Um almenningssamgöngur
Pistill
10.05.2018
Fréttamenn láta gjarnan eins og almenningssamgöngur séu fyrir þá sem búa í miðborg Reykjavíkur og að þær séu jafnvel í andstöðu við íbúa úthverfanna og nágrannasveitarfélaganna. Þetta er sérkennilegt: íbúar sem búa miðlægt eru síst háðir almenningssamgöngum, en þeir sem fjær búa eru það – almenningssamgöngur eru grundvallarþjónusta við þá.
Almenningssamgöngur eru hluti af innviðum hvers sveitarfélags og þær má í rauninni skipuleggja hvernig sem er. Vel eða illa, afkastamiklar eða ekki – með litla tíðni eða mikla. Vinsamlega eða ekki. Við í Sósíalistaflokknum viljum að þær séu skipulagðar með þarfir láglaunafólks í huga, námsfólks og annarra hópa sem ekki eiga bíl eða ekki nota bíl innanbæjar. Við viljum að þær mæti þörfum þeirra og að þær séu opnar fyrir barnavögnum, reiðhjólum og öðru því sem íbúar hafa með sér þegar þeir fara um. Við viljum líka og ekki síst almenningssamgöngur vegna umhverfissjónarmiða.
Í rauninni eru almenningssamgöngur jafn mikilvægar fyrir íbúa úthverfa og nágrannasveitarfélaganna og aðrir innviðir: leikskólar og aðrir skólar, sundlaug og íþróttaaðstaða, bókasafn og menningar- og félagsmiðstöðvar o.fl. Ef verð á húsnæði er og verður ávallt lægst í úthverfum en hæst miðlægt eru almenningssamgöngur ekki síst ferðmáti þeirra sem búa við minni efni. Almenningssamgöngur eru innviðir sem gera láglaunafólki og raunar öllum öðrum kleift að búa á hagkvæman hátt í borgarsamfélaginu.
Góðar samgöngur spara úthverfabúum gríðarlegar upphæðir: meðalkostnaður við hvern bíl sem fjölskylda á er jafnvel 150 þús. kr. á mánuði eftir skatta og getur það verið drjúgur hluti af launum hennar. Hver bíll sem íbúar útherfa geta sparað sér gefur þeim því töluvert á aðra milljón í vasann eftir skatt í hreinar ráðstöfunartekjur á ári. Engum þætti lélegt að fá það í happdrættisvinning.
Eðlilegt er að nota hvata til þess að ná markmiðum almenningssamgangna. Til greina kemur – og það er hreinlegast og auðveldast í framkvæmd – að allir fái ókeypis í strætó. En enn betra væri þó ef tengja mætti fríkort við bílaeign og þá litla eða enga bílaeign, þannig að sveitarfélagið verðlauni þá sem nota umhverfisvænar samgöngur. Og svo við aldur (fyrir ungt fólk og aldraða). Eins og hér hefur verið sagt eru möguleikarnir með almenningssamgöngum „win-win“ möguleikar fyrir alla. Við fáum umhverfisvænna umhverfi og íbúar auðveldan og hagkvæmari ferðamöguleika.
Sósíalistaflokkurinn hefur ekki tekið beina afstöðu til Borgarlínu eða ekki – frekar sagt að við þurfum og viljum fá tíðar, öruggar og góðar almenningssamgöngur. Í rauninni er Borgarlínan grófmöskvað net sem gengur enda höfuðborgarsvæðisins á milli. Langt er á milli stoppustöðva og hraðinn og afköstin mikil. Hún kemur fyrst og fremst íbúum nágrannasveitarfélaganna til góða – enda eru sveitarstjórnir þeirra mjög áfram um framkvæmdina – og svo þeim úthverfum Reykjavíkur sem lengst eru frá miðbænum og frá vinnustöðum, skólum, heilbrigðisstofnunum og öðru. Strætisvagnakerfin sem eru einnig hluti af framtíðarlausninni eru síðan með þéttriðnara net, vegalengdir styttri, styttra milli stoppustöðva o.s.frv. Síðan þurfa að fylgja þessu göngu- og hjólastígar sem liggja vel við nýju samgöngumiðjunum. Þetta eru líka markmiðin í dag.
Það er ekki sjálfgefið að samgöngumál séu pólitískt bitbein ef vel er unnið að þeim faglega, þótt sú hafi oft orðið raunin hér á landi, t.d. í flugvallarmálinu. En auðvitað eru þau pólitísk í öllum grundvallaratriðum – stjórnmálasjónarmið leggja mismikla áherslu á stuðning við láglaunafólk og úthverfabúa – og auðvitað má í skipulagsmarkmiðum hafa ólíka framtíðarsýn. Hér hefur verið byggð upp bílaborg og mjög dreifð borg þar sem ódýrustu verslanirnar eru jafnvel á fáförnum athafnasvæðum, en ekki nálægt íbúðabyggð. Þessu tvennu þarf að snúa við. Markmið borgarskipulagsins þurfa að verða önnur. Þannig þarf að samþætta og þétta byggðina meira – rétt eins og er gert í borgum um allan heim núna. Þeir sem vilja áfram bílaborg styðja sjónarmið frá miðri síðustu öld – sjónarmið sem hafa reynst fátæku fólki illa og umhverfinu einnig. Þegar kemur hins vegar að hönnun kerfa og staðsetningu þarf að reiða sig á góða fagmennsku og framkvæmd stjórnsýslu á þeim markmiðum sem stuðla að betra borg.
Haukur Arnþórsson, stjórnsýslufræðingur
skipar 46. sæti á lista Sósíalistaflokksins í Reykjavík