Á kaf í djúpu laugina
Pistill
26.06.2018
Ég verð að segja að mér finnst það veruleg móðgun við þjóðina að saka hana um að ná ekki dýpt í stjórnmálaumræðu. Almenningur á Íslandi er alla jafna vel upplýstur og fagnaðarefni að fólk taki virkan þátt í stjórnmálaumræðu á samfélagsmiðlum. Mikið sem ég hef öðlast nýja þekkingu og upplýsingar um hvernig kaupin gerast á eyrinni í samfélaginu með því að lesa og hlusta á fólk á samfélagsmiðlum. Hjá þjóðinni koma fram upplýsingar sem ekki fást birtar í fjölmiðlum stóreignamanna sem vilja sýna þá veröld að hér á landi sé ein samfelld veisla með blússandi hagvexti, þar sem allir hafi sama möguleika á að meika það. Allt í boði frjáls markaðar.
Mér brá heldur betur í brún þegar Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra beinlínis afhjúpaði sig og það á sjálfan þjóðarhátíðardaginn. Hún er sem sagt farin að syngja með stóreignamönnum sem finnst gagnrýni á samfélagið óþægileg.
„Samskiptamiðlar og leitarvélar sem forritaðar eru með tilteknum hætti hafa þegar haft áhrif á stjórnmálaumræðu sem fer fyrst og fremst fram með yfirlýsingum sem ekki mega spanna meira en 280 stafabil. Sú staðreynd hefur gert það að verkum að dýpri stjórnmálaumræða á undir högg að sækja. Hver verða áhrifin af því? Nýtum tæknibreytingar til góðs og tryggjum að þær ýti ekki enn frekar undir sundrandi umræðu í pólitísku umhverfi sem nú þegar einkennist af því að samvinna og málamiðlanir sem lengi hafa verið undirstaða lýðræðissamfélagsins eru orðnar löstur en ekki kostur,“ sagði forsætisráðherrann orðrétt á Austurvelli þann 17. júní í sinni fyrstu þjóðhátíðarræðu.
Ég get ekki skilið þetta öðruvísi en að Katrín sé að gera lítið úr þjóðinni. Að fólk láti forrita sig og sé bara með einhverjar stuttar yfirlýsingar á samfélagsmiðlum. Ekki nógu djúpar og gáfulegar. En það er hægt að segja djúpa sögu í fáum orðum eins og: “Ég er öryrki og á svo lágum bótum að ég á ekki fyrir leigunni, ekki fyrir lyfjum og ekki fyrir mat út mánuðinn,” eða: “Ég fæ svo lág laun fyrir fullt starf að ég þarf að vinna fleiri en eina vinnu til að komast af, ég er að bugast og heilsan er að gefa sig,” Þetta eru risastórar sögur um afkomu fólksins í samfélaginu. En sennilega ekki nógu langar til að geta talist djúpar að mati Katrínar forsætisráðherra. En nógu langar fyrir venjulegt fólk sem hefur með umræðum á samfélagsmiðlum lýst furðu og vanþóknun á þeirri samvinnu og málamiðlunum sem Katrín og co hafi gert í ríkisstjórninni. Sú samvinna og þær málamiðlanir hafi reynst löstur en ekki kostur fyrir þá hópa í þjóðfélaginu sem Vg segist fulltrúi fyrir.
Ég veit ekki í hvaða fílabeinsturni Katrín Jakobsdóttir lifir. Hún hefur allavega ekki yfirsýn yfir það hvað þjóðin er að hugsa og virðist ekki í nokkrum tengslum við grasrótina. Kannski fer þessi djúpa samfélagslega umræða fram í lokuðum herbergjum hjá þröngum hópi valdamanna í Vg og er ekki ætluð almenningi. Ég hef hvergi rekist á þessa djúpu umræðu Vg um stjórnmál. Hvar er hún opinberuð? Ekki á vef flokksins eða á Facebook síðu, þar sem aðallega eru tilkynningar frá flokknum um hvað Katrín Jakobsdóttir hefur sagt og gert.
Nú hefur Sósíalistaflokkur Íslands staðið fyrir massífri og djúpir samfélagsumræðu um stjórnmál allt frá því flokkurinn var stofnaður þann 1. maí í fyrra. Flokkurinn henti sér strax á kaf í djúpu laugina. Og allt á samfélagsmiðlum. Á Facebooksíðu flokksins hefur verið mjög blómleg umræða um samfélagsmál. Hátt í 10 þúsund manns eru vinir síðunnar. Öllum er velkomið að tjá sig og eru hvattir til þess. Ég verð að segja að þjóðin er svo mikil viskubrunnur að það er unun af. Fleiri en færri tjá sig af yfirvegun og færa rök fyrir sínu máli. Þá heldur flokkurinn úti vefsíðuna sosialistaflokkurinn.is, það sem finna má djúpa greiningu á samfélaginu, verkalýðsmálum og pólitík.
Venjulegt fólk hefur lýst á djúpan hátt högum sínum og aðstæðum. Hliðum sem henta ekki stjórnvöldum að tala mikið um. Hvernig fátækt bítur fólk niður, hvernig húsnæðisskortur bitnar illa á fjölskyldum og ekki síst börnum, hvað aðstæður margra öryrkja- og ellilífeyrisþega eru ömurlegar, hvernig velferðarkerfið hefur brotið niður fólk og hversu örmagna láglaunafólk er orðið.
Upp úr þessari umræðu hafa síðan hundruð manna risið og krafist réttlætis eins og baráttan fyrir endurreisn verkalýðshreyfingarinnar og framboð í sveitstjórnarkosningunum eru glöggt dæmi um. Hin Reykjavík og Hinn Kópavogur spruttu fram, bentu á raunverulegar aðstæður fólks sem stjórnvöld hafa lokað augunum fyrir og hafa engan áhuga á að þjóna. Grasrótin í Eflingu mætti til að kjósa nýja stjórn og formann þegar ljóst var að það glitti í breytingar, láglaunafólki til heilla. Eins sást vorið í verkó hjá Verslunarmannafélagi Reykjavíkur og baráttumenn innan verkalýðshreyfingarinnar sem ASÍ forystan hefur haft út í kuldanum spruttu fram og vildu taka þátt í vorinu.
Og nú á að berjast af hörku fyrir bættum kjörnum. Það er alveg augljóst að öll þessi umræða er ekki þægileg fyrir forsætisráðherrann sem nú tekur sér stöðu með auðvaldinu og syngur með atvinnurekendum lagið um að allt fari á hausinn í þjóðfélaginu ef launakröfur eru ekki hóflegar.
Það hefur verið líka bent á með mjög djúpum rökum á samfélagsmiðlum hvernig kvótakerfið stuðlar að auðsöfnun fárra, brýtur niður byggðarlög, leiðir til stöðugrar rányrkju á sjávarauðlindinni, þar sem auk þess er stundað brottkast og svindlað á vigtinni til að græða meira. Það væri auðvitað miklu auðveldara fyrir Katrínu ef fólk væri ekkert að tala þetta. Svo ekki sé minnst á veiðigjöldin. Já veiðigjöldin, sem Vg ætluðu að samþykkja nú í vor að yrði lækkuð. Það hljómar alveg ótrúlega, því stutt er síðan Vg vildi þau hækkuð. Rosalegt tak virðist Sjálfstæðisflokkurinn hafa á Vg.
Svo er það spillingin. Það má ekki reka Sigríði Andersen dómsmálaráðherra frá völdum þrátt fyrir að hún hafi gerst sek um að brjóta stjórnsýsluleg og hafi verið með hroka og yfirlæti í því efni. Um þetta mál fór fram mjög djúp og greinagóð umræða á samfélagsmiðlum, sem ekki er lokið. En þetta er auðvitað líka óþægilegt fyrir Katrínu sem hefur nú það hlutverk að verja spillinguna. Það hefði auðvitað verið betra fyrir hana ef engin umræða hefði farið fram um þetta mál svo að hún hefði getað haldið áfram að dansa tangó við Bjarna Panamaprins án þess að fólk á samfélagsmiðlum væri að reyna benda henni á að hún væri að dansa við vitlaust lag, dansherrann væri of dómínerandi og ekki við hæfi og að í rauninni væri þetta alls ekki tangó.
Orðatiltækið „Fólk er ekki fífl“, finnst mér eiga vel við hér og ég vil bjóða Katrínu Jakobsdóttur að taka þátt í þeirri djúpu samfélagsumræðu sem fer fram á síðum Sósíalistaflokks Íslands, þar sem ekki er einungis svamlað á yfirborðinu heldur synt með umræðuna á dýptina.
Katrín Baldursdóttir