Af hverju grænn kapítalismi er ekki nóg – loftslagsbreytingar sem rök fyrir sósíalisma

Hjalti Hrafn Hafþórsson Pistill

1. Umhverfisvandinn
Jörðin og það samfélag manna og annarra lífvera sem hana byggir stendur frammi fyrir margþættum og samverkandi umhverfisvandamálum. Þau má gróflega flokka í þrennt: auðlindanám1 (það að taka efni út úr náttúrulegum hringrásum), mengun (það að bæta óæskilegum efnum inn í náttúrulegar hringrásir), og eyðingu vistkerfa (sem takmarkar getu náttúrunnar til þess að viðhalda og vinna úr efnislegum hringrásum). Í öllum þremur tilfellum er mannkynið í ósjálfbærum farvegi og mun óhjákvæmilega rekast á náttúruleg takmörk. Í sumum tilfellum með hræðilegum afleiðingum.

Það eru í það minnsta níu hnattrænar náttúrulegar takmarkanir sem við getum ekki farið yfir án þess að ógna okkar eigin velferð til framtíðar.2 Þær eru (1) loftslagsbreytingar, (2) súrnun sjávar, (3) eyðing ósons, (4) hringrásir niturs of fosfórs, (5) ferskvatns notkun, (6) skógareyðing og önnur landnotkun, (7) tap á líffræðilegum fjölbreytileika, (8) loftmengun og (9) efnamengun. Mannkynið hefur þegar farið út fyrir þrjár af þessum hnattrænu takmörkunum. Við höfum þegar losað svo mikið koltvíoxíð að hættulegar loftslagsbreytingar eru yfirvofandi, við höfum bætt óhóflegu magni af nitur inn í náttúrulegar hringrásir og tap á líffræðilegum fjölbreytileika jaðrar við að vera sambærilegt við stærstu útrýmingar jarðsögunnar.

Af þeim vandamálum sem við stöndum frammi fyrir eru loftslagsbreytingar alvarlegastar og mest aðkallandi einkum af því að hröð hlýnun Jarðarinnar mun raska öðrum kerfum og auka á önnur vandamál eins og eyðingu vistkerfa, súrnun sjávar og skort á lykil auðlindum á borð við vatn. Fyrir þær sakir er í þessari grein einblínt á loftslagsbreytingar. En það ber að hafa í huga að samfélagsgerð okkar er ósjálfbær á öðrum sviðum og getur ekki viðhaldið sér til lengdar. Þetta er mikilvægt af því að lausnir sem taka á loftslagsbreytingum en miða ekki að sjálfbærni á öðrum sviðum verða alltaf skammtímalausnir. Markmið þessarar greinar er að sýna fram á að róttækari grundvallar breytinga sé þörf og að leggja drög að gildum sem gætu verið leiðarljós í því breytingaferli.

2. Hlýnun Jarðar
Grundvallar fræðin á bak við loftslagsbreytingar ættu að vera flestum kunn. Með brennslu á jarðefnaeldsneytum losnar koltvíoxíð, CO2, eða bara kolefni til einföldunar, út í andrúmsloftið sem veldur svokölluðum gróðurhúsaáhrifum. Andrúmsloftið fangar meira af orku sólarinnar og hitnar yfir einhvern tíma. Það eru einnig aðrar mikilvægar gróðurhúsalofttegundir (GHL) í andrúmsloftinu, til dæmis metan og vatnsgufa, en kolefni úr jarðefnaeldsneytum er stærsti þátturinn í þeim breytingum sem nú eiga sér stað.

Nú þegar hefur meðal hiti Jarðarinnar hækkað um tæpa 1°C síðan við upphaf iðnbyltingarinnar þegar brennsla á jarðefnaeldsneytum hófst fyrst í stórum stíl. Kolefnið sem við höfum nú þegar sleppt út í andrúmsloftið er nóg til þess að Jörðin hlýni um 1° í viðbót á næstu áratugum. Þó tölurnar virðist ekki háar getur 2° hækkun á meðalhita plánetunnar haft gífurlega mikil áhrif á veðurfar, lífríki, og samfélög manna um allan heim. Meiri hækkun en það gæti reynst geigvænleg. Sem stendur erum við að stefna í um 4° hækkun árið 2100 ef ekkert er að gert.3

Jarðefnaeldsneyti eru í raun gamlar leifar af plöntum sem fyrir miljónum ára breyttu sólarorku í efni með ljóstillífun. Þessar lífrænu plöntuleifar festust í jarðlögum og urðu að olíu, gasi, og kolum. Með brennslu á þessum efnum endurheimtum við þannig hluta af sólarorkunni sem skein á Jörðina fyrir miljónum ára. Orkan sem við á þennan hátt losum um á einum degi er meiri en öll orkan af ljóstillífun allra plantna í Amazon frumskóginum.4 Jörðin er í einhverjum skilningi lokað kerfi af efnislegum hringrásum. Við erum að fá lánaða orku úr fortíðinni og bæta efnum inn í hringrásir náttúrunnar í magni sem er ekki í neinum takti við það sem lifandi vistkerfi Jarðarinnar þola nema á mjög löngum tíma.

En tíminn er afstæður. Breytingar á loftslagi og vistkerfum gerast að öllu jöfnu á tímaskala sem er erfitt fyrir manninn að ímynda sér. Það er oft sagt að þær loftslagsbreytingar sem eru að eiga sér stað núna séu að gerast yfir langan tíma, hugsanlega nokkrar aldir, og frá sjónarhorni manneskjunnar er það langur tími. En slíkar breytingar gerast að öllu jöfnu á jarðsögulegum tímaskala þar sem nokkrar aldir eru aðeins augnablik. Þegar Jörðin kemur út úr ísöld er dæmigert að meðalhiti hækki um 4-7° yfir um 5.000 ára tímabil, eða um 1° á árþúsundi.5 Þess má geta að á seinustu ísöld var allt Ísland þakið allt að 2000m þykkum jökli, sem og stórir hlutar Evrópu, Norður-Ameríku og Asíu. Það eru því engar smá breytingar á veðurfari og lífsskilyrðum sem verið er að tala um.

Jörðin hefur einnig gengið í gegnum tímabil af gróðurhúsaáhrifum áður. Eitt dæmi er Eocene hitaskeiðið fyrir um 55,5 miljón árum. Það gerðist líkast til vegna samspils stórs eldgoss og metans sem losnaði upp af sjávarbotninum. Þá varð hlýnun upp á 5-8° yfir 20.000 ára tímabil sem hafði gífurleg áhrif á lífríki og vistkerfi plánetunnar.

Setjum þetta í samhengi við tímaskala núverandi breytinga: iðnbyltingin hófst fyrir um 230 árum þegar James Watt fullkomnaði gufuvélina. Síðan þá hefur útblástur frá jarðefnaeldsneytum aukist stöðugt en um helmingurinn af GHL útblæstri frá þeim tíma hefur átt sér stað á seinustu 30 árum (nánar um af hverju það er síðar). Við höfum þegar hlýnað um 1° á þessum 230 árum og sjáum að óbreyttu fram á hlýnun upp á 1-4° í viðbót á næstu 80 árum. Hér erum við að tala um áratugi í stað árþúsundir. Breytingar á andrúmslofti Jarðarinnar frá upphafi iðnbyltingarinnar, eru því gífurlega hraðar breytingar. Um 20 sinnum hraðari en er dæmigert í jarðsögunni. Mun hraðari en náttúran, og vistkerfi Jarðarinnar ráða við.

Lausnin á vandanum liggur þó beint við. Að minka losun GHL og þar með halda hitahækkun í skefjum. Því miður er þar örlítill hængur á, við þurfum nefnilega að minka losunina mjög hratt. Vandinn er sá að í náttúrunni eru að verki svokallaðar hverfislaufur. Sjálfstyrkjandi hringrásarferli sem geta verkað jákvætt, í þeim skilningi að þau hraða breytingunni, eða neikvætt í þeim skilningi að þau hægja á (þetta getur verið ruglingslegt þar sem að jákvæðar hverfislaufur sem stuðla að hraðari loftslagsbreytingum eru auðvitað mjög slæmar og neikvæðar í þeim skilningi). Sem dæmi um jákvætt verkandi hverfislaufu má nefna að hlýnandi veðurfar bræðir sífrera og úr þeim jarðvegi losnar metangas (mun öflugri gróðurhúsalofttegund en koltvíoxíð) sem eykur enn á gróðurhúsaáhrifin og Jörðin hlýnar enn frekar. Neikvæð hverfislaufa væri til dæmis sú virkni að aukið kolefni í andrúmsloftinu getur aukið vöxt plantna sem binda kolefni og þar með minka magn þess í andrúmsloftinu. Það eru mörg slík ferli þekkt bæði jákvæð og neikvæð, en jákvæðu hverfislaufuferlin eru fleiri og munu að öllum líkindum hafa meiri áhrif. Til dæmis munu gróðureldar, þurrkar og breytt veðurfar líklega hafa mun meiri neikvæð áhrif á gróðurfar jarðarinnar en jákvæð áhrif af auknu kolefni í andrúmsloftinu gætu orðið.

Það er vert að nefna tvö mikilvæg jákvæð hverfislaufuferli til viðbótar sem munu hafa mikil áhrif á komandi áratugum. Það fyrra er að minni snjór og ís á heitari Jörð þýðir minna endurvarp á sólarljósi og meiri hlýnun, sem þýðir aftur minni snjór og meiri hiti í sjálfstyrkjandi hringrás. Þess vegna er gífurlega mikilvægt að við náum að viðhalda hafís og jöklum sem lengst. Hitt hverfislaufuferlið er að heitara loft heldur meiri raka sem eykur enn á gróðurhúsaáhrif og veldur aukinni hlýnun, sem þýðir meiri raki, og svo framvegis. Eftir því sem jörðin hlýnar meira verða jákvæðar hverfislaufur öflugri og gróðurhúsaáhrifin verða stöðugt minna í okkar höndum. Ef Jörðin hlýnar yfir 2° geta jákvæði hverfislaufuferli farið að virka sem auka hlýnunaráhrif til muna algerlega óháð því hversu mikið við mennirnir drögum úr okkar GHL losun. Þess vegna er það lykilatriði að takmarka hlýnun sem mest, sem fyrst, meðan við getum enn haft teljandi áhrif. Ef við gerum það ekki gætum við verið að horfa upp á stjórnlausa hlýnun upp á margar gráður á seinni hluta þessarar aldar.6

Flestar spár um loftslagsbreytingar ná til ársins 2100 en það er í raun blekkjandi. Þegar við tölum um 2° hlýnun þá er verið að tala um 2° árið 2100 en hlýnun mun halda áfram líklega í nokkrar aldir eftir það. Þegar talað er um stjórnlausa hamfarahlýnun upp á margar gráður á seinni hluta þessarar aldar er jafnframt verið að segja að Jörðin gæti orðið óbyggileg mönnum með öllu öldina eftir.

Við búum núna í heimi sem er 1° hlýrri en Jörðin fyrir iðnbyltinguna og áhrifin eru umtalsverð. Jöklar og ís á pólunum eru að bráðna hraðar en nokkurn óraði fyrir. Fleiri og stærri veðurkerfi verða til og langvarandi þurrkar og hitabylgjur sem virtust óhugsandi fyrir nokkrum áratugum ganga nú yfir á hverju ári einhverstaðar í heiminum. Viðkvæm vistkerfi á borð við kóralrif og sedrusskóga eru að deyja út og önnur eru við þolmörk. En hvað þýðir hlýnun upp á 2°? Hvernig lítur heimur sem er 2° heitari út? Við getum áætlað þessar breytingar upp að 2° nokkuð áreiðanlega út frá rannsóknum á þeim breytingum sem þegar eiga sér stað. Hlýnun upp að 3° eða meira er hægt að áætla um bæði út frá loftslagsspám gerðum í tölvum en líka með því að skoða aðstæður á Jörðinni í fortíðinni þegar hitastig var sambærilegt.

Sem stendur er hlýnun upp á 2° árið 2100 líklega besta mögulega niðurstaða sem við getum vonast eftir. Við 2° hlýnun magnast öll áhrif af veðurfari enn frekar. Stærri og ofsafengnari stormar, langvarandi þurrkar víða í heiminum og stórir skógareldar en úrhelli og flóð annarsstaðar. Það verður minni uppskera af mörgum lykil matvælategundum og súrnun og hlýnun sjávar gætu minnkað afköst af sjávarnytjum mikið. Það yrði nánast enginn hafís á pólunum á sumrin og mikil rýrnun á jöklum. Allir jöklar á Íslandi munu hverfa og líkast til Grænlandsjökull líka (það mun þó gerast yfir langan tíma, hugsanlega aldir). Snjór og ís á fjallasvæðum á borð við Himalaya- og Andersfjöllin gæti rýrnað það mikið að árkerfi sem eru uppruninn þar gætu dregist saman umtalsvert. Þessi árkerfi eru nauðsynleg landbúnaðarsvæðum sem fæða stóran hluta mannkynsins. Mörg svæði gætu orðið fyrir þurrkum og gróðureyðingu sem yrðu margfalt umfangsmeiri en “dust bowl” svæðið í Bandaríkjunum í kringum 1930. Löndin í kringum Miðjarðarhafið, Suðvestur-Bandaríkin, Suður-Afríka, Indland og Ástralía eru í sérstakri hættu. Það er áætlað að heimsmarkaðsverð á kornmeti hækki um allt að 23% og stofni matvælaöryggi fátækari hluta mannkynsins í alvarlega hættu.7 Tveggja gráðu hækkun þýðir tæplega eins meters hækkun á yfirborði sjávar árið 2100 með mun meiri hækkun á leiðinni. Fyrir árið 2200 yrðu lágliggjandi strandsvæði um allan heim komin í kaf. Stór vistkerfi einfaldlega deyja, til dæmis kóralrifin sem eru líka grunnurinn á fæðukeðju mun stærri vistkerfa í hafinu. Einnig verður mikill missir af líffræðilegum fjölbreytileika yfir alla plánetuna, um 18% skordýra, 16% plantna og 8% hryggdýra munu missa helming eða meira af þeim svæðum sem þau hafa aðlagast.8 Sums staðar verða áhrifin jákvæð, allavega tímabundið, en á heildina litið er þetta kerfi sem er ekki í jafnvægi og áhrifin eru eftir því neikvæð. Það ójafnvægi smitast út í félagslegan veruleika okkar mannanna því það má einnig reikna með aukinni hættu á stríðum og pólitískum óstöðugleika á verst settu svæðunum og auknum fjölda flóttafólks í heiminum.

Við 3° erum við að horfa á heim sem er gerólíkur þeim sem við þekkjum í dag. Veðurkerfi á borð við El Niños gætu orðið öflugri og algengari.9 Önnur veðurkerfi eins og til dæmis monsúnrigningar gætu veikst eða brugðist en um helmingur mannkynsins treystir á það verðurkerfi fyrir afkomu sína. Árkerfi sem renna úr Himalayafjöllunum gætu þornað upp eða orðið árstíðabundin. Amazon regnskógurinn byrjar að deyja vegna þurka og setur af stað risa stórt hverfislaufuferli sem bætir enn meira af GHL út í andrúmsloftið. Ástralía verður líklega eitt þurrasta land heimsins og landbúnaður þar verður að mestu ómögulegur. Þurrkar hrjá mest alla Afríku sunnan Sahara en á ákveðnum svæðum innan Sahara eyðimerkurinnar gæti úrkoma aukist. Annarstaðar verður of mikið vatn, stór og öflug veðurkerfi dynja á reglulega, með flóðum og eyðileggingu.

Heimur sem er 4° heitari er heimur þar sem strandborgir dagsins í dag eru á kafi, þar sem ís er ekki til á Jörðinni (þó það taki hugsanlega aldir fyrir hann að hverfa endanlega). Þar sem heilu löndin og heimsálfurnar á borð við alla Suður-Evrópu, Mið-Austurlönd, Indland, Mið-Ameríku og Suður-fylki Bandaríkjanna, Mið-Asía, Ástralía og stórir hlutar Afríku eru eyðimörk þar sem ekki er hægt að stunda landbúnað. Það er nánast ómögulegt að Jörðin geti staðið undir landbúnaði til þess að mæta grunn þörfum mannkynsins miðað við núverandi fólksfjölda.

Það má alvarlega spyrja sig að því hvort mannkynið geti lifað af í heimi sem er 5° heitari eða meira. Það yrði í öllu falli ekki mannlegt samfélag í neinni líkingu við það sem við þekkjum í dag. Við miðbaug verður líklega ekki hægt að fara út um sumartímann vegna hita, það verður einfaldlega eðlisfræðilega ómögulegt fyrir líkamann að kæla sig.10

Hvað verður um fólkið sem býr á hamfarasvæðum? Hvernig mun fólki í gagnvirku, samháðu, hnattrænu samfélagi reiða af þegar slíkar hörmungar ganga yfir. Það er ekki eitthvað sem aðeins dystópíu, post-apochalypse, vísindaskáldsöguhöfundar ættu að velta fyrir sér heldur eitthvað sem við þurfum öll að hugsa um sem möguleika í okkar eigin framtíð.11

Það má bæta því við að þegar hugað er að loftslagsspám sem þessum þá þarf að hafa tvennt í huga. Í fyrsta lagi að ekkert sem spáð er fyrir um er óhjákvæmilegt. Allur samdráttur í GHL losun og binding á GHL sem þegar eru í andrúmsloftinu verður til þess að hlýnun gerist yfir lengri tíma, vistkerfi og mannleg samfélög geta betur aðlagast og áhrif verða takmarkaðri. Hitt sem ber að hafa í huga er að loftslagsbreytingar eru í eðli sínu uppsöfnunarvandamál. Uppsöfnun GHL veldur hlýnuninni og jafnvel verstu spár munu rætast ef sú uppsöfnun hættir ekki. Ef við hættum ekki brennslu jarðefnaeldsneyta og annarri GHL mengun er ekki spurning um hvort að verstu spár rætast heldur hvenær.

3. Kapítalismi – vaxandi vandamál
Hvers vegna gengur okkur svona illa að taka á loftslagsvandanum? Ástæðan fyrir því hefur djúpar rætur í því efnahagslega kerfi sem við köllum kapítalisma. Rætur vandans liggja svo djúpt í þessu kerfi að ég tel að loftslagsvandinn og önnur umhverfisvandamál verði ekki leyst innan þess. En áður en ég get fært fyrir því frekari rök er nauðsynlegt að útlista í stuttu máli hvað kapítalismi er, þó það sé vissulega hægara sagt en gert. Hagfræðingar og byltingarsinnar hafa skrifað um það langar bækur. Kapítalisminn hefur í margar aldir verið fordæmdur og dásamaður sem drifkrafturinn bak við bæði auðlegð okkar og arðrán. En það er þó oft ekki alveg ljóst um hvað maður er að tala þegar rætt er um kapítalisma. Það er hægt að útskýra það á einfaldan hátt, nógu ítarlega til að þjóna tilgangi þessarar greinar, þó auðvitað verði slík útskýring aldrei fullnægjandi.

Kapítalisma má meðal annars lýsa sem framleiðsluferli. Peningar (kapítal eða auðmagn) eru lagðir inn í ferlið í til þess að framleiða einhverja vöru eða þjónustu sem er svo aftur seld fyrir peninga. Þetta má skammstafa sem P-V-P. Peningar – Vörur – Peningar.12 Þannig er til dæmis hægt að nota peningana sína til að kaupa verksmiðju (eða hlutabréf í fyrirtæki sem á verksmiðju) sem framleiðir einhverja vöru sem er svo aftur seld fyrir peninga. Nokkuð einfalt. En hér kemur vandamálið. Það hefur enginn ástæðu til þess að setja peninganna sína inn í þetta ferli nema að hann fái meiri peninga út úr því en hann setti inn. Seinna P-ið þarf að vera stærra en fyrra P-ið.

P-V-P

Þetta er einfalt módel af kapítalisma sem ferli sem ávaxtar peninga. Þá peninga má svo setja aftur inn í ferlið til þess að skapa enn meiri peninga með stöðugt aukinni ávöxtun á upphaflega fjármagnið.

P-V-P-V-P-V-P

Þetta ferli er drifkrafturinn á bak við næstum allt hagkerfi heimsins.

Slíkt ferli þarf ekki nauðsynlega að brenna jarðefnaeldsneytum og það var til löngu fyrir iðnbyltinguna. Ein fyrsta mynd sem það tók á sig voru fjárfestingar í ferðum seglskipa til austurlanda. Menn lögðu saman pening í sjóð sem fór í að útbúa skip og ráða áhöfn, ef skipið slapp við óveður, sjóræningja og aðrar ófarir gat það snúið aftur hlaðið dýrmætum kryddjurtum sem hægt var að selja fyrir mikinn hagnað. Ferlið sem slíkt ber heldur ekki sum af þeim einkennum sem oft eru tengdir við nútíma kapítalisma, svo sem eins og frjálsan markað eða frjálst vinnuafl.

Það getur verið gagnlegt að hugsa um kapítalismann sem ferli sem lýsir ákveðnu sambandi peninga og framleiðslu á ofur einfaldaðan hátt líkt og hér að ofan. En það getur líka verið ruglingslegt því að orðið kapítalismi hefur breiðari tilvísun en það. Það er næstum ómögulegt að tala um hugtakið kapítalisma á afmarkaðan hátt án þess að vera á sama tíma að vísa í ýmsar hliðarverkanir og afleiðingar ferlisins. Þegar talað er um kapítalisma er oft verið að tala um ákveðna menningu, valdakerfi, peningakerfi, bankakerfi og markaði en ekki aðeins framleiðsluferli.

Kapítalisminn þróaðist samhliða bankakerfinu sem við þekkjum í dag og banka- og peningakerfið skapar annan mikilvægan drifkraft fyrir vöxt. Grunnforsenda bankakerfisins er sú að peningar eigi að geta ávaxtast og þar af leiðandi að það verði til meiri peningar í heiminum á morgun en í dag. Eina leiðin fyrir banka til þess að standa undir því er að lána til fólks sem fjárfestir þeim í kapítalíska ferlinu. Eða bankarnir gera það sjálfir eins og raunin hefur orðið seinustu áratugi með aukinni fjármagnsvæðingu bankakerfisins.

Enn einn drifkraftur að vexti eru markaðir. Meðan að viðskipti með vörur eru á frjálsum markaði er stöðug pressa á fyrirtækjum til þess að auka afköst og lágmarka framleiðslukostnað. Það þýðir til dæmis að ef eitt fyrirtæki fjárfestir í nýjum tækjum sem auka skilvirkni framleiðslunnar getur það fyrirtæki boðið lægra verð á sínum vörum á markaði og önnur fyrirtæki verða annað hvort að fylgja eftir á einhvern hátt eða fara á hausinn. Það er ekki í boði að standa í stað. Það er stöðug pressa til þess að auka afköst, framleiðslu og arð, eða með öðrum orðum til þess að vaxa. Því miður hafa tækninýjungar ekki alltaf verið sú leið sem kapítalísk fyrirtæki hafa farið til þess að auka afköst, oftar en ekki hafa fyrirtæki heldur leitað leiða til þess að fá meira út úr starfsfólki sínu fyrir minni pening, það er að segja að arðræna það á skilvirkari hátt. Eða aukið skilvirkni framleiðslu með því að yfirfæra kostnað á náttúruna á einhvern hátt. Til dæmis með skilvirkara en meira eyðileggjandi auðlindanámi, eiturefnanotkun eða annarri mengun, og eyðileggingu vistkerfa með ofnýtingu eða til þess að nýta land á annan hátt.

Kapítalískt hagkerfi þarf að vaxa, það þarf að vera stærra á morgun en í dag. Það er ástæðan fyrir því að allir stjórnmálamenn allra landa hafa hagvöxt á heilanum. Ef hagkerfið nær ekki að vaxa nóg til þess að greiða vexti af skuldunum, sem er grunn forsenda peninga- og bankakerfisins sem við búum við, kallast það kreppa. Þá þarf að greiða þá vexti með því að skera niður í einhverri þjónustu, selja innviði samfélagsins, eða ganga frekar á auðlindir náttúrunnar, eitthvað til þess að búa til verðmæti sem samsvarar nýju peningunum sem þarf að skapa til þess að greiða vexti. Svo er líka möguleiki opna nýja markaði, sem er fínt orðað sú aðferð heimsvaldastefnunnar að ráðast inn í fjarlæg lönd, koma auðlindum þar á markað og eyðileggja hefðbuna lifnaðarhætti innfædds fólks, sem þaðan í frá neyðist til að lifa í kapítalísku neyslusamfélagi hvort sem það kýs það eður ei.

Í mörgum samfélögum er þörf á uppbyggingu og vexti til þess að mæta grunn þörfum íbúanna. En hvað gerist þegar þessum grunn þörfum hefur verið fullnægt. Kapítalisminn verður að vaxa, það verður að framleiða aukin verðmæti, það verður að vera hagvöxtur. Þegar grunn þörfum okkar hefur verið mætt þarf að búa til nýjar þarfir, gerviþarfir, með auglýsingum og markaðssetningu. Það þarf að hanna neysluvörur til að þær úreldist, það þarf að búa til nýtt módel reglulega til þess að fólk kaupi vöruna aftur. Neysla þarf að vera endalaust ferli til þess að hægt sé að framleiða endalaust, annars gengur kerfið ekki upp og kreppan vofir yfir.

Ofan þá þetta bætast enn frekari vandamál þegar kapítalisminn fjarlægist einstaklinginn. Þegar fyrirtæki er orðið hlutafélag sem vinnur að þeim eina tilgangi að hámarka gróða hluthafa. Einstaklingur hefur ákveðið siðferðilegt samband við sitt samfélag og náttúruna í kringum sig sem hann hefur til hliðsjónar þegar hann tekur ákvarðanir. Eina sambandið sem fyrirtæki sem slíkt hefur við manneskjur, samfélag og náttúruna er þess eðlis að hægt sé að reikna það út í peningum. Þetta á enn frekar við þegar fyrirtækið er orðið alþjóðlegt og ákvarðanir eru teknar af forstjórum á ofurlaunum í fjarlægu landi. Þeir menn (og þeir eru yfirleitt hvítir karlmenn) hafa engin tengsl við landið og þau samfélög sem þeir eyðileggja og engar lagalegar skyldur nema það að hámarka gróða hluthafa.

Kapítalisminn er að mörgu leiti uppspretta þeirrar auðlegðar og velferðar sem við búum við á vesturlöndum í dag. En það er líka gífurlega mengandi og eyðileggjandi kerfi, og það er óréttlátt kerfi þar sem auðlegðinni er óhjákvæmilega misskipt. En um fram alla aðra neikvæða eiginleika þá er það kerfi sem verður að stækka og vaxa. Vegna þess eiginleika að kerfið verður að vaxa mun kapítalískt markaðhagkerfi alltaf stuðla að því að hámarka framleiðslu og hámarka neyslu. Það er mjög skýr fylgni milli hagvaxtar og aukinnar neyslu og aukins ágangs á vistkerfi, aukins auðlindanáms og aukinnar mengunar.13 Kerfi sem leitast við að hámarka framleiðslu og neyslu leitast óhjákvæmilega líka við að hámarka ágang mannkynsins á náttúruna.

Annað sem mikilvægt er að skilja er að hagkerfi heimsins vaxa ekki jafnt og þétt heldur í veldisvexti. Það þýðir að eftir því sem á líður vex kerfið hraðar og hraðar. Kerfið sem slíkt tvöfaldar sig reglulega. Í hvert skipti sem stjórnmálamaður fagnar 3,5% hagvexti seinasta árs er hann í raun að segja að eftir 20 ár verði hagkerfið helminginn stærra að því gefnu að það takist að viðhalda slíkum hagvexti. Eftir 4o ár verður hagkerfið svo fjórum sinnum stærra. Eftir 60 ár verður það átta sinnum stærra.

Getur landið okkar þolað helminginn stærra hagkerfi? Getur Jörðin það? Hvað með sextán sinnum stærra hagkerfi árið 2100?

Svarið við því er augljóslega: Nei!14

Það er óhjákvæmilegt að hagkerfi heimsins rekist á náttúruleg takmörk fyirr vexti. Fyrsta og augljósasta takmörkun sem við höfum nú þegar keyrt í gegnum er geta loftslagsins til þess að taka við koltvíoxíð útblæstri okkar. Því miður eru áhrifin af því lengi að koma fram og á meðan viriðst það vera markmið flestra þjóðríkja heims að keyra sitt kapítalíska hagkerfi áfram á fullum krafti sem mun gera afleiðingarnar þeim mun verri. Því að hagkerfi í heild sinni þarf orku. Sem stendur er sú orka að mestu leiti fengin úr jarðefnaeldsneytum svo það þarf ekki að koma á óvart að þegar hagkerfið vex eykst útblástur gróðurhúsalofttegunda einnig samhliða því.

Þetta er ástæðan fyrir því að helmingur alls GHL útblásturs frá upphafi iðnbyltingarinnar hefur orðið á seinustu 30 árum. Kerfið tvöfaldast á nokkurra áratuga fresti og útblástur okkar líka. Það er deginum ljósara að Jörðin, lífríki hennar og mannleg samfélög sem hana byggja, þola ekki aðra tvöföldun GHL útblæstri.

4. Sjálfbær grænn kapítalismi – jafna sem gengur ekki upp
Að svo búnu hef ég fært rök fyrir því, annars vegar að loftslagsbreytingar og önnur umhverfisvandamál séu gífurleg ógn við velferð okkar til framtíðar, og hins vegar að kapítalísk hagkerfi þurfi að vaxa og að slík efnahagsleg kerfi verði alltaf drifkraftur til þess að hámarka framleiðslu og neyslu og þar með ágang okkar á náttúruna. Með þessi tvö atriði í huga getum við skoðað þær lausnir á loftslagsvandanum sem almennt er haldið að okkur og af hverju þær ganga ekki upp.

Lausnirnar sem við heyrum endurteknar aftur og aftur í fjölmiðlum renna saman í frásögn sem er nokkurn vegin svona: “Ef við höfum öll sólarsellur á þakinu og vindmillu í garðinum, keyrum á rafmagnsbíl, kaupum lífrænt og endurvinnum ruslið okkar er vandamálið um það bil leyst. Það klárar svo málið ef við kolefnisjöfnum flugferðir og borðum vegan á mánudögum og ef eitthvað vantar upp á munu eflaust koma til tækninýjungar á næstu árum til að leysa það.”

Áherslan er á neytandann frekar en framleiðsluferlin eða hagkerfið í heild sinni. Það er treyst á tækninýjungar og markaðslausnir, en megin áherslan er lögð á græna orku. Því virðist vera tekið sem nokkurn vegin gefnu að ef við skiptum út mengandi orku frá jarðefnaeldsneytum fyrir græna orku þá getum við haldið áfram að lifa í markaðsdrifnu kapítalísku neyslusamfélagi um ókomna tíð. Þessi mynd af sjálfbærum grænum kapítalisma gengur ekki upp. Við nánari skoðun liggja í rótum þessa kerfis tvær djúpstæðar mótsagnir sem valda því að kapítalismi getur ekki orðið sjálfbær.

Það er rétt að hagkerfi heimsins er að verða hreinna þegar kemur að útblæstri GHL, það er að segja að hver eining af orku í hnattræna hagkerfinu gefur frá sér minna magn af GHL. Það má einnig setja útblásturstölur í samhengi við hagvöxt og sama tilhneiging er til staðar. Útblástur GHL sem hlutfall af hverjum dollara af hagvexti er víðast hvar að minnka eða stendur í stað. En hagkerfi heimsins eru líka að vaxa, það eru stöðugt fleiri dollarar í umferð. Hagkerfi heimsins eru að stækka svo hratt að GHL útblástur í heiminum er enn að aukast þrátt fyrir aukna skilvirkni. Þetta er fyrsta innbyrðis mótsögnin á milli kapítalisma og sjálfbærni: Kerfi sem verður að vaxa getur mengað meira á sama tíma og það verður skilvirkara og hreinna.

Þegar fréttir berast utan úr heimi um að það hafi verið byggð svo og svo stór sólarorkuver og svo og svo margar vindmillur, hljómar það eins og það sé verið að taka á vandamálinu jafnt og þétt. Sannleikurinn er sá að þessi nýja græna orka nær ekki einu sinni að svara aukinni þörf vaxandi hagkerfis. Árið 2018 var um 300 milljörðum dollara fjárfest í sjálfbærri orku í heiminum. Á sama ári var um 800 milljörðum dollara fjárfest í jarðefnaeldsneytum.15 Nýja græna orkan er að mestu leiti ekki að koma í staðin fyrir gömlu mengandi orkuna heldur að bætast við til að fylla upp í orkuþörf vaxandi hagkerfis, og ekki einu sinni í réttum hlutföllum.
Við þurfum græna orku, en sú orka skiptir ekki megin máli ef við stöðvum ekki vöxt hagkerfisins sem enn þá gengur að lang mestu leiti fyrir jarðefnaeldsneytum. Þegar öllu er á botninn hvolft þá þurfum við líklega einfaldlega að nota umtalsvert minni orku og við þurfum að forgangsraða því hvernig sú orka nýtist á réttlátann hátt.

Þar fyrir utan þá leysir græn orka ekki öll vandamál kapítalismans. Jafnvel þó að við hefðum ótakmarkaða græna orku strax í dag þá væri kapítalisminn enn þá mjög mengandi, eyðileggjandi og óskilvirkt kerfi sem enn reyndi að hámarka framleiðslu og hámarka neyslu með öllum mögulegum leiðum og með tilheyrandi ágangi á auðlindir og vistkerfi. Það er önnur mótsögnin: Kerfi sem þrífst á stöðugt aukinni neyslu verður að ganga á takmarkaðar auðlindir og vistkerfi til þess að framleiða úr þeim neysluvörur. Í vaxandi kerfi verður sá ágangur að endingu alltaf ósjálfbær og mun rekast á náttúruleg takmörk fyrr eða síðar.

Ofuráhersla á rafbílavæðingu í umræðunni um lausnir á loftslagsbreytingum er gott dæmi um þetta. Ef við hefðum ótakmarkaða græna orku þá þyrftum við samt að grafa upp og vinna málma og önnur efni sem fara í bílinn. Bæði mengandi og eyðileggjandi ferli fyrir utan það að málmarnir sjálfir eru takmörkuð auðlind á þessari plánetu. Enn verra vandamál er framleiðsla nikels í rafhlöðurnar en það er eitthvert mest mengandi iðnaðarferli sem til er. Liþíum er lítið skárra, hvað þá sjaldgæfir málmar og þá erum við enn bara að tala um mengun, auðlindanám og eyðileggingu vistkerfa í framleiðsluferlinu. Hvað á að gera við öll þessi bílabatterí þegar bílarnir eyðileggjast? Við því eru engin auðveld svör en það er nokkuð víst að ef við skiptum út öllum bensínbílum í heiminum fyrir rafmagnsbíla erum við að skipta út einum umhverfisvanda fyrir annan.16

5. Grænn sósíalismi – sjálfbært og réttlátt samfélag 
Einhver sagði að “það væri auðveldara að sjá fyrir sér endalok heimsins heldur en endalok kapítalismans“ (hefur verið tileinkað bæði Fredrick Jameson og Slavoj Zizek). Það ber vott um stórfenglega lélegt ímyndunarafl og skort á skapandi hugsun. Það felst enginn ómöguleiki í því að sjá fyrir sér stöðugt og sjálfbært hagkerfi sem þjónar þörfum fólksins sem vinnur innan þess. Í ljósi núverandi aðstæðna í loftslags og umhverfismálum stöndum við reyndar frammi fyrir því að ef við getum ekki séð fyrir okkur endalok kapítalismans þá eru endalok heimsins yfirvofandi. Það þarf ekki að útlista það nákvæmlega hvernig sjálfbært, ókapítalískt kerfi eða samfélag myndi líta út en það er hægt að leggja þar til grundvallar ákveðin gildi og viðmið.

Í fyrsta lagi væri það æskilegast að slíkt kerfi þróaðist að sem mestu leiti upp úr grasrótinni frekar en að vera stýrt af einhverju yfirvaldi og að einstaklingar og samfélög hefðu sem mesta lýðræðislega aðkomu að þeirri skipulags og þróunarvinnu. Miðstýring á auðlindum er alltaf til þess fallin að skapa óskilvirkni, spillingu, og misskiptingu. En valdefling einstaklinga og samfélaga í gegnum beint efnahagslegt lýðræði er til þess fallið að auka gegnsæi og beina auðlindum til þeirra sem mest þurfa á þeim að halda. Það er sérstaklega mikilvægt þegar það liggur fyrir að það þarf að takmarka einhverjar af þeim auðlindum sem nú eru nýttar.

Ég hef endurtekið það oft í þessari grein að: kapítalismi er kerfi sem miðar ávallt að því að hámarka neyslu og framleiðslu og með því hámarka ágang okkar á náttúruna. Annað viðmiðið sem ég vil leggja til grundvallar nýrri samfélagsgerð er að snúa þessu algerlega á haus. Við þurfum sjálfbæra samfélagsgerð og hagkerfi sem miðar að því að: lágmarka framleiðslu og lágmarka neyslu innan þess ramma að að mæta þörfum allra.

Innan slíks kerfis getur það ekki verið í boði að lítill minnihluti taki stöðugt til sín meirihluta auðæfa heimsins. Það þarf því að taka fyrir gróða í krafti eignarhalds sem er grundvallarforsenda kapítalismans. Ein leið til þess að framkvæma það væri að sjá til þess að að fyrirtæki séu alltaf í sameiginlegu eignarhaldi og sameiginlegum lýðræðislegum rekstri starfsmanna og legg ég það til sem þriðja viðmiðið. Þær breytingar sem þarf að gera á rekstri lykil fyrirtækja í heiminum til þess að þau geti starfað innan sjálfbærra marka getur verið skref eða einhverskonar millibilsástand til þess að færa eignarhald yfir í lýðræðislegt form. Það getur jafnframt verið liður í að tryggja atvinnu og afkomu allra í þeim efnahagslegu sviptingum sem nauðsynlegar aðgerðir gegn loftslagsbreytingum hafa í för með sér.

Grundvallar regla í siðfræði Immanuel Kant, það sem hann kallar skilyrðislausa skylduboðið, er að spyrja sjálfan sig hvort að maður vilji að viðkomandi aðgerð verði að algildri reglu. Ef ég vil eiga einkabíl á ætti ég að spyrja mig: Vil ég að þetta verði að algildri reglu? Þegar ég skoða umhverfisáhrifin af því að allar manneskjur í heiminum eigi einkabíl þá er svarið óhjákvæmilega nei. Fjórða viðmiðið sem ég vil leggja til er einfaldlega það að við setjum okkur mörk í neyslu og framleiðslu sem miða við allann heiminn frekar en aðeins okkur sjálf.

Það eru vissar óþægilegar aðgerðir sem við komumst ekki hjá því að grípa til eins og staðan er orðin. Ein er skömmtun á GHL útblæstri og hugsanlega einnig vörum sem eru sérstaklega mengandi í framleiðslu. Skömmtun er aldrei vinsæl en hún er þó í eðli sínu sanngjarnari en til dæmis skattur á GHL eða markaður með losunarheimildir þar sem hún tryggir jafnan aðgang allra óháð stétt eða stöðu og setur skýrt þak á hámarks losun. Markaðir með vörur þar sem framboð er í samdrætti tryggir hins vegar aðeins hinum efnameiri aðgang. Það eru dæmi um yfirgripsmikil skömmtunarkerfi á orku og vörum til dæmis frá seinni heimsstyrjöldinni og staðreyndin er einfaldlega sú að við stöndum frammi fyrir sambærilega alvarlegu neyðarástandi núna og höfum fulla ástæðu til þess að skoða sambærilegar lausnir.

Í einhverjum skilningi er sú breyting sem við þurfum að ganga í gegnum ekki bara efnahagsleg og pólitísk heldur líka menningarleg. Í samfélagi okkar í dag er neysla ekki aðeins mælikvarði á velmegun okkar heldur eru þær vörur sem við neytum oft hluti af sjálfsmynd okkar. Við túlkum þann félagslega veruleika sem við búum við út frá neysluvörum og það felst í því mikil vinna að enduruppgötva okkur sjálf og endurskilgreina félagsleg og efnahagsleg sambönd okkar á milli. Einnig þurfum við að breyta mörg hundruð ára hefð í vestrænni hugsun þar sem maðurinn hefur séð sjálfan sig aðskilinn frá náttúrunni. Við þurfum að byrja að sjá náttúruna sem hluta af okkur sjálfum en ekki sem auðlind sem er okkar til að nýta.

Það er almenn tilhneiging til þess að einblína á það neikvæða sem felst í því að raunverulega takast á við loftslagsbreytingar. Vissulega mun felast í því einhver skerðing á neyslu og fyrir sumum er það aðför að sjálfsmynd þeirra, niðurbrot á þeim félagslega veruleika sem þau töldu sig búa við. Það er hægt að upplifa það sem einhverskonar heimsendir. En það eru þó aðeins endalok ákveðins félagslega tilbúins veruleika sem var vísvitandi skapaður með auglýsingum og markaðssetningu til þess að viðhalda órétlátu og eyðileggjandi efnahagskerfi. Ef ekkert er að gert sjáum við fram á raunverulegan heimsendir.

Í einhverjum skilningi geta loftslagsbreytingar orðið til hins góða, ef við notum tækifærið til þess að breyta menningu okkar og innviðum samfélagsins til þess að þjóna bæði okkur sjálfum og náttúrunni frekar en ríkasta 1% mannkynsins. Það er enn sem komið er fullkomlega gerlegt og það sem meira er við gætum staðið uppi með réttlátara, manneskjulegra og heilbrigðara samfélag fyrir vikið.

1) Ég kann reyndar mjög illa við að nota orðið auðlind. Það er eitthvað óeðlilegt við að smætta lifandi vistkerfi í gífurlega flóknu, gagnvirku og samháðu tengslaneti efnislegra hringrása og lifandi vera niður í þetta orð. Auðlind er eitthvað sem virðist einfaldlega vera til staðar fyrir okkur til að nýta en ekki eitthvað sem við þurfum að umgangast af virðingu og eiga á einhvern hátt í gagnkvæmu sambandi við. Það er ekki hægt að hafa siðferðilegar skuldbindingar gagnvar auðlind en við höfum óhjákvæmilega siðferðilegar skuldbindingar gagnvart lifandi náttúru. Það er erfitt að reyna að tjá sig um kapítalisma án þess að nota hans tungumál. Í því tungumáli eru plöntur og dýr, láð, lögur og loft, ekki sá lifandi veruleiki sem ég þekki heldur einfaldlega auðlind. Tungumálið litar það hvað við getum sagt og hvað við getum hugsað og þegar við finnum okkur nauðbeygð til þess að nota tungumál kapítalismans, hagfræðinnar, stjórnsýslunnar eða skrifræðisins getur verið erfitt að sjá út fyrir þann ramma sem tungumál þessara valdakerfa mótar.

2) Rockström, J., W. Steffen, K. Noone, Å. Persson, F. S. Chapin, III, E. Lambin, T. M. Lenton, M. Scheffer, C. Folke, H. Schellnhuber, B. Nykvist, C. A. De Wit, T. Hughes, S. van der Leeuw, H. Rodhe, S. Sörlin, P. K. Snyder, R. Costanza, U. Svedin, M. Falkenmark, L. Karlberg, R. W. Corell, V. J. Fabry, J. Hansen, B. Walker, D. Liverman, K. Richardson, P. Crutzen, and J. Foley. Planetary boundaries:exploring the safe operating space for humanity (Ecology and Society 14(2): 32, 2009), 

Sjá einnig í:
Magdoff, Fred og John Bellamy Foster. Það sem allir umhverfissinnar þufra að vita um kapítalisma: handbók um alýðu kapítalisma og umhverfismál (Skrudda, Reykjavík, 2019), bls. 16-28.

3) Nánar tiltekið 2,6-4,8°C (meðaltal 3,7°C) samkvæmt RCP 8,5 módeli IPCC sem stundum er kallað “buisness as usual” módelið.

Intergovernmental Panel on Climate Change (IPCC). Summary for Policymakers. In: Climate Change 2013: The Physical Science Basis.Contribution of Working Group I to the Fifth Assessment Report of the Intergovernmental Panel on Climate Change [Stocker, T.F., D. Qin, G.-K. Plattner, M. Tignor, S.K. Allen, J. Boschung, A. Nauels, Y. Xia, V. Bex and P.M. Midgley (eds.)]. (Cambridge University Press, Cambridge, United Kingdom and New York, NY, USA, 2013), tafla SPM.2, bls. 23. 

4) Simon L. Lewis og Mark A. Maslin. The Human Planet: How We Created the Anthropocene(Pelican Books, 2018), bls 235.

5) National Aeronautics and Space Administration (NASA). How is today’s warming different from the past? (NASA Earth Observatory, 2010), .

6) Steffen, Will, og Johan Rockström, Katherine Richardson, Timothy M. Lenton, Carl Folke, Diana Liverman, Colin P. Summerhayes, Anthony D. Barnosky, Sarah E. Cornell, Michel Crucifix, Jonathan F. Donges, Ingo Fetzer, Steven J. Lade, Marten Scheffer, Ricarda Winkelmann, Hans Joachim Schellnhuber. Trajectories of the Earth System in the Anthropocine. (Proceedings of the National Academy of Sciences, 2018), .

7) Intergovernmental Panel on Climate Change (IPCC). Summary for Policymakers. In: Climate Change and Land. Approved draft. (In Press, 2019) A5.4, bls. 13.

8) Intergovernmental Panel on Climate Change (IPCC). Summary for Policymakers. In: Global Warming of 1.5°C. An IPCC Special Report on the impacts of global warming of 1.5°C above pre-industrial levels and related global greenhouse gas emission pathways, in the context of strengthening the global response to the threat of climate change, sustainable development, and efforts to eradicate poverty [Masson-Delmotte, V., P. Zhai, H.-O. Pörtner, D. Roberts, J. Skea, P.R. Shukla, A. Pirani, W. Moufouma-Okia, C. Péan, R. Pidcock, S. Connors, J.B.R. Matthews, Y. Chen, X. Zhou, M.I. Gomis, E. Lonnoy, T. Maycock, M. Tignor, and T. Waterfield (eds.)]. (In Press, 2018), B.3.1., bls. 8. 

9) Lynas, Mark. Six Degrees: Our Future on a Hotter Planet. (HarperCollins e-books, 2007).

10) Wallace-Wells, David. The Uninhabitable Earth. (Tim Duggan Books, New York, 2019) bls. 39-40.

11) Það er að vissu leiti snúið að setja upp svona lista um afleiðingar loftslagsbreytinga. Bækur og greinar skrifaðar fyrir almenning eru oft skrifaðar til þess að sjokkera og ganga þar af leiðandi út frá verstu mögulegu spám. Aðrar heimildir svo sem eins og skýrslur IPCC eru frægar fyrir að vanmeta vandann og gefa út of hófsamar spár. Að grúska í ritrýndum vísindagreinum gefur oft sundurlausa mynd sem ég hef ekki menntun eða forsendur til þess að púsla saman. Ég kaus því að reyna að setja fram einhverskonar meðaltal af líklegum sviðsmyndum fyrir framtíðina byggða á frumheimildm þegar því varð við komið en annars á frásögnum og túlkunum ýmissa rithöfunda og fræðimanna. Þessum lista er ekki ætlað að vera nákvæmur eða endanlegur heldur til þess að gefa einhverja mynd eða tilfinningu fyrir því vað loftslagsbreytingar gætu þýtt í raun. 

12) Marx, Karl. Capital: A Critique of Politcal Economy Volume I. (Penguin Books in association with New Left Review, England, 1990), bls. 248.

13) World Wildlife Foundation (WWF). Living Planet Report – 2018: Aiming Higher [Grooten, M. and Almond, R.E.A.(Eds)]. WWF, Gland, Switzerland, 2018.

14) Ef einhverjum þykir það ekki svo fullkomlega augljóst að það þarfnist ekki frekari röksemdafærslna þá vísa ég í bókina “Limits to Growth”: 

Meadows, Donella H., Dennis L. Meadows, Jørgen Randers, William W. Behrens III. Limits to Growth: A Report for the Club of Rome’s Project on the Predicament of Mankind (Universe Books, New York, 1972).

15) International Energy Agency (IEA). World Energy Investment 2019 (IEA, 2019) 

16) Smith, Richard. Green Capitalism: The God that Failed (World Economics Association, Milton Keynes, UK), bls. 79-80.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram