Kærleikur eða kærlíki?

Símon Vestarr Pistill

Í fyrirlestrarsal í Safnahúsinu fyrir ekki svo alls löngu leit ég upp til Ögmundar Jónassonar. Ég meina… ekki eins og þegar ég var sautján ára og fannst hann vera Ché Guevara heldur leit ég bókstaflega upp til hans — ég var sestur en hann stóð og heilsaði upp á þá gesti sem hann þekkti. Einn þeirra var maður sem ég hafði daginn áður tekið á beinið á Fésbókinni fyrir einhverja hræsnina í alþjóðamálum. Eitt þekktasta andlit Sjálfstæðisflokksins frá ólíku tímaskeiði í íslenskri stjórnmálasögu þegar forsætisráðherrann var með svargráar krullur og D-listinn virtist ósigrandi. Einn af þessum holdgervingum gamla Íslands sem Ögmundur tókst oft á við varðandi alvarleg málefni, enda voru þeir rétt tæplega hálfan annan áratug saman á þingi,

Saman á þingi.

Ögmundur heilsaði honum með virktum og ég fékk smá sting í magann. Við hverju hafði ég búist? Að hann bæði manninn að fara? Að hann hundsaði hann? Skallaði hann í ennið? Nei, magastingurinn var auðvitað ekki rökréttur. Menn sem mæta á sama vinnustað dag eftir dag í rúman áratug þekkjast og með kunnuglegheitum verður til kærleikur. Sjitt, hvenær sem hugarkraðaki okkar mistekst að þvælast fyrir okkur eru náttúruleg viðbrögð okkar við öðrum manneskjum alltaf kærleikur. Alltaf og undantekningarlaust.

„En Íraksstríðið?” hváði þá tuttugu og tveggja ára ég — með byltingarþrótt í hjartanu og Rage Against the Machine í fyrstu kynslóðar iPodinum sínum — í þrjátíu og sjö ára höfði mínu. „Hvernig geta tveir einstaklingar verið ósammála um stríð þar sem heil þjóð var lögð í rúst og kumpánast svo eins og ekkert sé?” Svarið er augljóst, framhaldsskóla-ég. Þeir geta þetta á sama hátt og bróðir minn gat alltaf reynt sitt allra besta til að sigra, sóla, tækla, og jafnvel merja aðeins, andstæðing úti á fótboltavellinum og skipst svo á peysum við hann strax og dómarinn flautaði af. Þetta er leikur. Og maður tekur leikinn alvarlega á meðan á honum stendur. Svo skilur maður hann eftir úti á vellinum. Ég heyri oft vini mína úr röðum hófsama vinstrisins (kannski best að kalla þá kratakunningja) tala svona um þingmennsku og pólitík yfir höfuð.

Þetta er bara leikur. Og það er satt. Upp að vissu marki.

Auðvitað er gott að sýna kærleika. Hann er sterkasta byltingarafl sem til er. Engar jákvæðar breytingar spretta upp í samfélagi okkar nema jarðvegurinn sé kærleikur. Og Ögmundur sveik engan málstað með því að knúsa Sjálfstæðismann. Ekki einu sinni Sjálfstæðismann sem flutti inn hátækniriffla svo að sérsveitarmenn gætu hæft mann í hausinn á nokkur hundruð metra færi. Ég skal knúsa hvern þeirra sem er. Meira að segja þennan sem var í Panama-skjölunum. Nei, vandinn við þessi tengsl manna á milli í stétt valdamanna á Íslandi er ekki sá að þau séu of náin heldur að þau ná ekki til okkar hinna.

Ég tel t.d. að opið bréf Ögmundar til ritstjóra Kjarnans, þar sem hann drepur málsatriðum á dreif, gruggar umræðuefnið með óljósum dylgjum út í loftið og snýr jöfnum höndum út úr röksemdum og hugtökum, hafi orðið til vegna eins konar kærleika Ögmundar í garð Ásmundar Einars Daðasonar. Svona afmarkaðs kærleika í garð samstarfsmanns. Við Íslendingar höfum nefnilega oft séð Ögmund sýna kærleika í verki, t.d. með því að sýna samstöðu með Palestínumönnum, nú síðast í hjartnæmu ávarpi á Austurvelli á Nakba-deginum 15. maí. En það var raunverulegur kærleikur. Kærleikur sem nær út fyrir karlaklúbbinn í Kirkjustrætinu.

Hvernig þekkir maður muninn? Eigum við ekki að spyrja eitt fornaldarskáld frá Mið-Austurlöndum? Hann var kallaður Páll.

Samkvæmt honum breiðir kærleikurinn yfir allt, trúir öllu, vonar allt og umber allt. Hann fellur aldrei úr gildi og er æðri allri þekkingu mannkynsins, sem er í molum; brotakennd og skilyrt. Hann tilheyrir öllum. Hvernig veit maður að kærleikur manns sé af réttri sort? Að maður þurfi ekki að fara með hann í búðina og fá endurgreitt? Raunverulegur kærleikur leitar ekki síns eigin og gleðst ekki yfir óréttvísinni. Hann knýr mann ekki til að þeyta skít í allar áttir til að dreifa athyglinni frá rökstuddum grun um að vinnufélagi hafi blekkt almenning. Hann knýr mann ekki til að lasta fjölmiðil fyrir að halda sannindum til haga. Hann samgleðst sannleikanum og líður ekki samtryggingu.

Orð róttæka prédikarans Cornell West eiga hér vel við: Réttlæti er ásýnd kærleikans á almannafæri.

Við sýnum raunverulegan kærleika með því að leita réttlætis. Með því að haga okkur eins og systkini og neita að sætta okkur við að sumir í samfélagi okkar eigi í basli með að ná endum saman í krefjandi vinnu á meðan aðrir eru svo ósnertanlegir að þeir tapa ekki einu sinni ráðherraembætti þegar þeim verður á í messunni, hvað þá starfsferlinum eða húsaskjóli sínu. Orðræða stjórnmálanna er heilt yfir nokkuð köld og teknókratísk en innan hennar er að finna eitt hugtak sem samsvarar almennum kærleika og gengur út á viðleitni til að iðka samfélagslegt réttlæti. Það hugtak er sósíalismi. Stjórnmálastefna sem grínistinn Russell Brand kallaði eitt sinn „pólitískan arm kristindómsins.” Postulasagan rennir stoðum undir þá skilgreiningu í 32. versi 4. kafla: „En í þeim fjölda, sem trú hafði tekið, var eitt hjarta og ein sál, og enginn þeirra taldi neitt vera sitt sem hann átti, heldur höfðu þeir allt sameiginlegt.” Allir gerðu það sem þeir gátu og „sérhverjum var úthlutað eftir því sem hann hafði þörf til.” (v. 35)

Þetta er raunverulegur kærleikur.

Við skulum ekki rugla honum saman við þá meðvirkni sem okkur hefur verið boðið upp á fram að þessu.   Hana getum við kallað kærlíki. Háttvísi í samskiptum á meðal þingmanna (og fyrrverandi þingmanna) er af hinu góða en hún má aldrei vera á kostnað réttlætisins. Þeir sem segja að við eigum ekki kalla spillingu spillingu í pólitík af því að „það er til gott fólk í öllum flokkum” hefur gleymt því að frumskylda þingmanna er ekki kurteisi í garð andstæðinga sinna í vinnunni heldur barátta fyrir hagsmunum almennings. Þeir sem meta yfirvegun í pólitískri orðræðu ofar raunverulegri viðleitni til að bæta samfélagið eiga ekkert erindi á þing eða í borgarstjórn. Siðprýði er góð umgjörð fyrir samfélagsumræðu en innihald er mikilvægara en form. Okkur liggur á að breyta samfélagsgerð okkar til hins betra.

Blessunarlega er einn flokkur í framboði í borginni sem er mannaður fólki sem veit af eigin raun hvar neyðin liggur.

X-um við J fyrir Jesús.

Nei, blöndum ekki trúarbrögðum í þetta.

Við þurfum ekki brennandi runna eða talandi höggorma til að sannfæra okkur um gildi sósíalisma.

X-um við J fyrir jöfnuð.

Símon Vestarr

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram