Myndlist til valdeflingar

Ynda Gestsson Pistill

Frá unga aldri hefur myndlist verið mitt hjartans mál og fátt veit ég yndislegra en að rölta um söfn og gallerí og njóta fjölbreytninnar sem finna má í þessum stofnunum. Það er mér þess vegna sérstakt kappsmál að efla myndlist í borginni og aðgang undirokaðra samfélagshópa að henni. Flest stærri söfn erlendis bjóða gestum ókeypis aðgang að grunnsýningum og stundum jafnvel stórsýningum helstu snillinga fortíðar, nútíðar og framtíðar – en það ber líka að hafa í huga að þessi söfn innheimta oft háan aðgangseyri fyrir sérstakar stórsýningar sem ætla má að dragi að sér hundruð þúsunda borgandi gesta.

Í Reykjavík rekur borgin Listasafn Reykjavíkur sem dreift er um borgina eins og kunnugt er. Skipt er reglulega um sýningar og fjölbreyttur hópur listafólks sýnir verk sín; allt frá byrjendum til látinna snillinga. Þetta eru sýningar sem allir ættu að hafa óheftan og ókeypis aðgang að. En því miður er það ekki raunin. Söfnunum er í anda auðhyggjunnar gert að afla sér sjálfstæðra tekna og er aðgangseyrir að því er virðist drýgsta tekjulindin. Samkvæmt vefsíðu safnsins er aðgangseyrir fyrir fullorðna 1650 krónur. Námsfólki er gert að greiða 1100 kr., en yngri en 18 ára og eldri en 67 ára fá ókeypis inn. Þetta eru forvitnilegar tölur og enn athyglisverðara er að athuga hverjir fá ekki afslátt eða verulega niðurfellingu aðgangseyris: Þessir hópar eru atvinnulausir, öryrkjar og láglaunafólk sem nóg er af hjá Reykjavíkurborg. Fólki í þessum hópum virðist gert að borga fullt gjald langi þau að bregða sér á sýningu með börnin sér til dægrastyttingar. Hér finnst mér að full ástæða sé til að spyrja um mannréttindi. Ég tel að opinn og óheftur aðgangur jaðarsettra hópa eigi að ganga fyrir allri gjaldtöku. Fátækt fólk á það skilið að fá að njóta listar og hvatningar til að njóta hennar eins og aðrir í samfélaginu og þetta misrétti þarf að laga strax. Það liggur í augum uppi hvað það myndi kosta fjölskyldu inn á sýningu. Árskort eru ekki betri kostur því þau eru gefin út á einstakling og kosta 4400 kr á ári og fyrir tvær manneskjur 6500 jafnvel þó börnin fái ókeypis inn. Það er því augljóst að gjaldtaka safna kemur í veg fyrir að að stórir hópar fólks hafi aðgang að söfnum

Annað sem vekur athygli er að samkvæmt vefsíðu safnsins virðist ekki boðið upp á neina þjónustu við þá hópa sem nefndir eru hér fyrir ofan. Ástandið í samfélaginu er þannig að full þörf er á því að koma til móts við atvinnulausa, öryrkja, fátækt fólk og börn með ókeypis námskeiðum sem dreifa huganum frá erfiðleikum og eru um leið valdeflandi. Þessu væri hægt að ná með samvinnu við Öryrkjabandalagið, Vinnumálastofnun, Hlutverkasetrið, Sjálfsbjörg, Virk, Rauða Krossinn, félagsþjónustuna, Mannréttindaskrifstofu og fleiri stofnanir sem ætlað er að halda utan um fólk þegar í harðbakkann slær. Til að sinna þessu þyrfti að ráða fólk sem þekkir vel til myndlistar, safna, safnastarfs og þeirra græðandi eiginleika og hvatningar sem myndlist býr yfir. Til að standa undir þessu starfi mætti nýta tekjur af heimsóknum ferðafólks á Listasafn Reykjavíkur, en tekjur af þjónustugjöldum í Hafnarhúsi og á Kjarvalsstöðum voru um 51 milljón árið 2017.

Það er einsýnt að stórlega þarf að bæta félagslega stöðu þessa stóra hóps fólks í borginni með valdeflingu að leiðarljósi. Það er einnig mikilvægt að hægt sé að nýta svona verkefni til að gera hinsegin listafólk sýnilegra í samfélaginu. Þar tel ég að þekking og reynsla Mannréttindaskrifstofu geti nýst mjög vel en hún gegnir lykilhlutverki í því að gera jaðarhópa sýnilega í borginni. Tillaga mín er þess vegna að skrifstofa mannréttinda eyrnamerki einn styrk á ári fyrir hinsegin myndlistarmannsekju til að fjalla um reynslu sína sem hinsegin manneskja. Í styrknum fælist einnig boð um að sýna verkin opinberlega í safni eða galleríi.

Allt sem að ofan er talið yrði stórkostlegur styrkur við hópa sem ströggla við að vera sýnilegir þátttakendur í samfélagi sem horfir yfir og í gegnum fólk. Hver einasta króna sem varið er í ofangreind verkefni skilar sér margfalt til baka. Það má aldrei gerast að sú skoðun að stuðningur við mannréttindi og sýnileik jaðarhópa sé óþarfa eyðsla á fjármunum.

Myndlist í þágu valdeflingar og mannréttinda!

Ynda Gestsson
er í 25. baráttusæti Sósíalistaflokksins í Reykjavík

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram