Gegn arðráni og kúgun, fyrir réttlæti og frelsi

Sólveig Anna Jónsdóttir Pistill

Það rignir en það er allt í lagi; um daginn sá ég fyrstu útsprungnu lúpínuna í Elliðaárdalnum.

– – – – –

Fyrir stuttu sagði ég að grundvallarafstaða mín í pólitík væri andstaðan við arðránið. Ég fer dýpra og einfalda mál mitt: Grundvallarafstaða mín er andstaðan við kúgun.

Ég vil ekki kúga neinn og ég vil ekki vera kúguð. Ég vil lifa frjáls og vil að annað fólk fái að lifa frjálst.

Kapítalisminn er kúgun. Ekki aðeins eru kreppurnar og krísurnar innbyggðar inn í kjarnsýrurnar hans, svoleiðis að talið um “stöðugleika” er ekkert nema þvaður blekkjaranna og lygar lygaranna; misskipting, mismunun og ofbeldi eru undirstöðurnar sem hann hvílir á. Þannig hefur það ávallt verið og þannig mun það vera, meðan að ófreskjan lifir.

Í dag hafið þið val: Þið getið haldið áfram að kjósa kapítalismann og nýfrjálshyggjuna.

Þið getið kosið fólk sem annað hvort vill ekki eða þorir ekki að nefna ástæðuna fyrir stéttaskiptingunni, misskiptingunni, mannfyrirlitningunni, náttúrufyrirlitningunni. Fólk sem þrátt fyrir allt, þrátt fyrir trylltar bólur, mannkynssöguleg hrun, skelfilegar kreppur, hrikalega umhverfisvá, ógeðslega kvenfyrirlitningu (eða haldiði að það sé tilviljun sem ráði því að konurnar í umönnunarstörfunum komist ekki af á launum sínum og þurfi annað hvort að lifa í fátækt eða þræla sér út í aukavinna?), stöðugt vaxandi ójöfnuð, hjartnístandi barnafátækt, vanrækslu á gömlu fólki, fólk sem þrátt fyrir allt þetta og miklu, miklu meira til (treystum við okkur einu sinni til að horfa útí heim, á þjáningar bræðra okkar og systra sem lifa sem þrælar til þess að siðvillingar og sadistar geti haldið áfram að græða?), getur ekki sagt Nýfrjálshyggja, getur ekki sagt Kapítalismi. Getur ekki enn, þrátt fyrir heila veröld fulla af skelfilegum andstæðum óréttlætisins, þar sem sum eiga allt 0g önnur ekkert, þar sem fámennur hópur níðinga sölsar nú öll auðæfi jarðar undir sig, horfst í augu við staðreynd málsins: Annað hvort kremjum við kapítalismann eða hann kremur okkur.

Eða þið getið kosið sósíalisma.

Þið getið kosið organíska og sjálfsprottna baráttu alþýðufólks sem hefur ákveðið að draga línu í sandinn og berjast fyrir hugsjónum sínum af öllum krafti. Þið getið kosið fólk sem afneitar ekki sannleikanum um eðli samfélagsins, heldur horfist í augu við hann og snýst til varna.

Þið getið kosið fegurð, drauma og upprisu þeirra sem þrátt fyrir að hafa verið pínd, arðrænd, kúguð og niðurlægð rísa upp, ekki með ofbeldi og hótunum, ekki með hatri og vænisýki, ekki með grimmd og forherðingu, heldur með því að að nota mennskuna sína, gæskuna og samkenndina sína til að setja fram kröfuna um samfélag án stéttskiptingar, sem einmitt vegna þess að þau hafa lifað djúpt inn í kerfi kúgunarinnar, hafna kúgun alfarið og algjörlega.

Þið getið kosið hugsjónina um frelsi, jafnrétti og bræðralag, þið getið kosið þrána, hina eldheitu þrá kynslóðanna sem deyr aldrei, um líf án arðráns, líf án kúgunnar, líf án niðurlægingar.

Látum ekki telja okkur trú um að draumurinn um réttlátt samfélag, þar sem við leggjum til eftir getu og uppskerum eftir þörfum, þar sem öllu fólki er tryggt gott og mannsæmandi líf, sé draumur einfeldningsins, þess sem skilur ekki mannlegt eðli. Þvert á móti; treystum eigin réttlætiskennd, innsæi og tilfinningum sem segja okkur þetta: Stundin til að sameinast og berjast af fullri alvöru gegn kúgun, misnotkun og arðráni er runnin upp. Stundin til að sameinast og berjast af fullri alvöru fyrir réttlæti, jöfnuði og frelsi er runninn upp.

Í dag getum við, sameinuð, látið það gerast að Sanna Magdalena Mörtudóttir, alin upp í sára fátækt af einstæðri móður, taki sæti í borgarstjórn. Í dag getum við kosið Sönnu, andlit og rödd hins nýja sósíalisma samtímans. Í dag getum við saman látið það gerast að Sanna Magdalena Mörtudóttir, málsvari kúgaðra og arðrændra, verði borgarfulltrúi. Í dag getum við látið það gerast að Sósíalistaflokkurinn eignist lýðræðislega kjörinn fulltrúa í Reykjavík.

Og á morgun þegar við vöknum í íslenska síð-vorinu getum við glaðst djúpt og innilega yfir því að okkur tókst, með samstöðu og af hugsjón, að tryggja það að sósíalisminn er kominn til að vera á Íslandi, glaðst yfir því að nú verður ekki aftur snúið. Baráttan fyrir réttlæti á Íslandi er hafin.

Gegn arðráni og kúgun, fyrir réttlæti og frelsi: Kjósum stéttabaráttuna, kjósum upprisuna, kjósum Sósíalistaflokkinn.

Sólveig Anna Jónsdóttir

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram