Stutt yfirlit yfir sögu nýfrjálshyggjunnar

Jóhann Helgi Heiðdal Pistill

Umfjöllun um bók David Harvey og þýðing á inngangi hennar

Bókin A Brief History of Neoliberalism eftir breska landfræðinginn og prófessor við CUNY David Harvey kom út árið 2005. Í bókinni skoðar Harvey hvernig og afhverju efnahagskrísur 8.áratugarins leiddu til upprisu nýfrjálshyggjunnar og lausna hennar. Á sama tíma og hann fer yfir sögu hugmyndafræði sem boðar frelsi, opnun markaða og afreglun, færir Harvey rök fyrir að mikið og sláandi ósamræmi sé á milli kenningarinnar og reyndar. Ennfremur á þetta ósamræmi rætur að rekja til mótsagna og spennu innan nýfrjálshyggjunnar sjálfrar, ásamt hræsni helstu boðbera hennar sem sáu um að raungera hana í verki einnig.

Helstu niðurstöður Harvey í bókinni eru að nýfrjálshyggjan hafi verið aðgerð sem miðaði fyrst og fremst og meðvitað að því að endurreisa völd og áhrif auðstéttarinnar sem voru verulega löskuð. Eftir seinni heimsstyrjöldina sérstaklega, ásamt þeim miklu og frægu uppreisnum og andófi sem áttu sér stað á 7.áratugnum. Markmið sem heppnaðist framar öllum vonum í ljósi þeirrar skýru og miklu aukningu á ójöfnuði – á milli stétta, svæða og þjóða – sem nýfrjálshyggjan hefur alls staðar haft í för með sér (undir merkjum umbóta, auðsköpunar og frelsis). Aðrar áhugaverðar greiningar Harvey sem hér má finna er t.d. einnig að þrátt fyrir allt talið um auðsköpun, hefur nýfrjálshyggjan í raun afleitan feril þegar kemur að því að skapa raunverulega auð. Hinsvegar hefur hún verið gríðarlega árangursrík þegar kemur að tilfærslu auðs uppávið – frá lægri stéttum til auðstéttarinnar. Þetta einkenni nýfrjálshyggjunnar, ásamt ferlinu sem það lýsir sér í, sem Harvey rekur og greinir í bókinni nefnir hann accumulation by dispossession og er ákveðið afturhvarf kapítalismans til frumstæðari gerðar af auðsöfnun (sem Marx nefndi primitive accumulation og hugtak Harvey vísar beint í).

Þrátt fyrir að A Brief History of Neoliberalism hafi komið út fyrir hrun, og margt hafi svo sannarlega gerst síðan, er hún engu að síður mikilvægt yfirlit yfir sögu nýfrjálshyggjunnar sem veitir mikilvæga innsýn í hugtakið – ásamt skilningi á þeirri stöðu sem við finnum okkur í í nútímanum. Eftirfarandi þýðing er á inngangi bókarinnar.

Jóhann Helgi Heiðdal

 

Stutt yfirlit yfir sögu nýfrjálshyggjunnar: Inngangur

Sagnfræðingar framtíðarinnar munu að öllum líkindum líta tilbaka á árin 1978-80 sem byltingarkenndan vendipunkt í félags- og efnahagsmálum alls heimsins. Árið 1978 tók Deng Xiaoping fyrstu afdrifaríku skrefin í átt að opnun kommúnísks hagkerfis fyrir frjálslyndum umbótum – í landi sem taldi fimmtung jarðarbúa. Vegferðin sem Deng Xiaoping hóf myndi á tveimur áratugum umbreyta Kína, úr lokuðu jaðarsvæði, í opna miðju kapítalískrar dýnamíkur með samfelldan vöxt sem engin sambærileg dæmi eru um í mannkynssögunni. Hinum megin við Kyrrahafið, og í töluvert ólíkum aðstæðum, tók tiltölulega óþekkt persóna, Paul Volcker, við stjórn Seðlabanka Bandaríkjanna árið 1979 og innleiddi dramatískar breytingar á peningastefnunni á örfáum mánuðum. Uppfrá því tók Seðlabankinn forystuna í baráttunni gegn verðbólgu, sama hverjar afleiðingarnar kynnu að vera (þá sérstaklega hvað varðar atvinnuleysi). Hinum megin við Atlantshafið var Margaret Thatcher kjörin forsætisráðherra árið 1979, beinlínis með umboði til að skerða áhrif og mátt verkalýðsfélaga og binda endi á stöðnuðu lífskjörin og verðbólguna (e. stagflation) sem hafði einkennt áratuginn á undan. Árið 1980 var Ronald Reagan svo kjörinn forseti Bandaríkjanna, og nýtti hann persónutöfra sína og viðkunnanlegheit til að setja Bandaríkin á sömu stefnu og Volcker. Hann bætti þó við eigin áherslum sem miðuðu að árás á verkalýðsfélög, ásamt afregluvæðingu iðnaðarins, landbúnaðar og söfnun auðlinda, og frelsun fjármálaaflanna – bæði heima fyrir og um heim allan. Útfrá þessum þremur miðjum breiddust út byltingaröfl með svo afdrifaríkum hætti að heimurinn allur var fljótt orðinn óþekkjanlegur.

Breytingar af slíkri stærðargráðu og dýpt gerast ekki fyrir slysni. Því er brýnt að kanna hvernig hin nýja efnahagsgerð – oft kölluð einfaldlega „hnattvæðing“ – spratt úr hinni gömlu. Volcker, Reagan, Thatcher og Deng Xaioping tileinkuðu sér öll minnihlutaskoðanir og rök, sem höfðu þó lengi verið á flakki, og gerðu að samþykkt meirihlutans (þó aldrei án töluverðra átaka). Reagan blæs lífi í minnihlutahefð sem teygði sig innan Repúblikanaflokksins aftur til Barry Goldwater við upphaf 7.áratugarins. Deng Xaioping horfði uppá auð og velferð í miklum vexti hjá Japan, Taívan, Hong Kong, Singapúr og Suður-Kóreu og leitaðist við að virkja markaðssósíalisma frekar en miðstýringu sem vernd í þjónustu kínverska ríkisins. Volcker og Thatcher drógu inn úr kulda áhuga- og skeytingarleysis ákveðna stefnu sem gekk undir nafninu „nýfrjálshyggja“ (e. neoliberalism), og umbreyttu í leiðandi grunnstefnu efnahagsmála og stjórnunar. Það er þessi stefna – uppruni, upprisa og afleiðingar – sem ég beini hér sjónum að.

Nýfrjálshyggja er í fyrsta lagi stjórnmála-hagfræðilegar aðgerðir sem boða að mannlegri velferð sé best borgið í frelsuðum höndum frumkvöðla og hæfileika þeirra innan stofnanaformgerðar með sterkri áherslu á einkaeignarétt, frjálsa markaði og frjálsa verslun. Hlutverk ríkisins er að skapa og viðhalda stofnanaformgerðinni sem styðja slíkar áherslur. Ríkið þarf t.d. að tryggja gæði og trúverðugleika penings. Það þarf einnig að koma á fót þeim hernaðar-, varnar-, lögreglu-, og lagastrúktúr, ásamt virkni hans, sem nauðsynlegur er til að tryggja réttan gang markaða – með valdi ef þess þarf. Ennfremur, ef enga markaði er að finna (á sviðum eins og landeignir, vatn, menntun, heilbrigðisþjónusta, félagslegar bætur eða umhverfismengun) þá þarf að skapa þá, með ríkisaðgerðum ef svo ber við. Ríkið hefur þó ekkert hlutverk handan slíkra aðgerða. Íhlutun ríkisins í markaði (eftir að þeir hafa verið skapaðir) þarf að halda í algjöru lágmarki þar sem samkvæmt kenningunni þá getur ríkið ekki mögulega búið yfir nægum upplýsingum til að efast um það sem markaðurinn gefur til kynna (verð) og þar sem áhrifamiklir hagsmunahópar munu óhjákvæmilega bjaga og spilla slíkum íhlutunum (sérstaklega í lýðræðisríkjum) í eigin þágu.

Eftir 8.áratuginn hefur nýfrjálshyggja í stjórnmálahagfræðilegum stefnum, aðgerðum og hugsun verið tekin upp alls staðar. Afreglun, einkavæðing, og hörfun ríkisins frá félagslegum sviðum og hlutverkum er fyrirbæri sem er algengara en góðu hófi gegnir. Næstum öll ríki, allt frá nýlega stofnuðum löndum fyrrum Sóvétríkjanna til velferðarríkja sósíaldemókratisma af gamla skólanum eins og Nýja Sjáland og Svíþjóð, hafa tekið upp og tileinkað sér (stundum sjálfviljug en í öðrum tilfellum með valdi og kúgun) einhverja útgáfu af kenningu nýfrjálshyggjunnar – ásamt stefnum og aðgerðum. Eftir aðskilnaðarstefnuna tók Suður-Afríka nýfrjálshyggjunni með opnum örmum og jafnvel Kína nútímans, eins og ég mun ræða nánar, virðist stefna í þessa átt. Ennfremur sitja nú fylgjendur og boðendur nýfrjálshyggjunnar í gríðarlega áhrifamiklum stöðum innan menntakerfisins (háskólarnir ásamt mörgum „hugsanaveitum“ (e. think tanks), í fjölmiðlum, í stjórnum stórfyrirtækja og fjármálastofnana, í lykil ríkisstofnunum (fjármálaráðuneytum, Seðlabönkum), ásamt í alþjóðastofnunum eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (IMF), Alþjóðabankanum og Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO) sem stýra alþjóðafjármagni og viðskiptum. Í stuttu máli sagt er orðræða nýfrjálshyggjunnar orðin allsráðandi (e. hegemonic). Hún hefur svo djúp áhrif á hugsunarferli að túlkun hennar á heiminum og hvernig lifa skal í honum er orðin að almennri skynsemi.

Ferli nýfrjálshyggjunnar hefur þó falið í sér mikla „skapandi eyðileggingu“, ekki einungis á fyrrum stofnanaformgerðum og öflum (og býður jafnvel hefðbundnum hugmyndum um sjálfsákvörðunarrétt þjóða byrginn), heldur einnig á skiptingu vinnuafls, félagslegum tengslum, velferðarúthlutun, nýtingu tækni, hugmyndum um lífið og lífsmáta, fjölgun, tengslum við land og venjum hjartans. Að svo miklu leyti sem nýfrjálshyggjan metur markaðsviðskipti sem „siðfræði í sjálfu sér, fullfær leiðarvísir um alla mannlega hegðun, og staðgengill fyrir allar fyrri siðferðishugmyndir“[1], leggur hún áherslu á mikilvægi samningsbundinna tengsla markaðarins. Hún boðar hámark félagslegrar velferðar með því að hámarka útbreiðslu og fjölda markaðsviðskipta, og leitast við að fella alla mannlegar athafnir undir svið markaðarins. Þetta krefst upplýsingatækni sem er fær um að safna, geyma, greina og nýta gígantíska gagnabanka í þeim tilgangi að stýra ákvörðunum í alþjóðaviðskiptum. Sem skýrir gríðarlegan áhuga og leitun nýfrjálshyggjunnar á upplýsingatækni (og hefur fengið suma til að lýsa yfir nýrri gerð „upplýsingasamfélags“). Þessar tækniþróanir og nýjungar hafa kreist saman stóraukna tíðni markaðsviðskipta í bæði tíma og rúmi. Þær hafa framkallað einstaka gerð af því sem ég hef annars staðar nefnt „samþjöppun tíma-rúmsins“ (e. time-space compression). Því lengra sem hægt er að ná landafræðilega (sem skýrir áhersluna á „hnattvæðingu), og því minni sem kröfur og skilyrði samninga markaðarins, því betra. Menningarlegu afleiðingarnar sem yfirráð þessarar markaðssiðfræði hefur haft í för með sér eru geigvænlegar, eins og ég hef áður sýnt í The Condition of Postmodernism.

Þrátt fyrir að finna megi þónokkur almenn yfirlit yfir hnattrænar breytingar og afleiðingar þeirra þá vantar oftar en ekki í þá mynd stjórnmála-hægfræðilegu sögu nýfrjálshyggjunnar: hvaðan hún kom og hvernig henni tókst að breiðast út og festra rætur á svo afgerandi hátt á alþjóðasviðinu. Gagnrýnin nálgun á þá sögu gefur ennfremur til kynna formgerð sem hjálpar við að koma auga á og byggja upp aðrar pólitískar og efnahagslegar leiðir.

Þýðing: Jóhann Helgi Heiðdal

[1]    Paul Treanor: http://web.inter.nl.net/users/Paul.Treanor/neoliberalism.html

 

Áhugavert efni:
David Harvey ræðir við Chris Hedges um nýfrjálshyggju:

https://www.youtube.com/watch?v=D-YO5EROH-I

Tveir fyrirlestrar:

 

 

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram