Á leigumarkaði hefur ríkt neyðarástand frá aldamótum

Laufey Ólafsdóttir Pistill

Húsnæðisekla fátækra er ekki ný af nálinni, þó svo að umræðan í borgarpólitíkinni virðist endurspegla þá þrálátu mýtu. Þetta er algeng tilhneiging þegar verið er að tala um málefni þeirra sem aldrei er hlustað á í ákvarðanatöku, tilhneigingin til þess að tala um vandamálið sem nýtt, og svo er bent á pólitíska andstæðinga sem blóraböggla, en lausnirnar eru almennt ófullnægjandi og jafnvel hlægilegar.

Hrunið er algengur blóraböggull nú til dags, en við sem höfum lifað lífi okkar með lítið milli handanna munum bara ekkert skárri tíð fyrir þetta blessaða hrun. Hið umtalaða góðæri sem átti víst að hafa ríkt árin á undan kom ekki til okkar, og það meinta góðæri sem nú er sagt ríkja hefur bara ekkert barið að dyrum heldur.

Að pakka saman og flytja í hvert sinn sem leigusali fær blik í augun

Ég er búin að vera á leigumarkaði í Reykjavík síðan árið 2000 og man bara aldrei á þessum tíma eftir að EKKI hafi ríkt neyðarástand. Leiguverð hefur verið of hátt miðað við tekjur láglaunafólks, skortur á ákjósanlegum íbúðum hefur verið viðvarandi og húsnæðisbætur dekka ekki nema lítinn hluta af leiguverði. Fátækir leigjendur hafa þurft að taka því sem býðst burtséð frá kjörum, stærð og staðsetningu. Lítið hefur verið um val í þeim efnum annað en valið milli heimilisleysis og þess sem er í boði hverju sinni.

Bið eftir félagslegum íbúðum hefur t.a.m. verið löng öll þessi ár. Ég beið í 3 ár, frá 2001-2004 og hraktist milli leigubíbúða á meðan. Elsta dóttir mín skipti árlega um skóla frá 1. bekk og þangað til hún kom í 4. bekk vegna flakks á óstöðugum leigumarkaði. Þarna var leiguverð ört hækkandi svo sala á íbúðum var ör. Þetta bitnaði á leigjendum, sem þurftu að pakka saman og flytja í hvert sinn sem leigusali fékk blik í augun við nýtt fasteignamat.

Einhverskonar bið þangað til ég eignast heimili

Ég er búin að flytja svo oft að ég er hætt að nenna að koma mér fyrir. Þótt ég sé komin í félagslega íbúð, þá líður mér ekki eins og ég eigi heima hér. Þetta er bara einhverskona bið þangað til ég eignast heimili. Ég má ekki mála í litum eða gera neitt fyrir íbúðina án þess að brjóta gegn leigusamningnum mínum og ég er stöðugt minnt á að þetta er ekki mín eign. Þjónusta Félagsbústaða er einnig byggð á fordómum gagnvart leigjendum og liggja þessir fordómar víða um kerfið, sem ég ætla ekki að fara nánar út í hér.

Kostirnir við að leigja félagslega íbúð er að leigan er aðeins lægri en á almennum markaði, leigusalinn er þolinmóðari gagnvart greiðsluerfiðleikum og til staðar er ótímabundinn langtímasamningur, eitthvað sem varla þekkist á almennum leigumarkaði. Mínir möguleikar eru hinsvegar tveir, að leigja, eða vera heimilislaus, því ég fengi ekki greiðslumat fyrir útikamri.

Hví ekki að takmarka AirBnB við lögheimili leigusala?

Fyrir mig persónulega, þá ég þoli ekki blokkir. Ég get ekki blastað tónlistinni minni að vild eða þvegið og ryksugað á nóttunni þegar ég vil vera vakandi. Fátæklingar geta hinsvegar víst ekki leyft sér að dreyma út fyrir blokkarsamfélagið. Hverfið sem ég ólst upp í, 101, hefur einnig verið undirlagt af fégráðugum verktökum svo ég get ekki búið þar lengur. Allar íbúðir hverfisins í fjölskyldustærðum hafa verið hólfaðar niður í gistirými fyrir ferðamenn og vegna götóttar löggjafar hefur restin af nýtilegum íbúðum í hverfinu verið hreinlega keypt í þeim tilgangi að leigja þær út í skammtímaleigu. Nú er ég ekki á móti því að fólk leigi eignir sínar út í gegnum Airb’n’b, en er ekki hægt að takmarka þá útleigu við lögheimili fólks?

Þeir íbúar sem flúið hafa miðbæinn segja að þeir hafið orðið þreyttir á stöðugri rútuumferð, fólki að koma inn og út með töskur alla tíma sólarhrings og, nú í seinni tíð eftir að rútuumferð var takmörkuð um hverfið, skortur á bílastæðum þar sem ferðamenn eru í auknu mæli komnir á bílaleigubíla. Nágrannasamfélagið í miðbænum er einnig sagt horfið því þar er yfir helmingur eigna í skammtímaleigu. Flestar leiguíbúðir sem enn eru í hverfinu eru í eigu leigufélags Gamma, og leigjast út á stökkbreyttu verði sem hefur sínar afleiðingar fyrir markaðinn.

Hvers vegna hefur þetta tekið allan þennan tíma?

Nú státar Reykjavíkurborg sig af því að fjöldi félagslegra íbúða sé í byggingu, og það eru nú aldeilis góðar fréttir, ef satt er. Hinsvegar spyr ég: Hvers vegna hefur þetta tekið allan þennan tíma? Er þessi skyndilega uppbygging ekki svolítið seint í rassinn gripið? Hvers vegna er ekki löngu andskotans búið að koma böndum á þetta vilta ástand á leigumarkaði í Reykjavík eða einfaldlega fjölga félagslegum íbúðum í takt við eftirspurn, sem er og verður mikil á meðan markaðurinn er einokaður af gróðapungum í gullæði?

Auðvitað hafa vandamálin á húsnæðismarkaði vaxið, en það þýðir ekki að þau séu eitthvað alvarlegri núna en þau voru fyrir 15-20 árum. Húsnæðisstefna Reykjavíkurborgar hefur aldrei, sama hvaða meirihluti hefur verið við völd, náð utan um það að tryggja öllum heimili óháð efnahag. Að sjálfsögðu er þetta samvinna, bæði milli sveitarfélaga og ríkis, en hluti vandans liggur þó hjá borginni og það gengur ekki að benda alltaf á næsta aðila eða nýta vandamálið sem eitthvað pólitískt bitbein. Allir meirihlutar eru sekir um að taka þetta mál ekki nægjanlega föstum tökum.

Hvers vegna þarf t.d. alltaf að vera þessi bið eftir félagslegum úrræðum? Er ekki viss vísbending um að þörfin sé brýn falin í þessum biðlistum? Haldið þið að fólk sé bara að djóka með að skrá sig á biðlista, eða haldið þið að nálaraugað sem umsækjendur þurfa að kreistast í gegnum í umsóknarferlinu sé ekki þegar nógu þröngt?

Er eitthvað skrýtið að fólk sé orðið pirrað????

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram