Ég sé fátækt fólk

Vilhelm G. Kristinsson Pistill

Ég hef í mig og á. Og ríflega það. Ég hef verið heppinn. En þegar mér auðnast að horfa út fyrir þægindarammann sé ég margt óþægilegt. Það er freistandi að horfa í aðra átt og láta sem ekkert sé. Margir láta freistast, því miður. Hér eru nokkur dæmi um það sem við blasir:

-Ég sé fátækt fólk sem berst í bökkum, vinnur myrkranna milli, sumt í mörgum störfum, en á naumast í sig og á.

-Ég sé fátækt fólk sem hefur ekki bolmagn til þess að eignast eigið húsnæði og er ofurselt bröskurum og okurfyrirtækjum á leigumarkaði. Sárast er að horfast í augu við lítil börn í þessum aðstæðum.

-Ég sé einnig börn innflytjenda sem vegna vanrækslu eiga á hættu verða minnihlutahópur í reykvískum „gettóum“.

-Ég sé fólk, þjakað af kvölum, á biðlistum sjúkrahúsanna og enn aðra sem hafa ekki efni á að leita sér lækninga.

-Ég sé skúringafólk Reykjavíkurborgar sem fær ekki að borða með öðrum starfsmönnum í mötuneytum borgarinnar.

-Ég sé hrikalega misskiptingu auðs og lífsins gæða.

En það eru tvær hliðar á peningnum.

-Ég sé „fjölskyldurnar fjórtán“ sem græða á tá og fingri sem aldrei fyrr, enda vel tengdar inn í valdaflokkinn. Þær hafa hagnast svo vel að þær eiga nú stærstan hluta þjóðarauðsins og ekkert lát á græðginni.

-Ég sé útgerðarmanninn sem seldi á dögunum aðgang að sameiginlegri auðlind þjóðarinnar fyrir milljarða króna. Fyrirtækið sem hann seldi var eitt sinn í eigu Reykvíkinga og hét Bæjarútgerð Reykjavíkur. Kaupendur voru valinkunnir flokksmenn og hrepptu fyrirtæki borgarbúa fyrir slikk.

– Ég sé hluthafa í húsnæðisbraskinu sem auðgast á vanmætti fátæks verkafólks.

– Ég sé flokkinn, sem stofnaður var í þágu þeirra sem minna mega sín, en gekk í eina sæng með stórkapítalistunum, eigendum Íslands, og sefur þar vært.

Flokkurinn minn, Sósíalistaflokkurinn, býður nú fram í fyrsta skipti.

Við erum ekki á hröðum flótta frá sósíalisma eins og margir aðrir samferðamenn okkar í pólitíkinni. Við trúum því að þrátt fyrir að illa hafi farið fyrir sósíalistaríkjum tuttugustu aldar, eigi sósíalismi fullt erindi til okkar núna. Margt var vel gert í þessum ríkjum, en annað miður, eins og gengur. Og það er einmitt það sem miður fór sem áróðursmaskínur kapítalismans á Vesturlöndum hafa einbeitt sér að. Sósíalismi er fallegt hugtak með göfug markmið og að þeim markmiðum viljum við stefna. Mistökin sem gerð voru við framkvæmd stefnunnar á liðinni öld, eru til þess að læra af.

Við erum með marga góða fulltrúa á listanum okkar. Þar er baráttufólk úr „vorinu í verkó“. Líka fólk sem þekkir af eigin raun lífið undir ægivaldi húsnæðisokraranna, einnig innflytjendur sem settir hafa verið út á jaðar samfélagsins og öryrkjar með brostnar vonir um efndir kosningaloforðanna.

Erindi okkar í borgarstjórn má orða í einni málsgrein: Að standa með fátæku fólki og þeim sem minna mega sín.

Vilhelm G. Kristinsson
skipar 40. sæti á framboðslista Sósíalistaflokksins við borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík 2018

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram