Hvers vegna eruði svona hrædd?
Pistill
22.05.2018
Niðurstöður nýjustu skoðanakannana sýna magnaða fylgissveiflu upp á við hjá Sósíalistaflokki Íslands – það gefur glögga mynd af þörfinni fyrir nýrri nálgun og lofar góðu fyrir okkur sósíalista. Vaxandi hópur kjósenda tekur þátt í að deila reynslu frambjóðenda Sósíalistaflokksins af ógnum kapítalismans eins og húsaleiguokri leiguhákalla. Þetta segir okkur að íbúar Íslands þrái nýja nálgun og halli sér því að okkur í stað þess að falla blindandi í faðm auðvaldssinnaðs Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Nýtt framboð sósíalista er því sprottið af þörf til að takast á við úrelta nálgun flokka sem hafa lagt áherslu á flokkslínur, foringjaræði og að allir frambjóðendur fylki sér um einhver ímynduð algildi og hafi alltaf sömu skoðun þar sem persónuleg reynsla skiptir engu máli.
En okkar reynsla tengist fátækt, fyrirlitningu og stöðugum skipunum um að við hlíðum og lokum eyrum, augum og munni og dormum fyrir framan sjónvarpið þegar við erum ekki að vinna – en við höfum fengið nóg af því að gegna. Við höfum fengið málið og endurheimtum orðfæri sem við vörum skömmuð fyrir að nota þegar spámenn nýkapítalismans fóru að hrópa innantóm slagorð guðsins sem þeir kölluðu kapítal og og frjálsa samkeppni með tilvitnunum í hjáguðina Friedman og Hayek. Þessi frjálsa samkeppni hefur helst komið fram í pilsfaldakapítalisma þar sem flokksjálkar fá ríkisstofnanir gefins. Við erum að sækja orðaforðann aftur í fangelsið sem jafnvel verkalýðshreyfingin samþykkti, eftir því sem leið á níunda og tíunda áratug 20. Aldar, og vill enn halda almenningi í. Orðin sem við endurheimtum eru m.a. stéttabarátta, auðvald, arðrán, kapítalismi og sósíalismi. Þessi orð hafa innihald og merkingu fyrir okkur og málpípur valdastéttarinnar óttast þau og kalla upphrópanir og innihaldslausa frasa vegna þess að orð okkar hafa merkingu og innihald sem stingur.
Annað sem við sósíalistar gerum er að nálgast stjórnmál á nýjan hátt og með nýja sýn að leiðarljósi. Við erum stolt af því að við erum félagsskapur þar sem fólk talar fyrir sjálft sig og deilir sögum af erfiðri og sársaukafullri reynslu ásamt sigrum og stolti yfir því að vera þau sem við erum. Í Sósíalistaflokknum er enginn málsvari eða yfirvald sem segir okkur hver reynsla okkar er, því við þekkjum reynslu okkar og erum óhrædd við að deila henni með öðrum og þannig ögrum við staðalímyndum flokks- og foringjaræðis. Mér finnst styrkur af því að tilheyra hópi fólks sem deilir með mér reynslu, erfiðleikum, styrk og tilfinningum. Allt forneskjulegt tvíhyggju hjal sem einskorðast við forsvarsmenn er því úr lausu lofti gripið og sýnir ekkert annað en hátimbraða fáfræði leiðarahöfunda Fréttablaðsins um Sósíalistaflokk Íslands. Það er eftirspurn eftir nýstárlegri nálgun okkar sem kemur fram í vaxandi fylgi flokksins. Þetta er árangur sem hægt er að státa sig af. Að bera Sósíalistaflokk Íslands saman við einhverja aðra flokka er því algerlega úr lausu lofti gripið. Auk þess hefur Sanna Magdalena oddviti flokksins í Reykjavík vakið athygli fyrir rökvísan og framsækinn málflutning varðandi það hvernig borgin getur komið að byggingu bústaða fyrir þá sem hafa verið skildir eftir án raddar í stöðnuðu flokkakerfi. Ég trúi því að Sanna Magdalena og annað flokksfólk í efstu sætum eigi eftir að sýna enn betur að þau eiga mikilvægt erindi í borgarstjórn Reykjavíkur – erindi sem á eftir að breyta borgarstjórninni til hins betra.
Sívaxandi áhugi á sýnileik þeirra sem af fullkomnum hroka er stöðugt ýtt út úr valdakerfinu hefur vakið áhuga fjölda kjósenda sem eru í sömu stöðu og frambjóðendur Sósíalistaflokksins m.a. vegna þess að grónir tvíhyggju valdaflokkar gera fleiri og fleiri tillögur okkar að réttlátu samfélagi að sínum. Þar ber húsnæðismálin hæst. Þegar svefngenglar vanans kvarta undan Karli Marx í leiðurum sýnir það að við erum á réttri leið. Verk Marx sýna að auðvald og yfirstétt byggja á láglaunastefnu, þrælahaldi og arðráni og að steypa fólki í skuldafjötra og ef það tekst ekki þá eru borgararnir sendir í stríð gegn grönnum sínum til að halda fólksfjölgun í skefjum eða þá að reynt er að losna við öryrkja með starfsgetumati, svo þeir hverfi þegjandi og hljóðalaust eins og gerst hefur á Englandi í valdatíð Camerons og May. Það er því deginum ljósara að launafólk þarf að grípa til orðanna sem var stolið af okkur og vera óhrætt við að tala um arðrán og stéttaskiptingu. Launafólk er í hlekkjum og við erum tilbúin að brjóta þá í sameiningu – hvort sem það er kjarabarátta ljósmæðra eða að binda endi á láglaunaþrælahald í ferða iðnaðinum og Hörpu.
Þeir sem vega að framboði Sósíalistaflokksins eru að vega að ungu fólki og rosknu sem kemur víða að úr heiminum, hinsegin fólki, innflytjendum, fólki sem hefur ekki haft rödd á Íslandi, fólki sem hefur unnið hörðum höndum, verið atvinnulaust og velt hverri einustu krónu milli handanna án þess að geta veitt sér allt það sem sjálfsagt er eins og mat fyrir fjölskylduna og þó ekki væri nema stöku bíóferð, en leggur samt gjörva hönd á það að gera Ísland að betri stað fyrir alla með mikilli vinnu sem er illa borguð.
Hinn glaðbeitti áhugi kjósenda á Sósíalistaflokknum og baráttu fyrir réttlátu samfélagi kemur ekki á óvart. Kjósendum finnst það hreint ekki tímaskekkja að vekja athygli á fátækt, arðráni, lélegu húsnæði, leiguokri og lélegum kjörum launafólks sem hefur fengið nóg af kúgun auðvaldsins. Til að koma þeim hugmyndum til skila nýtast hugmyndir Karls Marx mun betur en gaspur nýauðhyggjunnar. Það hefur í nokkra áratugi verið bannað að vekja athygli á því opinberlega að verkafólki hefur verið haldið í hlekkjum fátæktar og lágra launa á meðan auðmenn hafa rótað til sín fjármagni og ekki hikað við að stela af bifreiðareigendum í gegnum bílatryggingar samkvæmt nýlegum fréttum. Framboð Sósíalistaflokksins vinnur gegn þeirri upplausn og ringulreið sem auðhyggjan hefur leitt yfir þúsundir Reykvíkinga.
Kjósendur í Reykjavík og Kópavogi eru að vakna til vitundar og áhuginn á kosningunum fer dag vaxandi sérstaklega þegar þeir sjá að aðrir flokkar hika ekki við að taka upp brautryðjendahugsjónir Sósíalistaflokksins m.a. í húsnæðismálum.
Stefnumál Sósíalistaflokksins eru í samræmi við óskir Reykvíkinga og fjölda fólks um allt land hvort sem það er innflutt eða innfætt. Það segir mikið um það hvað þjóðin vill. Hvað Reykvíkingar vilja.
Fólk um alla borg tengir við reynslusögur frambjóðenda Sósíalistaflokksins. Þessar sögur og samstaðan sem þær vekja með kjósendum vekja ótta hjá málpípum auðvaldsins sem moka út leiðurum skjálfandi á beinunum af ótta.
Gerum hið mögulega; upprætum leiguokur og húsnæðisleysi!
-Það er langt síðan það hefur verið eins spennandi að taka þátt í stjórnmálum og einmitt núna.
Ynda Gestsson
Höfundur er í 25. baráttusæti Sósíalistaflokksins í Reykjavík