnmálunum hér á Íslandi eftir kosningarnar 2016 en fyrir stjórnarmyndun Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar gaf þá niðurstöðu að Sjálfstæðisflokkurinn væri í hættulegri stöðu stöðu. Hann hefði fengið of mikið fylgi í kosningunum til að geta skýlt sér á bak við neinn þann flokk sem hefði burði til að skýla flokknum. Framsóknarflokkurinn gegndi því hlutverki á tímabilinu 2013-2016. Ósk Sjálfstæðismanna eftir kosningarnar 2016 var að fá Vinstri græn í stjórnina, sá flokkur hefði einn þá burði sem dygðu til að skýla starfsemi Sjálfstæðismanna. Vinstri græn neituðu að fara í stjórn með Sjálfstæðisflokknum. Í staðinn mynduðu Sjálfstæðismenn stjórn sem var til málamynda með Viðreisn og Bjartri framtíð, en málefnasamningurinn var afar einhliða: Sjálfstæðismenn fengu öll sín mál fram og hinir flokkarnir engin. Í framhaldi af því spáðu margir því að stjórnin yrði skammlíf og það er komið á daginn. Einræðisstjórn Sjálfstæðismanna gengur sem sagt ekki upp í kerfi þar sem formlegt lýðræði er fyrir hendi. Það er ákveðin niðurstaða, en hún var svo sem algerlega fyrirsjáanleg.
Enn er sem sagt staðan sú sama og í janúar 2009. Gamla stjórnmálakerfið er fallið en nýtt er ekki komið í staðinn. Breytingar í stjórnkerfum geta verið af ýmsu tagi. Nefna má byltingu, þá tekur ein stétt völd af annarri. Því fylgja grundvallarbreytingar á öllum þáttum menningar, efnahags, mannlífs og hugmyndaheims. Slík bylting varð t.d. í Frakklandi 1789, Rússlandi 1917 og Kína 1949. Þá má nefna samfélagssáttmála af því tagi sem gerður var á Norðurlöndum á millistríðsárunum. Þar samþykkti yfirstéttin að koma verulega til móts við lágstéttirnar innan ramma kerfis sem var fyrir hendi. Álíka breytingar urðu um aðra hluta Vestur-Evrópu 1945. Yfirstéttin lét um skeið af ýtrasta hernaði sínum gegn lágstéttunum og samþykkti að ganga til móts við þær.
Einhliða uppsögn
Yfirstéttin sagði þessum sáttmála síðan einhliða upp um 1980 og réðst gegn lágstéttunum í nýrri herferð. Sú herferð er ýmist kennd við hina heilögu þrenningu alþjóðavæðingu, einkavæðingu og fjármálavæðingu, eða kölluð nýfrjálshyggja. Þetta er önnur tegund breytingar innan kerfis, breyting þar sem ráðandi öfl ákveða að taka til baka ávinninga sem verkalýðsstéttin ávann sér. Þetta gerðist við aðstæður þar sem hið ráðandi stjórnmálalega forræði, sjálf stéttasáttin, lá undir miklum þrýstingi frá lágstéttunum sjálfum. Sá þrýstingur birtist m.a. í uppreisninni í Frakklandi 1968. Hér á landi mátti jafnvel greina um 1980 verulega óánægju með skipan mála. Verkalýðsstéttin var óhress með þá framtíðarsýn að þræla í frystihúsum fyrir auðvaldið um alla framtíð. Hún vildi annars konar framtíð.
En það er annað mál. Nú er kapítalisminn á Íslandi í kreppu sem er dýpri og alvarlegri en víðast hvar annars staðar. Sú kreppa er hugmyndafræðileg, það gengur ágætlega í efnahagslífinu en óánægjan með ráðandi stjórnmálakerfi er mjög mikil. Ástæðan er hrunið 2008. Nær allar undirstöður ráðandi hugmyndafræði brustu vegna hins algera og skyndilega hruns efnahagskerfisisns, og vegna þess að verkalýðsstéttin gerði uppreisn. Víðtæk fjöldahreyfing fór af stað. Fjöldi manna og kvenna tók þátt í skipulagsstarfi í tengslum við mótmælin og öðlaðist við það reynslu og sjálfstraust sem það hefur ekki gleymt. Ísland er ennþá veikasti hlekkurinn í keðju kapítalísku ríkjanna, eins og þar var 2008. Vald kapítalsins hér á landi til að mynda nýjan samfélagssáttmála, annað hvort sátt um áframhaldandi sókn yfirstéttarinnar gegn lágstéttinni, eða sátt um miklar félagslegar umbætur í skiptum fyrir hlýðni verkalýðsstéttarinnar við kúgara sína líkt og 1930-1940 er takmarkað. Til þess er afl fjöldahreyfingarinnar of mikið. Hún hefur eflst stig af stigi og tekið æ stærri skref í átt til að skipuleggja sig pólitískt.
Helsta von kapítalismans
Nú er svo komið að helsta von kapítalismans á Íslandi er að Vinstri græn taki að sér stjórnarforystu með einhverjum hætti. Það gæti gerst þannig Vinstri græn gengju til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn á svipuðum forsendum og Framsóknarflokkurinn 2013, með umbótaáætlun og forsætisráðherraembætti. Vandinn við þá lausn er að Vinstri græn myndu að líkindum missa mjög fljótt allt fylgi og ástandið yrði eftir nokkra mánuði svipað og það var nú í haust. Eða það gæti gerst þannig að Vinstri græn myndu leiða vinstri stjórn, t.d. VG, Pírata, Samfylkingar og einhverra fleiri, eftir því sem þingstyrkur eftir kosningar segði til um. Vandinn er að mynda slíka stjórn. Ekki virðist fyrir hendi samstaða í forystu þessarra flokka um forgangsröðun í mögulegri umbótastjórn, sem þó er mikill og almennur vilji til að mynda.
Stefna Pírata er of óskýr, ef svo má að orði komast. Þeir leggja mikla áherslu á endurskoðun stjórnarskrárinnar, raunar höfuðáherslu, og er það í takt við það sem þau kalla grunnstefnu sína, en hún snýst nær eingöngu um formleg réttindi einstaklinga gagnvart ríkisvaldinu, og þar er að finna yfirlýsingar um að miðstjórnarvaldið megi ekki vera sterkt. Vilja þeir efla velferðarkerfið? Það er ekki ljóst, en sterkt miðstjórnarvald (sem getur skattlagt yfirstéttina til að greiða fyrir velferðarkerfið) er forsenda fyrir því. Þó hafa þeir lýst yfir vilja til að efla ríkisrekna heilbrigðiskerfið. Þeir telja sig vera nútímalegan flokk, merki eru um að sjálfsmynd þeirra sé sú að þeir hafi lagt að baki (það sem þau telja) hina úreltu skiptingu í vinstri og hægri, líkt og Macron í Frakklandi, en í Frakklandi er það ekkert annað er ávísun á árásir á réttindi verkafólks og afturhaldspólitík. Áhersla Pírata á slíka póst-pólitík er raunar af öðrum rótum runnin, tilraun til að komast út úr sjálfheldu sósíaldemókrataflokka á tímum blerisma, og á sér hliðstæðu í málflutningi Podemos á Spáni.
Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki sjá Pírata, og Píratar ekki Sjálfstæðismenn. Forystu VG virðist helst ekki heldur vilja vinna með Pírötum, sem ef til vill á sér rætur í hinum tröllauknu átökum áranna 2009-2013 milli fjöldahreyfingar og „vinstri“ stjórnar. Píratar eru þrátt fyrir allt á ákveðinn hátt fulltrúar uppreisnarinnar 2008-2009, flokkur sem varð til á þeim grundvelli og verður, alla vega ekki strax, gerður „ábyrgur“ og kerfislægur líkt og t.d. Græningjar í Þýskalandi upp úr 1980.
Fortíðarvandi
Vinstri græn eiga við að stríða mikinn fortíðarvanda. Þótt flokkurinn hafi nú um sinn rúmlega fimmtungs fylgi, að líkindum verkalýðsfylgi að langmestu leyti, þá er forystan enn hin sama og í hinni skelfilegu „vinstri“ stjórn 2009-2013. Katrín Jakobsdóttir er að vísu orðin formaður í stað Steingríms J. Sigfússonar. Flokkurinn hefur er vaxinn upp úr umhverfishreyfingu og kvennahreyfingu en hefur alls ekki náð að skjóta rótum í fjöldahreyfingunni frá vetrinum 2008-2009. Það var meðal afreka flokksins í stjórninni 2009-2013 að leggja þau tengsl í rústir. Vinstri græn eru líka flokkur sem barði niður vinstri arm sinn 2009-2013, eins og Jón Torfason lýsir vel í nýlegu riti. Vinstri græn standa því uppi sem flokkur með trausta forystu (a.m.k. í margra augum), verulegt fjöldafylgi en án rótfestu í fjöldahreyfingunni frá 2008-2009 og án vinstri arms. Góð tengsl við fjöldahreyfinguna eða grasrótina eru mikilvæg til að mynda umbótastjórn sem sátt næst um, a.m.k. um tíma. Vinstri græn hafa fælt frá sér marga virka vinstri sinna sem áður störfuðu innan flokksins, en forystan er traust því flokkurinn er kerfislægur og „ábyrgur“, þ.e. hann er í bandalagi við yfirstéttina. Hann hefur sem sagt ákveðna rótfestu í hinu kapítalíska ríkisvaldi.
Þetta er sérstaklega áberandi úti á landsbyggðinni, þar sem flokkurinn er að hluta til fulltrúi atvinnurekenda í hinum ýmsu byggðum, eins konar hliðar-Framsóknarflokkur með öðrum orðum. Vandi flokksins er að hann getur ekki farið of augljóslega inn á þá braut að reka þá niðurskurðarstefnu sem íslenskir kapítalistar (og alþjóðauðvaldið) vilja að sé haldið áfram, hann verður að útvega lágstéttunum einhverjar umbætur fari hann í ríkisstjórn. Annars bíða hans sömu örlög og Samfylkingarinnar. Í sjálfu sér þarf ekki að efast um einlægan vilja forystu flokksins til að stýra hefðbundinni umbótastjórn.
Vinstri græn gætu því orðið kjarninn í nýjum samfélagssáttmála, þar sem hið kapítalíska ríkisvald fellst á umbætur á sviði opinberrar þjónustu og lífskjarabætur handa verkalýðsstéttinni. Til þess að slíkt megi takast, þá þarf umbótastjórn að hafa öfluga fjöldahreyfingu á bak við sig. Fjöldahreyfingin þarf stöðugt að minna á sig, setja fram kröfur og hafa hátt.
Rjúkandi rústir og ný stjórnarskrá
Ekki þarf að fara mörgum orðum um Framsóknarflokk, Bjarta framtíð, Samfylkingu og Viðreisn. Þetta eru allt flök, rjúkandi rústir, flokkar sem lent hafa í ógnarstormi og eru illa leiknir (allir verið í stjórn með Sjálfstæðisflokknum). Þessir flokkar gætu þó komið að umbótastjórn af einhverju tagi undir forystu Vinstri grænna og Pírata og gert gagn þar. Vinstri græn gætu hjálpað til með því að gera skýrari grein fyrir því hvað þeim finnist að hafi farið úrskeiðis í stjórninni sem sat við völd 2009-2013 (einhver myndi segja hér „dream on“).
Píratar leggja eins og áður segir áherslu á endurskoðun stjórnarskrárinnar. Meiri áhersla á málefni sem gagnast verkalýðsstéttinni beint, endurreisn heilbrigðiskerfisins, aðgerðir í húsnæðismálum, styrkingu verkalýðshreyfingarinnar sem baráttuafls, myndi auðvelda samvinnu við VG. Það myndi líka þrýsta á VG sem forystuafl stjórnar um að framkvæma raunverulega leiðréttingu á stefnu ríkisvaldsins, að hefja „raunverulega uppbyggingu á velferðarkerfinu, heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu,“ eins og Katrín Jakobsdóttir lofar í upphafi kosningabaráttu.
Þá er komið að því að ræða stöðu Pírata gagnvart fjöldahreyfingunni frá 2008-2009 (sem var og er ennþá mjög virk), en Píratar mynduðust úr einum anga hennar, anarkísku tölvunördunum. Fyrsta birtingarmynd þessarar fjöldahreyfingar á sviði þingræðisstjórnmála var Borgarahreyfingin. Sá flokkur var óvenjulegur fyrir það að þingflokkurinn sagði skilið við afganginn af flokkinum. Fyrir kosningarnar 2013 reyndi hópur aktívista að mynda flokk sem sameinaði hreyfinguna frá kosningunum í apríl 2009, þá hreyfingu sem kom Borgarahreyfingunni á þing, en Píratar voru þá orðnir til og ákváðu að taka ekki þátt í því samstarfi.
Umbótastjórn: Fjarlægur draumur?
Píratar komust með naumindum á þing 2013, en ekki Dögun eða önnur öfl sem buðu fram og áttu rætur í fjöldahreyfingunni áðurnefndu. Samanlagt var fylgi þessara flokka mjög mikið, en nýttist afar illa vegna fjölda þeirra og þess að aðeins einn þeirra komst inn á þing. Dögun hefur hins vegar lifað áfram og haft stöðugt fylgi, sem sýnir að sá hópur var engin dægurfluga. Píratar þrefölduðu svo fylgi sitt í kosningunum í fyrra. Hinn nýi Flokkur fólksins hefur hins vegar náð góðum árangri við að safna fylgi nú undanfarið, eiginlega í vinstri armi fjöldahreyfingarinnar, þeim armi sem leggur áherslu á baráttumál verkalýðsstéttarinnar. Hann er hins vegar með mjög óþægilega og ógeðfellda áherslu á útlendingaandúð. Það vill enginn flokkur vinna með flokki sem lyktar af rasisma, sama hversu verkalýðssinnaður hann er að öðru leyti.
Píratar virka í því samhengi meira eins og millistéttarflokkur, flokkur sem í raun sækir inn á miðjuna (með anarkískum formerkjum sem stundum nálgast nýfrjálshyggju), inn í hluta af því tómarúmi sem Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn hafa skilið eftir sig og hefur ekki sérstakan áhuga á velferðarmálum eða málefnum lágstéttarinnar. Eða hvað? Stundum finnst manni að styrkur hans hafi legið í því að hann varð á tímabili farvegur fyrir óánægju með þingræðisstjórnmálin, að fólk hafi varpað yfir á hann hlutverki sem hann stóð á engan hátt undir. Ástæðan fyrir því er m.a. þröngur félagslegur grundvöllur Pírata, þau eru aðeins einn anginn úr fjöldahreyfingunni margumtöluðu, angi sem náði fjöldafylgi.
Þegar allt kemur til alls þá er hugsanleg myndun þess sem hér hefur verið nefnd hefðbundin umbótastjórn, á grundvelli einhvers konar stéttasáttar, ennþá aðeins fjarlægur draumur, því miður háður niðurstöðu kosningabaráttu og ákvörðunum stjórnmálaforingja, eins og síðasta stjórnarmyndun sýndi berlega. Takist stjórnarmyndun af því tagi verður það síðan aðeins til að gefa kapítalismanum aðeins mildara yfirbragð. Ef til vill í ætt við norrænu ríkin, Noreg, Svíþjóð, Danmörku, Finnland. Lykilatriðið varðandi styrk norrænu velferðarkerfanna er öflugt miðstýrt ríkisvald, sem hefur styrk af voldugum fjöldahreyfingum almennings sem hafa einmitt orðið til undir verndarvæng ríkisvaldsins. Þar er um að ræða samspil ríkisvalds og fjöldahreyfinga. Og þar er eftir að koma á sósíalisma. Önnur hliðstæða gæti verið Portúgal, þar sem fram er komin umbótastjórn sem hefur náð verulegum árangri.
Árni Daníel Júlíusson