Hvað hefur gerst? Hvað tákna „lífskjarasamningarnir“?

Árni Daníel Júlíusson Pistill

Verkalýðshreyfingin með Sólveigu Önnu Jónsdóttur og Ragnar Þór Ingólfsson í broddi fylkingar hefur nú brotið á bak aftur nýfrjálshyggjubandalagið á vegum Sjálfstæðisflokksins. Þetta blasir kannski ekki við þegar í stað, en staðreyndin er sú að bæði atvinnurekendur og ríkisstjórn urðu að láta sér lynda og sætta sig við að gangast inn á forsendur verkalýðshreyfingarinnar. Samningarnir eru gerðir á þeim forsendum sem hún lagði fram fyrir ári síðan og styrkja stöðu hennar gríðarlega. Þar á móti veikja samningarnir þær leifar nýfrjálshyggjunnar sem eftir voru í stjórn- og hagkerfi, og kemur það best fram í því neistaflugi sem er á milli Seðlabankans og verkalýðshreyfingarinnar. Einn grundvallarþáttur nýfrjálshyggjunnar er aðskilnaður markaðar og stjórnmála, og einn mikilvægasti þáttur þess er „sjálfstæði“, sem raunar er miklu fremur einræði, seðlabanka hvers ríkis. Þetta hefur verið sérstaklega áberandi varðandi seðlabanka Evrópusambandsins og meðferð hans á Grikkjum, en íslenski Seðlabankinn hefur líka haft þessa stöðu. Það kom fram hjá Ragnari Þór Ingólfssyni í Kastljósi Ríkissjónvarpsins þann 4. apríl s.l. að árið 2015 hefði Seðlabankinn notað þessa stöðu sína til að tæma nýgerða kjarasamninga öllu innihaldi með þremur vaxtahækkunum. Það er dæmigerð misnotkun nýfrjálshyggjustofnana í nafni hins heilaga markaðar, sem ekkert má hrófla við. Æðstu prestar markaðarins í Seðlabankanum ná núna ekki upp í nefið á sér af reiði vegna þess að ein forsenda kjarasamninganna er beinlínis að Seðlabankinn er sviptur þessum völdum.

Kjarasamningarnir eru stærsta frétt á Íslandi síðan 2008. Það stafar af því að með þeim er gerð ný samfélagssátt, sátt milli verkalýðshreyfingar, atvinnurekenda og ríkisvalds. Ný samfélagssátt hefur legið í loftinu allt frá því vora fór í efnahagslífinu og hagvöxtur komst á skrið upp úr 2011. Ástæðan var gríðarlegur vöxtur í ferðaþjónustu. Fjöldi erlendra ferðamanna fór í fyrsta sinn yfir eina milljón árið 2015, stökk þar ár úr rétt tæpri milljón árið 2014 í nærri því 1.300 þúsund. Þessi vöxtur var forsenda kjarasamninganna 2015, sem eins og áður segir Seðlabankinn (og ríkisstjórnin reyndar, ríkisstjórn undir forsæti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar) tæmdu að innihaldi að verulegu leyti með vaxta- og skattahækkunum. Ferðamönnum hélt áfram að fjölga og óánægja verkalýðsins sem sinnti því að hreinsa klósettin á hótelunum og sem varð að keppa við ferðamennina um húsnæði á uppsprengdu bóluverði hélt áfram að vaxa. Að lokum sauð upp úr og verkalýðurinn gerði uppreisn, kaus nýja róttæka forystu og hóf einbeitta baráttu fyrir því að ná rétti sínum.

Samfélagssáttin er gerð á kostnað gamla nýfrjálshyggjukerfisins, þjóðarsáttarkerfisins frá 1990. Verðtryggingin er gengin úr sér, sjálfstæði Seðlabankans líka, þjóðarsáttarkerfið reyndist afskaplega illa svo vægt sé til orða tekið. Það var forsenda og ástæða fyrir Hruninu 2008. Einkavæðingarnar, frumkvöðladýrkunin, fjárglæfraspilaborgirnar, bóluhagkerfið í heild sinni endurómaði síðan svo kröftuglega þegar Wow Air fór á hausinn, einmitt á því augnabliki þegar samningar voru að takast. Þetta ýtti undir það að flýta samningum og styrkti, þótt þverstæðukennt kunni að hljóma, ekki stöðu atvinnurekenda né ríkisstjórnar. Á yfirborðinu lítur kannski svo út, en í raun minnti gjaldþrot Wow Air fólk illyrmislega á Hrunið og ástæðuna fyrir því að róttæk verkalýðsforysta hafði fengið hljómgrunn. Á sama tíma var það einmitt Seðlabankastjóri sem sagði að áföll vorsins, hrun í loðnuveiðum og gjaldþrot Wow Air, væru smámunir einir miðað við einstaklega góða stöðu þjóðarbúsins í heild sinni. Ótal hneykslismál rosalauna forstjóra, þingmanna og ráðherra, og ofurgróði fyrirtækja í ferðaþjónustu, banka, kvótagreifanna og annarra hafa svo kynt undir óánægjunni og undiröldunni sem yfirstéttin fann. Hún lét undan. Hún ákvað að samþykkja kröfur verkalýðshreyfingarinnar um að nýja, róttæka forystan yrði tekin alvarlega.

Það hefur síðan afleiðingar sem ekki eru alveg ljósar. Nýja þjóðarsáttin, nýi Lífskjarasamningurinn eins og stjórnvöld vilja nefna hann er gerð á forsendum verkalýðshreyfingarinnar en ekki stjórnvalda. Það tókst aldrei að mynda ríkisstjórn sem gat staðið fyrir nýjum sáttmála, til þess voru þeir stjórnmálaflokkar sem orðið höfðu til upp úr hruni ekki nægilega hagnýtir ef svo má að orði komast, og náðu aldrei neinu samspili við þá (svokallaða) vinstri flokka sem fyrir voru. Það þurfti fólk sem talaði hiklaust um byltingu, stéttabaráttu, kapítalisma og arðrán til að skapa forsendur fyrir nýrri sátt (sem er áhugaverð þversögn), og það fólk kom, sá og sigraði í verkalýðshreyfingunni. Vettvangur þessa fólks á sviði stjórnmála er nýr flokkur, Sósíalistaflokkur Íslands, og hann nýtur algerlega fordæmalausrar og óvenjulegrar velgengni í skoðanakönnunum, hefur á köflum verið inni á þingi þótt hann hafi aldrei boðið fram til þings og tekið þá ákvörðun að sleppa því þegar færi gafst 2017. Þá var flokkurinn nýstofnaður og ennþá eru innviðir hans ekki sérlega sterkir, en hin nýja staða í samfélaginu eftir sigur verkalýðshreyfingarinnar í kjarasamningunum gæti ýtt undir gengi hans.

Það skiptir ef til vill ekki höfuðmáli hvað verður um Sósíalistaflokkinn. Það sem kemur á óvart er hversu lítil fyrirstaða var fyrir því að kröfur verkalýðshreyfingarinnar um réttlæti næðu fram að ganga. Þar kemur tvennt til: Annars vegar óvenjulega einbeittur og öflugur foringjahópur og hins vegar mikill baráttuvilji verkalýðsins. Enn einu sinni kemur í ljós að umbætur verða ekki nema fyrir einbeitta baráttu, og með byltingarsinnaða hugmyndafræði að leiðarljósi. Umbætur og byltingarsinnuð hugmyndafræði eru ekki andstæður, síður en svo, forsendur umbóta sem verða fyrir tilverknað baráttu er róttæk greining á samfélaginu og afhjúpun blekkinga af ætt endurbóta- og stéttasamvinnustefnu, hvort sem er VG og Samfylkingar nú eða t.d. Alþýðuflokks á tímum Kommúnistaflokks Íslands 1930–1938. Einnig er áróðursstaða yfirstéttarinnar óvenjulega veik; yfirstéttin er hugmyndafræðilega séð gjörsamlega gjaldþrota og það er öllum ljóst, ekki bara hér á landi heldur meira og minna um allan heim. En kannski sérstaklega hér á landi.

Það er langt frá því að einhver endanlegur sigur hafi unnist þrátt fyrir að mikið hafi áunnist. Í fyrsta lagi er ennþá eftir að hreinsa upp eftir hrunið. Myglaðir skólar, velferðarkerfi sem hangir uppi af gömlum vana og varla það, sárin eru ekki gróin og munu aldrei alveg gróa eftir þjóðfélagshamfarir áranna 2008 og 2009. Það er heldur enginn vilji er af hálfu yfirstéttarinnar til að taka á þessum málum. Fólk verður þess vegna að berjast fyrir umbótum og baráttuaflið er ekki óþrjótandi. Í öðru lagi hefur verið lögð fram fjármálaáætlun fyrir tímabilið 2020 til 2024 sem virðist gera ráð fyrir því að fólk sætti sig við óbreytt ástand, áætlun sem er bæði stefnulaus og byggð á forsendum sem nú er búið að varpa fyrir róða, nýfrjálshyggjuhagfræði „hugmyndafræðilega náriðilsins“ Gylfa Zoëga, hamfaraprinsins Bjarna Benediktssonar og félaga. Opinbera kerfið er í molum. Fólk sættir sig ekki við að strita við að halda á floti stofnunum og starfsemi sem eru fjársveltar og sigla stefnulausar í ólgusjó niðurskurðar í ríkisfjármálum. Sá niðurskurður er gerður á sama tíma og aldrei hafa verið til meiri peningar í samfélaginu, en úrelt hugmyndafræði mælir svo um og leggur á að það megi ekki eyða þeim. Stórfyrirtæki græða ógnarfjárhæðir á hverju ári og þær gufa upp í stórkostlegum launahækkunum forstjóranna án þess að koma að neinum notum við uppbyggingu samfélagins. Vonleysið og dapurleikinn sem þessar aðstæður skapa kostar fjölda fólks heilsuna á hverju ári, það sér ekki fram úr stritinu og gremst sú fyrirlitning sem stjórnvöld sýna heiðarlegu fólki með stefnumótun af því tagi sem sjá má í fjármálaáætluninni fyrrnefndu, í launahækkunum afætuskrílsins í forstjórastólnum og í spennitreyju ríkisfjármála sem er af hugmyndafræðilegum ástæðum. Mál er að linni.

Samfélagssáttin sem verkalýðshreyfingin lagði drög að með sigri sínum í kjarasamninguum

Nauðsynlegt er að finna leið til að skipta um forsendur á þessu sviði alveg eins og skipt var um forsendur í kjarasamningunum. Til þess þarf að horfa til hinnar róttæku forystu verkalýðshreyfingarinnar og taka upp sömu aðferðir, gera kröfur, berjast, láta öllum illum látum. Öðruvísi næst ekki árangur. Samfélagssáttin sem verkalýðshreyfingin lagði drög að með sigri sínum í kjarasamningum mun ekki ná flugi eða verða viðvarandi nema skipt verði um viðmið í ríkisfjármálum. Þess vegna er óþægilegt að hafa ríkisstjórn sem ekki er skipuð verkalýðsflokkum.

Árni Daníel Júlíusson

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram