Ríkishítin við veisluborðið

Sólveig Anna Jónsdóttir Pistill

(Ég veit að þetta hljómar eins og draumur fávíss barns en hugsið ykkur ef að Samtök Atvinnulífsins hefðu, í stað þess að leggja af stað í áróðursherferð um landið til að leggja Status quo línurnar fyrir veturinn, nú á 10 ára afmæli Hrunsins horfst í augu við eigið sjálf og blásið til fundahalda um aðdraganda, eðli, orsakir og ekki síst afleiðingar hinna manngerðu hörmunga, sem uppsetningin á verkinu „Kapítalisminn er krísan“ var á sviði landsmálanna, sem og á hinu stóra sviði heimsmálanna, sem og á hinu risavaxna sviði mannkynssögunnar.) Á annari blaðsíðu Morgunblaðsins fyrir viku var stutt viðtal við mig þar sem ég var spurð út í viðbrögð mín við fjárlagafrumvarpi fjármálaráðherra. Þar lýsti ég óánægju minni og sagði ma.: „Þarna er ekkert gert til að bæta þá rýrnun sem varð í kjölfar í kjölfar síðustu kjarasamninga árið 2015. Þá náðust fram hækkanir til lágtekjuhópana en gögnuðust fólki síðan ekki því það hvarf allt í ríkishítina ef svo má segja.“ Ég er búin að hugsa um þetta við og við og fá smá svona skömmustu- skjálfta í hvert sinn. Af því að ég sagði Ríkishítin.

Ég er ekkert að ímynda mér að nokkur sé að fárast eins og ég er að fárast yfir þessum ægilegu tungumálamistökum, en ég finn mig engu að síður knúna til að reyna að útskýra hvað ég átti við. Á dögum nýfrjálshyggjunnar hefur „Ríkishítin“ allt aðra merkingu í hugum vinnuaflsins en í huga fjármagnseigenda og hugmyndafræðinga þeirra, en Ríkishít þeirra á sér heimili í þeim áróðri sem notaður er til að réttlæta nauðsyn þess að rústa velferðarkerfinu og pína lágstéttirnar til að færa hinum ríku meira fórnir. Ríkishítin í hugum vinnuaflsins er aftur á móti svona: Úthlutunarstjórar ríkisfjármála eru ávallt valdir úr hópi þeirra sem eru tilbúnir til að sinna framkvæmdaáætlun nýfrjálshyggjunnar. Þetta er sannreynt. Stjórnmálin eru á valdi auðstéttarinnar sem hefur leitt til valda stjórnendur úr sínum röðum, menn sem koma djúpt innan úr heimi fjármagnseigenda, menn sem hlíta alls ekki sömu efnahagslögmálum og vinnuaflið.

Þetta er mjög ósanngjörn skipan mála. Á tíu ára afmæli hins svokallaða Svokallaða Hruns verð ég að viðurkenna að ég er í raun dálítið agndofa yfir því að úthlutunarstjórar auðvaldsins ætli ekki að skipta afrakstri efnahagslegu uppsveiflunnar af sanngirni með vinnuaflinu, þrátt fyrir að það hafi lagt til alla vinnuna sem knúið hefur áfram hagvöxtinn. Að aðeins tíu árum eftir hrun láti auðstéttin eins og hún hafi allan heimsins rétt til að ákveða hverjir fái að auðgast og hverjir skuli áfram þola skert lífsgæði er satt best að segja ótrúlega forhert og því er ég agndofa (Eins og breski rithöfundurinn og fræðimaðurinn China Mieville segir: Becoming a radical critic of capitalism involves a process of disenchantment, the dying of surprise at the system’s depredations; but being one, a long-term witness to those depredations, is to repeatedly discover that we can be shocked by what no longer surprises us). Aðeins tíu árum eftir hrunið, sem var skapað af algjörlega hömlulausri hegðun fjármagnseigenda sem hvattir voru til dáða af ríkisvaldinu, hvattir til dáða af stjórnmálunum sem sýndu algjört skeytingarleysi gagnvart hagsmunum almennings, eigum við td. enn að þurfa að hlusta á að stöðugleika sé ógnað mest þegar vinnuaflið fer fram á sanngjörn laun. Ég minni á að stuttu fyrir hrun var notast við sömu áróðursbrögð; að efnhagskerfinu stafaði ógn af ósanngjörnum kröfum svokallaðra “launþega”. Ég vona að fólk sjái í gegnum slíkan málflutning. Stjórnmálin standa afhjúpuð sem fyrirbæri algjörlega á valdi hugmynda um stöðugleika á forsendum og eftir leikreglum fjármagnseigenda. Stjórnmálin eru Trójuhestur. Engu breytir hvað fólk kýs, nýfrjálshyggjan er við völd. Þau eru eins og móðir með Munchausen syndrome by Proxy; alþýðan er neydd til að halda áfram að éta eitrið sem hin samfélagslega tilraun nýfrjálshyggjunnar er. Íslensk auðstétt og framkvæmdarstjórar hennar sem nú fara með völd í fjármálaráðuneytinu fara fram af forherðingu gagnvart réttmætum kröfum vinnandi fólks, kröfum um að horfið verði frá því að útbúa og viðhalda skattkerfi sem færir skattbyrðina á þau sem hafa lágar tekjur, í þeim tilgangi að geta gert betur við efnahagslega forréttindahópa (Þetta er auðvitað aðeins hægt sökum þess að verkafólk og láglaunafólk hefur verið svipt öllum pólitískum völdum í samfélaginu, raddir þeirra þaggaðar og þau í raun gerð enn undirsettari en áður hefur verið; svipt orðræðu og hugmyndaheimi). Þegar ég sagði Ríkishítin var ég að hugsa um þetta; innleiðingu nýfrjálshyggjunnar og efnahagslögmála hennar. Íslenska auðstéttin vill ekki deila raunverulegum auðæfum með vinnandi stéttum. Hún vill þess í stað veita aðgang að nægilegu lánsfé (svo að fólk haldi áfram að sætta sig við að þola smánarleg laun), aðgang að niðurskornu velferðarkerfi, aðgang að því að fá í það minnsta að hafa nóga helvítis vinnu. Með þessu telja meðlimir hennar sig geta sloppið við hið pólitíska uppnám sem fer nú eins og vofa um veröldina, orsakað af stjórnmálastétt veraldar-stjóranna sem ákvað vissulega að beita efnahagslegum refsivendi sínum, en ekki gagnvart þeim sem sannarlega báru ábyrgð á uppnáminu, kapítalistunum, heldur alþýðunni sem refsað hefur verið af slíkum metnaði að okkur hlýtur að sundla þegar við horfum yfir sögu síðustu 10 ára. En nú berast óánægjuraddir úr öllum áttum í íslensku samfélagi; frá verkafólki, láglaunafólki, innflytjendum, öryrkjum, lífeyrisþegum og þeim sem þurfa að búa á leigumarkaði, raddir sem lýsa andúð á þeirri misskiptingu gæðanna sem þykir í lagi í vissum kreðsum í íslensku þjóðfélagi. Þær verða sífellt háværari, æ fleiri stíga fram og lýsa sig reiðubúna til að berjast gegn áframhaldandi ástandi. Tvær leiðir eru nú í boði fyrir íslensk stjórnmál:

Þau geta horfst í augu við að ekki er lengur hægt að skorast undan; að nú verði einfaldlega að snúa af braut þeirrar brjálsemi sem áframhaldandi innleiðing nýfrjálshyggjunnar er, ráðast í „leiðréttingu“ á launum verka og láglaunafólks ásamt „endurúthlutun“ í gegnum skattkerfið, eða að þau halda áfram á sömu braut; kasta í liðið nokkrum þúsundköllum og kalla það kaupmátt, færa oggulitlar peningahrúgur til í kerfinu og kalla það jöfnuð, reyna að sannfæra fólk um að allt sé með besta mögulega móti á sama tíma og hótana-mafían fær frítt spil til að þvaðra um endalok alls ef alþýðan reynir að hrista af sér hlekkina. Ef raunverulegur áhugi er á því að hér ríki stöðugleiki þá verður fyrri leiðin fyrir valinu. Ef seinni leiðin verður áfram gengin þá er allt tal um stöðugleika fáránlegt.

Tíminn er runnin upp fyrir þau til að ákveða hvaða vegferð þau eru á.

Við sem tilheyrum vinnuaflinu erum aftur á móti svo heppin að vera búin að ákveða hvaða vegferð við erum á. Við ætlum ekki lengur að samþykkja að axla ábyrgðina á stöðugleikanum, við ætlum ekki lengur að axla aukna auðvaldsbyrði. Við ætlum ekki lengur að leyfa þeim sem farið hafa með öll völd að mata Ríkishítina á vinnu okkar, tíma og lífi. Við ætlum ekki lengur að vera steikin á auðvaldsborðinu.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram