Af menningarstigi Íslendinga
Pistill
20.05.2018
Sagt er að menningarstig þjóða megi ráða af því hversu mikla umhyggju þær bera fyrir börnum annars vegar og öldruðum hins vegar. Hvernig þær hugsa um ungviðið, þ.e. framtíðina, og aldraða, sem rutt hafa brautina og búið í haginn.
Hvert er menningarstig okkar Íslendinga? Fjölmiðlar eru spegill samfélagsins og hvaða fréttir eru það nú um stundir sem helst tengjast menningarstiginu, eins og það er skilgreint hér að ofan? Þrátt fyrir stórkostlegan efnahagsbata þjóðarbúsins á undanförnum árum eru eftirfarandi málefni oft og reglulega í fréttum:
a. Börn
- Gallað menntakerfi sem meðal annars endurspeglast í lélegum árangri íslenskra nemenda í samanburði við nemendur í öðrum þróuðum ríkjum.
- Brottfall nemenda á framhaldsskólastigi sem rekja má til stórfelldra vandamála sem ekki þolir bið að leysa.
- Flótti úr kennarastétt á öllum skólastigum vegna lágra launa, álags og lélegs aðbúnaðar.
- Skortur á leikskólarýmum og sérhæfðu starfsfólki leikskóla, sem meðal annars veldur því að foreldrar verða að hætta í launaðri vinnu til að geta verið heimavið. Ungir foreldrar mega síst við tekjumissi vegna mikils framfærslukostnaðar.
- Yfirgengilega há húsaleiga, öðru nafni svívirðilegt okur, bitnar helst á ungu fólki með börn. Mýmörg dæmi eru um lítil börn sem þurfa að hrekjast hús úr húsi, hverfi úr hverfi, ásamt foreldrum sínum, með tilheyrandi öryggisleysi og röskun á nauðsynlegri rótfestu.
- Geigvænlegur skortur á þjónustu við börn og ungmenni með geðraskanir.
- Geigvænlegur skortur á þjónustu við börn og ungmenni í vímuefnavanda.
- Ómarkviss og fálmkennd viðbrögð við kynferðisofbeldi gegn börnum.
b. Aldraðir
- Mikill skortur á hjúkrunarrýmum, sem veldur því að aldraðir eru vistaðir á sjúkrahúsum, oft frammi á göngum, án nauðsynlegrar sérhæfðrar þjónustu sem veitt er á hjúkrunarheimilum. Bæta má við að þessi vistun gamla fólksins er utan eiginlegs verksviðs sjúkrahúsanna og kemur niður á annarri þjónustu þeirra við almenning.
- Skortur á bráðnauðsynlegri þjónustu vegna öldrunarsjúkdóma, svo sem heilabilunar.
- Tilfinnanlegur skortur á búsetuúrræðum og þjónustu við aldraða sem geta haldið eigið heimili.
- Gríðarlegir biðlistar eftir aðgerðum sem einkum aldraðir þurfa á að halda, svo sem liðaskiptaaðgerðum og augnaðgerðum.
- Hár tannlæknakostnaður sem gerir að verkum að margir aldraðir hafa ekki efni á að leita nauðsynlegrar þjónustu tannlækna. Léleg tannheilsa rýrir mjög lífsgæði.
- Engar áætlanir hafa verið gerðar um ráðstafanir vegna sístækkandi hóps eftirlaunafólks á næstu árum og áratugum.
- Þjófnaður hins opinbera á lífeyri aldraðra. Lífeyrir aldraðra frá Tryggingastofnun hefur ekki fylgt vísitölum, eins og lög kveða á um. Ríkið hefur þannig stolið stórum fjárhæðum af gömlu fólki, sem sumt lifir undir fátækramörkum.
- Geðþóttaákvarðanir um greiðslu lífeyris. Við stofnun almannatryggingakerfisins var litið svo á að lífeyrir úr kerfinu væri grunnlífeyrir handa öllum að loknum vinnudegi. Síðan hefur ríkið upp á sitt eindæmi snúið þessu við og skerðir lífeyri hjá þeim sem fá greiðslur úr lífeyrissjóðum.
Þegar allt þetta blasir við þeim sem vilja sjá, berast fréttir af ofurlaunum sem efsta lagið í samfélaginu skammtar sér sjálft; oft á tíðum fólk sem er í vinnu hjá okkur, launamönnum. Sem dæmi um siðferðisbrestinn má nefna að nú á dögunum býsnaðist forsætisráðherra yfir 25% launahækkun bæjarstjóra nokkurs (sem síst af öllu skal varin), en forsætisráðherra hafði sjálfur nýlega tekið við 40% launahækkun eftir ákvörðun nefndar sem skipuð var til þess að þjóna hagsmunum þeirra hæstlaunuðu í samfélaginu. Sama fólk bregst svo með vandlætingu við kröfum fátæks fólks um að geta lifað mannsæmandi lífi, fyrir ofan fátækramörk.
Með ofangreint í huga ákvað ég að taka sæti á framboðslista Sósíalistaflokksins við borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík 2018, enda hafði ég lesið mér til um markmið og leiðir flokksins.
Vilhelm G. Kristinsson
er í framboði fyrir Sósíalistaflokk Íslands