Róttækni og meðvirkni

Símon Vestarr Pistill

Jæja, í síðustu viku fengum við Íslendingar verðugt innlegg inn í stjórnmálaumræðu okkar – svar við spurningu sem enginn spurði: „Hvað finnst Viðreisn um Sósíalistaflokkinn?“

Jóna Sólveig hefur alltaf komið mér fyrir sjónir sem manneskja sem ígrundar afstöðu andstæðinga sinna og talar af yfirvegun. Mér gæti auðvitað skjátlast enda játa ég fúslega að hafa ekki lesið alla skapaða hluti sem hún hefur skrifað en ég ætla að gefa mér að vanaleg háttvísi hennar sé ekki uppgerð. Þess vegna ætla ég að henni hafi sárnað þegar Sanna Magdalena Mörtudóttir lýsti því yfir á Rás 1 að sósíalistum hugnaðist ekki sú nýfrjálshyggja sem Viðreisn byggir stefnu sína á.

Hvernig á öðruvísi að útskýra það að þessari íhugulu Viðreisnarkonu mistakist að greina á milli málamiðlunarleysis róttæks stéttabaráttuflokks og óbilgirni rómversks keisara? Heimsyfirráð eða dauði? Sanna á þeysireið inn í Gallíu með hausa héraðshöfðingja á mannhárri lensu? Í alvöru, Jóna? Erum við ekki þroskaðri en svo að kasta þurfi svona gífuryrðum fram? Og þarf einhver að taka mark á manneskju sem setur samasem-merki á milli þess að „tala mannamál“ án meðvirkni í stjórnmálum og að vera lyginn nýfasisti eins og Donald Trump?

Það hlýtur að teljast einhvers konar afrek að geta pakkað svona mikilli tilfinningastýrðri orðræðu inn í svona stutta grein. Jóna leggur Sönnu það í munn að hafa kallað hugmyndafræðilega andstæðinga sósíalista ýmist „meðvirka eða vonda“ með „rangar skoðanir“ og að hafa kallað eftir „útrýmingu millistéttarinnar.“ Jóna hefur annað hvort tekið orðinu nýfrjálshyggja sem skammaryrði og brugðist við af særðu stolti eða vísvitandi afbakað málflutning Sönnu. Hið fyrrnefnda tel ég líklegra.

Ásteytingarsteinninn sýnist mér hér vera málamiðlunarleysið sem Sósíalistaflokkurinn boðar. Róttækur sósíalismi þýðir ekki útrýming lýðræðis heldur dýpkun þess. Venezuela er dæmi sem Jóna tekur um sósíalisma en í því landi er við völd vanhæfur maður sem hefur engan áhuga á valdadreifingu. Já, flokkur hans kennir sig við sósíalisma en það gerir líka Bernie Sanders í Bandaríkjunum, Francois Hollande í Frakklandi og tugir flokka í hinum og þessum löndum.

Að halda því fram að sósíalismi sé ávísun á fátækt og eymd vegna þess að svonefndur sósíalismi í Venezuela gat slíkt af sér er eins og að segja að lýðræði sé ávísun á hungursneyðir og hrylling vegna þess að Norður-Kórea kallar sig lýðræðislegt alþýðulýðveldi. Það sýnir ekki mikinn skilning á heildarsamhengi mannkynssögunnar eða hugmyndafræði sósíalismans. Í pistlinum er lesandinn ávarpaður sem einfeldningur sem hefur bara lesið um kommúnisma í John Clancy sögum eða heyrt um hann i kennslustundum hjá Hannesi Hólmstein.

Þetta er ekkert persónulegt, Jóna. Engum finnst þú vera vond manneskja af því að þú ert í Viðreisn. Sósíalistar eru einfaldlega þeirrar skoðunar að auðstéttin hafi það mikil völd á Íslandi að ekki sé hægt að taka afdrifaríkar ákvarðanir í landsmálum án þess að hún samþykki þær. Þess vegna finnst sósíalistum það beinlínis fáránlegt að stjórnmálafólk sé enn þá að reyna að búa til málamiðlanir við eignastéttina í stað þess að hvetja alþýðuna til að standa saman sem mótvægi við auðræðið. Þetta er það sem er meint með því að innleiða þurfi pólitíska róttækni í stað pólitískrar meðvirkni.

Er ekki löngu kominn tími til þess?

Viðreisn segir nei.

Sósíalistaflokkurinn segir jú víst.

Símon Vestarr

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram