Fjárveitingarvaldið til fólksins

Sanna Magdalena Mörtudóttir Pistill

Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir næsta ár og fyrir næstu fimm árin, var umræðuefni síðasta borgarstjórnarfundar. Við lestur greinargerðanna sem fylgja með sjáum við hin ólíku svið borgarinnar og hvað borgin kemur að mörgum mikilvægum en ólíkum þáttum í lífi fólks, bæði þeirra sem búa hér og starfa. Við fáum innsýn inn í fyrirtæki í eigu borgarinnar og svið Reykjavíkurborgar. Þau sinna vissulega viðamiklum verkefnum en við lesturinn skynjar maður eins og hér sé um að ræða mörg lítil fyrirtæki. Fyrirtæki sem eru með sína stefnu og vinna eftir henni, eru með fjárhagsramma sem þau vinna eftir og forgangsraða verkefnum út frá því.

Samkvæmt núverandi fyrirkomulagi, vinna svið borgarinnar út frá ákveðnum fjárhagsramma og sviðstjórar og ráð borgarinnar forgangsraða verkefnum og það ratar ekki endilega allt inn í fjárhagsrammann. Þeir sem vinna náið með þeim sem eiga í hlut dagsdaglega koma ekki endilega að fjárhagsáætlunargerð. Ef við lítum t.d. til skóla- og frístundasviðs, þá spyr ég í því samhengi, fengu skólastjórar og kennarar t.d. að koma að vinnunni við útdeilingu fjármagns? Það eru einstaklingarnir sem þurfa að koma að mótun áætlunargerðarinnar þar sem þeir þekkja best til.

Skýrsla Innri endurskoðanda um Grunnskóla Reykjavíkur – Úthlutun fjárhagsramma og rekstur (sjá hér: Grunnskólar Reykjavíkur) frá því í júlí 2019 fer inn á þennan vanda sem um er að ræða en þar stendur: „Skólarnir fá úthlutað tilteknum fjárhagsramma frá SFS [Skóla- og frístundasviði] og hann helgast af því hversu mikið fjármagn SFS hefur fengið frá fjárveitingarvaldi borgarinnar. SFS hefur þurft að skera niður það fjármagn sem reiknað hefur verið út að skólarnir þurfi, svo þeir geti starfað innan rammans.“ Nú veit ég að það er verið að skoða þessi mál innan borgarinnar og talað er um að fara í úrbætur. Til að varpa ljósi á hvernig þessi mál blasa við manni ætla ég að benda á þennan punkt hér úr umræddri skýrslu en þar kemur fram að: „Meginniðurstaða þessarar skýrslu er að mismunandi skilningur virðist vera á milli skólastjórnenda og skóla og frístundasviðs annars vegar og fjárveitingarvalds borgarinnar hins vegar um hvað er nauðsynlegt fjármagn til reksturs á grunnskólum borgarinnar.“ Innri endurskoðandi vekur síðan athygli á mikilvægi þess að skólastjórnendur komi sínum sjónarmiðum að þegar unnið sé að gerð fjárhagsramma og áætlunar og segir m.a.:

„SFS finnur sig í stöðu á milli fjárveitingarvaldsins sem vill gæta aðhalds í rekstri og grunnskólanna sem vilja fá meira fjármagn þar sem þeir telja sig ekki geta uppfyllt kröfur námskrár með nægjanlega góðum hætti. Innri endurskoðun telur nauðsynlegt að allir aðilar vinni vel saman að því markmiði að tryggja grunnskólunum sem best umhverfi og þar með nemendunum sem besta menntun. Faglegt mat hlýtur að vera hornsteinn í þeirri samvinnu og því þarf SFS að hlusta á og tala við skólastjórnendur og síðan þarf fjárveitingarvaldið að hlusta á faglegt mat SFS þegar fjármagni er úthlutað.“

Ákvarðanir þurfa að vera teknar meira af þeim sem umgangast þá sem eiga í hlut hverju sinni. Þegar um er að ræða svo stór mál eins og fjárhagsáætlunargerð, þá er mikilvægt að þeir sem þekkja best til hverju sinni komi þar að málunum. Það er eitthvað sem við þurfum að endurskoða í þessum málum og ég velti því fyrir mér hvort að fólkið sem tekur ákvarðanir hverju sinni sé ekki nógu nálægt fólkinu sem um er að ræða og hvort að við þurfum ekki að endurskoða hvernig rekstur Reykjavíkurborgar fer fram? Nú er ég ekki með svörin á reiðum höndum en það er eitthvað hér sem er ekki að ganga upp. Það eru mörg svið innan borgarinnar sem þurfa á auknu fjármagni á að halda til að geta uppfyllt ýmsar kröfur. Það er ýmislegt sem þarf að bæta hér. Við vitum að það er meira sem við viljum gera og það er meira sem við eigum að gera innan borgarinnar.

Tryggjum grunninn
Í fyrsta lagi vantar inn fjármagn frá þeim allra auðugustu, þar sem við höfum ekki lagt áherslu á það að leita allra leiða til að koma útsvari á fjármagnstekjur. Þannig erum við að skammta fjármagni á ólíka liði þegar það vantar fjármagn frá þeim ríku sem greiða ekki til samfélagsins. Ef við viljum að eitthvað rati inn í fjárhagsáætlun, þá þurfum við að gera það á kostnað annarra verkefna sem getur verið snúið í ljósi þess að mörg þeirra verkefna eru mjög mikilvæg. Í öðru lagi erum við ekki að forgangsraða rétt. Við erum ekki að forgangsraða fjármunum rétt þegar við byrjum ekki á því að tryggja grunninn, að hér búi allir borgarbúar við fjárhagslegt öryggi og öryggi hvað varðar aðgengi að húsnæði.

Það er eitthvað mikið að þegar áætlun fyrir fjölda á biðlista eftir félagslegri leiguíbúð gerir ráð fyrir því að fjöldinn árið 2020 verði 750 umsóknir, alveg sama tala og gert er ráð fyrir í útkomuspá fyrir árið 2019. Á síðasta ári var meðalbiðtími eftir félagslegri leiguíbúð 35 mánuðir eða tæp 3 ár. Einu sinni þegar ég var lítil var ég á þessum biðlista með mömmu mínni, við biðum í tæp 3 ár. Það hefur greinilega ekkert breyst. Erum við sem sveitarfélag, að uppfylla skyldur okkar þegar við segjum að einstaklingar og fjölskyldur eigi rétt á úthlutun, eigi rétt á því að komast á þennan biðlista, eigi rétt á því að fá úthlutað félagslegri leiguíbúð og eru svo bara að bíða á biðlista? Það er nú ekki mikið öryggi sem felst í því. Á sama tíma og borgaryfirvöld hafa hér leyft uppbyggingu lúxusíbúða, sem fólk hefur ekki verið að kalla eftir. Á sama tíma eru nú 154 á biðlista eftir húsnæði fyrir fatlað fólk.

Nú nýlega birtust okkur tölur um kostnað við fundi borgarstjórnar m.a. um matarkostnað, þá spyr maður sig hvernig væri að láta okkur kjörna fulltrúa greiða fyrir matinn þar? Það eru aðrir hér sem hafa ekki efni á mat. Ef við skoðum greinargerð fagsviðanna þá kemur fram hjá velferðarsviði að útkomuspá 2019 geri ráð fyrir því að 18% hafi verið með fjárhagsaðstoð til framfærslu í 12 mánuði eða lengur. Sú framfærsla er hugsuð sem neyðaraðstoð þegar einstaklingar og fjölskyldur geta ekki leitað neitt annað en við vitum að aðstæður geta oft verið þannig að viðkomandi er á fjárhagsaðstoð til lengri tíma. Fyrir einstakling sem rekur eigið heimili, þá er þessi upphæð 201.268 þúsund krónur á mánuði fyrir skatt og það er mjög lág upphæð. Hún er lág upphæð til að byrja með, sama hvort þú sért með það í ráðstöfunartekjur til lengri eða skemmri tíma.

Það er eitthvað mikið að þegar við erum að ætlast til þess að fólk geti byggt sig upp í þessari viðkvæmri stöðu á svona lágri upphæð. Við þurfum heldur betur að endurskoða málin hér í borginni, forgangsröðun og samhengi hlutanna. Í því samhengi styð ég tillögur sem snúa að því að létta skattbyrði af hinum allra tekjulægstu eins og við sósíalistar höfum nefnt hér. Nú ef við lítum til launamála og kjaramála og þeirra mikilvægu starfa sem sem starfsfólk borgarinnar sinnir hér þá á enn eftir að semja

Borgin í höndum þeirra sem ná ekki endum saman

Leikskólar borgarinnar eru 63 og grunnskólar borgarinnar eru 36. Við stöndum frammi fyrir þeirri staðreynd að það er ekki búið að semja við hina lægst launuðu sem starfa fyrir Reykjavíkurborg. Og hinir lægst launuðu sem starfa hjá borginni starfa innan margra starfstöðva Reykjavíkurborgar. Hvernig liti borgin út ef hún nyti ekki starfa þeirra? Það er eitthvað mikið að þegar borgin getur ekki greitt þeim mannsæmandi laun og tryggt gott starfsumhverfi og gengið að kröfum um styttingu vinnuvikunnar. Það hefur Efling lagt áherslu á og virðist vera helsta ágreiningsmálið líkt og sjá má á kjaravefsíðu þeirra (sjá hér: http://samningar.efling.is/). Svo vitnað sé í auglýsingu Eflingar sem er svo áhrifarík en þar stendur:

„Borgin er í okkar höndum! Með störfum okkar hjá Reykjavíkurborg höldum við borginni gangandi. Án vinnu okkar, t.d. í leikskólum, skólum, við umönnun og viðhald, myndi allt stöðvast. En við fáum svo lág laun að við náum ekki endum saman. Er það sanngjarnt?

Við krefjumst mannsæmandi launa.“

Hvar er forgangsröðunun? Afhverju eru þessir hlutir ekki í lagi? Forgangsröðunin er röng af því við erum ekki að byrja á því að tryggja grunninn. Þegar við erum á þeim stað að við stöndum frammi fyrir þeirri staðreynd að það er ekki búið að semja við hina lægst launuðu. Þá er eitthvað mikið að þegar þessir þættir eru ekki í lagi. Þegar við erum hér að fara að afgreiða fjárhagsáætlun og þetta er eitthvað sem á eftir að afgreiða. Við eigum að byrja út frá þeim sem hafa það verst og tryggja að allir geti hér lifað mannsæmandi lífi.  Hvernig liti myndin út og þessi fjárhagsáætlun ef við myndum byrja á því að tryggja að grunnþörfum allra væri mætt? Myndi áætlunin líta svona út?

Reykjavíkurborg er félag í eigu okkar allra, í eigu okkar borgarbúa og ég lít þannig á að við þurfum að byrja á því að tryggja að allir séu með öruggt húsnæði og með tekjur sem duga út mánuðinn. Það er eitthvað mikið sem þarf að laga þegar við búum í þannig samfélagi að þeir sem sjá um börnin okkar fá laun sem duga ekki til að lifa mannsæmandi lífi. Þegar að launin duga rétt svo til að greiða leiguna. Þegar launin eru vonbrigði hver einustu mánaðarmót. Þegar þú elskar vinnuna þína en þú getur ekki tryggt fjárhagslegt öryggi með laununum.

Byrjum út frá þeim verst settu
Ég tel mikilvægt að byrja á tekjum borgarsjóðs eins og ég hef lagt áherslu hér á m.a. með innheimtu útsvars á fjármagnstekjur. Leiðin okkar í fjárhagsáætlungargerð ætti alltaf að vera sú að byrja út frá þeim verst settu og byggja okkur upp og þannig trúi ég því að við getum búið til gott samfélag fyrir alla. En á meðan að staðan er svona að það þurfi að klípa fjármagn frá einum lið til að fjármagna annan, þá er staðan oft frekar vandasöm sé t.d. litið til tillögu um gjaldfrjálsrar máltíðar í skólum borgarinnar sem ég styð heilshugar því það á auðvitað ekki að rukka fyrir það að börn fái að borða í skólum. Auðvitað eiga þau að fá gjaldfrjálsar máltíðir á meðan þau eru í skólanum og við sósíalistar teljum að grunnskólar eigi að vera að fullu gjaldfrjálsir. Ég á þó erfitt með að ganga á fjárfestingarfé borgarinnar til að fjármagna þá tillögu líkt og kveðið er á um, þar sem það er líka mikilvægur þáttur.

Varðandi hagræðingarkröfu borgarinnar þá finnst mér það alls ekki ganga upp að setja þá kröfu á svið borgarinnar, að kreista út úr starfsemi eitthvað sem að er ekki hægt. Það er ekki hægt að setja hagræðingu á mikilvægu þjónustu bara til þess að uppfylla þá kröfu um 1% hagfræðingu á öll svið borgarinnar. Mér finnst það ekki boðlegt. Ef við nefnum t.d. umboðsmann borgarbúa sem sinnir gríðarlegu mikilvægu starfi þá stendur þetta um hagræðingu í greinargerð með fjárhagsáætlun: „Hagræðing: Fjárhagsrammi embættisins felur svo til eingöngu í sér laun starfsmanna svo eina leiðin til að ná settri hagræðingarkröfu. Hjá embættinu starfa tveir starfsmenn auk umboðsmanns en þess utan hefur umboðsmaður haft sumarstarfsmann til afleysinga á orlofstíma starfsmanna. Verður það stöðugildi skorið niður auk þess sem hagrætt verður í tækifærum starfsmanna til símenntunar.“ Þarna finnst mér ekki hægt að skera niður þjónustu.

Á meðan að það er algjörlega skiljanlegt að setja þá kröfu á borgina og sviðin að endurskoða reglulega starfsemi sína og hvernig það megi gera hlutina sem best, þá er ekki í boði að skera niður þar sem það er einfaldlega ekki hægt. Sumstaðar getur það gengið upp t.d. ef svið og skrifstofur hafa tekið til sín mikið fjármagn án þess að það sé að þjóna þörfum borgarbúa. En með hagræðingu þá er ekki hægt að leggja það þvert á svið borgarinnar og ætlast til þess að það sé hægt að skera niður auðveldlega um 1%.

Nú þegar við skoðum breytingartillögur Sjálfsstæðisflokksins þá tók ég sérstaklega fram þar að við leggjumst gegn því að selja fyrirtæki í eigu borgarinnar og að bjóða rekstur út þar sem við viljum ekki opna á einkavæðingu. Varðandi arðgreiðslur frá Orkuveitu Reykjavíkur þá styðjum við það að horfið verið frá því fyrirkomulagi en ekki að það komi til útsvarslækkana. Við sósíalistar myndum frekar vilja sjá að orkuveitan væri rekin sem samfélagslegt verkefni, þannig að þeir sem eru t.d. með lægstu tekjurnar greiði þá lægra eða ekkert gjald fyrir hita og rafmagn í stað þess að eigendur fái greiddann arð og það fari inn í borgarsjóð sem sé þá síðan mögulega nýtt í t.d. velferðar- og skólaþjónustu. Mér finnst mikilvægt að við nýtum sameiginlegar eignir okkar í borginni til að gera lífið betra fyrir þá sem eru í erfiðleikum með að greiða t.d. reikninga og rekum fyrirtækin á samfélagslegum grunni og beinum stuðningi beint til þeirra sem þurfa á því að halda.

Sanna Magdalena Mörtudóttir

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram