Ástandið í íslenskum stjórnmálum
Pistill
31.10.2018
Ekki er hægt að segja annað en að komin sé upp mjög óvenjuleg staða í íslenskum stjórnmálum. Það hefur aldrei gerst áður að verkalýðshreyfingin hafi tekið upp mjög róttæka stefnu sem er á mörkum þess að vera róttæk umbótastefna og byltingarstefna. Hún er í rauninni hvort tveggja, hótunin sem liggur að baki því að krefjast róttækra umbóta er að taka í notkun það umboð sem almenningur gaf í raun andspyrnuöflunum í búsáhaldabyltingunni til að taka völdin af auðstéttinni, eða það má kannski orða þetta þannig að kapítalisminn hafi þá misst allan trúverðugleika í íslensku samhengi og ekki náð að vinna sér traust aftur.
Það er svo sem ekkert óvenjulegt að róttæk verkalýðshreyfing standi andspænis stjórnvöldum og auðvaldi, það hefur gerst oft í sögunni, t.d. á Ítalíu og í Frakklandi á eftirstríðsárunum og jafnvel hér á Íslandi var mjög róttækur umbótaflokkur með öfluga stöðu í verkalýðshreyfingunni á svipuðum tíma. Það hefur hins vegar verið í samhengi við allt annars konar stöðu. Verkalýðshreyfingin í Frakklandi og á Ítalíu var í bandalagi við kommúnistaflokka, sem aftur höfðu bakhjarl í alþjóðlegri kommúnistahreyfingu sem hafði völdin í stórum og öflugum ríkjum. Verkalýðshreyfingin hér á landi hefur ekkert slíkt. Hún hefur engan flokk, enga fulltrúa í pólitíska kerfinu, nema ef telja má fram einn bæjarfulltrúa Sósíalistaflokksins í Reykjavík.
Það sem hefur gerst er sem sagt svo óvenjulegt að maður hlýtur að staldra við. Verkalýðshreyfingin á Íslandi árið 2018 er allt öðru vísi fyrirbæri en verkalýðshreyfingin á Íslandi á tímabilinu 1942–1984, sem var fyrri gullöld hennar. Þá var kalt stríð og hörð barátta var háð í verkalýðshreyfingunni sjálfri milli lýðræðisflokkanna (eins og þeir kölluðu sjálfa sig, Alþýðuflokkur, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur) og Sósíalistaflokksins. Stundum hafði Sósíalistaflokkurinn yfirhöndina, og stundum hinir, en eftir að Hannibal Valdimarsson og fylgismenn hans í Alþýðuflokknum gengu til liðs við Sósíalista 1956 náðu þeir yfirhöndinni í verkalýðshreyfingunni og héldu þeirri stöðu þar til yfir lauk. Hins vegar hafði verkalýðshreyfingin þá enga möguleika á að ná völdum í samfélaginu, t.d. vegna þess að hér var bandarískur her. Hann tryggði valdastöðu borgarastéttarinnar.
Verkalýðshreyfingin er núna með miklu öflugri stöðu. Hún er undir forystu róttæks fólks sem hefur umboð úr búsáhaldabyltingunni eins og áður segir, og þar að auki hefur verkalýðshreyfingin á annan hátt miklu öflugri stöðu en jafnvel um 1984, þegar fyrri gullöld hreyfingarinnar lauk. Það stafar af því að hún ræður yfir lífeyrissjóðum, allt verkafólk greiðir til hennar félagsgjöld og fjöldi kvenna og manna starfar á vegum hennar við að tryggja hagsmuni verkafólks. Það hlýtur að koma afar óþægilega aftan að borgarastéttinni hér á landi að þetta ótrúlega öfluga kerfi skuli nú vera komið í hendurnar á fólki sem er algerlega andvígt þeirri hugmyndafræði sem ríkt hefur í verkalýðshreyfingunni og samfélaginu undanfarin 34 ár, eða nánar tiltekið frá því í BSRB verkfallinu 1984. Það sem meira er, þetta fólk er fjöldahreyfing verkafólks sem hefur engu að tapa nema skuldunum, vonleysinu og kvíðanum fyrir hver mánaðamót. Hér á landi er hagur almennings með þeim hætti að hann hefur engu að tapa. Að því leyti er ástandið á Íslandi gjörólíkt ástandinu á hinum Norðurlöndunum, eins og þeir vita sem til þekkja. Hér er verðlag hærra og kaup lægra en þar og meirihluti almennings berst hér í bökkum, á meðan afkomuöryggi verkafólks í Danmörku, Svíþjóð og Noregi er tryggt með allt öðrum og betri hætti.
Hver skyldi vera ástæðan fyrir því? Það er auðvitað vegna þess að verkalýðshreyfingin hér á landi náði ekki að byggja upp nærri jafn öflugt velferðarkerfi á árunum 1942–1982 og verkalýðshreyfingin á Norðurlöndum náði fram á sama tíma. Það stafar aftur af því að bandalag hinna svokölluðu lýðræðisflokka hér á landi í verkalýðshreyfingunni gegn Sósíalistum samanstóð af flokkum sem voru engir verkalýðsflokkar. Alþýðuflokkurinn þurfti að styðjast við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk í átökunum við Sósíalista, og það getur hver maður séð hversu áreiðanlegt það bandalag var fyrir hagsmuni verkafólks. Þetta varð til að hola innan verkalýðshreyfinguna og draga úr árangri hennar.
Það verður áhugavert að sjá hvernig þau átök sem fram undan eru fara. Borgarastéttin hefur trausta bandamenn í ríkisstjórn, fjölmiðlum, meðal hagfræðinga og í embættismannakerfi ríkisins. Hún mun beita öllum þessum vopnum af fullum krafti gegn verkalýðsstéttinni. Þau átök eru raunar hafin af miklum þunga. Það kemur hins vegar aftur og aftur í ljós hversu veik staða borgarastéttarinnar er, hún verður að hopa úr hverju víginu á fætur öðru. Ástæðuna fyrir því er að finna í þeim atburðum sem urðu fyrir 10 árum. Það er aðeins tímaspursmál hvenær ríkisstjórnin fellur, því staða Bjarna Benediktssonar er orðin svo veik. Bjarni er bæði mjög óvinsæll og einnig orðin ber að svo mikilli spillingu að það styrkir áróðursstöðu verkalýðsstéttarinnar svo um munar. Það hlýtur að vera erfitt fyrir yfirstéttina að burðast með slíkan kross.
Samfélagssáttmáli eins og sá sem skapaður var hér á landi á tímabilin 1934–1938 er eitthvað sem menn horfa til að verði endurnýjaður og styrktur, og þá með þeim hætti að kjörin batni verulega umfram það sem þá var. Auður samfélagsins nú er þvílíkur að slíkt er lítið mál að framkvæma. Verkalýðshreyfingin hefur þetta meginmarkmið. Vandamálið er að ekki virðist að vera finna í röðum áðurnefndrar yfirstéttarklíku í kringum ríkisvald og borgarastétt neinn vilja til að koma til móts við verkalýðshreyfinguna. Það hefur helst mátt sjá merki um það hjá félagsmálaráðherra. Hins vegar eru hinar raddirnar mun háværari sem spila gamlar plötur um hættuna á samfélagshruni nái almenningur fram kröfum sínum um mannsæmandi lífskjör. Þá má benda á Noreg, Svíþjóð og Danmörku: Af hverju hefur ekki orðið samfélaghrun þar? Þar hefur verkalýðshreyfingin náð fram mörgum þeim kröfum sem íslenska hreyfingin hefur nú sett fram. Ekki ber á samfélagshruni í þessum löndum, raunar þvert á móti. Þar ríkir stöðugleiki og góð lífskjör. Ráðleysi íslenskrar yfirstéttar, hugmyndafátækt og skortur á stefnumótun virðist vera algert og hún verður einfaldlega að taka afleiðingunum af því.
Árni Daníel Júlíusson