Lækkum útsvar hinna tekjulægstu

Sanna Magdalena Mörtudóttir Frétt

Fjöldi Reykvíkinga lifir í fátækt og þó að það sé staðreynd að margir hafi allt of lítið á milli handanna vegna þess að ríkið greiðir þeim skammarlega lítið t.d. í formi lífeyris, þá þýðir það ekki að við getum samt ekki gert eitthvað til að koma til móts við þá sem hafa lægstu tekjurnar. Þá má líka nefna að margir hafa lítið á milli handanna því þeir eru á fjárhagsaðstoð til framfærslu hjá borginni eða á lægstu launum sem borgin greiðir fyrir fullt starf. Maður myndi auðvitað vilja sjá að málin væru þannig að þeir greiði til samfélagsins sem ráði við það og að sá sjóður yrði nýttur til þess að jafna út þar sem á vantar til að skapa gott samfélag fyrir alla. Það skýtur skökku við að við séum að innheimta útsvar, skatt af þeim sem eru með tekjur sem duga vart til framfærslu.

Sem dæmi má nefna að manneskja sem er einungis með grunn örorkulífeyri frá Tryggingastofnun er með um 212 þúsund krónur eftir skatt þar sem stór hluti fer til borgarinnar á meðan að fjármagnseigendur greiða núll krónur af fjármagnstekjum sínum til borgarinnar. Vissulega fær manneskjan sem er með rúmar 200 þúsund eftir skatt að öllum líkindum húsnæðisbætur og eitthvað slíkt sem liðkar aðeins fyrir en hverng eiga borgarbúar að komast af með svo lága upphæð? Þá er líka erfitt að sjá fyrir sér hvernig einstaklingar á fjárhagsaðstoð með um 184 þúsund krónur eftir skatt getur framfleytt sér.

Þessari tillögu er ætlað að létta byrðarnar af þeim sem hafa lægstu tekjurnar, þetta nær líka til eftirlaunafólks með lágar tekjur, þeirra sem eru í láglaunastörfum og Reykjavíkurborg er nú sennilega stærsti láglaunavinnustaður landsins og þykir mér því mjög viðeigandi að allt sé gert til þess að hækka ráðstöfunartekjur þeirra sem hafa sem minnst á milli handanna. Þessari tillögu er ætlað að ná til allra borgarbúa sem er gert að lifa á upphæðum sem duga vart til framfærslu.

Ég trúi því að ef við sitjum okkur þetta markmið að þá getum við unnið að því, ef vilji er fyrir hendi til að létta byrðina af lágtekjufólki, getum við gert líf þessara borgarbúa aðeins auðveldara og gefið öðrum sveitarfélögum fordæmi um að hér sé skattkerfið sannarlega notað til jöfnunar. Borgarsjóður skilaði um 4,7 milljörðum í afgang á síðasta ári og það er nú heldur betur hægt að byrja á því að nýta það fjármagn í velferðarmál sem þessi tillaga gengur út á. Að leitast við að tryggja fjárhagslegt öryggi allra borgarbúa og miða að því að sem fæstir séu með undir 300.000 krónur í ráðstöfunartekjur. Þess vegna er lagt til að nýju sviði fjármála- og áhættustýringar verði falið að útfæra efni tillögunnar og koma henni í framkvæmd. Eins og ég hef oft lagt til hér í borgarstjórn þá gæti borgin leitast við að koma á réttlátara skattkerfi á með því að leita til hinna sveitarfélaganna með það að markmiði að koma lögum á um að útsvar verði líka lagt á fjármagnstekjur.

Nú þegar viðurkennum við erfiða fjárhagslega stöðu ýmissa hópa í samfélaginu þar sem borgin veitir t.d. afslætti til tekjulítilla elli- og örorkulífeyrisþega af fasteignagjöldum og námsmenn, einstæðir foreldrar og þeir sem eru á örorkubótum geta fengið afslátt af leikskólagjöldum barna sinna og það eru allskonar slíkir afslættir í boði en göngum skrefinu lengra og rýmkum ráðstöfunartekjur þeirra sem hafa ekki nóg á milli handanna.

Þegar litið er til þess að félagsþjónusta er eitt af verkefnum sveitarfélaganna þar sem markmiðið er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, þá fellur þessi tillaga vel að þeim markmiðum. Í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaganna er til að mynda talað um að markmið laganna sé að bæta lífskjör þeirra sem standa höllum fæti og að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir félagsleg vandamál. Við vitum að fjárhagslegir erfiðleikar geta opnað á mörg félagsleg vandamál, þegar hver mánuður er ómögulegur og þú veist það, þá er erfitt að lifa á upphæðinni sem þú hefur til umráða. Hér getur borgin stigið inn í og varið fjármunum á þann veg að það tryggir í auknu mæli fjárhagslegt og félagslegt öryggi íbúanna.

Tillagan var því miður felld en hér er bókun mína við þá afgreiðslu:

Í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaganna kemur fram að markmiðið sé að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar. Skal það m.a. gert með því að bæta lífskjör þeirra sem standa höllum fæti og að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir félagsleg vandamál. Margir borgarbúar lifa við fátækt og slíkt tekur heldur betur á. Fulltrúi Sósíalista telur að borginni beri siðferðisleg skylda til að gera allt sem í hennar valdi stendur til að tryggja að enginn búi við fátækt. Þó að meirihluti borgarstjórnar hafa ákveðið að gera engar breytingar á útsvari á þessu kjörtímabili þá er vel hægt að skoða þessa leið sem sértækan fjárstuðning við hinna verst settustu. Enginn á að þurfa að búa við fátækt og borgin getur gert ýmislegt til að létta byrðum af þeim sem búa við erfiðar fjárhagslegar aðstæður.

Hér er tillagan:

Tillaga um endurgreiðslu útvars til hinna tekjulægstu

Lagt er til að Reykjavíkurborg endurgreiði útsvar til tekjulægstu borgarbúanna á mánaðarfresti. Miðað skal við að þeir sem eru einungis með mánaðartekjur upp á 300.000 krónur eða minna fyrir skatt fái útsvarið að fullu endurgreitt. Endurgreiðslan skal skerðast með auknum tekjum með það að markmiði að tryggja að sem fæstir séu með lægri ráðstöfunartekjur en 300.000 krónur á mánuði. Miðað er við að endurgreiðsla útsvars falli niður þegar því takmarki er náð. Hér er þó rétt að nefna að mánaðartekjur margra ná ekki 300.000 þúsund krónum og þar er miðað við fulla endurgreiðslu útsvars. Þar má nefna einstaklinga sem eru á fjárhagsaðstoð til framfærslu, eftirlaunafólk með lágar tekjur, eldri borgara og öryrkja með lítinn sem engan lífeyrissjóðsrétt og lífeyrisþega með skertar greiðslur frá almannatryggingum vegna fyrri búsetu erlendis. Allt eru þetta dæmi um borgarbúa sem greiða skatt til Reykjavíkurborgar og lifa við knöpp kjör og er þessi tillaga lögð fram til að bæta fjárhagsstöðu þeirra sem hafa lægstu tekjurnar. Lagt er til að svið fjármála- og áhættustýringar verið falið að útfæra efni tillögunnar og koma henni í framkvæmd. Þá er einnig lagt til að endurgreiðsluviðmið þróist í takt við upphæðir lægstu launa og tekna.

Greinargerð:

Margir borgarbúar búa við erfiða fjárhagslega stöðu þar sem mánaðartekjur duga ekki fyrir helstu nauðsynjum og einstaklingar hafa oft þurft að neita sér um þætti sem teljast til grunnþarfa. Nú nýverið lagði ríkisstjórnin fram aðgerðarpakka vegna kjarasamninga sem felur m.a. í sér 9 þúsund króna skattalækkun til lágtekjufólks. Sveitarfélögin geta einnig létt skattbyrði af lágtekjufólki með því að endurgreiða þeim tekjulægstu útsvarið sem þeir hafa greitt í borgarsjóð. Útsvarsprósentan er 14,52% í Reykjavíkurborg og getur því dregið upphæðir lægstu launa verulega niður. Þar má nefna að grunnupphæð fjárhagsaðstoðar til Reykvíkings, 18 ára eða eldri, sem rekur eigið heimili getur numið að hámarki 201.268 krónum á mánuði fyrir skatt. Þeir aðilar sem fá einungis lágmarksframfærslutryggingu örorku- og endurhæfingarlífeyris fá 247.183 krónur á mánuði fyrir skatt. Þá eru einnig einstaklingar, bæði þeir sem eru á örorkulífeyri og eldri borgarar sem eru í þeirri stöðu að eiga ekki lífeyrissjóðsréttindi og þurfa því að lifa á upphæð sem dugar ekki til framfærslu.

Borgin veitir hinum tekjulægstu ýmsa afslætti, þar sem einstæðir foreldrar, öryrkjar og námsmenn geta fengið afslátt af leikskólagjöldum barna sinna og tekjulitlir elli- og örorkulífeyrisþegar geta fengið afslátt af fasteignagjöldum svo dæmi séu nefnd. Hér getur borgin tekið stærri skref í átt að því að létta undir þeim sem hafa lítið á milli handanna. Samkvæmt lögum ber að greiða skatt af tekjum og því er lagt til að útsvar verði innheimt en síðan endurgreitt til þeirra tekjulægstu með þessum hætti. Til að bæta kjör þeirra borgarbúa sem hafa minnst á milli handanna er lagt til að þetta endurgreiðslukerfi fari fram og tryggi hinum verr settu í borginni auka ráðstöfunartekjur. Á meðan að borgarbúar búa við þá stöðu að þurfa að komast af á mánaðartekjum sem duga ekki fyrir helstu nauðsynjum er lagt til að skattbyrði borgarbúa sem eru á lægstu tekjunum verði með þessum hætti felld niður. Í framhaldi getur borgin leitað leiða til að skattleggja fjármagnseigendur sem greiða ekkert útsvar af fjármagnstekjum sínum til borgarinnar og þannig leitast við að skapa réttlátara skattkerfi.

Félagsþjónusta er eitt af verkefnum sveitarfélaganna þar sem markmiðið er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar. Skal það m.a. gert með því að bæta lífskjör þeirra sem standa höllum fæti og með því að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir félagsleg vandamál. Með því að endurgreiða þeim tekjulægstu í borginni útsvarið má tryggja að ráðstöfunartekjur þeirra einstaklinga hækki og þar með talið er hægt að létta álagið af þeim borgarbúum sem lifa við sífelldar fjárhagsáhyggjur. Með þessu getur sveitarfélagið Reykjavíkurborg verið leiðandi í því að koma með breytingar á skattkerfi sveitarfélaganna með það að markmiði að létta byrðum af þeim sem hafa lægstu tekjurnar.

Sanna Magdalena Mörtudóttir

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram