Afhvarf mikið er til ills vinar

Símon Vestarr Pistill

Tvær svakalegustu forsíður íslenskrar fjölmiðlasögu eru frá sama degi og lýsa sama atburði. Þær eru svo dramatískar og úttroðnar af gífuryrðum að maður getur ekki annað en skellt upp úr. Og ekki að undra. Þær eru frá 31. mars 1949, daginn eftir inngönguna í NATO, og önnur tilheyrir Morgunblaðinu og hin Þjóðviljanum. Miðlarnir eru svo djúpt grafnir í skotgrafir kalda stríðsins að þeir eru ekki einu sinni sammála um það hvaða vikudagur er. „Fimmtudagur,” segir Þjóðviljinn og hefur rétt fyrir sér. „Miðvikudagur,” segir Mogginn, enda blaðamönnum hans væntanlega svo misboðið af atburðum gærdagsins að þeir misstu af ljósaskiptunum.

Samkvæmt Morgunblaðinu stóð trylltur skríll kylfubúinna kommúnista við ofbeldishótanir sínar og réðst á Alþingi með grjótkasti sem olli limlestingum. (Ekkert í málsgreininni hér á undan var umorðað nema beygingar orða.) Þeim sem sjá þessar blammeringar og spyrja eðlilega hvað hafi orðið til þess að hræra svo harkalega í dýrslegum hvötum þessara „spellvirkja” að nauðsynlegt hefði þótt að dreifa þeim með táragasi bendi þeim á að skoða hitt blaðið. Þjóðviljinn lætur nefnilega sitt ekki eftir liggja.

Þeim megin er því haldið fram að átta til tíu þúsund friðsamir Íslendingar af alþýðustétt hafi safnast saman til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um inngöngu Íslands í NATO. Ekkert við það að athuga. En hvernig fór þá allt í bál og brand? Jú, Þjóðviljamenn fullyrða að „nokkrir stráklingar” í röðum mótmælenda hafi verið „að stríða lögreglunni smávegis” sem hafi orðið til þess að „taugabilaður” lögreglustjórinn „fyrirskipaði gasárás.” „Bandarískt gasbomburegn grímubúinnar lögreglu” var látið „dynja yfir friðsamt og saklaust fólk” á meðan atkvæði „37 Bandaríkjaleppa” tryggði inngöngu ríkisins í Atlantshafsbandalagið og í kjölfarið var„kylfubúnum og morðþyrstum hvítliðaskríl” sigað á íbúa Reykjavíkur.

Sádar og samsekir í Jemen

Ef maður tosar tvo fimm ára stráka í sundur og spyr þá hvor þeirra hafi byrjað áflogin þá fær maður svipað skýr svör. Yfirvegunin hér er engin og blaðamennskan fer út um gluggann. Við sem lesum þessi ósköp svo sjötíu árum síðar getum ekki annað en fussað aðeins yfir þessu. Svona gerir almennilegt fjölmiðlafólk ekki. En ef við einblínum á fagmennskubrestinn þá missum við af nokkru sem er mun merkilegra. Æsingur mótmælendanna yfir þeirri ákvörðun stjórnvalda að neita Íslendingum um að fá að greiða atkvæði um inngöngu í hernaðarbandalag er fullkomlega skiljanlegur.

Takið eftir því að ég nota orðið „hernaðarbandalag” en ekki „varnarbandalag.” Fyrsta skrefið í átt til skilnings á samtímanum er að taka til í orðaforðanum og kasta í ruslið áróðurshugtökum heimsvelda. Ástæðan fyrir því að við eigum erfitt með að skilja reiðina sem blossaði upp á þessum vordegi árið 1949 (hvað er svona hræðilegt við að vera í NATO?) er sú að við erum orðin ónæm fyrir hryllingi stríðs. Við sjáum myndir af hungursneyð í Jemen og þær vekja hjá okkur sorg og meðaumkun. En við lokum augunum fyrir því að Sádí-Arabar hafa komið þessari hungursneyð í kring með vopnum frá Bandaríkjamönnum og Bretum, félögum okkar í Atlantshafsbandalaginu.

Hinir fyrrnefndu eru auðvitað með vitfirringinn Trump í brúnni þessa dagana en það var hinn geysisjarmerandi forveri hans sem sló vopnasölumet til Sádí-Arabíu árið 2010 áður en Hinn Appelsínuguli fann sig knúinn til að fella það met í fyrra. Bresk stjórnvöld eru með strangari reglur um vopnaviðskipti en prangarar dauðans þar í landi beita söluheimilda-blekkingum til að koma varningi sínum til Ríad og samkvæmt nýlegri rannsókn hvetja bresk stjórnvöld beinlínis til þeirra blekkinga. Að vera í samtökum með þjóðum sem selja verstu harðstjórum jarðarinnar vopn er nokkuð sem enginn Íslendingur getur varið. Eða hvað?

Hver þarf óvini með svona bandamenn?

Samviskuspurning blasir við okkur: er rétt að vera í hernaðarbandalagi með kjarnorkuveldum sem sýna fullkomið skeytingarleysi gagnvart þjáningum saklauss fólks? Svarið við þeirri spurningu er yfirleitt á þá leið að í ótryggum heimi þörfnumst við verndar þessara ríkja. Árás á eina NATO-þjóð er túlkuð sem árás á þær allar. Þetta hljómar vel. Þjóðirnar koma hver annarri til bjargar eins og skytturnar þrjár; ein fyrir alla og allar fyrir eina! En hvað þýðir það í raun og veru? Gleymum um stund áróðurshugtakinu „varnarbandalag” og tökum með í reikninginn að Tyrkland (undir stjórn íslamistans Recep Tayyip Erdogan) er meðlimur í Atlantshafsbandalaginu. Rétt upp hönd sem þráir fóstbræðralag með tyrkneskum guðræðissinnum. Nei, svona haldið höndunum uppi nógu lengi til að ég geti talið þær.

Það voru sem sagt bandamenn okkar sem réðust inn í Afrín-hérað í Norður-Sýrlandi til að stráfella fólk sem hafði það eitt á samviskunni að hafa staðið uppi í hárinu á ISIS og varið með lífi sínu og limum hugsjónirnar um lýðræði og kynjajafnrétti. Það voru bandamenn okkar sem bera ábyrgð á hvarfi Hauks Hilmarssonar og þeim gæti ekki verið meira sama um kröfur okkar um að fá að vita hvert hann er niður kominn. NATO væri sem sagt nokkurn veginn eins og bandalag skyttanna þriggja ef Athos og Porthos væru stanslaust að koma af stað slagsmálum úti um allar trissur og segðu Aramis að fokka sér ef hann maldaði í móinn.

Hvað getum við svo sem gert?

Ég veit. Íslenska þjóðin er sofnuð gagnvart þessu málefni. Hvað getum við gert til að halda aftur af stórveldum eins og Bandaríkjunum og Bretlandi? Hvað hefði það að segja þótt ein smáþjóð segði sig úr hernaðarbandalagi tuttugu og níu þjóða? Hægt er auðvitað að snúa þessari spurningu við. Ef úrsögn Íslands úr NATO hefði engin teljandi áhrif á stefnu NATO-ríkjanna þýðir það að sama skapi að vera okkar í bandalaginu sé ekki til neins. Þeir sem halda enn að Rússarnir séu á leiðinni þurfa að leggja frá sér Tom Clancy bækurnar og leita sér hjálpar. Og þess utan er kominn tími til þess að við lítum aðeins upp og íhugum hverju við viljum áorka í heiminum. Stundum er táknrænn verknaður eina leiðin til að vinna hugsjónum sínum brautargengi.

Ef tímaflakkari hefði sagt mér í mótmælunum gegn Íraks-innrásinni að einum og hálfum áratug síðar myndi Yoko Ono vera að kveikja fjórða árið í röð á himinljóskastara úti i Viðey sem táknmynd um friðarvonir Johns Lennon og að Vinstri hreyfingin—grænt framboð væri með sína manneskju í stól forsætisráðherra hefði hjartað í mér tekið undir sig stökk af gleði. Vesalings sendiboðinn frá árinu 2018 hefði þó þurft að bæta því við að VG væri í ríkisstjórnarsamstarfi með Sjálfstæðis- og Framsóknarflokknum, að verið væri að stórauka útgjöld til hermála án neinna andmæla frá VG og að íslensk stjórnvöld hefðu tekið afstöðu gegn kjarnorkuafvopnun vegna þess að þau líti á kjarnorkuvopnaeign Bandaríkjanna sem lykilþátt í vörnum Íslands.

Katrín yppir öxlum

Ég þarf ekki að fara mikinn um það að flokkur Katrínar Jakobsdóttur hafi svikið allt sem VG stóð fyrir undir hennar forystu. Ég fjallaði um fyrstu skref flokksins í átt til glötunar í öðrum pistli og misgjörðunum hefur fjölgað eins og lúpínum í móa síðan þá. Ég hélt satt best að segja að forsætisráðherrann gæti ekki mögulega valdið mér meiri vonbrigðum. Svo fær hún fyrirspurn frá Sunnu Pírata varðandi útgjaldaaukninguna til hermála og hún yppir öxlum. Segir að svona sé þetta bara. Að NATO hafi krafið okkur um meiri pening og að ekkert sé við því að gera. Og heræfingarnar sem eiga sér stað á Íslandi? Sunna varpar fram spurningu:

„Loks vil ég spyrja hæstvirtan forsætisráðherra, vegna þess að ég veit að hún hefur talað fyrir friðsamlegum lausnum á vettvangi Atlantshafsbandalagsins, hvort henni finnist það líklegt til þess að tryggja frið og auka öryggi Íslendinga að hýsa hérlendis hernaðaræfingu sem líta mætti á sem beina ögrun við kjarnorkuveldið Rússland.”

Fullkomið tækifæri fyrir forsætisráðherrann til að útskýra afstöðu sína. Hvernig notar hún það tækifæri? Við gefum henni orðið:

„Síðan hvað varðar spurningu háttvirts þingmanns um friðsamlegar lausnir þá er tími minn á þrotum. Ég hlýt hins vegar að segja að skipulagning þessarar heræfingar var hafin áður en ég tók við sem forsætisráðherra. Heræfingar eru ekki eitthvað sem mér hugnast, enda er háttvirtum þingmanni kunnugt um mína afstöðu og hreyfingar minnar til veru okkar í Atlantshafsbandalaginu, en þetta er auðvitað hluti af starfsemi bandalagsins.”

Svona skil ég þessi orð (endilega leiðréttið mig ef ég er að misskilja): „Þetta var allt skipulagt áður en ég kom og ég vil ekkert vera í NATO og ég er ekkert hrifin af heræfingum en… hvað á ég að gera? Þetta er bara svona.”

Stjórnmál og hugsjónir

Skoðum nú muninn á þessum orðum Katrínar og málflutningi blaðamanna Þjóðviljans sextíu og níu árum áður. Óneitanlega felst meiri yfirvegun í því að segja að manni „hugnist ekki heræfingar” eða vera Íslands í Atlantshafsbandalaginu en í að kalla NATO-sinna Bandaríkjaleppa og landráðamenn. Eins og fram hefur komið þá þykja mér gífuryrði ekki uppbyggileg í pólitískri umræðu og sérstaklega finnst mér þau sjoppuleg á forsíðum dagblaða. En ef við lítum fram hjá tóninum kemur mikilvægari munur í ljós. Mótmælendurnir á Austurvelli þann 30. mars 1949 (og bandamenn þeirra hjá Þjóðviljanum) tóku málið alvarlega. Það sem stýrði gjörðum þeirra (hvort sem okkur finnst þær hafa gengið of langt eður ei) var einlæg og einörð afstaða gegn veru okkar í stríðsbandalagi. Þeir fengu táragas í andlitið og kylfuhögg í skrokkinn vegna þess að þeim var annt um frið á jörð.

Þessi uppgjafarafstaða VG-liða — sem gengur út á það að stjórnmálin eigi ekki að snúast um prinsipp sem þetta (eða prinsipp yfir höfuð) — er sem betur fer að úreldast. Á einhverjum tímapunkti hætti almenningur að láta segja sér að róttækar kerfisbreytingar væru ekki til umræðu. Skýrustu birtingarmyndir þessa viðsnúnings eru baráttuhugurinn sem er hlaupinn í verkalýðshreyfinguna og endurreisn samtaka leigjenda og neytenda. Loksins erum við farin að geta talað saman eins og fullorðið fólk um alvarlega hluti eins og arðrán og misskiptingu auðs og þá hlýtur að vera tími til kominn að ræða stríð af fullri alvöru, meðal annars með því að endurskoða veru okkar í NATO. Ef VG á snefil eftir af fyrri hugsjónamennsku sinni þá leggja flokksmenn til úrsögn okkar úr þessum stríðsglæpafélagsskap um leið og þessum hjákátlegu heræfingum er lokið.

Í aðdraganda Íraks-innrásarinnar fyrir fimmtán árum gátu stjórnmálamenn vikið sér undan gagnrýni friðarsinna með því að benda á hve hallærislegur Ástþór Magnússon væri eða hversu ósmekklegt það væri að klína rauðri málningu á Stjórnarráðið. Nógu mörg okkar voru nógu illa haldin af smásálarheilkenni til að þetta næði að virka. Svoleiðis ryk festist þó blessunarlega ekki lengur í augunum á okkur. Við erum vöknuð og hætt að láta segja okkur að hlutirnir séu bara svona. Að ekkert sé hægt að gera nema búa til stjórnarsáttmála með Sjálfstæðisflokknum og mjaka jákvæðum breytingum lúshægt i gegn eins og sementi út úr tannkremstúpu.

Nú er nóg komið af málamiðlunum!

Ísland úr NATO og ekkert kjaftæði!

Símon Vestarr

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram