Það er ekkert til sem heitir millistétt

Símon Vestarr Pistill

Af gefnu tilefni langar mig að benda á eina augljósa staðreynd: Það er ekkert til sem heitir millistétt.

Ekki sammála? Gott og vel. Segðu mér þá hvað millistétt er. Ég er háskólamenntaður en alinn upp í Breiðholti af ófaglærðu verkafólki. Ég er ríkisstarfsmaður en á enga fasteign. Tilheyri ég millistétt? Ég geri ráð fyrir að þú eigir ekki við um neitt trúarlegt eins og hindúíska erfðastéttakerfið eða sögulegt eins og miðaldastéttirnar með konung, lénsherra, leiguliða og þar fram eftir götunum. Millistéttin sem þú hefur í huga er eitthvað áþreifanlegra. Eitthvað efnislegt. Er það ekki? Flott. Hvar liggja þá mörkin? Hvenær er maður orðinn svo vel stæður að maður er hættur að tilheyra verkalýðsstétt og orðinn að millistéttarmanneskju? Er einhver launatala eftir skatt þar sem þetta breytist?

Nei, allt í lagi, skilin eru ekki skýr en ég er sammála þér að því leyti að kona sem starfar við skúringar á Landspítalanum búi við annan efnislegan veruleika en hjartaskurðlæknir sem hún hittir daglega á göngunum. Það þýðir að þau tilheyra sitthvorri stéttinni. Eða hvað? Þau tilheyra vissulega sitthvorri starfsstétt en þú ert að tala um þjóðfélagsstétt. Er skúringakonan eitthvað meiri verkamanneskja en læknirinn? Hann fær meiri peninga en hún og á að öllum líkindum mun meiri menntun að baki en hvað gerist ef hann fær krampaflog sem tekur frá honum minnið að stóru leyti? Eða henni tekst að verða sér úti um menntunina? Þá skipta þau um sess. Ekki það líklegasta í heimi en engan veginn ómögulegt. Hlutskipti þeirra er í grundvallaratriðum það sama:

Þau tilheyra sömu stétt af því að þau þurfa að vinna fyrir sér.

Allir þeir sem þurfa að selja vinnuafl sitt til að eiga í sig og á tilheyra verkalýðsstétt. Fólk er misvel stætt innan verkalýðsstéttarinnar rétt eins og þrælar voru misvel klæddir og mettir eftir því hvort þeir unnu inni í húsi eða úti á akri. Ástæðan fyrir því að svona fátt er um svör þegar einhver er inntur eftir því hvað millistétt sé er einföld: orðið er tóm þvæla. Nei, ég tek það til baka. Ekki tóm þvæla heldur baneitruð þvæla. Það er nefnilega engin tilviljun að orðinu hafi verið beitt áratugum saman sem flokkunarskilrúmi af hugmyndafræðistofnunum eignastéttarinnar. Sú stétt óttast ekkert eins mikið og hún óttast verkalýðssamstöðu. Hún heitir eignastétt af því að hún getur leyft sér að lifa á eignum sínum. Eðli málsins samkvæmt er hún mun fámennari en verkalýðsstéttin og þarf því að búa til kjaftæðishugtök eins og millistétt til að þrælarnir á plantekrunni fari ekki að fá einhverjar uppreisnarhugmyndir. Metist frekar um ágæti klæða sinna, híbýla eða þekkingar.

Mannfræðingurinn David Graeber bendir á það í bók sinni, The Democracy Project, að í Bandaríkjunum hafi orðið millistétt aldrei í raun verið efnahagslegt hugtak heldur óljóst orð til að lýsa því fólki sem taldi sig geta treyst því að valdastofnanir (eins og dómstólar, lögregla, stjórnmálamenn og skólayfirvöld) stæðu með því. Grínistinn George Carlin gekk svo langt að segja að lágstétt verkalýðsins hefði þann tilgang einan að hræða úr millistéttarfólki líftóruna svo að hægt væri að nota afkomuótta þess til að útrýma róttækni í þeirra röðum. Enginn vill falla niður um þrep í virðingarstiganum. Að vera millistéttarmanneskja er að vera við en ekki hinir. Í Bandaríkjunum hafði þetta mikið með kynþátt að gera – svartur maður á fínum bíl hlaut að hafa stolið honum o.s.frv. – en það var þó ekki öll sagan. Jafnt á Íslandi sem í öðrum þróuðum ríkjum hefur flokkunin millistétt enga haldbæra skilgreiningu og engan tilgang annan en að einn hópur verkalýðsins geti prísað sig sælan að hafa það betra í lífinu en annar hópur. Jafnvel að vera aðeins betra fólk.

Ókei, áður en þú fýkur af skaftinu og æpir á mig að þú hafir aldrei þóst vera betri en neinn annar bið ég þig að hafa í huga að þessar forsendur eru að mestu leyti ómeðvitaðar. Þær eru ekki þínar eigin. Ef þú hlustar á hjartað segir það þér að skúringarkonan sé ekkert lakari manneskja en hjartaskurðlæknirinn. En við syndum um í kjötsúpu kapítalismans. Er eitthvað skrítið að rotin viðmið hans síist inn í þankagang okkar? Nei, auðvitað er það eðlilegt, en á sama tíma er eðlilegt að vilja losa sig við þau rotnu viðmið um leið og maður kemur auga á þau. Ég er sjálfur í stanslausum skurðaðgerðum á sálartetrinu bara til að halda mér mennskum af því að þessi æxli spretta upp í mér eins og öðrum. Enginn ætlast til þess af okkur að við séum fullkomin. Bara að við séum opin fyrir jákvæðum breytingum.

Hvaða merkingu hefur þá hugtakið stétt? Einfaldlega þá að viss hópur fólks eigi sameiginlegra hagsmuna að gæta. Þess vegna tilheyrir skúringakonan sömu stétt og læknirinn, auk kennarans, rafvirkjans og tónlistarmannsins. Eigendur framleiðslutækjanna standa alltaf saman þegar vegið er að valdi þeirra. Við þurfum að standa líka saman og nýta okkur breidd hópsins í stað þess að líta á hana sem fyrirstöðu. Við sem lifum á vinnuafli okkar (og það á líka við um þá sem eru í sjálfstæðum rekstri á smáum mælikvarða) þurfum alltaf að vera meðvituð um það að efnahagslegir hagsmunir hinna, sem lifa á eignum sínum (þar á meðal vinnuafli okkar), eru ekki efnahagslegir hagsmunir okkar. Og lærum hvert af öðru.

Fólk sem er langskólagengið er kannski betra í því að koma skoðunum sínum og hugmyndum á framfæri og kynna sig sem álitlegan kost í stjórnmálastarfi. En ófaglært fólk býr yfir lífsreynslu sem færir því ómetanlega innsýn í hlutskipti þeirra sem eru undir í samfélaginu. Þess vegna þarfnast slagur verkalýðsstéttarinnar gegn arðræningjum hennar bæði menntaðs og ómenntaðs fólks rétt eins og fótboltalið þarfnast bæði varnar- og sóknarmanna. Sama gildir um kynin. Konur hafa djúpan skilning á hlutum sem karlmenn geta aðeins öðlast yfirborðsvitneskju um og öfugt. Ef okkur er alvara um að draga úr átökum í stjórnmálum og stuðla að uppbyggilegu samstarfi þá verða ólíkar raddir að fá að heyrast. Engan ber að útiloka nema eignamenn. Röddum þeirra er ekki treystandi. Ekki misskilja mig. Innan þeirra raða er oft vel innrætt fólk. En hlutverk þess fólks innan hins siðblinda kerfis heimskapítalismans er að hámarka arð sinn og takmarka útgjöld. Þess vegna er eignafólk andstæðingar okkar þar til kerfið breytist. Ekkert persónulegt, bara stéttabarátta.

Ef það er eitt sem ég hef heyrt alltof oft á undanförnum vikum þá eru það kveinstafir þeirra sem hafa enga stéttarvitund: „Af hverju þurfum við alltaf að vera að rífast? Af hverju geta hægri- og vinstri-flokkarnir ekki bara myndað saman stjórn? Hvaða máli skiptir hægri og vinstri?“ Trúðu mér þegar ég segi þér að ég skil vel þessa átakaþreytu. Engum finnst gaman að standa í stanslausum barningi. En veistu hverjir líða fyrir uppgjöf af þessu tagi? Þeir sem lifa frá launaseðli til launaseðils og mega ekki við uppákomum eins og atvinnumissi, sprungnu dekki, eða tannpínu. Samstaða þýðir að þeir meðlimir verkalýðsstéttarinnar sem eiga sparifé og heilbrigt lánshæfismat láti ekki forréttindi sín blinda sig á neyð hinna. Vera má að hjartaskurðlæknirinn sé alveg jafnvel staddur fjárhagslega hvort sem hægrimenn eða vinstrimenn stjórna en skúringakonan er fyrst til að fá í andlitið reisupassa eða kauplækkun ef íhaldsöflin skera niður í heilbrigðiskerfinu. Og sjúklingarnir?

Kannski ert þú einn af þeim rúmu 80 prósentum Íslendinga sem telja sig tilheyra „millistétt“ og kannski er einhver efnahagslegur fótur fyrir þeirri sjálfsmynd þinni. Þá áttu líklega erfitt með að skilja hvers vegna svona mikill æsingur er í íslenskri stjórnmálaumræðu. En ef þú þreytist á átakapólitík skiptu þá út spurningunni „Hvers vegna þurfum við alltaf að vera að rífast?“ fyrir spurninguna „Hvers vegna þurfum við að búa við kúgun?“ Og ef þér svíður undan þungum orðum eins og kúgun, talaðu þá við manneskju sem er einum launaseðli frá því að verða heimilislaus. Mundu svo að þú ert á sama báti. Ef þú stendur ekki í lappirnar til varnar þeim sem eru neðar en þú í goggunarröðinni þá mun koma að þér á endanum. Enginn er óhultur fyrir auðvaldinu en við þurfum ekki að vera fórnarlömb. Verkalýðurinn (og mundu að þú ert hluti af honum) hefur ekkert vopn annað en samstöðuna. Á móti kemur að eignastéttin á ekkert svar við verkalýðssamstöðu. Auður hennar er úr okkur drukkinn og hverfur frá henni um leið og við ákveðum að samdrykkja þeirra sé á enda.

Símon Vestarr

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram