Hvað hefur sagan kennt sósíalistum?
Frétt
04.12.2017
Sósíalistaflokkur Íslands býður til stuttra fræðslufunda á aðventunni þar sem fjallað verður um sögu sósíalismans á líflegan og aðgengilegan hátt. Fundirnir eru hugsaðir fyrir alla sem hafa áhuga á að kynnast eða rifja upp sögu sósíalisma og verkalýðsbaráttu síðustu 200 árin.
Fundirnir samanstanda af stuttum inngangsfyrirlestri og fyrirspurnum og umræðum að því búnu. Nálgun fyrirlestranna byggir á því að líta á sósíalismann sem hugmyndasarp sem er í sífelldri þróun jafnvel þótt rauði þráðurinn sé sá sami: jöfnuður alls fólks í réttlátu samfélagi. Markmið fundanna er ekki að gera sögu sósíalismans tæmandi skil, heldur að fanga þann lærdóm sem söguleg átök hafa fært og íhuga hvernig slíkur lærdómur nýtist okkur í dag.
Fyrir hvern fund eru þátttakendur beðnir að lesa stuttan texta eða horfa á stutt myndband, en það er í góðu lagi að mæta jafnvel þótt tími hafi ekki unnist til þess.
Það er Sósíalistaflokkur Íslands sem býður til fundanna en aðgangur er ókeypis og öllum opinn. Frjáls framlög eru vel þeginn.
Viðar Þorsteinsson, heimspekingur og stundakennari, flytur fyrirlestrana og stýrir umræðum.
Fyrsti fyrirlestur (6. desember):
Borgararéttindi, almannavald og fæðing verkalýðsbaráttunnar
Umfjöllunarefni fyrsta fyrirlestrarins, næstkomandi miðvikudagskvöld, eru borgararéttindi, almannavald og fæðing verkalýðsbaráttunnar. Fjallað verður um hvernig hugmyndir borgarastéttarinnar á 18. öld um réttindi allra manna tóku að grafa undan gamla lénsveldinu og þær mótsagnir og átök sem leiddu af þessum hugmyndum. Fjallað verður um „byltingar borgararéttindanna“ (frönsku byltinguna, bandaríska sjálfstæðisstríðið og byltinguna á Haití) og lýðræðisbyltingar 19. aldar sem fylgdu í kjölfarið, með sérstakri hliðsjón af því hvernig þessar byltingar sniðgengu í raun þorra almennings (konur, verkafólk, smábændur og íbúa nýlendanna). Þá verður fjallað um hvernig róttækir verkalýðssinnar gerðu hugmyndir um borgararéttindi að sínum, til dæmis í samtökum Chartista á Englandi, og þeim magnaða endapunkti sem sósíalísk byltingarstjórnmál 19. aldar náðu í Parísarkommúninni.
Fyrir fyrirlesturinn eru gestir hvattir til að renna yfir þrjá stutta frumtexta frá tíma borgararéttindabyltinganna:
- Sjálfstæðisyfirlýsing Bandaríkjanna, frumtexti aðgengilegur hér: https://www.archives.gov/
founding-docs/declaration- transcript - Franska yfirlýsingin um mann- og borgararéttindi frá 26. ágúst 1789 (ensk þýðing frumtexta: http://www.conseil-
constitutionnel.fr/conseil- constitutionnel/root/bank_mm/ anglais/cst2.pdf) - Stjórnarskrá Haití frá 1805, frumtexti í (gamalli) þýðingu: https://en.wikisource.org/
wiki/Constitution_of_Hayti_( 1805)
Sósíalísk greining á kapítalismanum og klofningur sósíalista
Miðvikudagur 13. desember
Hér verður rætt um öra þróun kapítalismans á 19. öld og hvernig sósíalísk verkalýðsbarátta hertist í þeim eldi. Fjallað verður um nokkur lykilatriði úr tilraunum Karls Marx og Friedrichs Engels til að renna fræðilegum stoðum undir samfélagssýn sósíalismans, sér í lagi hið óumflýjanlega mikilvægi stéttabaráttu og þörfina á að afnema kapítalískt skipulag. Þá verður rætt um orsakir og afleiðingar þess að verkamannaflokkar Evrópu klofnuðu í kjölfar fyrri heimsstyrjaldarinnar og rússnesku byltingarinnar í tvær fylkingar, sósíaldemókrata og kommúnista. Þá verður fjallað um áhrif fasisma og hvers vegna margir sósíalistar snerust til fylgis við marx-lenínisma og Sovétríkin undir stjórn Stalíns.
Lesefni: Kommúnistaávarpið, höf. Marx og Engels. Íslensk þýðing hér: https://www.marxists.org/
Kalda stríðið, ’68 kynslóðin, nýfrjálshyggjan og samtíðin
Miðvikudagur 20. desember
Fjallað verður um þann langa skugga sem Kalda stríðið lagði yfir pólitík eftirstríðsáranna á sama tíma og miklir signar unnust í vestur-evrópskum velferðarríkjum undir forystu sósíaldemókrata. Rætt verður um “Evrópukommúnismann” sem náði áhrifum innan kommúnistaflokkanna í Frakklandi og Ítalíu og hvers vegna margir róttækir sósíalistar snerust frá slíkum flokkum og að maóisma og trotskýisma. Þá verður rætt um þau vatnaskil sem byltingar ’68 kynslóðarinnar mörkuðu, ekki síst með því að setja heimsvaldastefnu, kvenréttindi og umhverfismál á dagskrá til frambúðar. Þá verður rætt um ris nýfrjálshyggjunnar, vandkvæði “Þriðju leiðarinnar” sem tekin var upp af Tony Blair og fleiri leiðtogum sósíaldemókrata í Evrópu og hina óvæntu velgengni sem sósíalistar á borð við Sanders og Corbyn hafa notið á allra síðustu árum.
Hvað hefur sagan kennt sósíalistum?
Fræðslufundir á aðventunni um hugtök og átök í sögu sósíalismans