Húsnæði er nauðsynlegt til að vinna gegn heimilisleysi
Pistill
16.10.2019
Stefna í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þarfir þeirra sem þurfa á þjónustunni að halda var borin upp til samþykktar á borgarstjórnarfundi í dag. Þar er fjallað um ýmsa þætti og stefnan byggir m.a. á hugmyndafræðinni um „húsnæði fyrst“ eða Housing First, þ.e.a.s. það eru ekki sett skilyrði fyrir þjónustu og húsnæði. Það er unnið út frá því að það sé mikilvægt að veita fólki húsnæði og þá fyrst er hægt að takast á við áskoranir í lífinu, þegar húsnæði hefur verið tryggt. Ég styð þessa hugmyndafræði heilshugar en til að ná að vinna út frá því að veita húsnæði fyrst, er nauðsynlegt að húsnæði sé til staðar. Þegar stefna í húsnæðismálefnum Reykjavíkurborgar er skoðuð má sjá að aðgengi að húsnæði á viðráðanlegu verði hefur ekki alltaf verið raunin og ég tel nauðsynlegt að vera meðvitaður um þann þátt þegar við erum hér að ræða innleiðingu þessarar stefnu. Ég tel að endurskoðun á húsæðisstefnunni þurfi að fylgja með að einhverju leyti og að hún þurfi að vera byggð á meiri félagslegum grunni, þannig að við getum tryggt að ekkert í húsnæðiskerfum okkar leiði til heimilisleysis. Húsnæði er nefnilega mannréttindi en ekki markaðsvara.
Hér erum við að tala um leiðir til að bregðast við heimilisleysi þeirra sem eru skilgreindir með miklar og flóknar þarfir innan þjónustunnar og ég er meðvituð um að þar þarf oft meira en einungis húsnæði. Þar erum að tala um þætti líkt og stuðning, skaðaminnkandi úrræði, og húsnæði og heimili sem henta þörfum hvers og eins og það að tala við fólk um hvað það er sem það þarf, sem er gríðarlega mikilvægt. Grunurinn að því að vinna gegn heimilisleysi hlýtur þó að vera það að tryggja að allir eigi heimili og til þess þarf að tryggja húsnæði sem er undirstöðuatriði. Ég kom því athugasemdum mínum á framfæri um mikilvægi þess að tryggja nægt húsnæði, til að geta unnið út frá hugmyndafræðinni um „húsnæði fyrst“:
Fulltrúi Sósíalistaflokksins styður heilshugar leiðarljós stefnunnar en þau snúa að því að sýna virðingu á öllum stigum þjónustunnar. Áhersla er á að efla og auka sjálfsvirðingu notandans, valdefla einstaklinginn og draga úr fordómum í samfélaginu þar sem öll þjónusta skal stuðla að framangreindum þáttum. Meginstoðir stefnunnar eru mikilvægir þættir sem nauðsynlegt er að byggja á. Ein meginstoðin er hugmyndafræðin um húsnæði fyrst (e. Housing first) sem fulltrúi Sósíalistaflokksins styður heilshugar. Hugmyndafræðin gengur út frá því að húsnæði sé grunnþörf og teljist til mannréttinda. Aðeins þegar þessari grunnþörf sé mætt, geti einstaklingurinn ráðið við aðrar áskoranir í lífi sínu. Fulltrúi Sósíalistaflokksins vill taka fram að grundvallarforsenda þess að geta veitt þjónustu á grundvelli þeirrar hugmyndafræði byggir á því að húsnæði sé til staðar. Staðan hefur því miður ekki alltaf verið þannig þar sem skortur hefur verið á íbúðum á viðráðanlegu verði. Aðrir þættir geta líka mótað stöðu þeirra sem skilgreinast sem heimilislausir og þá er mikilvægt að viðeigandi húsnæði standi fólki alltaf til boða. Það þarf að tryggja að nægilegt húsnæði sé alltaf til staðar og með þeim stuðningi sem fólk þarf á að halda. Húsnæði er ein grunnforsenda velferðar og nauðsynlegt að allir hafi alltaf aðgengi að öruggi húsnæði.
Einn liður í stefnunni snýr að því að velferðarsvið auglýsi eftir samstarfsaðilum um rekstur áfangaheimilisins í Víðinesi á Kjalarnesi. Það er gott að leita til þeirra félagasamtaka sem hafa reynslu og fagþekkingu á þeim málaflokki sem hér um ræðir. Ég vil þó ítreka mikilvægi þess að ábyrgðin liggur alltaf hjá Reykjavíkurborg, sem á að þjónusta fólkið sem hér um ræðir. Reynsla félagasamtaka byggir oft á því að þau fá allt of lítið fjármagn til að veita almennilega þjónustu og slíkt bitnar á fólkinu sem er í þörf fyrir góða þjónustu. Það er því mikilvægt að leggja áherslu á fjárhagslega ábyrgð Reykjavíkurborgar í þessu fyrirhuguðu samstarfi. Reyndin má ekki verða sú að samningur sé gerður við félagasamtök um rekstur Víðiness, sem byggir á því að samtökin fái ákveðið fjármagn til að halda uppi starfseminni, sem dugar síðan ekki til að sinna öllum þeim þáttum sem þarf að sinna. Reykjavíkurborg getur ekki samið ábyrgðina frá sér.
Að lokum vil ég taka það fram að við erum öll allskonar og þess vegna hefði verið ánægjulegra að sjá eitthvað í líkingu við t.d. „margþættar“ þarfir í stað þess að tala um „miklar og flóknar“ þarfir innan þjónustunnar. Fyrir hvern er þetta flókið? Er þetta ekki bara flókið fyrir kerfið sem þarf að aðlaga sig að ólíkum þörfum borgarbúa? Auðvitað veit ég að við þurfum að tala skýrt um hlutina og stundum getur verið flóknara að veita suma þjónustu miðað við aðra. En sýnir það ekki bara fram á hvernig kerfið þarf að aðlaga sig að allskonar þörfum og væntingum borgarbúa? Við erum öll allskonar.
Sanna Magdalena Mörtudóttir
Myndin er úr gistiskýli á vegum Reykjavíkurborgar.