Stefna Sósíalistaflokks Íslands í menntamálum

Tilkynning Frétt

Stefna Sósíalistaflokks Íslands er:

  • að öll stefnumótun í skólamálum taki mið af því að unnið sé til langs tíma, 20 ára í senn að lágmarki (eða einni fullri langskólagöngu).
  • að skólakerfinu sé ávallt tryggt fjármagn til að standa undir lögbundnu hlutverki sínu, sérstaklega þeim hluta sem snýr að börnum.
  • að andlegt, líkamlegt eða útlitslegt atgervi fólks, uppruni, trúarbrögð, aldur eða efnahagsleg staða hindri ekki þátttöku í námi.
  • að skólakerfið þjóni fyrst og fremst notendum þess hverju sinni, nemendunum og starfsfólkinu. Það sé öruggur og góður vinnustaður fyrir alla: nemendur, kennara, og allt annað starfsfólk.
  • að lýðræðisvæða skólana að fullu.
  • að auka sveigjanleika skólakerfisins til að standa undir breytingum í íbúasamsetningu og aldursdreifingu í hverfum.
  • að auðvelda aðfluttum ungmennum og fullorðnu fólki að fá metið nám frá öðrum löndum, að staðfæra erlenda menntun, og að tryggja íslenskukennslu fullorðinna.
  • að í kennslu sé lögð áhersla á rökhugsun, skapandi og gagnrýna hugsun, líkamlega heilsu og geðheilsurækt, sjálfbærni og félagslega samkennd.
  • að skólar séu virkjaðir í sínu nærsamfélagi.

Ítarefni

Ánægðir kennarar eru forsenda fyrir árangursríku skólastarfi. Fjárveitingar skulu tryggja góðan aðbúnað og vellíðan nemenda, kennara og annars starfsfólks, sem og góð launakjör.  Með því er einnig unnið gegn atgervisflótta úr skólum og starfið gert eftirsóknarvert.

Styrkja þarf hvers kyns verklegt nám, í iðn-, tækni- og skapandi greinum á öllum skólastigum, ásamt því að bjóða fjölbreytt úrval af stuttu starfstengdu námi og efla tómstundastarf innan skólanna.

Háskólastigið á að geta sinnt öflugu rannsóknastarfi og þekkingaröflun samhliða þekkingarmiðlun og kennslu.

Þörfum nýrra Íslendinga og tvítyngdum börnum þarf að sinna af metnaði, meðal annars með auknu framboði á gjaldfrjálsri íslenskukennslu og móðurmálskennslu.

Öll skólaganga á skólaskyldustigi skal vera gjaldfrjáls, skólamáltíðir, efnisgjöld, tómstundastarf og ferðalög á vegum skólans. Úrræði séu tryggð fyrir tekjulága til að sækja sér menntun á jafnréttisgrundvelli.

Komið sé í veg fyrir hvers konar mismunun sem útilokar fólk úr námi eða félagsstarfi í tengslum við nám, listnámi eða íþróttaþjálfun innan eða utan skóla.

Styrkja ber fólk til að aðlagast breyttum aðstæðum með sterku og opnu endur-/símenntunarkerfi og bjóða raunfærnimat í sem flestum greinum. Auðvelda skal fólki á öllum aldri að taka námshlé eftir að skyldunámi lýkur og koma til baka í nám, t.d þegar breytingar verða í samfélaginu eða á persónulegum högum.

Tryggja skal í fjárveitingum að íbúsamsetning skólahverfa hafi ekki neikvæð áhrif á gæði starfsins þar sem félagslegt álag er meira. Þannig njóti öll börn og ungmenni ávallt bestu menntunar óháð búsetu. Hlúa skal að kennurum og starfsfólki til að tryggja metnaðarfullt og faglegt starf þar sem álag er mikið.

Útvistun verkefna á öllum stigum skólakerfisins verði hætt og starfsfólk fastráðið á sína starfsstöð. Lausráðningum og lausamennsku í kennslu á háskólastigi skal einnig halda í lágmarki og stuðlað að því að stundakennarar fái laun í samræmi við menntunarstig og starfsálag; þeir séu ekki nýttir sem ódýrt vinnuafl.

Leikskóla á ekki að nýta sem vistunarúrræði fyrir börn til að þjóna kröfum vinnumarkaðs, og sé fylgt stefnu um nám í gegnum leik á því skólastigi. Tryggð séu sem best streitulaus skólaskipti fyrir nemendur á öllum stigum.

Kennarar verða að njóta þeirrar virðingar sem þeim ber sem sérfræðingar í kennslu. Þeir móti skipulag starfsins, kennslu og val á námsefni að þeim nemendahópi sem þeir sinna sem og eigin sérþekkingu og reynslu. Nemendur skulu hafa áhrif á námsefni og skipulag starfsins eftir aldri og getu. Námskrá geri einnig ráð fyrir aukinni námstengdri og verklegri þáttöku nemenda í daglegum rekstri skólans.

Með því að stýra kerfinu öllu sem mest neðanfrá er hægt að nýta nýjustu þekkingu í menntavísindum sem kemur inn með nýútskrifuðum kennurum ásamt því að nýta þekkingu þeirra reynslumeiri úr starfi. Miðar þetta að því að auka starfsánægju allra aðila og fagleika starfsins, og koma í veg fyrir pólitíska hentistefnu og spillingu. Aðalnámskrá sé smíðuð með þetta í huga.

Leggja þarf af prófskyldu, boðið sé upp á próftöku eftir óskum nemenda, eða annað fyrirkomulag til námsmats tekið upp í samráði kennara og nemendur.

Samráðs sé leitað til foreldra í neðri þrepum kerfisins, og gagnsæi aukið útávið.

Kerfið ætti að eigna sér krísulausn sína á húsnæðisvanda skólanna og beita henni á uppbyggilegan máta. Í stað þess að notast við vinnuskúra til að hýsa skólastarf verði hannað kerfi byggingaeininga sem auðvelt sé að púsla úr, við staðfasta aðalbyggingu. Viðbótareiningar af nokkrum gerðum sé hægt að smíða og flytja á milli eftir því sem breytingar verði á aldursdreifingu og íbúasamsetningu skólahverfa.

Forðast skal að nemendafjöldi fari upp fyrir ákveðin fjöldatakmörk í hverjum skóla, en sé heldur stofnaður nýr skóli í hverfinu.

Húsnæði skólanna verði opnað fyrir félagsstarfsemi og þjónustu við nærsamfélag, námskeiðahald og tómstundir, utan venjulegs skólatíma. Einnig eftir getu innan skólatíma, eins og með „stay and play“ -úrræðum, þar sem nýir foreldrar geta kynnst starfi skólans.

Starfsfólk sem sinnir félagsstuðningi sveitarfélaganna geti farið í útvistunarverkefni í skólana utan skrifstofutíma, sérstaklega á félagslega viðkvæmum svæðum þar sem fólki reynist erfitt að sækja slíka þjónustu á skrifstofutíma, sem og áfallateymi séu til taks sem bregðist við tímanlega og af festu þegar áföll verða.

Starfsfólk skóla fái stuðning til að afla sér þjálfunar eða þekkingar til að sinna þeim sem leita til þeirra eftir upplýsingum eða öðrum stuðningi, og nýtist slík þjálfun til ákvörðunar launa.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram