Hvað gerum við nú?

Haukur Arnþórsson Pistill

Að afloknum glæsilegum sigri í tveimur sveitarfélögum er rétt að staldra við og spyrja sig spurninga. Ein mikilvægasta spurningin er: Af hverju erum við í faglegri og stjórnmálalegri baráttu? Og svarið gæti verið að við erum komin til þess að breyta valdahlutföllunum í samfélaginu, við erum komin til þess að deila þjóðarauðnum jafnar og að sjá til þess að stórir hópar almennings sem nú eru undir – geti lifað með reisn í samfélagi þar sem allir njóta virðingar og hafa rödd.

Við berjumst aðallega á tvennum vettvangi: a) í verkalýðsbaráttunni og í annarri félagslegri baráttu og b) í hinni opinberu stjórnmálabaráttu. Nú höfum við að baki glæsilega kosningasigra á báðum þessum sviðum. Það eru góð skref og mikilvæg, en næstu skref eru það líka.

Áður en lengra er haldið vil ég minna á hvað er aðalatriði. Það er áherslan á baráttuna fyrir þá sem standa veikt, hún sameinar fólk og fær það til liðs við okkur. Hins vegar snýst umræðan í samfélaginu og í stjórnmálunum sjaldnast um þessi aðalatriði okkar baráttu. Hún getur snúist um hvað sem er – og skipt þjóðinni í tvær eða fleiri fylkingar. Við þurfum að passa okkur á þessu – við þurfum að koma okkar aðalatriðum á dagskrá þannig að þau verði málefni dagsins og það er barátta að láta okkar sjónarmið heyrast (hægra fólk telur það tilfinningaklám að tala um fátækt). Við megum ekki láta stilla okkur upp við vegg í deilumálum sem ekki varða okkar samfélagslega erindi mikið. Í öllum slíkum málum þurfum við að spyrja okkur spurninga um stéttarhagsmuni.

Verkalýðsbaráttan. Baráttan við auðvaldið er grundvallaratriði. Hún á sér einkum stað í verkalýðsbaráttunni. Sigrar verkalýðsbaráttunnar hér á landi á síðustu 100 árum hafa skilað okkur þeirri samhjálp og félagslegum kerfum sem við höfum – og því launastigi sem hér er. En sigrar verkalýðsbaráttunnar hafa gengið til baka með því að valdastaða stéttanna gagnvart hverri annarri hefur versnað – gott dæmi eru húsnæðismálin, en einnig heilbrigðismálin (kostnaður almennings hefur aukist mikið). Þá er Ísland enn láglaunaland og réttleysi margra á vinnumarkaði er mjög mikið, hjá vinnuleigum og við aðstæður þar sem kjarasamningar eru ekki virtir. Við eigum því mikið starf fyrir höndum að valdefla þá sem nú eru veikir þannig að á hverjum vinnustað vinni fólk sem þorir að krefjast réttar sína og geri það. Og fær stuðning verkalýðsfélagsins til þess. Kjarasamningar eru vissulega grundvallaratriði í störfum verkalýðsfélaga, en það að efla virkni og meðvitund er líka gríðarlega mikilvægt. Hörð barátta, þar sem sótt er að hagsmunum auðvaldsins og valdastöðu, krefst sterkrar og meðvitaðrar hreyfingar.

Baráttan meðal fólks, s.s. í félögum. Við heyjum líka baráttu með hópum sem eiga undir högg að sækja, það er mjög mikilvæg barátta og það fólk á að geta treyst okkur. Meðal þessara hópa eru lauslega formaðir hópar og upp í virðuleg félög eins og félög aldraðra og öryrkja.

Stjórnmálabaráttan. Við berjumst stjórnmálabaráttu vegna þess að það er leið til þess að hafa áhrif á opinberar ákvarðanir. Enda þótt ríkisvaldið sé kúgunartæki auðvaldsins þá hafa sósíalistar í mörgum löndum náð miklum árangri í réttindabaráttu, í húsnæðismálum og fleiri málum með stjórnmálalegri baráttu. Stjórnmálabaráttan er líka hin opinbera barátta hugmynda í samfélaginu. Mikilvægt er fyrir okkur að vera með í henni til þess að færa miðjuna í stjórnmálunum nær sósíalískum sjónarmiðum.

Ýmsar hættur eru við stjórnmálabaráttu sem við þekkjum öll. T.d. að stjórnmálaforingjarnir sem hafa aðgang að fjölmiðlum verði ótvíræðir talsmenn stjórnmálaflokka og jafnvel að upp komi foringjaræði flokksformanna. Því þurfum við að mynda flokksstofnanir sem veita kjörnum fulltrúum aðhald gagnvart grasrótinni. Slíkar flokksstofnanir geta verið fundir eins og Sanna hélt í gærkvöld og fyrrakvöld. En þetta samband grasrótarinnar og aðkoma hennar að ákvörðunum stjórnmálamanna – er mjög mikilvægt mál.

Við sjáum að íslensku stjórnmálaflokkarnir láta ríki og borg borga fyrir sig kosningabaráttu – sennilega til þess að þurfa ekki að hafa grasrótarstarf. Við skerum okkur alveg frá þessu, við erum með félagsgjöld og við vinnum í sjálfboðavinnu og höfum samskot. Það að vinna þannig – og að hafa grasrótarstarf og tengja grasrótina er eitthvað sem við þurfum að leggja rækt við.

Að lokum

Að þessu öllu sögðu tel ég að glæsileg barátta Sósíalistaflokksins ætti að geta haldið áfram. Við þurfum að halda áfram innri málefnavinnu, bæði að þróa áfram núverandi stefnumál og vinna upp stefnur á nýjum sviðum. Svo þurfum við að hafa skemmtilegt innra starf og hittast.

Það er ágætt að hafa hefðbundna fundi og fá athyglisverða fyrirlesara og ræða við þá – mér detta í hug Benedikt Sigurðarson um húsnæðismál og Birgitta Jónsdóttir um upplýsingafrelsi – til þess þurfum við að setja upp fundaraðir. Slíka opinbera fundi munu margir sækja og langt út fyrir okkar raðir. En þeir eru ekki eiginlegt innra starf.

Haukur Arnþórsson

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram