Tveggja turna tal
Pistill
09.05.2018
Íslensk pólitík býður okkur upp á kunnuglegan valkost:
„Hver á þennan bústað? Já eða nei?”
Sumar spurningar eru ekki nei eða já, af eða á, svart og hvítt, gamalt/nýtt eða aðrar ljúfsárar júróvisjón-minningar. Það fór alltaf nett í taugarnar á mér þegar fólk var spurt í Fréttablaðinu: „Stóns eða Bítlarnir?” Hvaða rokkunnandi fer ekki í jafnmikinn fíling við að heyra Honky Tonk Women og Don’t Let Me Down? Kannski elskar einhver jafnvel hvorugt en dýrkar Sunny Afternoon eða To Sir With Love?
Hvað hefur þessi útúrdúr með stjórnmálin okkar að gera?
Svarar sú spurning sér ekki sjálf þegar maður stendur frammi fyrir valinu Dagur eða Eyþór?
Eins og ekkert annað sé í boði.
Fyrstu minningar mínar af pólitík eru frá kosningabaráttunni í borginni árið 1994. Þá komu fimm flokkar sér saman um að bola Sjálfstæðisflokknum frá völdum. Þeir voru ekki allir vinstri flokkar og stefnumál þeirra voru mjög ólík. Hvað áttu þeir sameiginlegt? Að vera ekki Sjálfstæðisflokkurinn. Og það var nóg. Af því að falska tvíhyggjan í pólitík okkar gefur okkur ekki fleiri valkosti. Bara a) íhaldið eða b) eitthvað eitt annað en íhaldið. Og við þurfum meira að segja að framkvæma sameiningarkraftaverk eins og R-listann til að geta valið kost b.
Í landsmálapólitíkinni varð þetta síðar að Sjálfstæðisflokki eða Samfylkingu; Davíð eða Sollu. Og enn síðar að Sjálfstæðisflokki eða VG; Bjarna eða Kötu. Þess vegna er viðeigandi að vísa til þessa fyrirbæris með yfirskriftinni Tveggja turna tal. Af því að rétt eins og í miðkafla Hringadróttinssögu Tolkiens tilheyrðu turnarnir tveir valdamiklum fígúrum sem sameinuðu krafta sína þegar sú góða gaf sig á vald þeirrar vondu. Eins og Ingibjörg Sólrún gerði. Og Katrín.
Sagan er svo kunnugleg núna að hún er orðin klisja. Hófsamur vinstriflokkur öðlast fylgisaukningu og þar með rétt á atkvæði hvers þess sem vill fella íhaldið. Að kjósa eitthvað annað er í besta falli ópraktískt og í versta falli sjálfselskt. Svo fara Sarúman og Sáron í stjórn saman og vinstriflokkurinn svíkur allan vinstripart stefnu sinnar til að koma til móts við áður yfirlýstan „höfuðandstæðing” sinn og trú almennings á breytingar verður enn minni en áður.
Endurtakist.
Og endurtakist.
Og endurtakist.
Við erum ekki ein um þetta. Fólk sem vill raunverulegar breytingar í öðrum löndum fær óhemjuoft að heyra það að valkostirnir séu aðeins tveir. Bandaríkjamönnum var gert að kjósa Hillary Clinton ellegar bera ábyrgð á embættistöku narsissistísks nýfasista. Frökkum var uppálagt að kjósa Macron til að vera ekki samsekir um að koma örverpi frægasta gyðingahatara franskrar stjórnmálasögu í bílstjórasætið. Stuðningsmenn kratans Bernie Sanders í forkosningunum í Bandaríkjunum voru skammaðir fyrir að standa í vegi fyrir eina raunhæfa frambjóðandanum sem gæti sigrað öfgadrýsil hægriflokksins, sem og stuðningsmenn sósíalistans Jean-Luc Mélenchon í Frakklandi.
Athugið: Ekki eina frambjóðandanum sem gæti sigrað. Eina raunhæfa frambjóðandanum sem gæti sigrað. Raunhæfur þýðir óróttækur.
Hér stendur hnífurinn í kúnni. Sarúman gefst ekki Sároni á vald vegna þess að hann sé svona geggjað sáttur við plön hans um að þekja Miðgarð myrkri. Hann segir stafbúnum kollega sínum Gandálfi einfaldlega að gegn mætti Mordors sé engan sigur að fá. Ef við rekjum orsakarsamhengið upp og skoðum fyrstu lykkjurnar þá er það ekki hégómagirni, græðgi eða mannvonska sem verður lávarðinum í Ísarngerði að falli heldur skortur á ímyndunarafli.
Sagði ekki einhver eitt sinn að illskan þyrfti ekki annað til sigurs en aðgerðarleysi hinna góðu?
Þessi falska tvíhyggja er því í raun sáttmáli um að á vinstri væng stjórnmálanna sé ekki farið í hart við auðvaldið. ASÍ hefur sömuleiðis skrifað upp á þennan sáttmála. En ef við horfumst í augu við þýðingu þessarar uppgjafar lengur en tvær sekúndur verður okkur ljóst hversu afgerandi hún er. Þess vegna lítum við undan. Gerum stjórnarsáttmála við aflandseigendur og meðmælendur barnaníðinga og tölum um róttækni sem í besta falli barnalega og í versta falli stórhættulega hinum margrómaða „stöðugleika” (sem fór jú fyrir lítið haustið 2008). Af því að algjörrar afneitunar er þörf ef þetta á ekki að fara í vaskinn allt saman, Um leið og við viðurkennum að auðstéttin hafi of mikil ítök og að íhaldinu sé ekki treystandi til annars en að þjónusta stóreignafólk þá mun eitt leiða af öðru og við munum þurfa að velja a) eða b);
a) Að gefast upp, hætta að kalla okkur vinstrimenn og sækja um vinnu hjá þeim sem viðhalda þessari mannfjandsamlegu samfélagsskipan.
eða
b) Að gefa kapítalísku meðvirknina alfarið upp á bátinn, endurheimta sjálfsvirðinguna og taka slaginn eins og við trúum á eitthvað í alvörunni, sama hvað það kostar.
Valkostur b) er erfiðari. En hægt væri að lýsa honum með því að umorða spurninguna í upphafi þessa pistils:
Hver á þennan bústað?
Við eða þeir?
Símon Vestarr