Hamingjan hinu megin

Katrín Baldursdóttir Pistill

Ég er alltaf svo glöð þegar ég er á ferðalögum um landið og gisti þar sem ég finn ekki kertastjaka. Þannig get ég látið hugmyndaauðgi mína og sköpunarkraft njóta sín og búið til kertastjaka úr einhverju sem ég finn á staðnum. Svo get ég kveikt á kertum og haft það verulega huggulegt. Ég gæti verið stödd í eyðibýli, í fjallaskála eða hrörlegu sumarhúsi. Þetta er svo æðislegt, frumstætt, svo tengt sálinni og auðvelt að hugleiða. En bíddu aðeins, ég má ekki gleyma að sækja nautkjötið frá Kjötkompanínu, humarinn frá Fylgifiskum, grænmetið beint frá býli, ostana frá Ostabúðinni, kampavíninu, sérpantaða léttvíninu, kavíarnum og brauðinu frá Jóa Fel.

Ég bý í Reykjavík og hef oft farið í svona ferðalög. Ég tilheyri nefnilega þeirri stétt sem meirihlutinn í Borginni með Dag B. Eggertsson í broddi fylkingar er fulltrúi fyrir eða hina menntuðu millistétt, forréttindastétt sem hefur allt til alls og mjög upptekin af því að finna sjálfa sig í núinu. En þó að ég tilheyri þeirri stétt er ég ekki blind. Ég hef verið í og séð Hina Reykjavík sem Dagur B. Eggertsson vill ekki sjá, neitar að sjá og vill halda leyndri. Og af því hann vill ekki sjá hana eða hlusta á hana hefur Hin Reykjavík ekkert pláss við borðið. Dagur er í fullkominni afneitun á Reykjavík eins og hún er í raun og veru. Það er miklu auðveldara að bjóða fólki í vöfflur á Menningarnótt en sjá til þess að allir í Hinni Reykjavík hafi ofan í sig og á.

En hvað er það sem Dagur vill ekki sjá. Hvernig er Hin Reykjavík? Nú vill ég bjóða Degi borgarstjóra, öðrum borgarfulltrúum Samfylkingarinnar, Vinstri grænum og Pírötum í skoðanaferð um Hina Reykjavík. Borgarfulltrúarnir munu þá sjá að Hin Reykjavík er staðurinn þar sem hin fátæku búa, þar sem fólk hefur ekki þak yfir höfuðið, hefur ekki efni á að leigja, þar sem fátæku börnin hafast við, þar sem fólkið hefur svo lítið kaup að það getur engan veginn lifað á þeim, þar sem fólk hefur ekki efni á að fara til læknis, þar sem börnum líður illa því foreldrarnir hafa ekki efni á því að leyfa þeim að fara í tómstundir, þar sem fólk býr við óviðunandi aðstæður því ekki eru til peningar til að gera við það sem bilar á heimilinu eða þakið sem lekur eða gluggana sem eru ónýtir, þar sem fólk hefur ekki efni á að eiga bíl og þarf að hírast við strætóstaur í íslenskri veðráttu, þar sem börnin fá ekki ný föt vegna þess að foreldrarnir eru á svo lágum launum hjá Borginni að það er ekki til peningur fyrir nýjum fötum, þar sem fátæku börnin horfa á önnur börn í nýjum og góðum fötum og með góða gemsa og tölvur, þar sem fátæku börnin horfa á önnur börn kaupa sér hollan og góðan mat, kannski mikið af grænmeti og ávöxtum og öðrum hollum mat sem oft er dýrari en svo að fátæku börnin geti keypt. Þetta er sú Reykjavík sem Dagur borgarstjóri og hinir borgarfulltrúarnir í hinum svokallaða “vinstri” meirihluta vilja ekki sjá.

Ég geri ekki ráð fyrir að þessi skoðunarferð muni skila árangri því afneitunin er svo mikill. Dagur vill miklu frekar horfa á þá Reykjavík sem menn græða á daginn og grilla á kvöldin.

Meirihlutanum í borginni er meira umhugað um þéttingu byggðar en fátæk börn. Ég skil þetta bara ekki. Þetta er eitthvað svo óhugnanlegt. Borgarlínan er aðal kosningamálið en ekki mannsæmandi lífsaðstæður fyrir alla og það strax.

En Hin Reykjavík getur ekki beðið lengur. Hún er nefnilega stór og miklu stærri en Dagur heldur. Hin Reykjavík hefur nú risið upp og krefst réttlætis og mannsæmandi lífs fyrir alla. Og það hefur Hinn Kópavogur gert líka. Hér hefur risið upp fólk, venjulegt fólk sem hefur stritað alla ævi á skítalaunum, hefur reynt sitt besta og kann að lifa af litlu og bjarga sér. Þetta eru frambjóðendur Sósíalistaflokks Íslands í kosningunum. Fólkið sem kann að hagræða í rekstri, spara og er með forgangsröðunina í lagi. Allir geti lifað mannsæmandi lífi, allir hafi gott þak yfir höfuðið og að öll börn búi við góðar aðstæður og njóti jafnræðis í leik og starfi. Þetta er raunverulegur jöfnuður sem ekki hefur komið fram í verkum meirihlutans í Reykjavík né heldur í Kópavogi.

Þó fólkið í Hinni Reykjavík og Hinum Kópavogi lifi við erfiðar aðstæður er það kraftmikið. Svo kraftmikið að það er kominn skjálfti í ráðhús stærstu sveitarfélaga landsins. Tími sannleikans er runninn upp. Tjöldin hafa fallið og veruleikinn hinu megin kominn í ljós.

Þetta er mikill léttir og það er líka til hamingja hinu megin. Alveg sama þó þetta sé fólkið sem líklegast er til að eiga ekki bíl til að komast í eyðibýli, fjallakofa eða hrörlegt sumarhús og nota sköpunarkraftinn til að búa til kertastjaka.

Kjósum Sósíalistaflokk Íslands og gefum öllum tækifæri.

Katrín Baldursdóttir

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram