Það sem fræðin segja okkur (og segja okkur ekki)
Pistill
28.02.2019
Nú er ekki eins og ásakanir um marxískt lýðskrum, eða skort á skilningi á „nútíma hagstjórn“, hagfræðilegum lögmálum og raunveruleika – sem er gott ef ekki bara eðlisfræðilögmál – sé eitthvað sem kemur endurlífgaðri verkalýðshreyfingu á óvart. Þetta og annað í svipuðum dúr hefur auðvitað vægast sagt verið borið á borð oft og reglulega undanfarið vegna krafa hennar og herskárrar baráttu. Annað slagið nær hysterían kannski einhverri nýrri hæð sem vekur undrun eða hlátur, en að langmestu leyti eru þetta sömu leiðinda klisjurnar sem teflt er fram síendurtekið. Það verður að segjast eins og er að það er ekki mikil gróska eða hugmyndaauðgi fyrir að finna úr þessari átt.
Hinsvegar er leiðarstef hjá þeim öllum áhersla á fræði. Eða kannski réttara sagt: fræðin eru eitthvað sem er skýlt sér á bakvið. Sem er auðvitað fyrirsjáanleg taktík. En þegar maður rekst á sannfæringu af sama toga hjá leiðarahöfundi Kjarnans staldrar maður aðeins við:
„Gylfi [Zoega] verður ekki sakaður um að vera í liði með neinum nema þá helst fræðunum og hvað staðreyndirnar eru að segja okkur samkvæmt þeim.“
Hér virðist semsagt vera einhver útbreiddur misskilningur sem ástæða er til að eyða nokkrum orðum í.
Byrjum bara á því sem er jafnvel augljóslega fáránlegast í þessari gagnrýni: hvernig málflutningur umræddra viðskipta- og hagfræðinga einkennist oftar en ekki af mikilli og áberandi sannfæringu um að verkalýðshreyfingin og kröfur þeirra sé byggt á einhverri eintómri fáfræði og misskilningi á „hagfræðilegum raunveruleika“ eða „lögmálum“. Því er talað með þessu sterku yfirlæti til að undirstrika fáránleika krafnanna sem settar eru að því er virðist fram af manneskjum á tæpasta vaði andlega eða eitthvað þaðan af verra. Sem vekur auðvitað mikla furðu í ljósi þess að þær kröfur eru unnar af og í samráði við fræðimenn og sérfræðinga – staðreynd sem enginn möguleiki er að geti hafa farið framhjá neinum þarna.
Kannski hafa þeir sérfræðingar og fræðimenn bara ekki skilning á réttu fræðunum og staðreyndum þeirra? Aðhyllast og boða vitlaus fræði jafnvel?
Í fyrsta lagi þarf greinilega að benda á í þessu samhengi að „fræðin“ eiga sér ekki stað í einhverju tómarúmi, óháð samfélaginu og áhrifum frá því og því sem gerist þar. Ég get allavega ekki skilið ofangreinda tilvitnun og þessa algengu gagnrýni öðruvísi en að einhver slík sannfæring búi að baki – um hlutleysi fræðanna og því sem þau segja okkur, eitthvað sem er óháð allri pólitík og hagsmunum. Fræðimenn geta þá væntanlega (og óumdeilanlega auðvitað) verið óheiðarlegir og skrumskælt fræðin í eigin þágu eða í öðrum annarlegum tilgangi skv. þessum skilningi. Það sama verður hinsvegar ekki sagt um fræðin sjálf og staðreyndirnar sem þær sýna okkur.
Hér virðist málið þannig snúast öðru fremur um persónu fræðimannsins – heiðarleika hans og karakter og þar með trúverðugleika. Ef hann er í lagi þá hljóta fræðin semsagt að vera í lagi? Persónuleg dyggð og kostir fræðimannsins skiptir þó í raun og sanni litlu sem engu máli í þessu samhengi (skiptir þó alveg einhverju máli í öðrum, neita mikilvægi þess ekki alfarið).
Því staðreynd sem oft virðist illa skilin eða horft framhjá hérna er sú að fræðin sjálf geta einnig verið „í liði“ – alveg óháð góðum ásetningi eða vilja fræðimanns sem boðar þau og „staðreyndir“ þeirra. Hér er auðvitað átt við félags- og hugvísindi fyrst og fremst, en hvort sem við erum að tala um kenningar, skýringar og hugmyndir innan t.d. sagnfræði, bókmenntafræði, félagsfræði, stjórnmálafræði- eða heimspeki – hvaða atriði eða staðreyndir „fræðin“ ákveða að draga fram, einblína og leggja áherslu á, hvað þá stjórnmála-hagfræði stefnum sem þau færa rök fyrir, styðja og boða, er oftar en ekki allt annað en hlutlaust og óháð allri pólitískri hugmyndafræði og stefnum – hvort sem það er þá meðvitað eða ómeðvitað. Hversu mikið eða lítið, augljóst eða lúmskt, alvarlegt eða saklaust það er getur þó auðvitað verið allur gangur á innan hinna ótal ólíku fræðigreina og enn fleiri stefnanna og kenninganna innan þeirra.
En allra, allra síst á einhver slík naíve hlutleysis hugmynd um „fræðin“ og óháðar „staðreyndirnar sem þau segja okkur“ við um hagfræði. Einfalt yfirlit yfir sögu þeirrar ágætu fræðigreinar ætti að vera nóg til að kveða allar slíkar hugmyndir niður. Saga sem ég læt vera að fara útí að öðru leyti en að benda á að hét áður fyrr og lengi vel stjórnmála-hagfræði (e. political economy) og var eitthvað sem engum datt í hug að boðaði hlutlægan sannleika á borð við raunvísindin fyrr en mun seinna og nær okkur (Engels hafði þó auðvitað einhverjar slíkar hugmyndir um rit Marx ef dauða hans, en það er önnur alltof löng saga). Hvað þá að hún hafði slíkt dóminerandi mikilvægi ef ekki alræði í stjórnmálum, sem hnignað hafa í kjölfarið í einhvern and- og getulausan teknókratisma af þeim sökum, og nú á dögum. Ótrúlegt en satt þóttu bókmenntir og klassísk fræði það allra fínasta og kúltiveraðasta fyrir aðeins nokkrum áratugum, það sem intellectualar lögðu stund á – áhersla sem fer ekki á milli mála í ritum t.d. Marx, Keynes (sem var hluti af The Bloomsbury Group með Virginiu Woolf m.a.) o.fl. Hagfræðingar dagsins í dag, með sína þurru, tæknilegu „vísinda“ hagfræði hefðu ekki þótt merkilegir hugsuðir í þá daga – jafnvel alls ekki intellectualar eins og átti við um margt raunvísindafólk. Á nokkrum áratugum hafa gildin hér snúist fullkomlega við og svo gleymt og grafið að þau hafi nokkurn tímann verið öðruvísi í beinu framhaldi.
En hvað um þennan smá útúrdúr, áhugasamir geta lesið meira um þetta í The Two Cultures eftir C.P. Snow.
Þrátt fyrir að saga þeirrar hagfræði er ekki ýkja löng, hefur henni þó tekist að afsanna svo stórkostlega þá undarlegu hugmynd að hún boði hlutlægan, vísindalegan sannleika á svo gott sem allan mögulegan hátt. Ekki stenst steinn yfir steini í neinu þessum fræðum: hvort sem litið er á hversu vel efnahagsstefnurnar sem þau boða uppfylla yfirlýstu markmið sín (sem David Harvey vill þó meina að séu alls ekki hin raunverulegu markmið), hversu illa hún getur svarað eða staðið af sér fræðilega eða pólitíska gagnrýni, eða árangurinn þegar kemur að því bara að sjá fyrir einhverja alvarlegustu efnahagskrísu sem sést hefur – árangurinn í að koma í veg fyrir hana er auðvitað best lýst á einhverjum mínus skala.
Ferilskrá þessara fræða er auðvitað bara með hreinum ólíkindum: stærsta og alvarlegasta hrun og efnahagskrísa sögunnar fyrir utan Kreppuna miklu var ein bein afleiðing, ójöfnuður í óhugnanlega hröðum vexti, sem kominn er í sömu hæðir og við upphaf 20.aldar með engu láti á, velferðarkerfi og félagslegir innviðir víðast hvar í rjúkandi rúst eftir linnulausar og meðvitaðar árásir, meðfylgjandi og fullkomlega fyrirsjáanlegar félagslegar hörmungar og faraldrar af öllum stærðum og gerðum, fjármálageiri kominn með hálfgert alræðisvald sem drottnar yfir ríkjum og skipar stjórnvöldum þeirra fyrir, svo ekki sé minnst á yfirvofandi hrun siðmenningar sökum loftslagsbreytinga, o.fl. Allt afleiðingar stjórnmála-hagfræðiaðgerða og stefna sem boðaðar og réttlættar voru fyrst og fremst af hagfræðingum þessara fræða síðustu áratugi – innan hinna ýmsu banka og fjármálafyrirtækja, alþjóðlegra stofnanna, hugsanaveita, meðal stjórnmálaelítunnar og í ríkisstjórnum, í æðstu stofnunum samfélagsins, o.s.frv.
Í því ljósi á ég hreinlega bágt með að skilja hvernig hægt er að taka þessum „fræðum“ með einhverri virðingu og athygli, sbr. þetta jákvæða mat leiðarahöfundar Kjarnans á Gylfa. Væri t.d. hægt að benda á að þrátt fyrir að hafa verið algjörlega ráðandi og dóminerandi síðustu áratugi, var hún fullkomlega áhrifalaus jaðarkenning þar á undan. Með fáum áheyrendum og enn færri fylgjendum. Það eitt og sér ætti nægja til að forðast að leggja kennisetningar og boðorð hennar saman við „fræðin“ og hvað staðreyndir „fræðanna“ segja okkur.
Því staðreyndin er einfaldlega sú að fræðin eru eins ólík og þau eru mörg. Hér er ekki einungis átt við hversu ólíkar hinar ýmsu fræðigreinar eru og hvað það sem þær bjóða uppá er mismunandi – innan hverrar fræðigreinar fyrir sig er ennfremur heilmikil flóra af allskyns hugmyndum, áherslum, stefnum og kenningum sem stangast á, gagnrýna og grafa undan hver annarri á allan mögulegan hátt. Þetta á svo sannarlega og ekki síður við um hagfræði en önnur. Almennur skilningur og þekking hagfræðinga á þessari heilmiklu flóru og sögu eigin fræða virðist þó vægast sagt bágborin. Algengast er að sjá Marx og Das Kapital notað sem uppnefni eða skammaryrði í mesta lagi. Ásamt einstaka vitnunum í það þekktasta hjá Adam Smith, ósýnilegu höndina auðvitað en ekki mikið meira en það. Það heyrir til algjörra undantekninga að hagfræðingur ræði t.d. Ricardo, Weber, Schumpeter eða Pollanyi af mikilli þekkingu ásamt sannfæringu um að þeir og saga hagfræðinnar hafi eitthvað mikilvægt uppá að bjóða. Hver skýringin eða skýringarnar hérna eru nákvæmlega læt ég vera að fara nánar útí, Mæli þó með bókinni Shut Down The Business School eftir Martin Parker sem svarar því, ásamt öðru, á áhugaverðan hátt.
Ein megin ástæðan ætti þó að vera augljós og nokkuð óumdeilanleg: fræðin geta augljóslega þjónað auðvaldinu, ríkjandi hugmyndafræði og hagsmunum hinna ríkustu og valdamestu, á kostnað vinnandi fólks og lægri stétta sem jafnvel eru jaðarsett, gert lítið úr, þögguð og/eða útskúfuð á sama tíma. Þannig er þeim fræðum sem geta nýst til að styðja og/eða réttlæta slíka hagsmuni hampað sem augljósum sannleika, öðru er gefinn lítill gaumur og þau sem beinlínis stafar hætta af eru fordæmd, skrumskæld, hæðst að og almennt rædd á hátt sem gengið er úr skugga um að veki forvitni eða áhuga hjá sem fæstum.
Því fræðin geta svo auðvitað einnig verið gríðarlega gagnrýnin á hið sama. Bjóða jafnvel upp á allt annars konar málflutning, áherslur og greiningar, sem segja okkur aðrar „staðreyndir“ en Gylfi, framvarðarsveit auðvaldsins og meginstraums hagfræði nýfrjálshyggjunnar sem enn er reitt sig á. Gylfi Zoega er kannski vandaðri að ýmsu leyti, ekki hægt að leggja að jöfnu við pistlahöfunda Fréttablaðsins. En það verður ekki betur séð en að hann aðhyllist sömu nýfrjálshyggju kreddur í öllum meginatriðum – þrátt fyrir í besta falli yfirborðskennda gagnrýni á hin og þessi einkenni hennar hér og þar. Að hann telur ekki þörf á að taka skýra og eindregna afstöðu gegn nýfrjálshyggjunni segir auðvitað eitt og sér heilmargt (hann gæti t.d. varla haldið áfram að vinna í Seðlabankanum þá). Gylfi telur t.d. einnig mikilvægt að taka skýra afstöðu gegn Marx – sem hann skilur þó svo hlæilega illa að útkomunni er hreinlega ekki hægt að lýsa öðruvísi en sem tómri vitleysu.
Ýmis önnur fræði útskýra annars einnig hvers vegna þessi hagfræði er eitthvað sem löngu er kominn tími til að hætta að hlusta á, hvers vegna samfélagsgerðin sem hún gerir ráð fyrir ætti að hafna, hvernig fyrirbæri eins og mannleg reisn og virðing, mannsæmandi líf án firringar, í samfélagi samvinnu, samstöðu og samhjálpar eru mikilvægari en stikkorð og frasar eins og stöðugleiki, svigrúm og „það eru blikur á lofti“, sem koma til varnar samfélagi atómiseraðrar sjálfhverfu, örvæntingu sem brýst fram í hinum ýmsu faröldrum geðrænna og annarra vandamála, allt í skugga himinhrópandi félagslegs óréttlætis. Eitthvað sem nýfrjálshyggjan og hagfræði hennar býður ekki einungis uppá heldur gerir ráð fyrir og boðar beinlínis og þrífst á. Að þetta skuli vera kallað „raunveruleiki“ og jafnvel kennt við „skynsemi“, er svo svívirðilegt að önnur eins dæmi eru vanfundin.
Hvers vegna líf og aðstæður hinna verst og lægst settu eru mikilvægari en hagsmunir alþjóðlegra fjármálamarkaða og kapítalflæðis, og ættu því augljóslega að vera í forgangi, hvernig áherslan ætti að vera frá botni samfélagsins og upp frekar en frá toppinum og á það litla sem hægt er að koma auga á þaðan, o.s.frv. Allt þetta geta fræðin einnig sagt okkur.
En svo er líka bara hægt – og ég myndi mæla með – að gefa fræðunum bara góða pásu og hlusta einfaldlega af athygli á raddir verkalýðshreyfingarinnar. Sérstaklega þau lægst settu sem allra mest er traðkað á. Það sem þær raddir eru þá raunverulega að segja. Því það myndi ekki einungis bæta skilninginn á verkalýðshreyfingunni og kröfum hennar – það myndi einnig og ekkert síður bæta skilninginn á „fræðunum“ á sama tíma.
Kannski myndi t.d. Ásgeir Jónsson þá átta sig á að „nútíma hagstjórn“ er eitthvað sem svo sannarlega er tekið tillit til þar. Hún er m.a. talin vera handónýt, mannfjandsamleg og óboðleg. Eru þvert á móti allskonar sterkar tilfinningar í gangi til hennar.