Verkalýðsbarátta sem grundvallarspurning um samfélag – 6 atriði
Pistill
18.03.2018
Nr 1 Þreyttar konur
Eftir að hafa verið kvenkyns vinnuafl í u.þ.b. fjögur ár á leikskólum borgarinnar í kjölfar hrunsins, svona í kringum árið 2012, var ég orðin mjög aum og þreytt og uppgefin og vonlaus og bitur og full af ægilegri andúð á reykvískri borgarastétt.
Ekki aðeins gat ég ekki lifað af launum mínu, heldur þurfti ég að starfa inní miðju velferðarkerfi undir niðurskurðarhnífnum. Ekki aðeins átti ég aldrei krónu og hataði ferðirnar í helvítis Bónus og hataði að þurfa klippa kremtúpuna í sundur til að ná síðustu klessunum og allt þetta sem hinar blönku þekkja svo ósköp vel, ekki aðeins var ég aftur komin með Visa kort og á hraðleið inní yfirdráttinn, bara til þess að geta haldið jól sem ekki þurfti að skammast sín fyrir eða geta gefið börnunum mínum fallegar afmælisgjafir, heldur varð ég líka að horfast í augu við það að öllum var skítsama um það sem ég upplifði sem persónulega árás á mig sem lifandi manneskju með réttin til góðs lífs og hamingju.
Öllum; fólkinu í ráðhúsinu sem fannst ekkert athugavert við að sabótera leikskólana og starfið þar með niðurskurði hinna huglausu, og svo verkalýðsforystunni minni, sem ég sá ekkert af og heyrði ekkert í, nema þá til að hvetja mig til að samþykkja Icesave eða ganga í Evrópusambandið. Ég varð að horfast í augu við að það var bókstaflega öllum sem réðu einhverju um líf mitt skítasama um mig. Það var mjög leiðinlegt og sorglegt, ég verð að viðurkenna það. Og ég átti bágt og skældi smá og varð að því fyrirbæri sem er einn af stærstu glæpum í heimi að verða, ég varð Bitur Kona.
Að horfast í augu við að líf þitt er allt undirselt einhverju ógeðslegu kerfi sem þú vildir aldrei verða hluti af er sjokkerandi upplifun.
Staða kvenna innan láglaunakerfisins varð mér mjög hugleikin: Þær vinna hefðbundna konuvinnu, erfiða vinnu, bæði líkamlega en ekki síður andlega þar sem þær þurfa alltaf að vera til taks með bæði vinnuhönd og ástríkt hjarta og skýran huga, þar sem þær þurfa að mæta tilfinningalegum þörfum fjölda fólks með ekki aðeins blíðu heldur viljanum til að leysa úr alvarlegum málum eins og átökum, einmanaleika, slysum, heimþrá o.s.frv.
Stundum, að loknum átta tíma vinnudegi, til dæmis um vetur, þar sem mikill fjöldi starfsfólksins er oft burtu vegna veikinda og ekki er hægt að komast út með börnin vegna veðurs erum við ekki lengur að fullu manneskjur heldur bara einhverskonar hylki utan um líkamlega og andlega þreytu sem er fáu sem ég hef kynnst, lík.
(Sagan um Klósettrúlluboxið: Að fara og pissa og vera svo uppgefin að þú leggur hausinn á klósettrúlluboxið í smástund áður en þú hleypur aftur af stað til að græja næsta mál, það er skrýtin hvíldar-staða til að vera í. Þegar ég var búin að liggja svona með hausinn á utan í klósettrúlluboxinu einu sinni of oft fór ég að breytast í Bitru Konuna. Og þá var ekki aftur snúið.)
Nr. 2 Reiðin
Það sem gerist þegar herská og róttæk stéttabarátta hverfur af sjónarsviðinu er að þú ferð smám saman að trúa því að það sé ekkert athugavert við þær aðstæður sem þú ert látin lifa við.
Það er enginn að kvarta svo það heyrist, og þegar þú eða einhver önnur bitur manneskja kvartar er það kallað þus og væl og svo eru dregnar upp sjálfshjálparbækur eða lífstílsprógrömm og þér sagt að vera ekki neikvæð og þú gerð að vandamálinu:
Ef þú værir ekki svona reið liði þér betur, þannig að hættu að vera reið, og þú ferð að trúa þessu og sjálfshatrið byrjar að grafa um sig; þú ferð að trúa því að þú sért vandamálið; ef þú bara hættir að panta pizzu handa börnunum þínum eða hættir að hata arðránið og lærir bara að elska það svolítið, þá verður allt æðislegt, þá hverfur kvíðahnúturinn og þú vaknar á hverjum morgni með söng í hjarta og þér nægir til að komast af sú einfalda gleði sem fylgir því að vera góð kona.
Þegar það er ekkert pláss fyrir reiðina, sem er auðvitað mjög mikilvægt afl í að knýja fram sögulegar breytingar, (eða trúir fólk því í alvöru að jákvæðni og það að þylja einhverjar möntrur fyrir framan spegil um að maður sé æðislegur eins og maður er, skili einhverju nema því að þú útbýrð innri veröld þar sem þú ert alltaf sigurvegari sama þótt samfélagið meti þig einskis og þarft því ekki að ráðast í verkefnið Samfélagslegar breytingar, svona álíka og að segja að á himnum verði nú allt voðalega gaman, sjáum við ekki að jákvæðnin er á endanum einhverskonar ópíum fjöldans og gríðarmikilvægur þáttur í að brjóta niður tilfinningarnar sem búa til stéttavitundina) þegar það er ekkert pláss fyrir reiðina, sem er ein af grundvallar tilfinningum mannfólks, er ekkert pláss fyrir stéttavitundina sem byggir á reiðinni, sem byggir á yfir því að sjá og vita virði þitt sem vinnuafls, sem byggir á því að vita að lúxusinn sem arðræningjarnir lifa við, eftir að hafa nýtt þig, án þess að vilja nokkurn tímann leyfa þér að njóta uppskerunnar, er í raun þinn lúxus, þegar meira að segja reiðin er höfð af þér, af útsendurum orðræðu-stjóranna, sem stýra veröldinni, þá áttu ekkert eftir.
Ekki leyfa auðstéttinni að stela líka af þér reiðinni. Ávaxtaðu reiðina þína og taktu hana svo út, margfaldaða eins og undanskot þjófa á Tortóla.
Nr. 3 Auðstéttin
Fólk á Íslandi sem hefur aðgang að miklum fjármunum er einstaklega sjálfhverft fólk, alveg einstaklega, það er ekkert hægt að skafa utan af því.
Því finnst ekkert að því að búa í þessu fámenna samfélagi með okkur vinnufólkinu, en samt algjörlega aðskilin frá okkur sökum hinnar viðbjóðslegu stéttaskiptingar sem hér grasserar.
Þeim finnst sjálfsagt að lifa eins og aðall fyrri alda á meðan það er með einhverjar móralskar kröfur á láglaunafólk um að spara og kaupa sér aldrei neitt nema að eiga fyrir því eins og þau gera, á meðan þau líta fram hjá þeirri staðreynd eins og örvitar eða siðvillingar að þau fá um hver mánaðamót nýjar miljónir til að leika sér með á meðan við aftur á móti fáum um hver mánaðamót ekkert nema áhyggjur og strit.
Því finnst sjálfsagt að setja einhverjar móralskar kröfur á láglaunafólk á meðan láglaunafólk heldur verkefninu Ísland gangandi svo að þau, auðstéttin, geti verið fullir þátttakendur í prívat verkefninu Djöfull er gaman hjá okkur.
Hæstu tekjuhóparnir er ekki aðeins sjúklega sjálfhverfir heldur einnig mjög hættulegir alþýðunni, því þeir hafa mestan hag af því að blásnar séu upp bólur, því á bólunum græða þau æðisgengnar fúlgur fjár og hrunið sem kemur í kjölfarið er svo vandamál okkar smælingjanna.
Meðal annars þess vegna er stórhættulegt að láta hagsmuni hinna auðugu ráða för í samfélaginu.
Nú viðurkennir seðlabankastjóri að hafa áhyggjur af því að áhættusækni sé að aukast innan fjármálakerfisins og þá ættum við aldeilis að hafa varann á, því áhættusækni yfirstéttarinnar er alltaf verstu mögulegar fréttir fyrir alþýðuna.
Verkalýðsbarátta er m.a. baráttan við þetta fólk, þau eru andstæðingar okkar og hagsmunir þeirra ganga þvert á hagsmuni okkar.
Nr. 4 Stéttasamvinna
Aðeins um stéttasamvinnu, sem er eitt af mínum uppáhaldsorðum. Hljómar svo milt, en inn í því er falið hið óréttláta samfélag misskiptingar og arðráns sem við hljótum að hata.
Stéttasamvinnan gerir það að verkum að fólk fer að trúa því að veröldin sé leikvangur hinna heppnu, sem hafa aðeins verið svo dugleg og blessuð af almættinu að allt safnast til þeirra, svo að þau megi annar vega ríkja yfir okkur eins og ófrjálsum vinnudýrum og hins vegar fara helst 30 sinnum til útlanda á ári og eiga 13 húseignir.
Stéttasamvinnan gerði það að verkum að í stað þess að hafna fjármálavæðingu samfélagsins og fordæma stöðugt og viðstöðulaust ágirnd fjármagnseigenda á öllu sem til er, lét verkalýðsforystan sér nægja að malda dálítið í móinn og taka við smotterí fyrir hendur skjólstæðinga sinna á meðan allt rann uppá til auðstéttarinnar. Stéttasamvinnan lýsir því sem átt hefur sér stað innan verkalýðshreyfingarinnar þar sem algjör höfnun á harðfylgi, eldmóð og brjálsemi hefur ma. gert það að verkum að verkafólk nýtur engrar leiðsagnar í því að skilja og greina sitt eigið líf og þær aðstæður sem það er lent í.
Nr. 5 Orðræðan
Róttæk orðræða er grundvallaratriði í stéttabaráttu. Þess vegna er lífsnauðsynlegt fyrir okkur að ná til baka orðræðu-plássinu, að kalla hlutina réttum nöfnum, að vera ekki feimin eða hrædd við að nota hugtök eins og arðrán og auðvald.
Það að fólk láti eins og pólitík og róttækni eigi ekki heima í verkalýðshreyfingunni er til marks um hræðilega hnignun og í raun verðum við að líta á ruglið sem ákall sögunnar um að við tökum við kyndlinum áður en eldurinn sokknar endanlega.
Hugsið ykkur firringuna; á meðan við erum komin inní nýtt góðæri, rétt í kjölfar hrunsins sem fyrra góðærið leiddi yfir okkur, með yfirstétt í peninga- og gróða vímu, var handvalinn innan verkalýðsfélags hinna blönku og fátæku, til að leiða baráttuna, maður sem hafnaði pólitík og arðráni.
Þvílík niðurlæging fyrir hreyfinguna, þeim mun meira sem ég hugleiði þessa senu því orðlausari verð ég; þvílík hrörnun alls þess stórfenglega og ótrúlega baráttuvilja sem gerði þeim sem á undan okkur komu kleift að vinna sína ótrúlegu sigra. Ég held að ég hafi aldrei verið eins sjokkeruð og þegar ég gekk út úr sameiginlegu viðtali við mig og frambjóðanda Eflingar-stjóranna, þegar ég áttaði mig á því að barnaskapur og fáfræði þótti í alvöru boðlegt á þessari stundu í sögunni, þegar stóra barátta verkafólks við auðvaldið einfaldlega verður að hefjast.
Til að berjast fyrir hagsmunum okkar og gegn ágirnd og misskiptingu þurfum við róttæka orðræðu, án hennar erum við einskis virði og best geymd á ruslahaugum sögunnar.
Nr. 6 Hvað gerum við nú?
Við heyjum orðræðu stríð, tölum um líf okkar án nokkurrar skammar eða feimni og notum orð og hugtök sem greina og útskýra samfélagið um leið og við útskýrum fyrir okkur sjálfum stöðu okkar í því. Með því að nota róttæka orðræðu útskýrum við líka hvernig við sigrum og það að sigur okkar er óumflýjanlegur.
Við byggjum upp hreyfinguna á öllum hæðum hennar, við endurnýjum hana. Það er lífsnauðsynlegt fyrir okkur öll að við eigum gríðarlega öflug samtök verka og láglaunafólks, því það þekkir arðránið af djúpri persónulegri reynslu og er því best til þess fallið af öllum að leiða baráttuna geng eyðileggingarmætti kapítalismans og auðvaldsins.
Við viðurkennum að við erum að berjast við þau sem hafa þeirra hagsmuna að gæta að halda okkur niðri og notum þá vitneskju, að þau vilja neita okkur um frelsi, til að knýja áfram viljan og þrekið.
Við sameinumst út frá stéttarhagsmunum okkar. Við viðurkennum að við erum gríðarmörg og gríðarlega ólík en við vitum að það er bókstaflega lífsnauðsynlegt, fyrir okkur, fyrir afkomendur okkar, að taka stóra slaginn við þetta viðbjóðslega mannhaturskerfi.
Við lærum að þekkja hvort annað og drauma hvers annars í sjálfri baráttunni, ekki með því að láta sem við getum vitað allt um hina ólíku hópa bara vegna þess að við séum velviljuð þeim. Það er afstaða borgarastéttarinnar sem við höfnum.
Samstaða okkar og vitneskja um líf hvers annars verður til í hinni róttæku baráttu fyrir sameiginlegum hagsmunum okkar, sem verður til vegna stéttarstöðu okkar.
Eins og Rósa Lúxemburg sagði: Sagan er besti kennarinn, byltingin eini skólinn og þar, í baráttunni/byltingunni hittumst við og þróum aðferðarfræðina.
Án hugmyndafræði er verkalýðshreyfingin eins og lélegur brandari. Á meðan auðstéttin styðst við brútalisma nýfrjálshyggjunnar og lýgur því að sumt fólk sé meira virði en annað er verkalýðsforysta láglauna- og verkafólks svo dauðhrædd við hugmyndafræði að hún vill frekar velja fáfræðing sem leiðtoga en standa í lappirnar og hætta að flýja af hólmi.
Verkalýðshreyfingin á að hafa hugmyndafræði sósíalismans að algjöru grundvallarstefi en ávallt vera tilbúin til að rétta af stefnuna, endurmeta það sem ákveðið hefur verið, hafna dogmatískri nálgun, fagna organískri þekkingu og mótun baráttunnar og hafa það alltaf að leiðarljósi að markmiðið er að ná yfirhöndinni í baráttunni um samfélagið.
Við þurfum ekki aðeins hugmyndafræði til að móta orðræðuna okkar, heldur líka til að móta aðgerðirnar. Við eigum ekki sætta okkur við að vera ávallt í því hlutverki að bregðast við aðstæðum sem auðstéttin skapar í lífi okkar, heldur eigum við að vera aktífir gerendur í þjóðfélaginu, aktífir gerendur sem ná að móta samfélagið eftir okkar löngunum og vilja.
Þekking á baráttuaðferðum – og orðræðu er ekki aðeins fyrir fáa útvalda. Þekkingin gangast okkur aðeins sem stétt ef við deilum henni. Þess vegna er lífsnauðsynlegt að verkalýðshreyfingin fari í að veita öllum þeim sem vilja taka þátt hlutverk og tækifæri til að nóta allar kröfur, tækifæri til að fá pláss, tækifæri til algjörrar valdeflingar í krafti fullvissunnar um óumdeilanlegt mikilvægi okkar í samfélaginu.
Þannig er lýðræðisvæðing hreyfingarinnar í raun það sem mun gagnast okkur öllum best í átökunum um réttláta skiptingu gæðanna.
Risahjól sögunnar rúllar áfram burtséð frá því hvort við tökum þátt í baráttunni eða ekki. Við getum valið um að vera þátttakendur eða fórnarlömb, fáfræðingar eða upplýst, niðurbrotin eða upprisin, geld eða vígmóð, þau sem berjast eða þau sem snúa baki við baráttunni.
Ef við veljum að upp rísa opnast veröld möguleika og drauma, ef við veljum að vera niðurlút og vesæl kremur kapítalisminn á endanum sjálfa veröldina.
Á endanum er þetta spurning um frelsun; möguleikann á að láta drauminn um frelsi, jafnrétti og systkinalag rætast, fyrst inn í okkur sjálfum, svo í orðræðunni og svo í raunveruleikanum.
Sólveig Anna Jónsdóttir
Erindi flutt á fundi málaefnahóps Sósíalistaflokks Íslands um verkalýðsmál, vinnumarkað og atvinnulíf.