Öld reiðinnar

Jóhann Helgi Heiðdal Pistill

Undirritaður vill vekja athygli sósíalista og annarra áhugasamra á glænýrri og stóráhugaverðri bók ásamt höfundi hennar: Age of Anger eftir Pankaj Mishra. Ég hef ekki orðið var við mikla umfjöllun og áhuga um hann og skrif hans á Íslandi (ekki neina yfirhöfuð öllu heldur), en að mínu mati er hann einn af mikilvægustu og áhugaverðustu greinendum og gagnrýnendum nútímans – mikilvæg rödd sem fjallar um mjög óþægileg viðfangsefni sem við þurfum þó nauðsynlega að heyra miðað við stöðuna í dag. Með öðrum orðum skyldulesning fyrir alla sem láta sig samfélagsleg málefni varða og leitast við að skilja ástand heimsins í dag.

Pankaj Mishra fæddist árið 1969 í Jhansi á Indlandi. Hann lærði verslun við háskólann í Allahabad áður en hann tók mastersgráðu í enskum bókmenntum við Jawaharlal Nehru háskóla í Nýju-Dehlí. Hann hefur gefið út þónokkrar bækur, þekktust er kannski From the Ruins of Empire frá 2012. Mishra hefur þó vakið sérstaka athygli eftir Brexit og kjör Trumps fyrir harða og róttæka gagnrýni á hræsni Vesturlanda og þau gildi sem þau þykjast hafa í heiðri, einkum frjálslyndi. Hann ber þau ítrekað saman við sögulega arfleifð vestursins, einkum nýlendustefnuna, og sýnir fram á að hvaða velsæld og framfarir sem vestrið kann að geta klappað sér á bakið fyrir er keypt með blóði og hryllingi annarra þjóða. Í blöðum og tímaritum eins og the Guardian, The New York Review of Books, London Review of Books, o.fl. hefur hann greint ástand heimsins á afar miskunnarlausan og áhugaverðan hátt með tilliti til hugmyndasögu, kapítalisma og stéttaskiptingar, nýlendustefnunnar, trúarbragða o.fl. Hann vakti einnig þó nokkra athygli fyrir að kalla Niall Ferguson – einn frægasta sagnfræðing Bretlands og helsti verjandi nýlendustefnunnar í dag – rasista beinum orðum í grein í LRB (hlekkur á greinina er neðst).

Í Age of Anger greinir hann „sögu nútímans“ með því að skoða þá sögu Vesturlanda og atburði sem þau vilja helst gleyma – og hafa gert með mjög góðum árangri. En slíkt minnisleysi og neitun á að horfast í augu við, og taka ábyrgð á, hryllingi fortíðarinnar er einmitt eitt af aðalvandamálunum í dag að hans mati. Við virðumst stefna í að endurtaka hana af þeim sökum ef uppgangur fasista og annarra róttækra jaðarhópa heldur áfram eins og hann hefur gert hingað til – eitthvað sem hefði átt að vera fullkomlega fyrirséð og auðvelt að koma í veg fyrir ef við hefðum dregið lærdóm af sögunni. Það sem einkennir helst nútímann að hans mati er þessi reiði sem einkennir þessa hópa, allt frá hvítum yfirráðasinnum í Suðurríkjum Bandaríkjanna til hreyfina eins og ISIS í Miðausturlöndum. Þessi reiði er að blossa upp út um allan heim aftur af sömu ástæðu og áður – hnattvæddum kapítalisma – og hann greinir þessa reiði sem „ressentiment“ í skilningi heimspekinga eins og Rousseau og Nietzsche.

Þetta stutta yfirlit gefur engan veginn fullnægjandi mynd af þeirri áhugaverðu greiningu sem Mishra býður uppá. Fyrir neðan er þó örlítið sýnishorn af bókinni: þýðing á fyrsta hluta formálans. Óhætt er að mæla með restinni.

Öld Reiðinnar eftir Pankaj Mishra
1. Formáli: gleymdir atburðir

Alls staðar bíður fólk eftir frelsara, andrúmsloftið er þrungið loforðum um spámenn, bæði stórum og smáum…við deilum öll sömu örlögum: við berum öll innra með okkur meiri ást og, sem er mikilvægast, meiri þrá en samfélag nútímans getur uppfyllt. Við höfum öll þroskast eins og ávextir í einhverjum tilgangi, það er bara enginn til að taka á móti uppskerunni…

Karl Mannheim (1922)

Í september árið 1919 lagði ítalska ljóðskáldið Gabriele D’Annunzio undir sig bæinn Fiume ásamt tveimur þúsund ítölskum uppreisnarmönnum. Þetta skáld og stríðshetja var einn frægasti Evrópubúi síns tíma og hafði lengi dreymt um að leggja undir sig öll landsvæðin sem áður höfðu tilheyrt „móðir Ítalíu“. Árið 1911 studdi hann af ástríðu innrás Ítalíu inn í Líbýu, en sú innrás einkenndist af slíkri villimennsku að lönd múslima loguðu af reiði. Í stjórnleysinu í lok Fyrri heimsstyrjaldarinnar, ásamt því að fyrri stjórnanda svæðisins hafði nýlega vikið úr embætti, sá D’Annunzio tækifæri til að láta draum sinn um að endurnýja ítalska karlmennsku í gegnum ofbeldi rætast.

Sem „il Duce“ í fríríkinu Fiume“ innleiddi hann pólitík sem einkenndist af hneykslanlegum málflutningi og athöfnum – stjórnmál í grand stíl. Hann fann upp að heilsast með beina hendi upprétt, sem nasistar tóku svo upp síðar, og hannaði svartan einkennisbúning með merki sjóræningja, hauskúpu og beinum í kross, ásamt ýmsu öðru. Hann var með þráhyggju fyrir píslarvottum, fórnum og dauða. Benito Mussolini og Adolf Hitler, sem voru á þeim tíma óþekktar jaðarfígúrur, lærðu af því að hlusta á ræðurnar sem þessi einkennilegi maður með rakaðan haus predíkaði daglega af svölunum til „hersveita“ sinna í svörtum skyrtum (og lokaði sig svo af með kynlífsfélögunum sem hann hafði valið þann dag).

Æstir sjálfboðaliðar – bæði táningar sem létu testosterón ráða för og stífir sósíalistar – komu alla leið frá löndum eins og Írlandi, Indlandi og Egyptalandi til að taka þátt í þessu karnívali erótískrar hernaðardýrkunar sem finna mátti í Fiume. Fyrir þeim voru allar gömlu reglurnar horfnar og það var eins og lífið væri að byrja á ný: með tilvist sem var hreinni, fegurri og hreinskilnari.

Eftir því sem mánuðirnir liðu, og kynlífsfíkn hans og valdabrjálæði jukust, byrjaði D’Annunzio að sjá sig sem leiðtoga alþjóðlegrar uppreisnar alls kúgaðs fólks. Þessi lágvaxni maður þóttist vera aristókrati þrátt fyrir tilkomulítinn alþýðlegan bakgrunn, en hann var fyrst og fremst tækifærissinnaður spámaður sem spilaði á reitt utangarðsfólk í Evrópu: fólk sem upplifði sig án hlutverks og mikilvægis í samfélagi þar sem efnahagslegur vöxtur færði einungis litlum minnihluta auðæfi og þar sem lýðræði virtist vera svindl í þágu hinna valdamiklu.

Allt frá frönsku byltingunni lögðu menn fullir af gremju mark sitt á allar nýju gerðirnar af stjórnmálum, allt frá þjóðernishyggju til hryðjuverkahreyfinga. Margir í Frakklandi sjálfu höfðu lengi verið slegnir yfir hræðilegu andstæðunni á milli dýrðar bæði byltingarinnar og Napóleonstímans og þeirra grimmu málamiðlana sem fylgdu efnahagslegri frjálshyggju og pólitískri íhaldssemi. Alexis de Tocqueville kallaði ítrekað eftir miklu endurnýjunar ævintýri: „að hertaka og drottna yfir“ alsírsku þjóðinni og stofnun fransks heimsveldis í Norður-Afríku. Þegar öldin var að líða undir lok kom fram á sjónarsviðið kjaftfor lýðskrumari og hershöfðingi að nafni Georges Boulanger sem var hættulega nálægt því að komast til valda með því að nýta sér ógeð fjöldans á hinum ýmsu hneykslum, efnahagslegu vandamálum og hernaðarósigrum.

Á síðasta áratug nítjándu aldar, þegar fyrsti þáttur efnahagslegrar hnattvæðingar var að aukast, kröfðust franskir stjórnmálamenn og útlendingahatarar verndarstefnu og beindu spjótum gegn erlendum verkamönnum – reiðir Frakkar drápu fleiri tugi af ítölskum farandverkamönnum árið 1893. Hvítir yfirráðasinnar í Bandaríkjunum höfðu þá þegar gert Kínverja að annars flokks borgurum á jaðri samfélagsins með beinlínis rasískum lögum og málflutningi gegn þeim. Ásamt aðskilnaðarstefnu gagnvart blökkufólki, var þessu ætlað að endurskapa reisn meðal sístækkandi fjölda hvítra „launaþræla.“ Lýðskrumarar í Austurríki-Ungverjalandi, sem gerðu gyðinga að blóraböggli fyrir þjáningarnar sem hnattrænn kapítalismi bar ábyrgð á, tóku upp sömu lagasetningu og Bandaríkin notuðu gegn innflytjendum. Hvernig vestrið lét greipar sópa um Asíu og Afríku á síðari hluta nítjándu aldar afhjúpaði að sú pólitíska meðferð sem Cecil Rhodes boðaði – „sá sem vill forðast borgarastríð verður að gerast heimsvaldasinni“ – varð sífellt meira heillandi. Einkum í Þýskalandi þar sem margir voru reiðir og ósáttir og hölluðust að heimsvaldastefnu þrátt fyrir að landið væri ríkt og farsælt. Í byrjun tuttugustu aldarinnar, á meðan að heimurinn upplifði fyrstu stóru krísu hnattræns kapítalisma og mestu fólksflutninga mannkynssögunnar, ruddust anarkistar og nihilistar fram á sjónarsviðið með ofbeldi og hryðjuverkum, en þeir vildu leysa vilja einstaklingsins úr gömlum og nýjum fjötrum. Þeir myrtu þónokkuð marga þjóðarleiðtoga, forseta Bandaríkjanna þar á meðal (William McKinley), ásamt fjöldan allan af saklausum borgurum á fjölförnum almenningsstöðum.

D’Annunzio var einungis einn af mörgum sem nýtti sér stjórnmálamenningu í tætlum vegna umskiptanna yfir í iðnaðarframleiðslu kapítalismans og fjöldapólitíkur – það sem indverska ljóðskáldið Rabindranath Tagore lýsti sem „þykku og eitruðu andrúmslofti almennrar tortryggni, græðgi og panik“ þegar hann var á ferðalagi um Bandaríkin árið 1916. Á Ítalíu gerði íþyngjandi skrifræði nýja ríkisins, ásamt dekrun þess við hinn ríka minnihluta, ungt fólk viðkvæmari fyrir fantasíum um ofbeldi í hefndarskyni. Eins og The Futurist Manifesto, skrifað árið 1909 af ljóðskáldinu Filippo Marinetti sem einnig var aðdáandi D’Annunzio, lýsti yfir:

Við viljum viljum fegra og upphefja stríð – einu hreingerningu heimsins – hernaðardýrkun, þjóðernishyggju, eyðileggjandi gjörðir anarkistanna, fallegu hugmyndirnar sem maður lætur lífið fyrir, og andúð á kvenfólki. Við viljum leggja söfn, bókasöfn og allar gerðir af menntastofnunum í rúst.

D’Annunzio komst í gegnum fimmtán mánuði. Aðallega með því að æsa upp fjöldann, á sama tíma og hann storkaði öllum stærstu hernaðarveldunum með andúð. Hernámi hans lauk nokkuð vandræðalaust, eftir að ítalski flotinn byrjaði að varpa sprengjum á Fiume flúði hann borgina. En önnur fjöldahreyfing – fasismi Mussolini – tók upp þráðinn. Þetta ljóðskáld og heimsvaldasinni dó árið 1938, þremur árum eftir að Ítalía réðist inn í Eþíópíu – hryllileg árás sem hann fagnaði eins og við var að búast. Í dag, þegar firrtir róttæklingar frá öllum heimshornum flykkjast í ofbeldisfullar hreyfingar sem einkennast af kvenhatri og stjórnmálin eru víða undir árás lýðskrumara, er D’Annunzio og skilnaður hans – í siðferðilegum, fræðilegum, fagurfræðilegum og hernaðarlegum skilningi – við samfélag sem virtist ekki viðbjargandi atburður sem markar vatnaskil í sögu þessa nútíma okkar. Einn af mörgum atburðum sem draga má lærdóm af en við höfum gleymt.

Jóhann Helgi Heiðdal þýddi og skrifaði inngang

 

Valdar greinar eftir Pankaj Mishra:

the Guardian:

Welcome to the Age of Anger

How Colonial Violence Came Home: The Ugly Truth of the First World War

The New York Review of Books:

http://www.nybooks.com/daily/2017/12/01/this-poisonous-cult-of-personality/

Which Way Are We Going?

 

London Review of Books:

What is Great About Ourselves

Watch this Man

 

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram