Heimavellir eru vandinn, ekki lausnin
Pistill
02.11.2018
Frá því að Heimavellir voru stofnaðir í febrúar 2015 hefur leiguverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 40 prósent (sjá umfjöllun Kjarnans: 20 leigufélög krafin skýringa á hækkun á húsaleigu) og nú hyggst borgin gefa þessu hagnaðardrifna leigufélagi enn frekari aðgang að húsnæðisneyðinni, sem grafið hefur undan lífskjörum þeirra borgarbúa sem búa við veikust kjör. Í stað þess að byggja fyrir fólkið sem er í mestri neyð leitar Reykjavíkurborg enn og aftur til markaðsfyrirtækja, og einkavæðir þannig húsnæðiskreppuna enn frekar.
Markaðsvæðing húsnæðisstefnunnar á undanförnum árum hefur skapað dýpstu húsnæðiskreppu sem við höfum séð frá stríðslokum. Hið ömurlega ástand í húsnæðismálum er afleiðing markaðslausna og upplausnar hins félagslega húsnæðiskerfis á nýfrjálshyggjutímanum. Þessar lausnir geta því ekki verið lausn á vandanum, vanda sem varð til vegna markaðsvæðingar húsnæðisstefnunnar. Meirihlutinn í Reykjavík neitar að horfast í augu við þetta, heldur virðist hafa sokkið svo djúpt í fen nýfrjálshyggjunnar, ratar ekki að landi og hefur ekki dug til að viðurkenna hrun nýfrjálshyggjunnar.
Rétt viðbrögð væru að láta Reykjavíkurborg hefjast þegar handa við uppbyggingu félagslegra íbúða, sjálfa eða í samstarfi við verkalýðsfélögin. Í stað þess að taka höndum saman við verkalýðshreyfinguna, sem hefur beðið Reykjavíkurborg um samstarf, snýr meirihlutinn sér að Heimavöllum, einum helsta geranda húsnæðiskreppunnar í borginni. Þessi ákvörðun sýnir að meirihlutinn í borginni velur frekar að þjóna leigufélögum og húsnæðisbröskurum en að starfa með samtökum almennings. Sósíalistar í borgarstjórn fordæma þessa ákvörðun og heita því að berjast gegn henni.
Auðvitað er lausn á húsnæðisvanda Reykvíkinga ekki sú að borgin styðji enn frekar þau fyrirtæki sem grafið hafa undan húsnæðisöryggi í borginni. Markaðurinn er ekki lausnin, markaðurinn er vandinn.
Lausnin er:
- Út með hagnaðardrifin leigufélög. Þrátt fyrir að þau megi ekki hækka leiguna, samkvæmt samningi, er Reykjavík með þessu að styðja við áframhaldandi drottnun leigufélaganna á markaði.
- Félagslegt húsnæði! Við eigum ekki að vera hrædd við hugtakið félagslegt húsnæði og átta okkur á að húsnæðisöryggi hinna Norðurlandanna er að miklu leyti byggt upp á félagslegu húsnæði. Borgin á að byggja sjálf og styðja almennilega við uppbyggingu á vegum verkalýðsfélaga og annarra félagasamtaka, þar með talið samvinnufélaga.
- Sveitarfélögin þurfa útsvar af fjármagnstekjum til þess að geta byggt upp sterka innviði og jafnt og sanngjarnt samfélag.
Öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði eru mannréttindi og grundvöllur heilbrigðs samfélags, það er algjörlega ólýðandi að fjárhagslega sterkir aðilar geti hagnast á neyð fólks. Það er ekki hægt að byggja upp samfélag með fyrirtækjum sem hafa það að meginmarkmiði að hagnast á húsnæðisvanda fólks. Lausn húsnæðiskreppunnar felst ekki í því að leyfa hagnaðardrifnum leigufélögum að fá aukið aðgengi að húsnæðiskreppunni, heldur á þvert á móti að útiloka þá og aðra gamma frá húsnæðismarkaðinum. Reykjavíkurborg á að greiða fyrir áformum verkalýðsfélaga og samvinnufélaga og stofna sitt eigið byggingafélag að sænskri fyrirmynd, eins og sósíalistar í borginni munu leggja til.
Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi sósíalista
Daníel Örn Arnarsson, varaborgarfulltrúi sósíalista
Mynd: Guðbrandur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Heimavalla, hringir kauphallarbjöllunni þegar viðskipti hófust með bréf í Heimavöllum í maí síðastliðnum.