Við þurfum betri húsnæðisstefnu, ekki einungis fleiri lóðir
Pistill
18.06.2019
Á dagskrá borgarstjórnarfundar í dag er umræða um hlutverk Reykjavíkurflugvallar í öryggiskerfi landsins. Hér eru tvö sjónarmið sem takast gjarnan á og lengi vel hefur verið talað um að húsnæðisuppbygging muni fara fram í Vatnsmýrinni. Í því samhengi tel ég mikilvægt að taka fram að við þurfum betri húsæðisstefnu, félagslega húsnæðisstefnu. Sú stefna sem hefur verið við lýði hefur ekki verið að skila húsnæði fyrir þá sem eru í mestri þörf fyrir húsnæði. Ég tel að það sé auðvitað mikið til í því að fá Vatnsmýrina sem byggingarland en ég vona að þetta verði ekki byggingarland fyrr en það er búið að setja fram nýja húsnæðistefnu- og áætlun. Annars sé ég fram á að við munum enda með mikið af íbúðum sem fólk er ekki að kalla eftir, dýrum íbúðum sem seljast ekki.
Fólkið sem er í neyð þarf húsnæði. Húsnæði á viðráðanlegu verði. Aðgengi að öruggu húsnæði er mannréttindi og hvað á fólk að gera við dýrar íbúðir sem ekki er verið að kalla eftir? Því það er það sem maður hefur áhyggjur af ef haldið er áfram á sömu braut. Braut þar sem markaðurinn ræður för og félagslegri húsnæðisuppbyggingu er komið að hér og þar. Verkefni eru kynnt sem hagkvæm en við nánari skoðun virðast þau ekki þjóna hagsmunum þeirra sem eru í mestri þörf fyrir húsnæði. Hér má t.d. nefna að í verkefni Reykjavíkurborgar sem er kallað hagkvæmt húsnæði, hafa 18- 40 ára forgang að íbúðarkaupum og þeir sem eru að kaupa sína fyrstu eign en svo eru skilmálarnir þannig að ef íbúðin er óseld þremur vikum eftir að auglýsing hefur verið birt og enginn hefur brugðist við, þá megi auglýsa hana til einstaklinga á almennum markaði. Þetta er bara eitt dæmi um hvernig húsnæðisáætlunin er ekki að miða að þörfum þeirra sem eru í mestri þörf fyrir húsnæði. Þrjár vikur er mjög skammur tími.
Við þurfum að vinna út frá félagslegum grunni og líta á húsnæði sem mannréttindi en ekki sem hverja aðra markaðsvöru sem gengur kaupum og sölum til hæstbjóðenda. Á meðan fjöldi fólks býr við ótryggar húsnæðisaðstæður getum við ekki haldið áfram á sömu braut húsnæðisstefnunnar. Við þurfum félagslegar áherslur líkt og í öðrum löndum þar sem að sveitarfélögin sjá miklu meira um að koma leiguíbúðum til fólksins, íbúum til góða. Í Svíþjóð þá er um helmingur leiguíbúða í umsýslu sveitarfélaganna (sjá nánar hér: Analyse construction and housing market), Helsinki á 60.000 húsnæðiseiningar, þar sem einn af hverjum sjö íbúum býr í húsnæði í eigu borgarinnar og sveitarfélagið rekur einnig sitt eigið byggingafélag (sjá nánar hér: ‘It’s a miracle’: Helsinki’s radical solution to homelessness). Í Vín búa um sex af hverjum tíu borgabúa í félagslegu húsnæði (hér má lesa nánar um það: Vienna’s Affordable Housing Paradise)
Í húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar kemur fram að: „Stefnt verði að því að allt að 25% íbúða verði miðaðar við þarfir þeirra sem ekki vilja eða geta lagt mikið fé í eigið húsnæði. Uppbygging slíks húsnæðis verði einkum á miðlægum svæðum þar sem halda á úti góðum almenningssamgöngum.“ Þá er einnig unnið út frá því að Félagsbústaðir fái kauprétt fyrir allt að 5% íbúða. Áður en frekari ákvarðanir eru teknar þá spyr ég. Hvernig væri að snúa stefnunni við? Þannig að hámarki 25% megi vera hagnaðardrifið? Við erum að tala um húsnæði fyrir fólk. Réttindi sem margir búa ekki við þar sem að þau eiga engan kost á að komast í öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði. Mér finnst það þurfa að stýra uppbyggingunni og finnst þetta nauðsynlegt innlegg hér þegar við ræðum mögulega framtíð Vatnsmýrarinnar sem reit húsnæðisuppbyggingar.
Sanna Magdalena Mörtudóttir