Fátækt fólk er fátækt vegna þess að það hefur engin völd
Frétt
06.05.2018
„Fátækt og slæm kjör er afleiðing valdaleysis almennings. Alveg á sama hátt og auður hinna ríku er afleiðing þess að hin ríku fara með öll völd í samfélaginu,“ segir Sanna Magdalena Mörtudóttur, oddviti sósíalista í Reykjavík. „Framboð sósíalista er upprisa hinna fátæku og valdalitlu. Við bjóðum okkur sjálf fram til að móta samfélagið eftir okkar hagsmunum, ekki hagsmunum hinna ríku“
Á lista Sósíalistaflokksins eru margt fólk sem veit vel hvað fátækt og valdaleysi er. Sanna er sjálf uppkomið fátækt barn. Einnig Daníel Örn Arnarson, verkamaður og stjórnarmaður í Eflingu, sem er í öðru sæti og Hlynur Már Vilhjálmsson, stofnandi Fósturheimilisbarna, sem er í fjórða sætinu. Í fimmta sæti er Ásta Dís Guðjónsdóttir, samhæfingarstjóri Pepp á Íslandi, samtaka fólks í fátækt, Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, er í sjötta sæti og Reinhold Richter, aðaltrúnaðarmaður í ÍSAL, í því sjötta. Fulltrúar pólska samfélagsins á Íslandi, fjölmennasta hóps innflytjenda, sem upplifa mikið valdaleysi, eru Anna Wojtynska í þriðja sæti listans og Klaudia Migdal í því áttunda.
„Sósíalistar bjóðast ekki til að gera allskonar fyrir fátækt og valdalaust fólk. Sósíalistar eru fátækt og valdalaust fólk sem vill gera hlutina sjálft,“ segir Daníel.
Frambjóðendur listans vísa til þess að allt sem er mikilsvert í samfélaginu hafi orðið til af kröfu hinna verr settu: Ókeypis heilbrigðisþjónusta, skóli fyrir alla, ellilífeyrir, atvinnuleysisbætur, sumarfrí, verkamannabústaðir, átta stunda vinnudagur og allt annað sem er skaplegt eða gott í samfélaginu.
„Hin betur settu hafa enga hagsmuni að því að bæta samfélagið, þau eru ánægð með það eins og það er,“ segir Sanna. „Það eru hin verr settu sem hafa alla tíð knúið á um breytingar. Fólk sem upplifir óréttlæti samfélagsins allan daginn, alla daga og alla ævi veit hvað þarf til að laga samfélagið.“
„Sósíalismi er ekki kenning heldur eilíf barátta hinna verr settu fyrir bættu samfélagi,“ segir Daníel. „Sósíalistar vita að það eru aðeins hin verr settu sem þekkja óréttlætið og það eru aðeins þau sjálf sem geta leiðrétt það. Við erum ekki að biðja um ölmusu eða greiða frá hinum betur settu. Við stöndum upp og krefjumst þess að fá að ráða því í hvernig samfélagið þróast.“
Frambjóðendurnir benda á að veikari verkalýðsbarátta og minni stjórnmálaþátttaka hinna verr settu á tímum nýfrjálshyggjunnar hafi skaðað og eyðilagt margt af því sem var byggt upp af baráttu hinna verr settu á síðustu öld. Verkamannabústaðir voru lagðir niður, gjaldtaka tekin upp í heilbrigðisþjónustu og skólakerfi, dregið úr sköttum á fyrirtæki og hina ríku en skattar á hina verst settu hækkaðir og samfélagið aðlagað með öðrum hætti að kröfum hinna ríku.
„Launafólk í dag getur ekki látið sig dreyma lengur um að lifa af átta stunda vinnudegi,“ segir Daníel. „Þetta var krafa verkalýðshreyfingarinnar á þar síðustu öld. Margir sem ég þekki eru í tveimur og jafnvel þremur vinnum til að láta enda ná saman. Vinnan étur upp þann tíma sem við vildum verja með börnunum okkar. “
„Það er aðeins verkafólk og þau sem þekkja sjálf úr eigin lífi, hvernig það er að lifa sem afgangsstærð í þjóðfélagi misskiptingar og óréttlætis, sem geta snúið þessari þróun við,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar og sjötti maður á lista sósíalista. „Eina leiðin til að bjarga samfélaginu frá grimmd nýfrjálshyggjunnar er að launafólk leyfi sér að dreyma um völd og endurreisi hratt og örugglega baráttutæki sín, verkalýðsfélögin og stjórnmálaflokka sem raunverulega berjast fyrir þau verr stæðu og þau sem vinna vinnuna í samfélaginu.“