Ályktun Sósíalistaþings um verkalýðsmál: Gerum verkalýðshreyfinguna að baráttutæki almennings!
Frétt
20.01.2018
Sósíalistaþing 2018 hvetur allt launafólk til að taka þátt í endurreisn verkalýðshreyfingarinnar og gera hana á ný að baráttutæki almennings fyrir réttlátu samfélagi.
Það var vegna baráttu verkalýðshreyfingarinnar að velferðarkerfi var byggt upp á síðustu öld og stefnt að samfélagi aukins jafnaðar. Það er á sama hátt vegna hrörnunar verkalýðshreyfingarinnar á liðnum áratugumað félagslega húsnæðiskerfið hefur verið stórskaðað, gjaldtaka aukin í heilbrigðs- og menntakerfi og vegið með öðrum hætti að vernd og öryggi almennings.
Verkalýðsfélögin hafa samlagast um of þjónustu- og skriffinnskuhlutverki sínu og hafa í gegnum lífeyrissjóðakerfið myndað óheilbrigt hagsmunasamand við atvinnurekendur. Ef almenningur á að ná vopnum sínum í baráttunni gegn sérhagsmunum hinna ríku þarf launafólk að endurheimta helsta baráttutæki sitt, verkalýðsfélögin.
Enginn annar en launafólk sjálft getur snúist til varnar og hafið baráttu fyrir frelsi, jöfnuði, mannhelgi og samfélagi sem byggir á samkennd og samstöðu hinna mörgu. Sameinuð getum við endurheimt völd okkar og byggt upp réttlátt samfélag.
Stöndum saman! Tökum framtíðina í eigin hendur!
Ályktun Sósíalistaþings í Rúgbrauðsgerðinni, 20. janúar 2018