Kúkafýla

Símon Vestarr Frétt

Í uppfærslu Þjóðleikhússins á Óþelló var márinn útataður í skít eftir að hafa þurft að fela sig í kamri. Leikhúsgagnrýnandinn Jón Viðar sá ekkert gildi í þessum fíflagangi en mér þóttist ég sjá glitta í hulin skilaboð. Márinn var afbrýðisamur og vænissjúkur og ekkert er eins fráhrindandi í fari manneskju en örvænting og lítilmennska. Eitthvað frumstætt og líkamlegt dregur mann í hina áttina.

Manneskja er á svipaðan hátt skilyrt af sjálfsbjargarhvöt sinni til að forðast kúkafýlu. Þangað sem ekkert liggur nema eintóm drulla hefur maður með brjóstvitið í lagi ekkert að sækja, hvort sem um er að ræða skólprör eða forað. Hið síðarnefnda er það sem dagblað frá München kallaði stjórnkerfið okkar en hið fyrrnefnda er nákvæmari líking. Við búum við megnan saurdaun.

Lykt sem stingur okkur svo í nasirnar að við kúgumst og þolum ekki við er það er það eina sem getur fellt ríkisstjórn. Tökum Bjarna Benediktsson sem dæmi. Maðurinn átti leynilegan aflandsreikning. Leynilegan! Aflandsreikning! Sagði hann af sér þegar það kom fram? Neituðu hinir flokkarnir að vinna með honum? Hrundi kjörfylgið af flokknum hans? Nei, nei og nei. Hvers vegna í ósköpunum ekki? Af því að það var ekki kúkafýla af honum. Hans útgufun var lyktar- og bragðlaus og olli syfju og sljóleika. Hún var kolmónoxíð. Sigmundur Davíð var önnur saga…

Látum hugann reika aftur í tímann til sunnudagskvölds sem Íslendingar hafa gert sitt besta til að gleyma. Sjáum Framsóknarforsætisráðherrann okkar ofanda við að heyra orðið Wintris og missa sjálfsvirðinguna þegar myndavélin dregur sig til baka úr nærmyndinni og líkamstjáningin kemur í ljós. Hann setur hendur sér á lær eins og til að halda sér uppréttum og glutrar niður enskukunnáttu sinni. Það var ekki aflandsreikningur Sigmundar sem felldi hann. Það var örvæntingin sem leggur af honum í þessu viðtali. Það var kúkafýlan.

Getum við orðað það sem svo að Sigmundur Davíð hafi liðið fyrir það að kunna að skammast sín? Kannski. Kannski ekki. En fall Engeyjar-prinsins er í þessu tilliti enn verra. Örvænting, lítilmennska og krónísk varnarstaða Sigmundar bliknar í samanburði við það þegar kúkafýlan náði Bjarna. Fjármálamisferli er illa þokkað en það þurfti flokkstengdan barnaníðing til að gera Bjartri Framtíð það ókleift að vera áfram inni á klósettinu með forsætisráðherranum.

Á þetta að vera svona? Eigum við að þurfa að horfa upp á föður æðsta ráðamanns þjóðarinnar skrifa upp á meðmæli fyrir annálaðan manndrýsil og flokkinn hlaupa til að hylma yfir svo að ástandið verði okkur óbærilegt? Mér sýnist því miður svo vera. Og það sem verra er; þegar niðurlægingin af alþjóðlegri umfjöllun um þetta mál skellur á okkur bregðast sum okkar við með því að skjóta sendiboðann. „Píratar rægja land og þjóð!“ æpa þeir á sjónvarpið. Sá á lykt sem fyrst finnur! Ha, ég?! Nei, þú!

Jæja, nú erum við alla vega laus við þennan gjörspillta flokk fyrir fullt og allt. Kúkafýlan sá til þess.

Er það ekki?

Einhver…?

Símon Vestarr

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram