Við erum mörg

Hlynur Már Vilhjálmsson Pistill

Með stéttaskiptingu er fólki kennt að læra sinn stað í samfélaginu. Því er talin trú um að til sé fólk sem er æðra hinum. Í stjórnmálum á Íslandi er þessi misskipting farin að teljast of eðlileg. Við erum mörg sem erum á móti sívaxandi fátækt í samfélaginu, en hún er oft tilkomin vegna einkaaðila sem notfæra sér vankanta í kerfinu. Það er að vakna stéttarvitund meðal fólks. Okkur ber að standa upp og taka völdin af flokkunum sem leyfa þessu ástandi að viðgangast. Nú eru kosningar, núna er tíminn. Tökum völdin í okkar hendur.

Sjálfstæð hugsun er lykillinn að uppreisn okkar. Menntun skapar hugsandi fólk en getur líka verið notuð til að kenna fólki að misjöfn tækifæri fólks og stéttaskipting sé eðlileg og þannig eigi það að vera. Með menntun getur fólki verið kennt að stunda ekki sjálfstæða hugsun heldur að samþykkja ákveðna hugsun sem lögð er fram sem sjálfsögð sannindi, til dæmis stéttaskipting, fátækt, kapítalísmi eða eitthvað annað. Þetta virðist vera algengt í viðskiptafræðinámi, svo dæmi sé nefnt. Sjálfstæð hugsun verður því að vera í öndvegi til að koma í veg fyrir að við séum mötuð af tilbúnum áróðri kapítalismans.

Við sjáum það skýrt hjá leigufélögum á borð við Almenna leigufélagið og hjá stóru sjávarútvegsfyrirtækjunum að hinn frjálsi markaður er stórhættulegur samfélaginu þegar hann kemst í þá stöðu að mergsjúga sjóði og eignir almennings. Persónulega hef ég ekki áhuga á að borga síhækkandi leigu til hagnaðardrifnu leigufélaganna sem notfæra sér slæma stöðu á húsnæðismarkaði líkt og fjölmargir sem leigja hjá Almenna leigufélaginum neyðast til að gera.

Flokkar sem hafa hingað til stjórnað landinu okkar eru á rangri leið og hafa ekki tekið á þessum fyrirtækjum með ráðum sem duga, til að hagsmunir almennings verði settir í forgang fram yfir hagnaðarsjónarmið fyrirtækjanna. Við þurfum að vera tilbúin í átök gegn þessari þróun og markmiðið verður að vera að færa völdin í hendur almennings.

Við erum fátæk af því að við höfum ekki völd. Ríka fólkið á okkar fallega landi varð ekki ríkt áður en það fékk völdin yfir landinu, heldur tók það völdin og nýtti sér þau til að skapa sér forréttindastöðu yfir hinum almenna borgara. Í krafti þeirrar stöðu heldur það áfram að skapa misskiptingu eigna og launa enn þann dag í dag.

Þeir flokkar sem hafa látið þessa þróun óátalda eru andstæðingar almennings. Við kjósum vissulega fólkið sem stjórnar landinu okkar, en hagsmunir fólksins hafa ekki verið í forgangi í stjórnmálum á Íslandi í langan tíma.

Hvað er það mikilvægasta í lífinu? Það er fjölskyldan, og að hafa tækifæri á að stofna eigin fjölskyldu og lifa ánægjulegu, ástríku og friðsælu lífi. Hvað þurfum við til að geta upplifað þannig líf? Jú, meðal annars öruggt þak yfir höfuðið, fæði og klæði fyrir fjölskylduna, og allt annað sem stuðlar að heilbrigðu og góðu lífi.

Við í Sósíalistaflokkinum viljum stefna í þessa átt. Við viljum víkja af braut nýfrjálshyggjunnar sem hefur sópað húsnæði, náttúruauðlindum og öðrum verðmætum til forréttindastéttarinnar. Við viljum einnig stefna burt frá vaxandi ójöfnuði, einni verstu birtingarmynd nýfrjálshyggjunnar. En til þess að ná árangi í þessari baráttu verðum við að víkja flokkunum sem hafa leynt og ljóst verið hliðhollir nýfrjálshyggjunni úr sessi.

Ég á mér þá von að kosningabaráttan í borginni hætti að snúast eingöngu um skipulag, mislæg gatnamót og hjólastíga og fari að snúast um kjör fólksins í borginni – ekki síst þeirra sem minna mega sín.

Við erum mörg – við getum sótt völdin.

Hlynur Már Vilhjálmsson
er í 4. sæti Sósíalista í Reykjavík

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram