Sósíalistar vilja hnekkja ákvörðun um skert lýðræði
Frétt
13.06.2018
„Það er undarlegt að sömu flokkar og segjast standa fyrir gagnsæi og auknu lýðræði skuli standa að því að stórskerða aðgengi kjörinnar fulltrúa að stjórnkerfi borgarinnar,“ segir Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi sósíalista. „Aðgengi smærri flokka að ráðum og nefndum borgarinnar var nánast þurrkað út með breytingum fráfarandi meirihluta á samþykktum borgarstjórnar stuttu fyrir kosningar og hinn nýi meirihluti hefur ekki enn sýnt fram á að hann ætli að leiðrétta þetta.“
Sanna vísar til þess að í apríl voru gerðar breytingar á samþykktum borgarstjórnar sem felldu burtu rétt þeirra flokka sem ekki náðu kjöri í ráð og nefndir að skipa áheyrnarfulltrúa með tillögurétti. Með því lokast að mestu aðgengi fámennra borgarstjórnarflokka að stjórnkerfi borgarinnar.
„Þessar breytingar voru fyrir kosningar, þegar sex flokkar sátu í borgarstjórn, ill skiljanleg takmörkun á aðgengi borgarfulltrúa að stjórnkerfinu. En nú eftir kosningar, þegar átta flokkar sitja í borgarstjórn, afhjúpast hversu óréttlát og vitlaus þessi breyting var,“ segir Daníel Örn Arnarsson, varaborgarfulltrúi sósíalista.
Fyrir breytingarnar höfðu fámennir borgarstjórnarflokkar rétt á áheyrnarfulltrúum í fjölmörg ráð og nefndir, um tuttugu talsins. Eftir breytingar verða áheyrnarfulltrúar aðeins í tveimur ráðum, í borgarráði og skipulagsráði, sem kallast nú skipulags- og samgönguráð.
„Við sósíalistar munum leggja fram tillögu á fyrsta fundi nýrrar borgarstjórnar um að vinda ofan af þessari ákvörðun,“ segir Sanna. Allir minnihlutaflokkarnir hafa lýst yfir stuðningi við slíka breytingu.
Að óbreyttu fá minnstu flokkarnir aðeins setu í tveimur ráðum og áheyrn í tveimur til viðbótar eða aðkomu að fjórum ráðum af um tuttugu mikilvægum ráðum og nefndum borgarkerfisins. „Við fáum aðeins takmarkaðan aðgang að stjórnkerfinu, þátttöku í litlum hluta þess en að öðru leyti bara skráargat að kíkja í gegnum, aðgengi að samþykktum mála eftir að þau hafa verið afgreidd,“ segir Daníel.
Þessi takmörkun á aðgengi smærri flokka að stjórnkerfinu er að sögn Daníels enn ein aðför stærri flokka að lýðræðinu. Hann getur trútt um talað því samkvæmt kosningalögum allra landa í okkar heimshluta væri Daníel borgarfulltrúi í dag. En þar sem notast er við reiknireglu á Íslandi, sem hyglir stærri flokkunum á kostnað hinna smærri, fékk Guðrún Ögmundsdóttir í Samfylkingunni sætið sem Daníel hefði fengið ef beitt hefði verið reikniaðferðum sem tíðkast í okkar heimshluta.
Sósíalistar gagnrýndu í kosningabaráttunni gríðarlegan fjáraustur úr ríkissjóði og borgarsjóði til stjórnmálaflokkanna. En í ár taka þeir flokkar sem sæti eiga á þingi og áttu sæti í fráfarandi borgarstjórn til sín hátt í 750 milljónir króna af almannafé. „Þetta er ekki bara varasöm notkun á almannafé heldur skekkja þessir styrkir alla lýðræðislega umræðu,“ segir Daníel. „Við fundum vel fyrir þessu í kosningabaráttunni. Þegar flokkarnir voru komnir á fullt í auglýsingum var erfitt að koma nokkru vitrænu í gegnum þann múr. Það er mjög undarleg ráðstöfun að almenningur sé látinn borga fyrir langar sjónvarpsauglýsingar þar sem forysta valdaflokka dregur upp glansmynd af sjálfum sér“
Auk fjárstyrkja bendir Daníel á 5% þröskuldinn í þingkosningum, sem dregur úr möguleikum nýrra framboða á að komast að. Þessi þröskuldur er hærri en í nokkru sambærilegu kosningakerfi í okkar heimshluta. „Þegar breytingarnar sem gerðar voru á samþykktum borgarstjórnar í apríl eru skoðaðar í þessu ljósi er augljóst að þær eru liður í aðför stóru flokkanna að lýðræðinu. Þeir virðast telja sig geta notað hvaða aðferðir sem er til að verja stöðu sína gegn vilja stórs hluta kjósenda, sem er búinn að fá nóg af þeim elítustjórnmálum sem sem hafa verið stunduð hér undanfarna áratugi.“
Auk þess að leggja til að allir flokkar fái að skipa áheyrnarfulltrúa í öllum ráðum og nefndum sem lög leyfa, ætla sósíalistar að fá hnekkt túlkun skrifstofu borgarstjórnar á samþykktum og sveitastjórnarlögum. Eins og staðan er í dag geta sósíalistar, Miðflokkur og Flokkur fólksins boðið fram saman og tryggt sér eitt sæti í hverju sjö manna ráði. Samkvæmt nýjum samþykktum borgarstjórnar eru aðeins skilin eftir sæti fyrir áheyrnarfulltrúa í borgarráði og skipulagsráði. Skrifstofa borgarstjórnar túlkar lögin svo að ef þessir flokkar sækjast eftir einu sæti í þessum ráðum fyrirgeri þeir rétti sínum á áheyrnarfulltrúum.
Með öðrum orðum: Ef sameiginlegt framboð sósíalista, Miðflokks og Flokks fólksins nýtir afl sitt til að fá einn mann kjörinn í borgarráð, til dæmis sósíalista sem er sá flokkurinn af þessum þremur sem fékk flest atkvæði í kosningunum, þá muni Miðflokkur og Flokkur fólksins ekki fá áheyrnarfulltrúa í borgarráði. Sama á við um skipulagsráð.
„Þetta er fáránleg staða sem smærri flokkar eru settir í,“ segir Sanna. „Með því að sækja rétt sinn til setu í borgarráði yrðu flokkarnir að afsala sér rétti til áheyrnar. Eða öfugt: Til að allir flokkarnir fái áheyrn í borgarráði þurfa þessir þrír flokkar sameiginlega að gefa atkvæði sitt í ráðinu yfir til Sjálfstæðisflokksins, eins af stóru flokkunum. Þetta er náttúrlega galið kerfi, ólýðræðislegt og hreint út sagt bjánalegt.“
Daníel bendir á að svona reglur séu ekki í anda stefnu Pírata, svo dæmi séu tekin. „Við munum vinna að því að fá stuðning meirihlutaflokkanna til að breyta reglunum til fyrra horfs og tryggja aðgengi allra lýðræðislega kjörinna fulltrúa að borgarkerfinu,“ segir Daníel. Hann bendir á að í meirihlutasáttmálanum sé þó nokkuð talað um lýðræði, meðal annars vilja meirihlutans til að byggja upp „lýðræðislegri umsýslu“ og að tryggja eiga „ möguleika allra til þátttöku og aðgengis að lýðræðissamfélaginu.“
„Með takmörkunum sem samþykktar voru í apríl og túlkun skrifstofu borgarstjórnar á sveitastjórnarlögum er lokað fyrir aðgengi kjósenda flokka, sem fengu vel yfir fimmtung atkvæða, að stjórnkerfi borgarinnar,“ segir Daníel.
„Það hlýtur að myndast breið samstaða innan nýrrar borgarstjórnar um að laga þessar samþykktir og tryggja betra lýðræði í borginni,“ segir Sanna Magdalena. „En til þess þarf að vinna hratt. En það hlýtur að hafast. Það væri ömurlegt að byrja þetta kjörtímabil á því að stórskerða aðgengi kjörna fulltrúa að borgarkerfinu. Við ættum að vera að stefna í átt að auknu gagnsæi og opnara kerfi, ekki að því að loka kerfinu og hindra aðgengi borgarfulltrúa að því. Meira ljós, minni skugga. Þangað viljum við.“